Morgunblaðið - 31.07.2004, Síða 22

Morgunblaðið - 31.07.2004, Síða 22
22 LAUGARDAGUR 31. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ MÉR virðist sem Helga Kress ofmeti stöðu sína á sviði íslenskra bókmennta. Hún sest á háan hest í þrætumáli um Halldór Laxness. Hún virðist t.d. ekki vita um höfund fræg- ustu vísu í skáldsögu Halldórs Laxness um Sölku Völku. Þeir, sem teljast hvað tryggastir lesendur Halldórs Laxness, mega játa það, hver með öðrum, að oft er býsna erfitt að muna tilvitn- anir í verk hans og hver sagði hvað. Ég játa fúslega að mér verður oft á í messunni. Ég hafði t.d. ætlað að vitna í ferskeytlu, sem Halldór birti í einni af bókum sínum. Þetta er vísa eftir Pál þann sem kallaður var „skáldi“ og var nafnkunnur klerkur í Vest- mannaeyjum og á Suðurlandi. Forfaðir Ás- geirs Ásgeirssonar forseta og fleiri frægra niðja. Mér fannst þessi vísa séra Páls fara vel í munni Hallberu tengdamóður Bjarts í Sumarhúsum, ömmunnar, sem kvað fyrir börn Bjarts og byggði honum Urðarselið og sagði: Ekki spyr ég að því. Ókysst á ég lið- inn. Ég margfletti Sjálfstæðu fólki en fann hvergi vísuna: „Sefur þú, svínið þitt.“ Svo kom mér til hugar að hringja í margfróðan góðkunningja minn, Torfa Jónsson fræði- mann og fyrrverandi lögregluþjón. Torfi tók beiðni minni vel. Hann fletti báðum bindum ritverksins en fann ekki vísuna. Ég vissi að Eiríkur bróðir Torfa hlyti að kunna skil á þessu. Fræðimenn Háskóla Íslands unnu það óþurftarverk að neita Eiríki um vörn dokt- orsritgerðar sem hann vildi verja. Merkir fræðimenn, Peter Hallberg og Sveinn Skorri Höskuldsson, neituðu Eiríki um viðurkenn- ingu doktorsritgerðar, sem hann átti fullan rétt á að verja, sjálfsagt vegna afstöðu Hall- dórs sjálfs. Það kom líka á daginn að Eiríkur leysti úr spurningunni. Hann kvað móður Svein- bjargar, konu Magnúsar bóka, hafa kveðið vísuna fyrir dótturbörn sín er hún svæfði þau. Vísuna hafði hún kveðið fyrir fjölda barna. Hún er svona: Sefur þú, svínið þitt, svartur í augum. Far þú í fúlan pytt fullan af draugum. Þegar þrætt er um tilvitnanir og höfund- arrétt má segja að Halldór hefði átt að prenta í bókarlok tilvitnun á bls. 27 í bók sinni „Fuglinn í fjörunni“. Sama gildir t.d. um vísu Arnar Arnarsonar: „Drottinn hló“ og ýmsar fleiri, sem hann birtir án þess að geta höfundar. Hyggjum þá að skáldbróður Halldórs og göngufélaga Jóhanni Jónssyni. Enginn hefir lýst betur iðju auglýsingastofa þeirra sem nú starfa á Íslandi og ráða líferni og þjóðhátt- um. Íslenskar auglýsingastofur virðist skorta allan metnað. Þær apa eftir auglýsingum er- lendra stöðva og leggja kalkipappír undir verk þeirra sem þær selja svo íslenskum fyr- irtækjum. Forstöðumenn auglýsingastofa og fjölmiðla- og kynningarfyrirtækja ættu að lesa hugleiðingar Jóhanns Jónssonar skálds. Hann skrifaði vini sínum séra Friðriki A. Friðrikssyni fjölda bréfa er hann dvaldist í Þýskalandi í byrjun þriðja áratugar sl. aldar: „Við höfum aldrei fengið tækifæri til að leika okkar hlutverk í menningarleik þjóð- anna, því við vorum sviptir réttinum til að vera þjóð og urðum að láta okkur nægja að vera nýlenda – og allt okkar eðli gagnsýrt anda nýlendulífsins, sem er undirlægjulíf í allri sinni mynd, svipt hverskonar sjálfstæði, og hverskonar meðvitund um sannarlegt sjálfstæði, en þeim mun ríkara af blekk- ingum og dómgreindarlausri dýrkun á þess- um blekkingum. Og svo erum við þá með tímanum orðnir meðal þjóðanna sem marg- arine í smjörbúi. Orðnir þjóðlíki í stað þjóð- ar.