Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 17

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 17
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 | 17 EINU upplýsingarnar sem Þórarinn Eldjárn gefur lesendum sínum um heimildaskáldsögu sína Baróninn, eru þrjár setningar sem fylgja bók- inni úr hlaði: „Þetta er skáldsaga. Þó ýmislegt sé samkvæmt heimildum er einnig margt í heimildaleysi. Flest af því ótrúlegasta er satt, margt af því trúlegasta er ósatt.“ Þessi leynd- ardómsfullu orð eru skrítinn lykill að þeirri mögnuðu sögu sem Þórarinn segir í bókinni. Hann púslar saman heimildum um Hvítárvallabaróninn og spinnur utan um þær söguþráð sem er í senn hversdagslega einfald- ur og lygilegur í vitnisburði sínum, ekki bara um einstæða persónu bar- ónsins heldur einnig og ekki síður um stað, tíma og menningu. Maður kemst samt ekki hjá því að spyrja sig að því hvað eftir annað hvort einstök atvik bókarinnar lýsi raunverulegum atvikum. En það er styrkur bók- arinnar að þörfin fyrir slíkar spurn- ingar minnkar eftir því sem á líður. Skáldsagan miðlar aldarfarslýsingu sem er jafn sannfærandi og hún er frjó sé maður annars eitthvað að velta fyrir sér bæjarbrag og mannlífi fyrir rétt rúmum 100 árum. Baróninn fjallar um fransk- bandarískan mann með aðalstign Charles Gauldrée Boilleau, sem birt- ist hér á landi skömmu fyrir alda- mótin 1900, kaupir jörðina Hvít- árvelli í Borgarfirði og sest þar að. Baróninn var flestum sem kynntust honum ráðgáta. Hann virtist vellauð- ugur, fjárfesti hratt og glannalega og hafði mikil áform í landbúnaði, um ræktun, mjólkurframleiðslu og fleira, en árangurinn var takmark- aður þó að gengið væri fram með glæsimennsku sem gekk þvert á kot- ungsbrag landslýðs. En hvað er glæsimennska þegar öllu er á botninn hvolft? Tímabilið í upphafi síðustu aldar hefur löngum verið tengt hugsjónum um framtíð landsins, uppbyggingu atvinnuvega og tækifærunum sem auðlindir fall- vatna og fiskimiða (að ekki sé talað um norðurljósa) sköpuðu í augum aldamótakynslóðarinnar. Og tíminn er ekki síður tengdur skáldskap. Tveir af framámönnum þessa tímabils, Hannes Hafstein og Einar Benediktsson, stunduðu skáldskap um leið og stjórnmál og viðskipti og ekki bara það – skáldskapur var hluti af hinni karlmannlegu ímynd athafnamanns- ins. Einar Benediktsson kemur talsvert við sögu í Baróninum. Hann er sá sem nær helst and- legu sambandi við bar- óninn og sá af heima- mönnum sem skilur flugið sem útlending- urinn kemst á þegar draumar um stórar framkvæmdir taka völdin. Hannes Hafstein, hinn eilífi fulltrúi glæsimennskunnar, kemur hins veg- ar ekkert við sögu barónsins. Glæsi- mennska barónsins nærist á draum- um og kannski á það við um alla glæsimennsku, en hún þarfnast líka listrænna hæfileika. Baróninn er að vísu ekki skáld en hann er tónlist- armaður – framúrskarandi tónskáld og hljóðfæraleikari. En hvað er baróninn að vilja hing- að? Þó að skáldsaga Þórarins Eldjárns feli ekki í sér beina tilraun til að svara þessari spurningu, kemst hún kannski eins nálægt því og hægt er. Með því að nýta bréf frá bræðrum barónsins (sem ég geri ráð fyrir að séu að minnsta kosti að hluta raunveruleg bréf) er hulunni svipt af fjár- málum hans og fjár- umsvifum. Bréf bræðr- anna fléttast saman við annars vegar sam- tímafrásögn af bar- óninum og hugleiðingar eldri bróður hans Phil (væntanlega skáldaðar), sem dagsettar eru rúmum tíu árum eftir dauða barónsins. Myndin sem með þessum hætti er dregin upp af baróninum sjálfum og umhverfi hans hér á landi og annars staðar sýnir lesandanum mann sem hefur óraunhæfa drauma um eigin getu og