Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ? 4. desember 2004 H ljómsveitin The Stranglers heldur tónleika á Íslandi í annað sinn í Smáranum í Kópavogi í kvöld ásamt Fræbbblunum. Það er vel við hæfi að þessar tvær hljómsveitir leiði saman hesta sína í pönk- bænum Kópavogi, því báðar eiga þær stóran þátt í þeirri tónlistarsprengingu sem varð hér á landi í lok áttunda áratugarins. Þegar Stranglers komu hingað til lands árið 1978 var dauft yfir íslensku tónlistarlífi og fátt merkilegt að gerast á meðan pönkið blómstraði í Bretlandi. Það voru að vísu til sérvitringar hér á landi sem höfðu kynnst þessari tegund tónlistar en almennt létu Íslendingar sér nægja að hlusta á niðursoðna diskótónlist og útþynnt amerískt kántrý með íslenskum textum. Sveitaballahljómsveitir voru allsráðandi hér á landi og svo diskótekin. Til marks um ?ferskleikann? í íslenskri tónlist hituðu sveitaballahljómsveitirnar Póker og Haukar upp fyrir Stranglers á sínum tíma, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu sveitum. En eftir tónleika Stranglers varð vakning hjá ungum íslenskum tónlistarmönnum og ís- lenskar pönk- og nýbylgjusveitir urðu til. Félagsheimilið í Kópavogi varð miðstöð ís- lenskra pönkara til að byrja með og þar léku Fræbbblarnir, Snillingarnir, Dordingull með Dr. Gunna í fararbroddi og fleiri ís- lensk pönkbönd. Þá hefur þótt ?gott að búa í Kópavogi?, a.m.k. ef maður var á annað borð hallur undir slíka tónlist. Í kjölfarið komu svo sveitir eins og Utangarðsmenn, Þeyr, Purrkur Pillnikk o.fl., og íslenskt tón- listarlíf vaknaði til lífsins. Það var ekki bara rokkað í Kópavogi. Um allt land spruttu upp pönk- og nýbylgjusveitir, gamlir frakkar voru dregnir fram og sikkrisnælur voru einn helsti skartgripur pönkaranna. Þröngar, rifnar gallabuxur og leðurjakkar skreyttir alls kyns merkjum urðu algeng sjón. Það var rokkað í Kópavogi, og það var Rokk í Reykjavík. Upphafið Hljómsveitin Stranglers var formlega stofn- uð í Guildford í Bretlandi 11. september árið 1974 og á því 30 ára starfsafmæli á þessu ári. Söngvarinn og gítarleikarinn Hugh Cornwell hafði nýlega flust frá Lundi í Sví- þjóð þar sem hann starfaði við líffræði ásamt því að leika í hljómsveit sem kallaðist Johnny Sox. Hann langaði að ná langt í tón- listinni og flutti því til Bretlands ásamt fé- lögum sínum til að freista gæfunnar. Nafni sveitarinnar var breytt í Wanderlust, en fljótlega eftir að til Bretlands var komið hættu trommarinn og bassaleikarinn. Við kjuðunum tók íssalinn og vínkaupmaðurinn Brian Duffy, sem af einhverjum ástæðum kallaði sig Jet Black, og hinn franskættaði Jean Jacques Burnel var ráðinn til að spila á bassa. Jet Black hafði fengist við trommu- leik um árabil og var töluvert eldri en fé- lagar hans, eða 35 ára gamall. Hann hafði meðal annars afrekað að spila með móður Julie Andrews. Á upphafsárum sveitarinnar lugu þeir til um aldur hans og voru klipin 10 ár af. Jean Jacques, eða JJ, var hins vegar rétt rúmlega tvítugur og ætlaði sér alls ekki að leggja fyrir sig tónlist. Hann starfaði sem sendibílstjóri og stundaði karate