“ Þótt liðnir séu átta tugir ára síðan Jóhann skáld skrifaði vini sínum, föðurbróður og nafna Friðriks Ólafssonar skrifstofustjóra Al- þingis, þessar hugleiðingar þá virðist hvert orð hitta í mark sé hugað að veruleik sam- tímans. Hvar er metnaður íslensku auglýs- ingastofanna? Hvort sem þær skreyta sig með fögrum nöfnum og einkunnarorðum, „Gott fólk,“ „Hvíta húsið“ eða hvað svo sem þær heita. Fyrirtæki sem bera nafn Íslands í heiti sínu, Íslandsbanki, Vátryggingafélag Ís- lands, Sjóvátryggingarfélag Íslands, Happ- drætti Háskóla Íslands, og fjöldi íslenskra fyrirtækja virðast háð enskri tungu og sneiða vísvitandi hjá þjóðtungunni. Það er ömurlegt að heyra og sjá þýsk bifreiðaumboð, sem starfrækt eru á Íslandi, kaupa íslenska texta- höfunda og söngvara sem engjast eins og maðkar á krók og syngja á ensku dýrðaróð til lofs þýskum Opelbifreiðum. Grátbroslegar eru auglýsingar Íslandsbanka og Sjóvátrygg- ingarfélags Íslands, sem skreytir sig með af- komendum mælskusnillings og þjóðmálaskör- ungs, Benedikts Sveinssonar. Þær hefðu ekki hlotið aðdáun hans fyrir einstaklega afkára- lega auglýsingu þar sem ungur afglapi skokkar skælbrosandi og tilgerðarlegur og brýnir drafandi engilsaxneskan dægurlaga- söngtexta í auglýsingu Sjóvár-Almennra. Rektor Háskóla Íslands, sem sjálfur er gam- all kúarektor norðan úr Skriðu, þeim forn- fræga stað, þar sem Rasmus Rask stóð í tún- fæti hjá Þorláki bónda Hallgrímssyni föður Jóns Kjærnested, sem Jónas Hall- grímsson kvað um eitt sitt fegursta ljóð: „Stirðnuð er haga höndin þín, gjörð til að laga allt úr öllu.“ Páll rektor Skúlason, Gunnar Karlsson, Þorbjörn Brodda- son og Svanur Kristjánsson ættu allir að greiða skegg sitt upp í til- efni af afglöpum um afstöðu Háskól- ans til íslenskrar tungu. Háskóli, sem lætur símsvara sinn svara á ensku þegar hringt er til prófessors í sagn- fræði og greiðir kennurum, sem flytja mál sitt á ensku, hærri laun, ættu að blygðast sín. Vigdís fyrrum forseti hljóðritar dauðar þjóðtungur. Sími hollvinasamtaka lokaður og faxið lokað. Háskóli Íslands þarf að endurskoða af- stöðu sína og hyggja að framtíðarstarfi sínu af djörfung og þrótti. „Samskip“, skipafélag ungra athafnamanna sem sneru baki við hugsjón vefaranna og þingeysku bændanna og mynduðu eiginhags- munafélag til þess að safna auðæfum handa sjálfum sér og sínum, slæst í hóp undanvill- inga í auglýsingum. Auðvitað syngja þeir á ensku. Ríkissjónvarpið og óðamálaþáttarstjórn- andi þess Logi Bergmann Eiðsson bitu svo höfuðið af skömminni í spurningakeppni skól- anna með því að „krydda“ kynningarþætti skólanna með enskum dægurlagasöng sem hljómaði í tækjunum jafnframt því sem ferðast var um deildir skólanna. Það var öm- urleg niðurlæging. Ölgerðin Egill Skallagrímsson reisir Agli Skallagrímssyni níðstöng með nýrri sjón- varpsauglýsingu sinni þar sem sungið er á ensku í auglýsingu, sem birt er í íslenskri lofthelgi. Ég spái hrakförum slíks fyrirtækis, sem svertir minningu eins frægasta skálds Íslendinga með slíkum endemum. Skáldinu sem kvað: Mjök erum tregt tungu at hræra eða loptvætt ljóðpundara. Mér finnst sem nokkurs hroka gæti í máli sérfræðinga Háskóla Íslands, Kennarahá- skóla og æðri stofnana, sem kenna sig við akademíu. Ég sat nýlega fyrirlestur ungs bókmenntafræðings um Grím Thomsen. Hann vitnaði í danska heimspekinginn Sören Kierkegaard, sem var samtímamaður Gríms. Svo sagði FRÆÐINGURINN: „Sören Kierkegaard er á sama máli og ég.