hæfileika. Baróninn er sér- kennilegt sambland af Ameríkana og Evrópumanni og hann er maður sem mestan part hefur lifað við góð efni, jafnvel auð. Það að koma til Íslands er einfaldlega dilla – hugmynd sem á endanum hefur hörmulegar afleið- ingar fyrir baróninn sjálfan. Endalok hans eru hin hliðin á glæsimennsk- unni: innistæðuleysið og örvæntingin þegar allt er gufað upp. Auðvitað er hægt að spyrja þeirr- ar spurningar hvort baróninn hafi verið fulltrúi heimsmenningar og hugsjóna sem íslensku sveitalubb- arnir gátu ekki skilið. Þórarinn gefur lesandanum enga ástæðu til að draga slíka ályktun. Baróninn er margbrot- inn karakter en á hinn bóginn eru hugmyndir hans um rekstur og upp- byggingu fyrst og fremst loftkastalar og engan veginn hugsaðar til enda eða út í hörgul. Því er hann gallaður ekki síður en sveitalubbarnir þótt með ólíkum hætti sé. Baróninn er frábærlega vel skrif- uð bók og söguleg skáldsaga eins og þær gerast bestar. En hún er fleira en skáldsaga. Að minnsta kosti situr lesandinn eftir með þá tilfinningu að hann skilji ýmsa hluti betur eftir að hann er búinn að ljúka sögunni um Hvítárvallabaróninn. Loftkastalar Bækur Skáldsögur Þórarinn Eldjárn, 309 bls., aka-Helgafell, Reykjavík 2004. Baróninn Þórarinn Eldjárn Jón Ólafsson VERKIÐ Karítas, án titils, eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, er ekki einungis átakasaga ungrar konu, heldur einnig eins konar spegill þess umbreytingatímabils hér á landi er ól af sér nútímann. Í upphafi sögunnar tekur sex barna móðir, ekkjan Steinunn, sig upp úr lítilli vík á Vestfjörðum þar sem fólk hefur lifað af gæðum lands og sjávar aldalangt, og flyst til Akureyrar. Hún er knúin áfram af framsýni og metnaði fyrir hönd barna sinna, sem hún sér að eiga sér tæpast viðreisnar von í breyttum tíð- aranda, nema henni takist að koma þeim til mennta. Verkið er því í víðu samhengi saga margra þeirra sem leituðu úr sveitum á mölina á síðustu öld, í von um betri lífskjör og nútíma- legri lífshætti. Steinunn er fylgin sér og harð- dugleg, enda tekst henni með einstakri útsjón- arsemi og vinnusemi sinni og barnanna að koma þeim öllum til mennta eins og til stóð, þó víða verði hindranir á vegi þeirra og þau megi öll þola nokkurt harðræði. Fyrsti hluti verksins, er segir frá uppvexti barnanna og lífsbaráttu móður þeirra, rekur þannig að nokkru sögu íslenskrar alþýðu, sem óneitanlega er átakanleg. Ekki síst með tilliti til hlutskiptis kvenna. Samtal samverkakvenna Steinunnar í fiskþvotti á Akureyri er merkilegt með tilliti til þessa, en þar dást ungar konur að Steinunni þar sem hún er með kosningarétt, enda eina konan sem komin var yfir fertugt: „Það fer að þykja sjálfsagt að konur fari á þing, ég tala nú ekki um ef þær fara að mennta sig. Við verðum læknar, lögfræðingar og prest- ar. Nei nú gengurðu fram af okkur! Á endanum fáum við kannski sömu laun og þeir. Ja, nú dámar okkur! Þetta var mikill frelsisdagur 19. júní (bls. 46).“ Efasemdir koma þó upp í huga sumra og það er auðvitað írónískt að þær skuli að nokkru enn eiga við, vegna þess að hversu miklu leyti heimilishald er enn á könnu kvenna þrátt fyrir hlut þeirra í at- vinnulífinu: „Ja, ég veit það nú ekki, svei mér þá“, segir ein stúlkan. „Ég var að lesa blað sem kom að sunnan og þar stendur að nú verði konur að fara að fylgjast með stjórnmáladeilum landsins, lesa allar stjórnmálagreinar og þess háttar, koma á fundi og halda ræður, og allt þetta verði þær að gera milli þess sem þær mjalti, búverki, mat- reiði, gæti krakkanna, spinni og saumi“ (bls. 46). Líf aðalsögupersónunnar Karítasar, sem er næstyngst systkina sinna, markast