Morgunblaðið - 07.12.2003, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 07.12.2003, Blaðsíða 13
best og hafa allan rétt, hvernig sem á stendur. Víkingablóð er enn afar ríkjandi í æð- um okkar. Fólk er stressað og þolir illa áreiti eða mótstöðu.“ Hér kem ég-viðhorfið? „Já, það er mikið þannig. Og sínu verst er það þegar fólk er undir áhrifum. Svo gæti ég nefnt fátæktina, sem við í lögreglunni verðum nokkuð vör við. Ég fullyrði ekki að fátækt sé að aukast en afleiðingar hennar eru orðnar meira áberandi. Mér finnst eins og fólk hafi áður getað bjargað sér betur og lendi nú fyrr í öngstræti. Auð- vitað tengist þetta í einhverjum tilvikum fíkniefna- og áfengisvanda þessa fólks, sem stýrir þá forgangsröðinni um hvað peningarnir fara í. Töluverð vinna fer hjá lögregl- unni í að liðsinna þessu fólki og öðru, sem hvergi á höfði sínu að halla, jafnvel geð- sjúku fólki. Við getum ekki sinnt læknisfræðilegri þjónustu, en getum boðið uppá húsaskjól í fangageymslum. Okkur sýnist aðstaða ofdrykkjufólks hafa batnað á með- an aðrir, sem eru andlega veikir, eiga í færri hús að venda.“ Geir Jón er þó fljótur að taka fram að honum sé eðlilegra að líta jákvæðum augum á breytt samfélag. „Til dæmis sjáum við stórkostlega breytingu meðal ungs fólks. Fyr- ir nokkrum árum var töluvert um ungt fólk, 15–17 ára, í mikilli neyslu á götum mið- borgarinnar og í úthverfum veruleg hópasöfnun. Þetta sést varla núna. Ég er bjart- sýnn á, þangað til annað kemur í ljós, að þessi breyting hafi ekki aðeins orðið fyrir aðgerðir okkar heldur eigi sér einnig rætur inni á heimilunum, í bættum samskiptum foreldra og barna. Það eru því ýmis ljós í myrkrinu.“ Hvað telurðu brýnast að gera til að fjölga þessum ljósum? „Reykjavíkurborg og Samhjálp hafa í sameiningu opnað heimili á Miklubrautinni fyrir drykkjusjúkt fólk, sem þar fær húsaskjól, mat og lyf, og hefur gjörbreytt lífi þess til hins betra. Byrgið og SÁÁ hýsa marga einstaklinga sem annars væru illa staddir. Ég tel að fái fólk, sem býr á götunni og er á ýmsan og ólíkan hátt fársjúkt, markvissa aðhlynningu og atlæti sé unnt að lyfta Grettistaki til að bæta borg- arsamfélagið. Afar brýnt er því að fjölga athvörfum af þessu tagi þar sem fólki líður eins og fólki.“ Að geta gefið af sér Geir Jón Þórisson segist njóta hvers dags; hann hlakkar alltaf til að fara í vinnuna. Lengi kveðst hann hafa tregðast við að verða lögreglumaður. Hann lærði vélvirkjun í Iðnskólanum, starfaði við það fag í nokkur ár og við verslunarstörf – áður en hann fann sig. Það gerðist þegar hann var verslunarstjóri í Vestmannaeyjum og lét undan þrábeiðnum yfirmanns lögreglunnar þar um að leysa af í sumarfríi sínu. „Strax, eftir fyrsta daginn, vissi ég og fann að þetta var mitt starf. Ég fann að ég gat gefið af mér. Stundum vildi ég gjarnan sjá meiri og áþreifanlegri árangur; það getur tekið á að fá sama fólkið og vandamál þess inná borð ár eftir ár. Mestu gleðistundirnar í mínu lífi eru hins vegar þær þegar menn verða nýtir og hamingjusamir þjóðfélagsþegnar fyrir aðkomu okkar í lögreglunni, og þær stundir hafa sem betur fer verið margar gegnum árin. Á fyrstu árum mínum í lögreglunni í Eyjum ræddi ég oft við gamalreyndan drykkjumann, sem nánast bjó hjá okkur á stöðinni, og hann fór að segja mér sína lífs- sögu. Honum leið bara svo vel af því að fá að segja hana og einhver nennti að hlusta. Hann tók á sínum málum og nú hefur hann verið edrú í tæp 30 ár og notið lífsins. Ég fann svo sterkt hversu þakklátt það getur verið og árangursríkt að fólk í vanda mæti mannlegu faðmlagi en ekki einvörðungu refsingum og tiltali. Jafnvel þótt ég þyrfti að kæra þessa vini mína, sem var auðvitað ekki skemmtilegt, fundu þeir að það var gert af sannfæringu og velvilja. Og ég fann að þetta átti við mig. Að ég gat orðið að liði.