Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 | 5 verður að sjálfsögðu áheyrilegra ef í því eru stef sem sennilega hafa verið þulin með sér- stakri áherslu. Upphaflega hefur að líkindum einungis verið eitt stef í drápum og ekki nema eitt vísuorð, en síðan taka skáld að tefla fram tveimur stefjum eða fleiri og umfang þeirra verður meira, allt upp í heila vísu. Þessi sundurgerð í stefjanotkun kemur glöggt fram í Völuspá; þar eru stefin þrjú: hið fyrsta er hálft erindi, annað stef er eitt vísuorð og hið þriðja heilt erindi (8 línur). Lesendur Völuspár taka að sjálfsögðu eft- ir stefjunum í kvæðinu sem augljóslega hafa ruglast nokkuð ekki síður en vísurnar og þannig hefur kvæðið verið prentað öldum saman í útgáfum margra manna. Fjöldi fræðimanna minnist á skiptingu kvæðisins í þrjá hluta, einkum eftir tíðum sagna í frá- sögn, en engum nema Helga Hálfdanarsyni virðist hafa hugkvæmst að skipan kvæðisins hafi í upphafi ráðist af reglulegu drápu- formi þar sem stefin þrjú hlutu að þrískipta kvæðinu. Kannski hafa menn ekki hugað að þessu vegna þess að önnur Eddukvæði hafa ekki stef og varðveittar drápur höfðu ekki sundurleit stef í einstökum kvæðum. Þótt Sigurður Nordal sé í rannsóknum sínum einkum bundinn við ritskýringar, veltir hann eigi að síður stefjunum all- rækilega fyrir sér. Hann áttar sig þó ekki á margbreytileika þeirra og ruglingi í kvæð- inu og hann leitar ekki lausna með tilstyrk formsins. Um stefjanotkun í Völuspá skrifar hann: „Skáldið hefur farið þarna eftir smekk sínum og geðþótta, en engum reglum. Hann hefur stefin til að stilla blæ kvæðisins.“6 Þó mætti ætla að drápuformið hafi hvarflað Sigurði án þess að hann leiti þar halds og trausts, því að hann ritar einn- ig á næstu blaðsíðu: „Þó verður ekki fyrir synjað að þriðja stefið hafi verið endurtekið með vissu millibili, en kvæðið er ekki nógu vel geymt til þess að lagfæra það eftir þeirri skoðun [. . .] endurkoma annars stefs- ins í 62.–63. v. er grunsamleg.“ Sigurður segir beinlínis að það sé „óvinnandi vegur að koma Völuspá aftur í sína upprunalegu mynd“ ( bls. 12). Eigi að síður lætur hann prenta “lagfærðan texta“ í riti sínu og segir það tilgang sinn „að færa kvæðið nær frum- textanum á ýmsan hátt“ (bls. 4). Hann breytir röð vísnanna, sleppir viðaukum, vel- ur úr orðamun og merkir sérstaklega þar sem hann telur vanta í kvæðið. Þótt frum- gerð kvæðisins sé jafnfjarri og áður eftir þessar „lagfæringar“, sýnir þetta viðleitni hins merka fræðimanns til að ráða gátuna um frumgerð Völuspár. Fleiri útgefendur hafa fært til vísur í kvæðinu en í minna mæli. Sigurður treystir sér sem sagt ekki til að lagfæra kvæðið með leiðsögn stefjanna og ekki bætir úr skák að hann misskilur mið- stefið – „Vituð ér enn, eða hvat?“ – eins og reyndar flestir aðrir útgefendur. Sumir fræðimenn gera þessu stefi alls engin skil; þeir virðast ekki telja þörf á að skýra þetta mikilvæga tilsvar, né átta þeir sig á því hver ber þessa áköfu spurningu fram hvað eftir annað. Skýring Nordals er þessi: „Á ég að hætta, – eða þorið þér að heyra lengra?“ Og hann ætlar völunni þessa spurningu. Helgi Hálfdanarson er á annarri skoðun. Að hans áliti er það Óðinn sem á þetta spurningastef sem merki einfaldlega: „Hvort veistu fleira?