“ Ekki: Ég er á sama máli og Kierkegaard? Hvað á að segja um svona speki? Svo staðfestir „elítan“, eins og mennta- menn kalla sjálfa sig, álit sitt á almenningi. Hættir að minnast á Þjóðarbókhlöðu og nefnir nú eingöngu Háskólabókasafn. Lokar öllum dyrum en flennir upp portkonuhlið og ölknæpur næstum allan sólarhringinn með tilheyrandi hnífstungum og dopulmorðum. Guðmundur Andri Thorsson hóf lestur skáldsögu sinnar í Ríkisútvarpi í sl. viku. Hann tileinkaði sér rangan framburð er hann nefndi á-stríðu ást-ríðu. Jón Hilmar Jónsson málfræðingur hafði nýverið svarað spurningu minni og skýrt áherslur orðsins á skýran og einfaldan hátt. Samt sem áður kaus Guð- mundur Andri rangan skilning. Vonandi les hann upp og lærir betur. Morgunblaðið, sem ber að þakka varð- stöðu, skriplar þó á skötu er það ritar „mun það fljóta“ í stað þess að segja „flýtur það“. Sá nýlega veggspjald á heilsustofnun. Þar stóð: „Eru þínar hendur hreinar“? Sögðum við ekki: „Ertu hreinn á höndunum“? Ævar Kjartansson efndi til fundar lista- manna og spakvitringa í Víðsjárþætti sínum nýverið. Þættinum lauk með því að allir lof- uðu alla. „Þetta var nú auma Njálan“ var haft eftir Sigurði skólameistara á sínum tíma. Málfar snillinganna var með þeim hætti að allir slettu slanguryrðum. Það var hræði- legt málfar. Svo kom Tinna Gunnlaugsdóttir og bætti við blaðrið sl. fimmtudag. Hún sagði „fluently“. Það er eins konar Þjóðleikhúsmál leikaranna. Móðurmálið ekki nógu fínt. Ævar kýs jafnan að taka sér í munn orðið „nost- algía“. Það beygist eins og sveitapía skv. reglu Vilmundar landlæknis. Þá ræða út- varpsmenn mjög um augna- og eyrnakon- fekt. Drottinn minn dýri. Hvílíkt líkingamál: Skáldlegt. Vilja þeir fá Nóalíkjörsflösku í augun á listsýningu? Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði nýlega í sjón- varpsviðtali: „Ég veit ekki á hvaða „level“ umræðurnar verða.“ Halldór Blöndal þing- forseti hefði átt að keyra forsetabjölluna í höfuð þingmannsins. Hjálmar var skólastjóri Fjölbrautaskóla Suðurnesja, brautskráður úr Fróðskaparsetri Færeyja og afkomandi séra Árna Þórarinssonar. Geir Magnússon, dóttursonur og nafni Geirs Zoëga útgerðarmanns, sendi mér bréf að vestan, þar sem hann víkur að málfari. Hann sendi úrklippur úr Morgunblaðinu. „Grenihekk sagað“ var ein fyrirsögnin. Þar vill Geir hafa limgerði. „Ósáttir við snuff- bann“ var önnur fyrirsögn. Þar vill Geir tala um neftóbak. Faðir Geirs var Magnús Joch- umsson póstmeistari. Hann innritaðist í Há- skólann sjötugur að aldri. Fór þá að læra finnsku. Átti áður þátt í revíum. Nefna má sem dæmi um hnignun málfars. Við sögðum áður á laugardaginn kemur. Einnig á mánudaginn var. Nú er sagt næsta laugardag og síðasta mánudag. Háskóla- hverfið hverfur í skugga bresks auðfélags. Seltjarnarnesið verður Shelltjarnarnes. Flóð- lýsing Háskólans hverfur í skuggann. Ljósa- dýrð „Select“-olíuhringsins ber Háskóla- hverfið ofurliði. Símsvari Háskóla Íslands setur ensku skör hærra en móðurmál og feðratungu. Ölgerðin Egill Skallagrímsson reisir Agli Skallagríms- syni níðstöng og syngur á ensku. Púkinn á fjósbitanum fitnar og ölknæpur draga ungmenni í svaðið en bókasöfn og fræðasetur harðlæsa dyrum og torvelda nám og fyrirlíta sjálfsnám, fróðleik og þekkingu. Vegur íslenskunnar Rasmus Rask. „Þú komst þegar Fróni reið allra mest á“ sagði Þorsteinn Erlingsson í ljóði sínu. Skriða. Þar bjó Þorlákur Hallgrímsson, ættfaðir Kjærnestedanna. Rasmus Rask heimsótti hann og dáðist að verkum hans. Páll Skúlason háskólarektor var kúarektor í Skriðu. Jóhann Jóns- son skáld og Halldór Kiljan Laxness. Ljósm./Hermóður Birgir Alfreðsson Vill Háskóli Íslands að Íslendingar verði „margarine“ í smjörbúi og þjóðlíki í stað þjóðar? Pétur Pétursson þulur

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.