Morgunblaðið - 01.09.2004, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 01.09.2004, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 MIÐVIKUDAGUR 1. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ ÓSNORTIÐ eldfjallalandslag og íslensk tunga er það sem er sænsku konungshjónunum of- arlega í huga í aðdraganda komu þeirra til Ís- lands en þau verða hér í opinberri heimsókn dagana 7. til 9. september nk. Konungurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að gæta jafn- vægis þegar nýta á náttúruna þannig að einnig sé hugað að því að vernda hana fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Þetta er þriðja opinbera heim- sókn Karls Gústafs Svíakonungs og önnur op- inbera heimsókn Silvíu drottningar til Íslands en þar fyrir utan hafa þau sótt landið heim í einkaerindum. „Okkur hefur fundist landið heillandi og þess vegna verður gaman að koma þangað aftur,“ segir konungurinn. „Við sjáum alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti og nú skilst mér að fjárhagur landsins hafi vænkast mikið á síðustu 25–30 árum. Það verður spennandi að kynna sér það.“ Að þessu sinni koma konungshjónin ásamt dóttur sinni og ríkisarfanum Viktoríu krón- prinsessu sem verður í sinni fyrstu opinberu heimsókn á Íslandi en það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem bauð þeim heim. Ekki er þörf á auknum öryggisráðstöfunum þó að konungurinn og ríkisarfinn séu saman á ferð að sögn konungs. „Við vonum að þið séuð friðsöm þjóð,“ segir hann kankvís. Aðgengi fyrir fatlaða er einna best á Íslandi Endanleg dagskrá heimsóknarinnar liggur ekki fyrir en m.a. stendur til að konungurinn komi við á loftslagsráðstefnu í Öskju, nýju náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands í Vatnsmýr- inni, heimsæki höfuðstöðvar Slysavarnafélags- ins Landsbjargar í Skógarhlíð og hlusti á nið- urstöður ráðstefnu um viðskipti Íslands og Svíþjóðar, sem haldin verður í Reykjavík í tengslum við heimsóknina. Drottningin heim- sækir m.a. Barnaspítala Hringsins, en hún hef- ur látið sér annt um velferð barna. „Ég hlakka mikið til að sjá Barnaspítalann,“ segir hún, „ekki síst fyrir þær sakir að ég veit að Íslend- ingar hafa gert mjög mikið til að fatlaðir kom- ist leiðar sinnar í samfélaginu. Ég var á ráð- stefnu á dögunum þar sem nokkrar höfuðborgir voru til umræðu í þessu tilliti og ég held að Ísland hafi verið einna fremst hvað þetta varðar. Þannig að það verður mjög spennandi að sjá hvernig þessu er háttað í spít- alanum.“ Meðal þeirra hagsmunamála barna sem drottningin hefur talað fyrir er að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn þeim. Hún segir einnig mikilvægt að Norðurlöndin beiti sér í sameiningu gegn mansali kvenna enda séu meiri líkur á að árangur náist í baráttunni sé það gert. Síðasti dagur heimsóknarinnar verður helg- aður Norðurlandi þar sem konungshjónin og krónprinsessan hyggjast heimsækja Mývatn og Akureyri. „Það verður spennandi að koma við í Háskólanum á Akureyri,“ segir konungur með áherslu. „Það er mjög athyglisvert og í raun stórkostlegt að það skuli hafa verið hægt að byggja upp fullgildan háskóla í svona litlu samfélagi.“ Hann verður ennþá hrifnari þegar hann heyrir um fjölda nemenda við skólann en þeir eru tæplega 1.600 talsins, og það er á hon- um að heyra að honum finnist það mikið miðað við íbúafjölda bæjarins. Hefði verið áhugavert að skoða virkjanasvæðið „Ég hef heyrt að margar sænskar konur séu giftar Íslendingum,“ segir drottningin þegar tengsl landanna ber á góma. Maður hennar bendir hins vegar á hin norrænu tengsl. „Mér finnst fyrst og fremst íslenska tungumálið tengja okkur því ég upplifi það sem hina forn- norrænu tungu. Þegar Kristján Eldjárn forseti var hér í heimsókn fyrir mörgum árum heim- sóttum við Bjarkey þar sem við Stokk- hólmsbúar segjum að upphaf borgarinnar sé að finna. Þarna var forsetinn, föðurafi minn og ég og við heilsuðum upp á gamlan þjóðminja- vörð sem talaði íslensku. Ég gleymi því aldrei að þegar Eldjárn talaði við þennan mann þá fékk ég gæsahúð því ég ímyndaði mér að svona hefði tungan okkar hljómað á fyrri öld- um.