“. Samkvæmt skýr- ingum Helga er þessi hluti Völuspár („Járn- viðja) að mestu leyti samræður Óðins og völu austur í Járnviði. Óðinn leitar áfjáður þekkingar og vitneskju hjá „hinni öldnu“ og vill sífellt fá fleiri upplýsingar og spásagnir um vandamálin sem steðja að guðunum. Völvan svarar í hvert sinn með heilum stefjabálki. Í öllum hlutum Völuspár hyggur Helgi að samræðum og beinni ræðu svo að ljóst sé hver mælir tilsvör fram hverju sinni, en á það skortir í flestum útgáfum. Sundurgerð stefjanna í Völuspá á sína skýringu í því, að áliti Helga Hálfdanar- sonar, að þau eru hvert úr sínu kvæðinu (drápum) sem liggja Völuspá til grundvallar (meira um það síðar). Stakkaskipti Niðurstöðu athugana sinna um upprunalega gerð Völuspár setur Helgi fram í bók sinni í endurskipulögðum texta kvæðisins sem hann kallar „Tilgáta um upphaflega gerð“. Form og uppbygging tilgátutextans leiðir í ljós að kvæðið hefur tekið stakkaskiptum. Hér er það í fullkomnu drápuformi: Inn- gangur, niðurlag (þ.e. slæmur) og þrír stefjabálkar þar sem stefjabyggingin er reglubundin. Vísurnar eru 60 að tölu undir fornyrðislagi og alstaðar jafnmargar innan hverra stefjamála. Helgi leitast við að nýta form og efni sem heimildir hvort um annað. Tilgátutextann rökstyður hann á skýran hátt í öllum atriðum. Efnisatriði kvæðisins eru hér í trúverð- ugra samhengi en áður, skýringar margar hverjar nýstárlegar og oftastnær sannferð- ugri en hinar hefðbundnu skýringar í Völu- spárútgáfum fyrr – og einnig síðar. Helgi sýnir fram á hvernig orð og ljóðlínur hafa afbakast vegna misskilnings og misritunar í handritum, en samt hafa þær verið prent- aðar æ og aftur – og eru prentaðar enn. Þessum afbökunum snýr Helgi til senni- legra skilnings og skáldlegra horfs og alltaf með rökstuðningi. Ágreiningur hlýtur þó ætíð að vera uppi um ýmsar ritskýringar og Helgi tekur fram að textinn verði aldrei með fullkomnu öryggi hreinsaður af lemstr- um og misskilningi í handritum. Fróðlegt er að bera allar skýringar Helga saman við skýringar annarra Völuspár- útgefenda. Skýringar hans opna ekki ein- ungis leið til aukins skilnings, heldur beitir hann líka fágætri glöggskyggni til að skýra tilkomu rangfærslna í textann. Frumkvæðin þrjú Ýmsir fræðimenn hafa álitið að Völuspá sé samsett úr fleiri kvæðum og ekki synjar Sigurður Nordal fyrir það. Helgi Hálf- danarson lætur ekki sitja við ályktun eina, heldur dregur hann upp úr kafinu þrjú full- burða kvæði sem hann sýnir fram á að geymi nær allan efnivið Völuspár enda sé hún sett saman úr þeim ásamt fimm vísum sem Völuspárhöfundur hefur bætt við til að tengja kvæðin saman og fullnægja drápu- forminu. Helgi rekur slóðina til þessara kvæða eftir stefjunum þremur og með hlið- sjón af stílnum sem einkennir hvert þeirra. Þessi þrjú frumkvæði birtir Helgi líka í bók sinni. Í þau vantar ekkert erindi, einungis örfáar línur í tvö þeirra en hið þriðja („Mímisspá“) virðist í fullri stærð. Þegar þau eru lesin og skoðuð reynast þau ekki einungis vera sjálfstæð kvæði að stíl og efni, heldur kemur í ljós að sérhvert þeirra er drápa í reglubundnu formi. Helgi hefur leitt kvæðin þrjú fram á sviðið í nánum tengslum við könnun sína á Völuspá og leit- ina að upphaflegri gerð hennar. Verður þá ljóst að Völuspárhöfundur hefur steypt kvæðunum saman án þess að hnika hverju þeirra til nema lítillega og farist það vel úr hendi. Fyrsta kvæðið, sem Helgi kallar „Ásaspá“ er epísk frásögn og segir þar frá upphafi heims, hlutdeild guðanna í sköp- uninni, lífi guðanna, spillingu þeirra, hruni og endurreisn. Það hefst á erindinu „Ár var alda“ og stefið þar er: „Þá gengu regin öll / á rökstóla, ginnheilög goð, / ok um þat gættusk“. Annað kvæðið, „Járnviðja“, hefst á vísunni “Austur býr hin aldna / í Járn- viði“. Þar segir frá för Óðins á fund völu einnar til að spyrja hana tíðinda og leita spásagna. Með dramatískum þunga rekur völvan fróðleik sinn, sýnir hann í stór- brotnum myndum og boðar endalokin sem senn dynja yfir. Stefið í þessu kvæði er: „Vitið ér enn, eða hvat?