Morgunblaðið - 21.12.2003, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 21.12.2003, Blaðsíða 22
22 | 21.12.2003 listagyðjunni. Eftir að hafa starfað mörg ár á spítulum í Chicago og við kennslu í Illinos-háskólanum flutti ég til Rockford, sem er skammt frá Chicago, en þar er einn af háskólunum þeirra og þar starfaði ég við kennslu og hjartalækningar í átján ár. Meðfram vinnunni fór ég í listaháskólann í Rockford og var þar í ein sjö ár, þeg- ar mér gafst tími til frá vinnunni. Það kom fyrir þegar ég var í miðri kennslustund í listaskólanum að útkall kom frá spítalanum, þannig að ég gat ekki stundað þarna reglulegt nám. En á þessum árum byrjaði ég að vinna að höggmyndalistinni fyrir alvöru.“ Magnús hætti í hjartalækningum árið 1989, þá 65 ára, og flutti til smábæjar í New York-ríki, Hammonsport, þar sem hann starfaði sem forstjóri lækningasviðs á bæjarspítalanum. Þar starfaði hann allt þar til nú í haust. „Í þessari vinnu hafði ég meiri tíma til að sinna höggmyndalistinni og fór að prófa mig áfram með ýmsar aðferðir. Ég gerði myndir úr steini, marmara og leir, bæði mótaði ég leirstyttur og gerði leirmót, sem síðan voru steypt í brons. Það tók mig dálítinn tíma að koma mér í gang af fullum krafti, en svo kom að því að ég hélt sýningu í bænum. Tveimur árum áður hafði ég byrjað að gera höggmyndir af forfeðrum mínum vík- ingunum, og var þá ekkert að hugsa um 1000 ára afmæli landafunda Leifs Eiríks- sonar. Ég hef alla tíð lesið Íslendingasög- urnar og þannig hef ég haldið íslenskunni við. Reyndar hef ég lesið Morgunblaðið daglega nú á síðustu árum, á Netinu. En Ís- lendingasögurnar urðu mér hvatning til að fara að fást við höggmyndir af víkingum og á þessari sýningu í Hammonsport voru yfir tuttugu víkingahöggmyndir. Einn daginn kom á sýninguna prófessor í bókmenntum frá Cornell-háskóla í Ithaca í New York-ríki og hann tjáði mér að háskól- inn hefði áhuga á að sýna víkingastytturnar mínar í tengslum við sýningu frá Lands- bókasafni Íslands, sem þeir voru að setja upp í tengslum við landafundi Íslendinga í Vesturheimi. Í framhaldi af þessu lánaði ég Landsbókasafni Íslands þrjár styttur og þær fylgdu sýningu Landsbókasafnsins, meðal annars til Washington, og í tengslum við það var ég með sýningu í sendiráðinu í boði Jóns Baldvins sendiherra. Víkingastytturnar þrjár fylgdu hins vegar með til Reykjavíkur þar sem Landsbókasafnið hélt sýningu í tilefni af landafundunum ár- ið 2000. Ein þeirra varð svo eftir, sjálfur Egill Skallagrímsson í marmara, og hann er nú á Landsbókasafninu í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík. Cornell-háskólinn er líka með tvær af styttunum mínum uppi hjá sér, af Snorra Sturlusyni og Guðríði Þorbjarnardóttur. Þeir eru að skrifa bók um landnám Íslendinga í Vesturheimi og ætla víst að hafa mynd af styttunni af Guðríði á bókarkápunni.“ Í heimsókn sinni til Íslands nú í haust færði Magnús íslensku þjóðinni að gjöf styttu eftir sig, sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti viðtöku á Bessastöðum. „Mér fannst ég standa í þakkarskuld við þjóðina sem fóstraði mig ungan og veitti mér svo góða undirstöðumenntun. Mér fannst ég verða að launa það með einhverjum hætti þótt í litlum mæli væri, þar sem ég hef stundað mín læknisstörf í öðru landi. Þetta er stytta sem heitir „Draumur víkingsins“ og þar legg ég út frá ljóði Egils Skallagrímssonar: Þat mælti mín móðir, at mér skyldi kaupa, fley ok fagrar árar, ok fara á brott með víkingum. Standa uppi í stafni, stýra dýrum knerri, halda svá til hafnar ok höggva mann og annan. Ég hafði þennan draum víkingsins í huga þegar ég vann þetta verk.“ Magnús kvaðst framan af ævinni lítið hafa hugsað um eigið mataræði eða holla lífshætti heldur ætíð notið þeirra gæða sem lífið bauð upp á hverju sinni. „Ég fór í hjartauppskurð fyrir tæpum þremur árum, en hafði fram að því ekki haft hugmynd um að nokkur skapaður hlutur væri að mér í hjartanu. Ég hafði far- ið í aðgerð vegna gallblöðrusýkingar og það gekk allt saman vel, nema að eftir að- gerðina átti ég erfitt með að anda. Þá fóru þeir að rannsaka hjartað og komust að því að ég var með kransæðastíflu. Þeir héldu fyrst að ég myndi ekki lifa hjartaað- gerðina af. Sá sem skar mig er einn besti hjartaskurðlæknir í Bandaríkjunum og aðgerðin heppnaðist eins og best verður á kosið. En eftir þetta hef ég passað upp á mataræðið og forðast þungt fæði, eins og til dæmis kjöt. Svo æfi ég mig í tvo tíma þrisvar í viku og mér hefur aldrei liðið betur. Þegar maður fer í gegnum svona aðgerð og kemst svona nálægt dauðanum fer maður að hugsa sinn gang. Þess