Morgunblaðið - 30.11.2003, Page 12

Morgunblaðið - 30.11.2003, Page 12
Á fáförnum stað utan borgarmarkanna krjúpa rannsóknarlög- reglumaður og réttarmeinafræðingur. Ómar Pálmason og Þóra Steffensen líkjast einna helst geimförum í fjólubláu ljósinu, þar sem þau rýna í ljómandi blóðbletti í jarðveginum. Sjónvarpsþættir sem fjalla um tæknirannsóknir lögreglu njóta töluverðra vinsælda og má þar nefna þættina CSI, Crime Scene Investigation, þar sem snillingar með háþróaðan tæknibúnað lesa í vettvang voðaverka. Hið sama má segja um spennusögur á borð við þær sem bandaríski rithöfundurinn Patricia Cornwell sendir frá sér. Aðalhetja hennar, rétt- armeinafræðingurinn Kay Scarpetta, upplýsir hvert morðmálið á fætur öðru og notar til þess læknisfræðikunnáttu sína og nýjustu tækni. Hér á landi hefur lögreglan einnig tekið tæknina í þjónustu sína. Hún vinnur náið með réttarmeinafræðingi og í sameiningu tekst þeim að varpa ljósi á atvik, sem öðrum eru hulin. Réttarmeinafræðingurinn er Þóra Steffensen og helstu samstarfsmenn hennar innan lögreglunnar eru rannsóknarlögreglumennirnir sem skipa tæknideild lög- reglunnar í Reykjavík. Lögreglumennirnir sem sinna útköllum og mæta fyrstir á vettvang þar sem ein- hver hefur látist tilheyra almennri deild lögreglunnar. Þeir kalla til héraðslækni og rannsóknarlögreglumann á vakt. Ef rannsóknarlögreglumaður metur aðstæður svo kallar hann á tæknideildina. Þegar mannslát þykir á einhvern hátt grun- samlegt er Þóra einnig kölluð til, svo hún geti skoðað líkið á vettvangi. Það á bæði við í sakamálum, sem og í vissum tilvikum þegar andlát er óvænt og án aðdrag- anda. Þá verður að fara fram réttarkrufning, til að finna dánarorsök. Með blóðsletturannsóknum á vettvangi ofbeldisverka getur lögreglan rakið at- burðarásina. Sérfræðingar lesa úr blóðblettum, úr hvaða hæð þeir falla, hversu mikið höggið var sem orsakaði þá, hver afstaða árásarmannsins til fórnarlambsins var, hvaða vopn var notað og hversu oft fórnarlambið var slegið. Þegar einhver er sleginn með barefli og árásarmaðurinn lyftir vopninu ítrekað upp til að slá á ný, þá slettast blóðblettir upp í loftið og mynda línu. Ef blóðlínurnar eru þrjár, þá hafa höggin ekki verið færri en fjögur, þar sem fyrsta höggið opnaði sárið. Rannsókn- irnar geta ýmist staðfest eða hrakið framburð brotamanns og fórnarlambs á at- burðarás. Oft er hægt að greina hvort blóð sem sést á vettvangi er úr stórum slag- æðum eða úr minni sárum. Ef loftbólur eru í blóðdropum er líklegt að blóðið sé úr lungum, sem gefur vísbendingu um áverka. Svona eru fræðin sem Ómar Pálmason og félagar hans í tæknideild lögregl- unnar leggja stund á. Þeir skoða smáatriðin, sem aðrir veita kannski ekki athygli eða kunna ekki að lesa úr. Þeir skoða lögunina á blóðdropum og sjá á henni frá hvaða horni og á hvaða hraða blóðdropinn hefur lent á vegg og geta þannig reikn- að út hvaðan blóðið kom. Þegar þeirra fræði leggjast við þekkingu Þóru Steffen- sen þá er hægt að greina hvaða vopni var beitt og hvernig. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík er CSI-deildin hér á landi og hefur tekið við því hlutverki sem tæknideild Rannsóknarlögreglu ríkisins gegndi áður fyrr. Starfið er ekki bundið við höfuðborgina, heldur aðstoða rannsóknarlögreglu- menn deildarinnar við rann- sóknir stærri sakamála um allt land, hvort sem það eru brunar, nauðganir, lík- amsárásir eða manndráp. Þeir sérhæfa sig á ákveðnum sviðum og standast starfsbræðrum sínum á hinum Norðurlöndunum fyllilega snúning, að sögn Ómars. Vissulega myndi deildin þiggja meira fjármagn með þökkum, eins og lögreglan almennt, en Ómar segir ekki hægt að kvarta. Deildin sé vel búin tækjum. Sjálfur er Ómar í námi í fingra- farafræði og hefur lært um brunarannsóknir og blóðslettufræði. Rannsóknarlögreglu- mennirnir átta, sem mynda deildina, eru með ólíkan bakgrunn og störfuðu flestir í hinum ýmsu deildum lögreglunnar áður en þeir fóru að einbeita sér að tæknirannsóknum. Ómar hefur rannsakað ofbeldisglæpi af ýmsum toga og hann vann um tíma í upplýsinga- og eft- irlitsdeild, áður en að sérhæfingu hans sem tæknideildarmanns kom. Gloppa í fræðunum Rannsóknarlögreglumaðurinn Ómar og réttarmeinafræðingur- inn Þóra sameina nú fræðin sín í rannsókn sem virðist ekki eiga sér nein fordæmi. Þau eru að kanna, hversu lengi sé hægt að greina blóð utandyra, í mismunandi jarðvegi. Þau leituðu í vísindalegum gagnagrunnum og bókum allra virtustu fræðinga á sviði réttarvísinda, þar á meðal Vernons J. Geberts, Barrys Fischers og Henrys Lees, en sá síðastnefndi öðlaðist meðal annars frægð fyrir að lesa í blettinn um- deilda í kjól Monicu Lewinski og fyrir aðild sína að máli O.J. Simpson. Hann var líka ráðgjafi við gerð CSI-þáttanna. „Biblía morðrannsókna er eftir Gebert, sem var yfirmaður í rannsóknarlögreglu New York,“ segir Þóra. „Í umfjöllun hans um vettvang utandyra kemur fram að blóð, sæði og munnvatn brotni hratt niður og sé nánast ómögulegt að finna þar sem er mikill gróður. Skordýr eyðileggi þessa vökva og regnið skoli þeim burtu. Henry Lee hefur fjallað nákvæmlega um vettvang ut- andyra, en nefnir þetta ekki. Loks má svo nefna bók eftir Fischer, sem er notuð við kennslu í vettvangsrannsóknum. Hann tekur þessar vettvangsrannsóknir sömu tökum og Gebert og Lee og segir að blóð hverfi fljótlega. Rannsókn okkar hefur staðið í þrjá mánuði og blóðið er enn vel greinanlegt. Þarna er því gloppa í þekk- ingu sérfræðinganna.“ Blóð hverfur ekki á viku Hér er mál að staldra við og skýra, hvers vegna þau áttuðu sig á nauðsyn þess að rannsaka blóð í jarðvegi. Ómar Pálmason rannsóknarlögreglu- maður í tæknideild lög- reglunnar í Reykjavík. Blóð úr einum manni getur verið dökk- rautt, á meðan blóð úr öðrum er skærrautt. Þegar Ómar Pálmason og Þóra Steffensen helltu blóði á möl og gras utan borgarlands- ins gátu þau sagt til um hverjir blóðgjafanna reyktu. Dökka blóðið er mjög súrefnisríkt, en yfir slíku blóði búa reykingamenn ekki. Blóð þeirra er miklu ljósara, skærrautt, mætti jafn- vel segja að það væri bleikt. Það skýrist af kol- oxíði í blóði reykingamannanna, en það gefur þennan bleika lit, um leið og það minnkar súrefnisflutning blóðsins. Hörkutól ættu ekki að reykja. Fyrir utan heilsuspillandi áhrif, skila reykingarnar Barbie-bleiku blóði.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.