“ Þriðja kvæðið, sem Helgi nefnir „Mímisspá“, hefst á vísunni sem er fremst í Völuspá og er þar lögð í munn Heiði seiðkonu: „Hljóðs bið ek allar / helgar kindir“: Í kvæðinu er greint frá því er Óðinn fer á fund Mímis við brunninn fræga. Mímir man allt um fortíðina en eink- um sér hann hið ókomna fyrir; hann flytur Óðni geigvænlega spá um ragnarök og sökkvir sér síðan aftur í vatnið. Stefið í kvæðinu er heil vísa: „Geyr nú Garmr mjök / fyr Gnipahelli, / festr mun slitna / en freki renna. / Fjölð veit ek fræða, / fram sé ek lengra / um ragna rök / römm sigtíva.“ Frumkvæðin eru að sjálfsögðu staðfest- ing þeirrar þrískiptingar kvæðisins sem flestir hafa tekið eftir en ekki áttað sig á því hvar forsendur hennar liggja. Augljóst er að fyrsti þriðjungur Völuspár segir frá fortíðarviðburðum, miðhlutinn frá nútíð en síðasti þriðjungurinn er framtíðarspá. Þessi þrjú tímasvið einkenna frumkvæðin hvert og eitt. Helgi Hálfdanarson segir að það sé „engu líkara en þau gætu táknað örlaga- nornirnar þrjár, Urði, Verðandi og Skuld“. Hver samdi Völuspá og hversvegna? Spyrja mætti hví höfundur Völuspár hafi freistast til þess að steypa þessum efniviði saman í þetta mikla kvæði. Augljóslega eru kvæðin þrjú hugmyndalega tengd; þau fjalla um skyld efni, þ.e. helstu goðsögur í heiðnum sið, um sköpun heims, örlög hans og guðanna og þar með mannkyns. Hin heiðna heimssýn býr í þeim öllum. Þetta eru vönduð kvæði, ort af ástríðu, miklu hug- arflugi og sterkri myndvísi; þau geyma hug- myndaheim sem er að hverfa á tíð höfundar og hann hefur viljað varðveita, væntanlega af hinum bestu menningarhvötum. Helgi bendir á að röð kvæðanna í samsteypunni fari afar vel; efni, stígandi og áferð öll myndi áhrifamikla heild. Formælendur ævisagnaaðferðar við bók- menntarannsóknir hafa að sjálfsögðu reynt að nálgast höfund Völuspár og fer Sigurður Nordal þar fremstur í flokki. Hann skrifar langt mál um „skáldið“ og reynir að búa sér til mynd af því. Menn hafa deilt um það hvort höfundur Völuspár hafi verið heiðinn eða kristinn og margir talið að hann hafi verið heiðinn maður en farinn að smitast af kristni. Flestir telja kvæðið ort á mótum heiðni og kristni. Helgi telur að höfundar frumkvæðanna hafi verið heiðnir menn en höfundur Völuspár kristinn og kemur sá snillingur rækilega upp um sig í þeim vísum sem hann leggur til í kvæðið frá eigin brjósti. Hafi Völuspá verið sett saman ná- lægt árinu 1000, má augljóst vera að frum- kvæðin þrjú geta verið mun eldri. Hvað er með Ásum? Með rannsókn sinni hefur Helgi Hálfdan- arson unnið verk sem allir aðrir hafa talið óvinnandi, – að gera grein fyrir líklegri upprunalegri gerð Völuspár. Helgi miklast ekki af verki sínu sem hann hefur óneitan- lega unnið af kunnáttu, innsæi og hug- kvæmni og einstakri þekkingu á skáld- skaparmálum. Undir bókarlok skrifar hann: „Það má nærri geta, að gætnir menn og hófsamir munu kalla hér glannalega tekið til hendi, og helzt til lítil kurteisi sýnd þeim