“ Þegar ég spyr Geir Jón hvort þetta sé þá frekar hugsjón en starf er eins og spurn- ingin komi flatt uppá hann. „Ja, peningalaunin eru ekki meginatriðið, svo mikið er víst,“ svarar hann loks. „Að geta látið gott af sér leiða er hins vegar ómetanlegt til fjár. Þannig að, já, ég býst við því að hugsjón og starf falli saman hjá mér.“ Ástæða þess að hann lenti í vélvirkjuninni áður en hann fann hugsjón sína og starf var að þegar hann lauk gagnfræðaprófi taldi hann iðnnám eiga betur við sig en bóknám og tilviljun réð valinu. „Ég hafði aldrei lagt niður fyrir mér hvað ég ætlaði að verða.“ Hann er strangt tekið af ’68-kynslóðinni, fæddur 1952, en var alinn upp á trúuðu heimili í Skólavörðuholtinu þar sem báðir foreldrarnir voru í Hvítasunnusöfnuðin- um; hann féll því ekki fyrir ýmsum þeim freistingum sem margir af sömu kynslóð gerðu. „Uppeldið var ákveðið og markvisst, án þess að vera beinlínis strangt.“ En fram að fermingu segist hann hafa verið í dálítilli andstöðu við hina kristilegu for- eldraforsjá. „Ekkert alvarlegt, en ég vildi frekar vera á skralli með félögum mínum, í svona einhverju útstáelsi, sem núna þætti ákaflega saklaust. En 14 ára gamall urðu umskipti: Ég frelsaðist og ákvað að fylgja Jesú Kristi.“ Hvernig gerðist það? „Það gerðist á samkomu með enskum prédikara í Fríkirkjunni. Ég fór þangað í bríaríi en straumhvörf urðu. Ég fann frið sem ég hafði ekki áður fundið. Játaði syndir mínar og tók ákvörðun um að ganga á Guðs vegum. Þetta er mjög sérstök reynsla sem erfitt er að útskýra fyrir öðrum. Lífið tók aðra stefnu, ég kynntist öðru fólki í kringum kristilegt starf, og hef tekið mikinn þátt í því síðan; maður þarf að rækta sína trú með lestri Guðs orðs. Í þessu felst mikil lífsnæring.“ Geir Jón kveðst hins vegar langt í frá öfgamaður eða meinlætamaður. „Kjarninn í kristilegu viðhorfi felst í umburðarlyndi og kærleik til alls fólks. Kristinn maður dæmir ekki aðra. Það er aðeins einn dómari. Við eigum að virða trú og lífsviðhorf annarra, sýna þeim kærleika en ekki hroka.“ Og hann segist „lifa lífinu“; honum finnst t.d. á góðri stund gott að fá sér léttvín með matnum. Að brjóta lög Guðs og manna Með hönd á hjarta, Geir Jón, hefurðu nokkurn tíma brotið lög? Hann brosir, svarar strax og kemur mér á óvart: „Já. Ég hef ekið of hratt og verið tekinn af lögreglunni og greitt mína sekt. Ég hef vissulega misstigið mig.“ Áður en þú varðst lögreglumaður? „Neinei. Eftir. Það getur öllum orðið á í messunni. Og jafnt skal yfir alla ganga.“ Hann hugsar sig um. „Ætli ég misstígi mig ekki á hverjum degi.“ Syndugur maður samkvæmt Guðs lögum? „Já. Allir eru syndugir. Lífið gengur svo út á að bæta sig í samskiptum við aðra og reyna að breyta rétt. En í því er maður veikur og smár.“ Hver er þinn mesti veikleiki? Nú kemur löng þögn. „Ja, það er nú það.“ Enn löng þögn. „Hvað skal segja...