“ Hann hlær við minningunni. „Nú er ég enginn sérfræðingur en ég er alveg sann- færður um þetta. Og þarna eru tengsl sem ég finn afar sterkt fyrir.“ Drottningin tekur undir þetta og aðspurð segir hún afsakandi að þótt hún sé mikil mála- manneskja hafi hún aldrei reynt við íslensk- una. „Því miður hef ég ekki gert tilraun til þess.“ Hún vísar til upplestrar Vigdísar Finn- bogadóttur forseta úr Íslendingasögunum þegar hún var í heimsókn hjá konungshjón- unum fyrir nokkrum árum. „Það hljómaði stórkostlega fallega.“ Þegar hjónin eru spurð hvort þau eigi sér einhverja uppáhaldsstaði á Íslandi stendur ekki á svari. „Það myndu vera Þingvellir,“ segir konungurinn og kona hans tekur undir. „Það er stórkostlegur staður og sterk upplifun að vera þar,“ segir hún. Konungurinn nefnir náttúruna og söguna í því sambandi. Reyndar verður honum tíðrætt um íslenskt landslag, sem hann segir sérstakt að því leyti hversu upprunalegt það er. „Þegar þið hafið svona óspillt landslag eins og er á Íslandi eru margir sem vilja sjá til þess að það verði ekki eyðilagt eða því breytt svo hægt sé að nýta sér það við jarðrannsóknir. Sjálfur hef ég haft mikinn áhuga á að fylgjast með þróun á Surtsey þótt ég viti ekki hvað hefur gerst þar að undan- förnu. Það er einmitt þetta upprunalega lands- lag með eldfjöllum og jöklum sem er svo sterkt og ótrúlega spennandi.“ Aðspurður segist Karl Gústaf nýlega hafa frétt af virkjanaframkvæmdunum við Kára- hnjúka. „Mér skilst að þær hafi vakið miklar umræður á Íslandi,“ segir hann. „Því miður höfum við ekki tækifæri til að fara þangað að þessu sinni en það hefði verið mjög áhugavert. Það er mikilvægt að gæta jafnvægis á milli þess að nýta sér náttúruna til framþróunar og að vernda hana fyrir framtíðina – þar verðum við að reyna að gera okkar besta. Við verðum að vona og gera ráð fyrir að þarna hafi slíku jafnvægi verið náð. Vissulega er hægt að ræða hvort þörf sé á nýju álveri á Íslandi en þetta er niðurstaða stjórnmálamanna eftir miklar um- ræður og rannsóknir á því hvað sé gott þegar litið er til framtíðar.“ Stefna að laxveiði í íslenskri á Að opinberu heimsókninni lokinni hyggjast konungshjónin framlengja dvöl sína um einn dag, m.a. til að fá tækifæri til að renna fyrir lax í íslenskri á. Þau segja þetta mikið tilhlökk- unarefni enda íslensk laxveiði fræg um allan heim. „Það verður ánægjuleg tilbreyting að glíma við náttúruna á þann hátt,“ segir kon- ungurinn. „Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvernig maður ber sig að en mér skilst að þarna standi maður í miðjum fossi og veiði.“ Þetta er í fyrsta sinn sem konungurinn skorar á íslenska laxinn en hins vegar hefur hann far- ið á hreindýraveiðar á Íslandi. „Það er svo langt um liðið að ég man hreinlega ekki hvern- ig veiðin var,“ segir hann aðspurður um hvernig gekk. Tíminn í konungshöllinni líður hins vegar hratt enda hafa hinir eðalbornu gestgjafar þétta dagskrá sem þarf að sinna. M.a. er fram- undan kvöldverðarboð hjá íslensku sendi- herrahjónunum sem er liður í undirbúningi fyrir heimsóknina til eyju elds og ísa. Opinber heimsókn sænsku konungshjónanna og sænska ríkisarfans hefst í næstu viku Íslensk tunga tengir þjóðirnar Morgunblaðið/Bergþóra Njála Karl Gústaf Svíakonungur, Silvía drottning og Viktoría krónprinsessa heimsækja Ísland í næstu viku og ætla m.a. að renna fyrir laxi en eftirlætisstaður þeirra á Íslandi er Þingvellir. ben@mbl.is BJÖRN BJARNASON dómsmála- ráðherra hefur skipað starfshóp til að gera tillögur að innleiðingu líf- kenna í íslensk vegabréf í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Jafnframt er starfshópnum falið að semja tillögur um útgáfu kennivottorða fyrir ís- lenska ríkisborgara, sem jafnframt gætu nýst sem ferðaskilríki á Schengen-svæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá dóms- málaráðuneytinu. Varðandi vegabréf er starfshópn- um falið að taka