Morgunblaðið - 30.11.2003, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 30.11.2003, Blaðsíða 46
46 | 30.11.2003 „Ég kem frá Íslandi og ég er rithöfundur,“ tafsaði ég og starði á brosmilda kennslukonu. „Rithöfundur!“ sagði hún uppörvandi rómi og leit á hina nemendurna í bekknum. „Vitið þið hvað rithöfundur (forfatter) þýð- ir?“ Þau hristu höfuðið, öll sem eitt. Starfs- heitið rithöfundur hafði ekki skotið upp koll- inum, jafnvel þótt þau væru komin á tólfta stig af átján til að útskrifast sem kjaftaglaðir Danir úr ríkisreknum skóla fyrir innflytjend- ur. Kennslukonan bað mig um að útskýra orðið. „Tja … forfatter er manneskja sem skrifar bækur,“ mjálmaði ég. „Skriver!“ gall í kennslukonunni. „Kri kri – skriver. Prófaðu að endurtaka skriver.“ „Kri kri …“ korraði í mér um leið og ég mætti augnaráði pólskrar stelpu sem hafði undrast að ég fengi að hefja námið á tólfta stigi. Við höfðum spjallað saman á meðan fólkið tíndist inn í skólastofuna og kærulaus hafði ég útskýrt að danska og íslenska væru mjög skyld mál og auk þess hefði ég lært dönsku í grunnskóla. En strax á fyrsta kortéri tímans tóku að renna á mig tvær grímur – og gott ef ekki á pólsku stelpuna líka. Ekki var nóg með að ég fylltist efasemdum um dönskukunnáttu mína heldur leitaði mun krítískari spurning á mig þegar kennslu- konan skellti í góm yfir fyrirbærinu íslenskur rithöfundur: „Hafa bækurnar þínar verið þýddar?“ spurði hún og undirliggjandi spurningunni var sú staðreynd að á Íslandi búa 288.471 hræður. „Nei … jú – ein „nov- elle“ á þýsku.“ „Novelle þýðir smásaga á dönsku, ekki skáldsaga.“ „Ég veit. Það var einmitt ein smásaga.“ Vandræðaleg þögn. Andspænis manneskjum frá fjölmennum löndum, á borð við Tyrkland, Pólland, Íran, Kólumbíu, Taíland, Kúbu, Portúgal, Afgan- istan, Malasíu og Rússland, skildist mér að þetta væri eins og að viðurkenna fyrir Reyk- víkingi að maður skrifaði einungis bækur fyr- ir fólk í Keflavík. Í lok tímans var ég komin með hálsbólgu af því að tönnlast á setningunni: Kristoffer Kragh elsker kransekage. Lágreist skakk- lappaðist ég heim og fölnaði þegar maðurinn minn spurði hvernig hefði gengið. „Kennarinn sagði að mér gengi vel að æfa framburðinn,“ svaraði ég, en það var reyndar eina atriðið sem mátti telja mér til tekna. „Nú!“ hváði hann sem var alinn upp í Kaupmannahöfn. „Má ég heyra?“ „Kristoffer Kra …“ Hann greip fyrir eyrun og spurði hver væri að drepa kött í húsinu. Það náðist ekki að svara dónaskapnum því í sömu mund hringdi síminn: amma mín að spekúlera hvað ég væri að bardúsa þessa dagana. Fræddi hana um að ég væri í dönskuskóla og hafði ekki fyrr sleppt síðasta orðinu en hún spurði: „Ertu BARA að læra dönsku? Veit ekki hvort fyrri kynslóðir fæddust al- talandi á dönsku jafnt sem sænsku, en sá mig tilneydda að bera í bætifláka fyrir gáfnaleysið og vældi: „Nei, ég er líka að skrifa bók fyrir Íslendinga.“ „Jæja vinan – en er ekki voðalega kalt í Danmörku núna?“ sagði amma í svipaðri tóntegund og kennslukonan þegar hún spurði hvort bækurnar mínar hefðu verið þýddar. En skjótt skipast veður í lofti. Nú er fyrstu skólavikunni lokið og samkvæmt mínum kokkabókum er bábilja að danskan velli upp úr Íslendingum strax í móðurkviði. Ef ég myndi rýna í dönskuna með íslenskum gler- augum lægi beint við að lesa orðið uppgjöf úr danska orðinu opgave sem þýðir verkefni – og íslensk munnstæði eru mun betur til þess fallin að bera fram spænsku en kokkorrandi dönsku. Hvað varðar íslenskar bækur þá er hægt að dunda sér við verri hluti en að skrifa fyrir fólk í Keflavík. „Veit ekki hvort fyrri kynslóðir fæddust altalandi á dönsku“ Auður Jónsdóttir Pistill L jó sm yn d: E in ar F al ur STAÐURINN HEIMILI LAXMI-FJÖLSKYLDUNNAR, VARANSI, INDLANDI.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.