“ Þögn. „Þetta er mjög erfið spurning.“ Svo brosir hann og segir: „Ég er kannski of op- inn. Bæði í þeim skilningi að ég segi stundum mína skoðun of umbúðalaust og svo þeim að ég hleypi ýmsu að mér, langar til að trúa fólki og er því kannski full trúgjarn. Því miður er reynslan í starfinu sú að margir skrökva.“ Þegar þú horfir uppá eymdina og óhamingjuna sem þú hlýtur að mæta oft í þínu starfi, efastu aldrei um tilvist almáttugs Guðs? „Nei. Ég kenni ekki Guði um þetta. Þar er eitthvað annað á ferðinni.“ Ertu að tala um djöfulinn? „Já. Tvö öfl eru að berjast um mennina. Það er alveg ljóst. Ég hef séð hvernig djöf- ullinn hefur leikið fólk illa og hvernig hann vinnur.“ Hvað er djöfullinn? „Samkvæmt skilgreiningu Biblíunnar var djöfullinn engill sem Guð varpaði af himni vegna þess að hann hrokaðist upp. Hann er því persóna. Þegar við segjum að ástand sé „djöfullegt“ eru andi hans og öfl að verki. Við höfum val um hvort við fylgj- um honum eða kærleika Guðs. Því miður velja margir ekki það rétta.“ Líturðu þá þannig á að glæpamenn, misyndismenn, þetta fólk sem þið í lögregl- unni eruð að glíma við dag frá degi, séu á valdi djöfulsins? „Hið illa og andi hans hafa a.m.k. áhrif á breytni þeirra. En mennirnir taka ákvarð- anir sjálfir og ef þeir taka ákvörðun um ranga breytni er það vegna þess að samviskan hefur verið slævð og er hætt við virka. Samviska er samvit um það sem er hið rétta og sanna. Ég held því ekki fram að t.d. hinn venjulegi innbrotsþjófur eða þeir sem al- mennt brjóta af sér séu bókstaflega haldnir illum anda, en samviska þeirra hefur veikst og þeir taka því rangar ákvarðanir.“ Vonin er kjarnorka Þannig sameinast þá trúin og starfið í yfirlögregluþjóninum í Reykjavík? „Já, ég held að það sé rétt. Ég get sagt þér t.d. að oft bið ég fyrir því fólki sem kemur til minna kasta í starfinu vegna þess að það hefur misstigið sig, reyni að hugga það og leiðbeina því. Stundum hrífur það, stundum ekki, en það skiptir ekki öllu máli. Sán- ing þarf að eiga sér stað. Ég tel ekki eftir mér að tala hlýlega til þeirra sem ekki vilja taka á móti. Og ég hef séð hið ómögulega gerast.“ Kraftaverk? „Já. Ég hef séð fólk, sem ekki hafði fundið neina leið út úr því lífi sem það lifði, umsnúast allt í einu og komast á réttan kjöl. Þá hefur gerst kraftaverk.“ Svo bætir hann við af mikilli sannfæringu: „Það er alltaf von með alla menn. Sú er mín prédik- un. Mín kjarnorka í starfinu er vonin.“ Eru margir lögreglumenn heittrúaðir? „Mjög margir. Og við biðjum fyrir starfsfélögum okkar, vinnustaðnum og fólkinu sem við erum að þjónusta.“ Geir Jón hefur ekki aðeins starfað með Hvítasunnusöfnuðinum, heldur einnig í fríkirkjusöfnuðum og þjóðkirkjunni, hefur m.a. sungið í kirkjukórum í 32 ár og syng- ur nú í Grensáskirkju, þar sem hann er einnig aðstoðarmeðhjálpari. Hann segist njóta þess að syngja og hefur áhuga á ýmiss konar tónlist, íslenskum kórsöng, kántrí, jafnvel sumu rokki, en ekki síður blúsnum, sem náskyldur er gospeltónlistinni. Vestmannaeyjar skipa stóran sess í lífi Geirs Jóns Þórissonar. Þangað fluttist hann 21 árs að aldri og kona hans, Guðrún Ingveldur Traustadóttir sjúkraliði, ári síðar, þar STRÍÐIÐ VIÐ ILLSKUNA Í MANNINUM GEIR JÓN SEGIST NJÓTA HVERS DAGS; HANN HLAKKAR ALLTAF TIL AÐ FARA Í VINNUNA 7.12.2003 | 13

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.