mið af kröfum Bandaríkjamanna um lífkenni í vegabréf, tillögu framkvæmda- stjórnar Evrópusambandsins um samræmdar kröfur um lífkenni og fleiri öryggisatriði í vegabréf, gera tillögur um breytingar á gerð ís- lenskra vegabréfa, leggja mat á kostnað vegna breytinganna og vinna loks að endurnýjun á samningi við framleiðanda íslenskra vega- bréfa vegna framangreindra krafna. Starfshópnum er falið að afla ít- arlegra upplýsinga um kennivottorð samstarfsríkja Íslands í Schengen, gera tillögur um útlit og gerð slíkra kennivottorða og huga að nauðsyn- legum laga- og reglugerðabreyting- um af þessu tilefni. Í starfshópnum eru Georg Kr. Lárusson forstjóri Útlendingastofn- unar, sem jafnframt er formaður, Elín Vigdís Hallvarðsdóttir lögfræð- ingur í dómsmálaráðuneyti, Gná Guðjónsdóttir lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra, Jóhann Jóhannsson framkvæmdastjóri Út- lendingastofnunar og Skúli Guð- mundsson skrifstofustjóri á Hag- stofu Íslands. Starfshópnum er falið að skila tillögum sínum til ráðherra eigi síðar en 1. febrúar nk. Lífkenni í vegabréf kennivottorð borgara MERKINGAR við skurð í Eskihlíð voru ófullnægjandi á mánudagskvöld, að mati Borgarvaktarinnar, en þá urðu nokkrar skemmdir á bifreið sem ekið var ofan í skurðinn. Um hálftíma fyrr höfðu íbúar kvartað undan merk- ingum við skurðinn. Það var einnig gert á laugardag, samkvæmt upplýs- inum frá Borgarvaktinni. Grímur Þór Grétarsson verktaki hafnar því að merkingar hafi verið ófullnægjandi, svæðið sé merkt sem vinnusvæði og skurðurinn girtur af. Þá hafi tæki og tól verið fyrir skurð- inum. Ökumaðurinn hafi sveigt fram hjá vinnuvélunum og ekið upp á gang- stétt áður en hann ók ofan í skurðinn. „Við teljum að við höfum lokað skurð- inn af eins og best verði á kosið,“ segir hann. Grímur Þór segir talsverð brögð að því að merkingum sé stolið eða þær færðar til og varúðarborðar slitnir. Þetta stundi bæði fullorðnir og börn og sé erfitt við að eiga. Hann segir hugsanlegt að á mánudagskvöld hafi einhverjar merkingar fokið til. Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar í Reykja- vík, segir að yfirleitt séu merkingar vegna framkvæmda góðar. Stundum þurfi lögregla að gera athugasemdir og þá séu verktakar yfirleitt snöggir að bæta úr. Að öðrum kosti eru borg- arstarfsmenn kallaðir út til að lag- færa merkingar og reikningur síðan sendur á verktakann. Þá sé algengt að verktakar kvarti undan því að merkingar séu fjarlægðar sem sé að sjálfsögðu afleitt. Hann segir að skýrar reglur gildi um merkingar á vinnusvæðum og bendir á að fyrir nokkrum árum hafi verið gefinn út bæklingur með ítar- legum leiðbeiningum um hvernig vinnusvæði skulu merkt. Samkvæmt upplýsinum frá lög- reglu kom tilkynning um ófullnægj- andi merkingar við Eskihlíð klukkan 21.55. Lögreglumenn sem voru send- ir í Eskihlíð töldu að þó einhverjar merkingar væru á staðnum yrði að bæta þær. Því hafi verið hringt í Borgarvaktina og óskað eftir því að merkingarnar yrðu lagfærðar. Það tókst þó ekki í tæka tíð því klukkan 22.26 var bílnum ekið ofan í skurðinn. Kvörtuðu undan merk- ingum skömmu fyrir slys Merkingar við vinnusvæði oft fjarlægðar Bíllinn hafnaði ofan í skurði í Eskihlíð og telur Borgarvaktin ljóst að merk- ingar hafi verið ófullnægjandi en því hafnar verktakinn sem ber ábyrgðina. NÝSKRÁNINGAR bíla jukust um 18,4% fyrstu sjö mánuði ársins mið- að við sömu mánuði árið áður. Síð- astliðna tólf mánuði hefur nýskrán- ingum bíla fjölgað um 26,4% samanborið við tólf mánuði þar á undan. Þetta kemur fram í Hagvís- um Hagstofu Íslands. Fleiri vilja nýja bíla FYRSTU sjö mánuði ársins komu 402.879 farþegar til Keflavíkurflug- vallar en 332.884 höfðu komið sömu mánuði í fyrra. Þetta er 21,0% aukn- ing. Þetta kemur fram í Hagvísum Hagstofu Íslands. Síðustu tólf mánuði hafa komið 653.827 farþegar til Keflavíkurflug- vallar, en það er 21,1% aukning frá næstu 12 mánuðum þar á undan. Farþegum fjölgaði um 21% ♦♦♦ ♦♦♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.