vegna vil ég bara ráðleggja öllum að hugsa vel um mataræðið, sérstaklega hvað varðar of mikla kjötneyslu. Svo verða menn að draga úr neyslu á kolvetnaríku fæði, eins og til dæmis kartöflum, hrísgrjónum, kökum og hvítu brauði, svo dæmi séu tekin. Best er að borða mikið af grænmeti og ávöxtum og svo auðvitað fisk, sem er mjög hollur. Ég fæ mér alltaf nýjan fisk úti í Ameríku, tvisvar í viku. Og í rauninni er þetta engin þvingun að breyta svona um mataræði. Nú, eftir næstum því þrjú ár, líkar mér þessi matur mun betur en kjötið áður. Mig langar bara ekki í kjöt lengur, þótt mér sé boðið það. Svo er auðvitað mikilvægt að sitja ekki of lengi til borðs, borða ekki of mikið í einu. Ég er ekki að segja að þú megir aldrei fá þér kjöt, heldur er lykilatriðið að borða það í hófi eins og allan annan mat. Besta ráðið til að halda líkamsþyngdinni niðri er hins vegar að stunda æfingar og hreyfa sig reglulega. Með æfingunum er maður ekki aðeins að brenna kaloríum held- ur er maður í leiðinni að styrkja vöðvana og framleiða endorfín, sem er hormón sem hressir, bætir og kætir. Sem sagt borða minna og æfa meira. Ganga til dæmis einn kílómetra á dag, það er það besta sem þú getur gert fyrir sjálfan þig. Það léttist enginn með því að taka pillur. Þú verður að vinna fyrir því og til að geta gert það verður hugarfarið að vera rétt. Vitlu gera þetta eða ekki? Ég held ekki ræður yfir fólki út af svona málum, það er ekki hægt. Fólk verður að ákveða sjálft hvað það vill fá út úr lífinu. Ég veit bara að mér líður núna betur en fyrir tuttugu árum, og það eftir hjartauppskurð. Það trúir því enginn, en það er satt.“ Magnús leggur áherslu á að hver sé sinnar gæfu smiður. „You create your own reality,“ segja þeir í Ameríku, sem felur í sér að hver og einn taki ábyrgð á eigin lífi. Þú skapar þinn eigin raunveruleika. Með því að hugsa þannig losnar þú við að kenna öðrum um það sem aflaga fer í lífinu.“ Þegar fært er í tal að fróðlegt væri að fara nánar út í einkalíf Magnúsar brosir hann og segir: „Þú ætlar þó ekki að fara að skrifa um hvað ég hef verið giftur mörgum sinnum? Skiptir það einhverju máli? Jæja, ef þú endilega vilt. Ég er þrí- giftur, á átta börn og nítján barnabörn. Elsta soninn átti ég áður en ég giftist. Hann býr á Íslandi. Síðan giftist ég íslenskri stúlku, þegar ég var í háskólanum hér heima. Hún flutti með mér til Ameríku og býr þar enn. Með henni á ég fimm stúlkur og einn dreng, þau eru öll búsett í Ameríku. Kona númer tvö er bandarísk og með henni á ég einn strák, sem býr í Rockford. Hann er tölvuljósmyndari og við erum mjög samrýndir og góðir vinir. Hann og konan hans bíða nú eftir að eignast tvíbura, ég frétti það rétt áður en ég fór til Íslands.“ Magnús gerir hlé á máli sínu, hugsar sig dálítið um og segir síðan brosandi: „Þetta er eins og að ganga til skrifta hjá kaþólskum presti. Núverandi kona mín, Diane, er bandarísk, listræn og vel gefin stúlka. Hún er fyrrverandi „Miss South Carolina“, en kærir sig ekkert um að flíka þeim titli. Þetta er nú bara okkar á milli og þar sem viðtalið birtist á íslensku á hún aldrei eftir að komast að því að ég nefndi þetta. Hún er 24 árum yngri en ég og við eigum saman tvo cocker spaniel- hunda, ægilega góða hunda. Við erum nú að leita okkur að húsnæði nálægt New York-borg eða höfuðborginni Washington DC til að búa og opna myndlistargall- erí þar sem við getum bæði unnið að listsköpun.“ Magnús kveðst taka fulla ábyrgð á sínum hjónaböndum, eins og öðru sem fyrir hann hefur borið í lífinu. „Það er líka annað sem ég hef lært í lífinu, sem er að það getur enginn annar maður móðgað þig nema þú leyfir honum það. Það var mjög þýðingarmikið fyrir mig að átta mig á þessu í mínu starfi, til dæmis þegar ég var í spítalastjórninni, að taka ekkert sem sagt var persónulega inn á mig. Fólk vill svo oft kenna öðrum um, en tekur ekki ábyrgðina á sig sjálft. Þetta kemur heim og saman við það sem ég nefndi áðan, að taka ábyrgð á eigin lífi. Ég er ábyrgur fyrir að hafa verið giftur þrisvar og ætla ekkert að skorast undan því. Ég er líka ábyrgur fyrir að hafa valið mér læknisfræðina að ævistarfi og höggmyndalistina að lífsfyll- ingu. Meira að segja kransæðastíflan er alfarið á mína ábyrgð.“ svg@mbl.is „Núverandi kona mín, Diane, er bandarísk, list- ræn og vel gefin stúlka. Hún er fyrrverandi „Miss South Carolina“, en kærir sig ekkert um að flíka þeim titli. Þetta er nú bara okkar á milli og þar sem viðtalið birtist á íslensku á hún aldr- ei eftir að komast að því að ég nefndi þetta.“ LÆKNIR OG LISTAMAÐUR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.