og hugðist fara til Japans til frekara náms í þeirri íþrótt. Hann hafði hins vegar lært á klass- ískan gítar og það var ástæðan fyrir því að hann var beðinn að taka að sér bassaleik- arastöðuna. Fjórði meðlimur sveitarinnar á þessum tíma var sænski hljómborðs- og gít- arleikarinn Hans Warmling. Árið 1974 var nafni hljómsveitarinnar breytt í The Strang- lers og hún spilaði á pöbbum og litlum klúbbum í heimabæ sínum og nágrenni. Þeir bjuggu allir í lítilli íbúð fyrir ofan verslun Jets Blacks þar sem hann seldi víngerð- arefni o.fl. og ísbílinn notuðu þeir til að flytja græjur á milli staða. Þeir léku lög eft- ir aðra í bland við eigin tónsmíðar og lífið gekk út á að fá að spila. Það var sama hvort um var að ræða kráarspilamennsku eða að spila í brúðkaupi. Öll spilamennska var þeg- in. Þeir fóru í hljóðver á þessum tíma og gerðu prufuupptökur handa útgefendum. Það er athyglisvert að eitt þeirra laga sem þeir hljóðrituðu á þessum tíma var lagið ?Strange Little Girl?, sem var þó ekki gefið út fyrr en mörgum árum síðar. Stranglers hafa því ekki verið eins rokkaðir og hráir í upphafi, eins og þeir áttu eftir að verða á næstu mánuðum og árum. Enn urðu meiri mannabreytingar í hópn- um. Nú var það Hans Warmling sem gafst upp. Hann vildi að þeir einbeittu sér að því að semja sín eigin lög og einhverju sinni þegar þeir voru á leið að spila í brúðkaupi sagðist hann ekki nenna að standa í þessu lengur. Hann var umsvifalaust látinn taka staf sinn og hatt og auglýst var eftir nýjum hljómborðsleikara í Melody Maker. Fyrir valinu varð Dave Greenfield. Hann hafði starfað með hinum og þessum sveitum, m.a. í Þýskalandi, og unnið fyrir sér við píanó- stillingar. Þar með var mannaskipan hljóm- sveitarinnar komin í það horf sem hún átti eftir að vera í næstu 16 árin. Erfið byrjun Fljótlega urðu Stranglers hávær og hrá rokkhljómsveit þrátt fyrir að hafa verið með hið ljúfa lag ?Strange Little Girl? í fartesk- inu. Þegar kom að tónleikahaldi var hljóm- urinn harður og hávaðinn mikill og oftar en ekki gerðist það að þeir fengu ekki að koma aftur þar sem þeir höfðu spilað. Þeir höfðu margt á móti sér. Þeir voru ruddalegir í framkomu, þóttu ekkert sérlega góðir hljóð- færaleikarar og eins og fyrr segir háværir. Hljóðfærakostur var slæmur og græjur áttu til að bila á miðjum tónleikum. En það stoppaði félagana ekki. Ef söngkerfið bilaði þá var bara öskrað út í loftið eða sungið beint í eyru hlustenda, og þegar bassa- magnarinn gaf sig þá söng JJ bassalínurnar. Útlit hljómsveitarmeðlima stóð þeim einnig fyrir þrifum á framabrautinni. Þeir höfðu nefnilega ekki hið sígilda útlit rokktónlist- armanna þess tíma. Í stað þess að vera síð- hærðir og hippalegir í útvíðum buxum voru þeir stutthærðir og klæddust leðri og þröng- um gallabuxum. Það má segja að Stranglers hafi verið orðnir pönkarar í eðli sínu þó svo að pönkið væri ekki formlega komið til sög- unnar. Þeir ruddu brautina fyrir komandi kynslóð þótt þeir séu kannski ekki fyrsta breska pönkbandið sem menn nefna að jafn- aði. Stranglers voru samt í raun ekki hefð- bundið pönkband. Þeir