einu vitnum sem til verða kvödd í máli þessu, handritunum; enda má svo virðast í fljótu bragði. En hyggjum þó nánar að. Þegar frá er talin tilfærsla brotanna, sem öllum ber saman um að ekki verði hjá kom- izt, mun hér minna lagt til af leiðréttingum, en útgefendur hafa yfirleitt látið sér nægja“ (bls. 101). Þetta er hárrétt. Allir útgefendur Völu- spár hafa leitast við að skýra orð og inntak kvæðisins. En „tilfærsla brotanna“, þ.e. endurskipulagning kvæðisins og þar með endurreisn formsins, er viðfangsefni sem Helgi einn hefur til lykta leitt á frumlegan hátt og sannfærandi. Þeir sem lesa Maddömuna með kýrhaus- inn hljóta að furða sig á því að enn skuli menn gefa út Eddukvæði og skrifa fræðirit um þau án þess að minnast á þetta rit Helga Hálfdanarsonar um Völuspá. Hvað veldur þessari undarlegu þögn? Baldur Haf- stað prófessor er eini fornritafræðingurinn sem vakið hefur athygli á bókum Helga um fornan kveðskap og telur að fræðaheim- urinn hefði má sinna þeim betur en raun er á.9 Hann getur sér þess til að e.t.v. hafi fræðimönnum þótt hér of langt gengið. En hvers vegna láta menn þá ekki slíkt álit í ljós og reyna að rökstyðja það? Helgi Hálfdanarson hefur ætíð tekið virk- an þátt í opinberum umræðum, ekki síst um bókmenntir. Í fyrra vakti hann enn máls á Völuspá í stuttri grein, „Gaglviður“, í Morgunblaðinu (8. mars 2003). Mig furðar ekki þótt Helgi láti þar hæversklega í ljós nokkra vanþóknun á þeirri stöðnun og því tómlæti sem ríkir um rannsóknir Völuspár á vettvangi íslenskra fræða. Greininni lýkur hann með þessum orðum: „Og víst mega ís- lensk fræði kallast furðu nægjusöm að hampa þessu fyrirbæri, svo sem það er lesið og skilið á þeim bæ, og meta það sem hið merkasta af gjörvöllum ljóðskap á Norður- löndum fyrr og síðar.“ Það er með ólíkindum að stofnanir og starfsmenn íslenskra fræða skuli í fjóra áratugi hafa þagað þunnu hljóði um Völu- spárkenningar og -skýringar Helga Hálfdanarsonar og látið sem verk hans sé ekki til. Hér heima og erlendis hafa fræði- menn haldið áfram að gefa Völuspá út með gömlu, götóttu skýringunum sem eru bjag- aðar eins og hinn staðlaði handritatexti, og senda á markað fræðirit sem endurtaka ruglingslegar og mjög ófullnægjandi hug- myndir um upprunagerð og form þessa forna snilldarverks. Mörg þessi rit eru í veglegum umbúðum og öll eiga þau það sameiginlegt að forðast Maddömuna með kýrhausinn.  1. Bókin kom fyrst úr árið 1964, útg. Prentsmiðjan Leiftur. 2. útgáfa endurbætt birtist 2002, útg. Mál og menning. Tilvitnanir í þessari grein eru í þá útgáfu. 2. Sigurður Nordal: Völuspá, fylgirit Árbókar Háskólans 1922-23, Reykjavík 1923, bls. 6. 2. prentun, útg. Helga- fell 1952. Tilvitnanir í greininni eru í frumútgáfuna. 3. Helgi Hálfdanarson: Maddaman með kýrhausinn. 2. útg. 2002, bls. 38. 4. Andreas Heusler: Die altgermanische Dichtung, bls. 126. Berlin 1923. 5. Finnur Jónsson: Stutt íslensk bragfræði. Kaupmanna- höfn 1892. 6. Völuspá, 1923, bls. 23. 7. De gamle Eddadigte. Köbenhavn 1932, bls. 13. 8. Völuspá 1923, bls. 84. 9. Baldur Hafstað: „Fræðaþulurinn Helgi Hálfdanarson. Lesbók Morgunblaðsins 5. janúar 2002. Í greininni fjallar Baldur bæði um Maddömuna með kýrhausinn og bók Helga, Slettireku, útg. 1952, 2. útg. 2001, þar sem hann fjallar um vísur og kvæði í Íslendingasögum. Höfundur er prófessor emeritus við Kennaraháskóla Ís- lands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.