mjög af þessum aðstæðum kvenna á fyrri hluta síðustu aldar; möguleikanum á veraldlegum frama og þátttöku í þjóðlífinu annars vegar, og hins vegar af þeim skilyrðislausu skyldum og ábyrgð sem fjölskyldulíf og rekstur heimilis lagði þeim á herðar. Og auðvitað var hverri manneskju ógjörningur að sinna hvoru tveggja, eins og ber- lega kemur í ljós í öðrum hluta verksins, þar sem Karítas er orðin fullorðin og hefur snúið heim til Íslands eftir námsdöl erlendis. Þriðji hlutinn fjallar síðan um uppgjör Karítasar; til- raunir hennar til að taka ábyrgð á lífi sínu sem einstaklingur og leyfa hæfileikum sínum að njóta sín. Karítas sú er sagan ber nafn sitt af, hefur hlotið óvenjulega listgáfu í vöggugjöf sem verð- ur til þess að góðgjörðakona hennar kostar hana í myndlist- arnámið til Danmerkur – en góð- gjörðakonan þekkir gjörla þá erf- iðleika er seinna bíða Karítasar í tilraunum hennar við að stunda list sína samhliða fjölskyldulífi. Eins og tvíræður titillinn ber með sér er Karítas og það sem hún tekur sér fyrir hendur af þeim toga að enginn tekur eftir því til að byrja með. Hún er óskrifað blað eða „án titils“ í táknrænum skilningi, líkt og margar konur af hennar kynslóð. En fljótlega verða þó hvörf í lífi hennar og um leið og viðfangsefni hennar fá titil verður ekki aftur snúið; hún er orðin listamaður og afsalar sér aldrei upp frá því þeim titli. Fyrsta verk hennar sem fær formlegan titil er verkið „Kona baðar sig“ (bls. 99). Viðfangsefnið þar er móðir hennar og markar verkið táknræn þáttaskil í lífi Kar- ítasar, hvað listræn gæði varðar og að lokum sjálfstæði hennar í afstöðu til lífsins og móður sinnar. Fljótlega gerir hún aðra mynd, „Kona með spiladós“ (bls. 117) sem er af góð- gjörðakonu hennar, Eugeníu, sem þegar þarna er komið í sögunni þjónar Karítas betur sem fyrirmynd en móðirin. Hún er enda mun nú- tímalegri kona, bæði menntuð, sjálfstæð og sigld, en Steinunn stendur fremur fyrir þau gildi er heyra fortíðinni og lífi alþýðufólksins til. Með þessum hætti lætur Kristín Marja mynd- listarverk Karítasar slá tóninn í byrjun hvers nýs kafla, er allir hefjast á mjög ljóðrænum nót- um. Þeir gefa góða mynd af innri líðan og þeim undirtexta sem er ríkjandi í verkinu – eru eins konar „hluti fyrir heild“ í lífi sögupersónanna innan heildarramma sögunnar, sem annars er rakin á mjög raunsæislegum nótum. Það eru fyrst og fremst mannlegar ástríður sem setja strik í lífsreikning Karítasar. Ást á sjómanninum Sigmari markar örlög hennar og frá þeirra fyrstu kynnum er myndlistin ekki eina ástríða hennar og styrkur sem slík; hún kynnist annars konar og holdlegri ástríðu sem öfugt við hina fyrri verður veikleiki hennar þeg- ar til lengdar lætur. Hún neyðist til að íhuga „hvort hugur hennar [standi] ekki til listarinnar eftir allt saman, eða voru til listamenn sem hugsuðu um þvottasnúrur?“ (bls. 225). Barn- eignir, eilíft strit, einmanaleiki og loks óbærileg- ur missir, í bland við togstreitu yfir persónu- legum löngunum, verður hlutskipti hennar eins og svo margra annarra kvenna í íslenskum sjáv- arþorpum. Höfundur verksins lætur þó ekkert vonleysi marka þessa sögu íslenskrar alþýðukonu, sem án efa hefur átt margar raunverulegar systur – svo vísað sé til „systra Shakespeares“ í Sér- herbergi Virginíu Woolf. Þvert á móti er ljóst þegar á söguna líður að möguleikar Karítasar til að brjótast undan oki samfélagslegra hefða liggja innra með henni sjálfri í rækt hennar við hæfileika sína, þegar skyldum hennar gagnvart börnunum er fullnægt. Karítas tekst að lokum að standa sig gagnvart báðum fyrirmyndum sínum; móður sinni og listakonunni Eugeníu. Túlka