spiluðu einfaldlega rokk, tímalaust rokk. Meðal þeirra sem sóttu tónleika Strangl- ers í fyrstu voru tilvonandi meðlimir hljóm- sveitanna Clash og Sex Pistols. Þeir hrifust af hljómsveitinni og ekki ólíklegt að Strangl- ers hafi átt stóran þátt í stofnun þessara hljómsveita. En eins og áður segir þá áttu Stranglers oft ekki afturkvæmt á þá staði sem þeir höfðu spilað á. Það varð því æ erf- iðara að bóka bandið og ýmsum brögðum varð að beita. Til dæmis bókuðu þeir sig eitt sinn á kántrýklúbb undir því yfirskini að þeir spiluðu sveitatónlist og mættu svo á staðinn og þrumuðu hráu rokkinu yfir kú- rekana. Ef þeir voru beðnir að spila eitthvað sem fólk þekkti, spiluðu þeir eitthvað sem enginn þekkti og ef þeir voru beðnir að lækka í tónlistinni þá hækkuðu þeir. Það var eins og þeir gerðu í því að fá fólk upp á móti sér. En eitt er víst. Þeir sem heyrðu í hljómsveitinni gátu ekki gleymt henni. Stranglers héldu ótrauðir áfram spila- mennsku og ferðuðust um sveitir Englands á ísbílnum. Þeir voru staurblankir og áttu oft ekki fyrir mat eða bensíni á bílinn. En árið 1975 gerðu þeir samning við umboðs- skrifstofuna Albion og þá fór hagur þeirra að vænkast. Þeir fóru líka að spila á pöbb- um í London. En fram að þessu höfðu þeir fyrst og fremst spilað úti á landsbyggðinni. Albion-umboðsskrifstofan var vaxandi fyr- irtæki og var á þessum tíma einnig með Elvis Costello, The Jam og hljómsveit Joe Strummers, 101?ers, á sínum snærum. Þetta samstarf skilaði Stranglers fleiri tónleika- stöðum og smá skotsilfri og árið 1976 héldu þeir 191 tónleika. Þetta ár varð einnig sú breyting á að þeir fóru að færast frá litlu klúbbunum og pöbbunum yfir á stærri staði eins og Roundhouse og Hammersmith Odeon þar sem þeir hituðu m.a. upp fyrir Patti Smith. Pönklestin var nú farin af stað með bönd eins og Sex Pistols og The Vibrat- ors innanborðs og Stranglers urðu partur af bylgjunni. Þeir skáru sig reyndar úr, bæði vegna þess að þeir voru eldri en meðlimir pönksveitanna og tónlist þeirra hljómaði öðruvísi, einkum vegna mikillar hljómborðs- notkunar og flóknari lagasmíða. Stranglers voru undir áhrifum frá sveitum eins og Kinks og Doors. Það var bassaleikarinn JJ sem var Doors-aðdáandinn í sveitinni, ekki Dave Greenfield hljómborðsleikari eins og margir hafa haldið. Hann hefur sagt að á þessum árum hafi hann lítið sem ekkert hlustað á Doors. Annað sterkt einkenni hjá Stranglers var bassaleikurinn og ekki síst bassahljómurinn. Bassinn var mun meira áberandi en tíðkaðist í rokktónlist og lögin skörtuðu melódískum og oft flóknum bassa- línum. Þar má segja að klassísk menntun JJ hafi nýst vel. En það var ekki síst hljóm- urinn í bassanum sem heillaði og olli miklum vangaveltum. Það voru ýmsar getgátur á lofti um það hvernig hann næði þessu en skýringin var í raun sáraeinföld. Hann var með svo lélegar græjur. Hátalararnir voru rifnir og þannig kom þessi magnaði hljómur. Hann spilaði alltaf með nögl og greinlega mjög fast. Hver nóta var eins og öflugt karatespark. Plötusamningur Í lok ársins 1976 fengu Stranglers sinn fyrsta útgáfusamning. Útsendari frá United Artist mætti til að hlusta á þá í Hammer- smith Odeon þar sem þeir áttu að hita upp fyrir Patti Smith. Óheppnin elti þá félaga eins og svo oft og hljóðkerfið gaf sig á tón- leikunum. Það var því brugðið á það ráð að halda einkatónleika fyrir útgefandann og að þeim loknum þurfti hann ekki að hugsa sig tvisvar um. Hinn 4. desember 1976 undirrit- uðu Stranglers sinn fyrsta plötusamning. Fyrsta plata sveitarinnar, Rattus Norveg- icus, kom út 28. apríl 1977. Platan fékk góð- ar viðtökur bæði hjá hlustendum og gagn- rýnendum. Reyndar fóru textarnir fyrir brjóstið á sumum og þóttu lýsa mikilli kven- fyrirlitningu hljómsveitarmeðlima. Það er svosem ekki hægt að neita því þegar sumir textarnir eru skoðaðir, einkum fá fyrrum unnustur JJ og Hugh á baukinn. Þeir þóttu grófir og óheflaðir og fengust ekki spilaðir í BBC. En það er óhætt að segja að árið 1977 hafi engu að síður verið gott ár fyrir Stranglers. Þeir fylgdu Rattus eftir með tónleikaferð um Bretland og var uppselt á nær alla þeirra. Og enn skáru þeir sig úr á pönksenunni. Á meðan pönkböndin héldu sig aðallega við London og kepptust við að ná athygli fjölmiðla ferðuðust Stranglers um landið og spiluðu. Þeir vildu ná beint til fólksins. Þeir spiluðu jafnt í Hull, Grimsby og London á meðan Clash og Sex Pistols lögðu meiri áherslu á að snobba fyrir fjöl- miðlum. En þrátt fyrir velgengni mættu þeir einnig miklu mótlæti og voru slagsmál nánast daglegt brauð. JJ notfærði sér ka- ratekunnáttu sína óspart á óvildarmenn hljómsveitarinnar hvort sem það voru blaða- menn eða óánægðir áheyrendur. Átti hann það til að lemja gagnrýnendur sem ekki lík- aði bandið. Meðal áhangenda sveitarinnar voru félagar í Hells Angels og fleiri klíkum. Allt þetta tónleikahald skilaði sér og þeir náðu hátt á sölulistum þrátt fyrir að fjöl- miðlar væru þeim ekki hliðhollir og að þeir fengju litla sem enga spilun í útvarpi. Að lokinni vel heppnaðri tónleikaferð var aftur farið í stúdíó, aðeins 4 mánuðum eftir útgáfu fyrstu plötunnar. Þeir tóku upp plötuna No More Heroes á fjórtán dögum og kom hún út haustið 1977. Stranglers komu vel út í vinsældakönnun Melody Maker í lok ársins. JJ var valinn bassaleikari ársins og Dave Greenfield var í öðru sæti yfir hljómborðs- leikara á eftir Rick Wakeman. Stranglers voru kosnir þriðja besta tónleikabandið á eftir Genesis og þeir voru jafnframt kosnir ?bjartasta vonin?. Árið 1978 fór hljómsveitin í tónleikaferð um landið og spilaði eingöngu á litlu stöð- unum sem þeir höfðu verið á áður. Þeim fannst stóru staðirnir ópersónulegir og vildu Stranglers og íslenska Pöbbaband, pönkband, poppband, rokkband? Hljómsveitin The Stranglers á sér mörg and- lit. Saga sveitarinnar er skrautleg og geymir meðal annars 72 tíma heimsókn til Íslands ár- ið 1978 sem hafði kannski meiri áhrif á land- ann en margur hyggur. Hér er sagan rakin án þess að neitt sé dregið undan. Eftir Jakob Magnússon jakobm@ruv.is The Stranglers í dag JJ Burnel, Dave Greenfield, Paul Roberts, Jet Black og Baz Warne.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.