má það sem fyrirboða þess er koma skal – að konur fái notið bæði hæfileika sinna sem ein- staklingar og langana sinna í persónulegu lífi. Kristín Marja á lof skilið fyrir hvernig henni tekst að koma þessari miklu átakasögu til skila. Þótt hún troði ekki nýjar slóðir í stíl eða efn- istökum, tekst henni að skapa afar eft- irminnilegar sögupersónur og spinna þeim ör- lög sem fanga lesandann með þeim hætti að erfitt er að leggja bókina frá sér fyrr en að lestr- inum loknum. Konur, með eða án titils BÆKUR Skáldsaga Kristín Marja Baldursdóttir, Mál og menning, 2004. 447 bls. Karítas, án titils Kristín Marja Baldursdóttir Fríða Björk Ingvarsdóttir BÁRA er ung kona í Reykjavík samtímans. Af sjálfhverfu kynslóðinni, einsog vinur hennar kallar hana. Kynslóðinni „sem getur allt og fær allt nema nóg (bls. 104). Hún slít- ur sambandi og fer til Parísar eftir stúdents- próf úr MR. Kemur heim og fer í sagnfræði í Háskólanum. Kynnist manni. Hann vill aðra. Hún kynnist öðrum manni. Fer í sambúð. Byrjar að vinna á listasafni. Heldur framhjá manninum. Skilur. Finnur nýja ást. Eða rétt- ara sagt fyrstu ástina. Sagan öll. Það eru ekki hin stóru vandamál lífsins sem eru viðfangsefni Birnu Önnu Björns- dóttur í fyrstu skáldsögu hennar Klisju- kenndir. Það eru litlu vanda- málin og hversdagsleikinn og það vandamál að hafa engin vandamál við að glíma sem Bára og vinir hennar eiga í höggi við. Smá ástarsorg hér, ritstífla þar, nett framhjáhald, útlits- áhyggjur, fyllerí, daglegt líf. Sagan líður áfram algjörlega átakalaust. Ekkert ris, engin lausn, ekki einu sinni tilþrif í texta. Og maður spyr sig aftur og aftur við lesturinn: Er virki- lega svona leiðinlegt og til- þrifalítið að vera ung kona í Reykjavík í dag? Furðulegt nokk er það ein- mitt þetta tilþrifaleysi sem gerir söguna sérstaka. Ég held ég hafi aldrei fyrr lesið skáldsögu sem spannar sex ár í lífi söguhetjanna þar sem engin átök verða. Það deyr enginn, ekkert óvænt kemur upp á, enginn leggst í naflaskoðun eða rót- tækt uppgjör við líf sitt. Það verða engin hvörf. Og sögu- persónurnar virðast ekki breyt- ast neitt á þessum sex árum. Tuttugu og sex ára Báran er enn sama stelpan og nítján ára Báran og þarf enn að leika hlut- verk úr bíómyndum til að fá eitthvert kikk út úr lífinu. Það er einsog hún sé vélmenni, for- ritað til að líða í gegnum hvers- daginn án þess að neitt snerti það. Dæmd til að lifa hverja klisjuna af annarri án þess að það hafi nokkur áhrif á þroska hennar. Barbie sem kemst ekki út úr brúðuhúsinu bleika, þrátt fyrir alla fylgihlutina sem seldir eru með henni. Eina breytingin á lífi hennar á þessum sex árum er að skipt er nokkrum sinnum um Ken. Og í sögulok er heldur engin breyting fyr- irsjáanleg. Og það vekur manni óhug. Eflaust má með mjög góðum vilja lesa sög- una sem ádeilu á þessa allsnægtakynslóð og heiti bókarinnar gefur til kynna að sú sé ætl- unin, en textinn er því miður engan veginn nógu beittur til að það gangi upp. Húmorinn er græskulaus, persónurnar flatar og sami tilþrifalausi stíllinn ríkjandi hvort sem Bára segir frá í fyrstu persónu eða sagt er frá hin- um persónunum í þriðju persónu. Og maður bara klórar sér í höfðinu og spyr sig hvers vegna í ósköpunum þessi bók hafi verið gefin út. Afþreyingarbókmenntir eru góðar fyrir sinn hatt, en þurfa þær ekki að minnsta kosti að halda manni við efnið rétt á meðan verið er að lesa þær? BÆKUR Skáldsaga Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur, 167 bls. Mál og menning 2004 Klisjukenndir Birna Anna Björnsdóttir Allt nema nóg Friðrika Benónýs

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.