Morgunblaðið - 01.09.2004, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 01.09.2004, Blaðsíða 20
ERLENT 20 MIÐVIKUDAGUR 1. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ Á rás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. sept- ember 2001 var efst í huga ræðumanna á fyrsta degi flokksþings bandarískra repúblikana á mánudag en þeir funda nú í New York. Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, flutti aðalræðu kvöldsins og gerði hann stríðið gegn hryðju- verkum að umtalsefni við góðar und- irtektir fulltrúa á þinginu. Ekki minni ánægju viðstaddra vöktu þó harðar árásir hans á frambjóðanda Demókrataflokksins í forsetakosn- ingunum í nóvember, John Kerry öldungadeildarþingmann. Giuliani var um það bil að ljúka ferli sínum sem borgarstjóri í New York þegar árásirnar á New York og Washington áttu sér stað í sept- ember 2001. Framganga hans þenn- an örlagaríka dag þótti aðdáun- arverð og mátti heyra á viðbrögðum viðstaddra í Madison Square Gard- en-íþróttahöllinni, þegar Giuliani var kynntur á svið, að hann er í hávegum hafður meðal repúblikana, ef ekki allra Bandaríkjamanna. Giuliani rifjaði upp að Bush Bandaríkjaforseti hefði heitið því að hryðjuverkamenn hvarvetna myndu fá að finna fyrir Bandaríkjunum eftir árásirnar 11. september. „Og það er enginn vafi á að þeir munu halda áfram að heyra í okkur á meðan George W. Bush er forseti,“ sagði hann. Var ekki að heyra á ávörpum sem flutt voru á mánudagskvöld að repúblikanar gerðu neinn greinar- mun á árásunum 11. september 2001 og innrás Bandaríkjanna í Írak í fyrra en sem kunnugt er hafa ekki fundist sannanir fyrir aðild Íraka að árásunum á Bandaríkin. Var ljóst af ræðum manna að repúblikanar styðja þá ákvörðun Bush Banda- ríkjaforseta heils hugar að ráðast á Írak. „Bush forseti gerði nákvæm- lega rétta hlutinn,“ sagði m.a. leik- arinn Ron Silver í ávarpi sínu. „Við munum aldrei gleyma [11. septem- ber]. Við munum aldrei fyrirgefa. Við munum aldrei sætta okkur við […] morðin á 2.605 nágrönnum mínum,“ sagði hann og hlaut harður tóninn í máli hans góðar undirtektir. Kerry sífellt að skipta um skoðun Rudy Giuliani fór háðulegum orð- um um John Kerry í ávarpi sínu. „Vissulega skipta kjörnir fulltrúar almennings stundum um skoðun eða átta sig á því að þeir hafa rangt fyrir sér,“ sagði hann. „En John Kerry hefur gert það að reglu að skipta um skoðun.“ Aftur á móti hefði Bush forseti sýnt aðdáunarverða staðfestu og hana þyrfti leiðtogi að hafa þegar við hryðjuverkamenn væri að etja. „Hann mun ekki leyfa hryðjuverka- mönnunum að ráða ferðinni. Með Bush sem forseta munu Bandaríkin stýra ferðinni en ekki aðeins bregð- ast við aðstæðum.“ Giuliani sagðist bera tilhlýðilega virðingu fyrir því að Kerry hefði þjónað ættjörð sinni vel. „En það er mikilvægt að sjá muninn á fram- göngu þessara manna. Bush forseti er leiðtogi sem er reiðubúinn til að fylgja eftir erfiðum ákvörðunum jafnvel þó að afstaða almennings breytist til og frá á meðan ferill Johns Kerrys gefur til kynna mann sem skiptir ítrekað um skoðun, jafn- vel þegar um mikilvægustu málefni er að ræða.“ Var Giuliani einnig harðorður í garð þjóða sem ekki sýndu þessa sömu staðfestu í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum og hann end- urtók umdeild ummæli sem Bush lét falla skömmu eftir árásirnar á Bandaríkin 2001: „Annaðhvort ertu með okkur í liði eða þú ert með hryðjuverkamönnunum í liði.“ McCain hófsamur í orðavali Augljóst var að Giuliani hafði tekið að sér það hlutverk á mánudagskvöld að taka keppinaut Bush um forseta- embættið til bæna. John McCain, öldungadeildarþingmaður frá Ariz- ona, nefndi Kerry aftur á móti ekki á nafn í sinni ræðu en þeir Kerry eru miklir vinir og hefur McCain mis- líkað þær persónulegu árásir sem gerðar hafa verið á demókratann í kosningabaráttunni. McCain fór hins vegar lofsamlegum orðum um Bush forseta, jafnvel þó að alkunna sé að lengi vel var afar stirt með þeim en þeir Bush og McCain kepptu um út- nefningu Repúblikanaflokksins fyrir fjórum árum. Varði McCain innrásina í Írak og sagði nauðsynlegt að reka harða ut- anríkisstefnu nú þegar Bandaríkin stæðu frammi fyrir þeirri miklu ógn sem af efna-, sýkla- og kjarn- orkuvopnum stafaði. Útilokað hefði verið annað en grípa til aðgerða og um það mættu Bandaríkjamenn ekki efast, jafnvel þó að ýmsir héldu öðru fram. Sagði McCain að Bush hefði eftir 11. september 2001 heitið óvinum Bandaríkjanna því að þeir myndu fá að finna til tevatnsins. „Og það fengu þeir. Það fengu þeir svo sannarlega.“ McCain mikilvægasti stuðningsmaður Bush? Dyggur stuðningur McCains við Bush forseta nú hefur vakið nokkurt umtal í bandarískum fjölmiðlum í ljósi fyrri samskipta þeirra. Segja fréttaskýrendur að Bush þurfi hins vegar bráðnauðsynlega á stuðningi McCains að halda í kosningabarátt- unni, eigi hann að tryggja sér stuðn- ing óákveðinna kjósenda. Skoð- anakannanir sýna að enginn bandarískur stjórnmálamaður er eins óumdeildur og McCain, en hann nýtur mikillar virðingar meðal al- mennings. Urðu viðstaddir berlega varir við þetta í Madison Square Garden á mánudag en McCain var þar hylltur mjög. Á móti segja fréttaskýrendur hugsanlegt að McCain, sem er 68 ára, sé að búa í haginn fyrir forseta- framboð eftir fjögur ár og því hafi hann viljað koma sér í mjúkinn hjá forystumönnum og flokksmönnum Repúblikanaflokksins. Sama er reyndar sagt um Giuliani, sem einnig átti um tíma stormasamt samband við Bush. Hvorugur þeirra Giuliani eða McCain hafa þó viljað svara spurningum um þessi efni síðustu dagana. McCain sagði í ræðu sinni að Bandaríkjamenn hefðu átt „stefnu- mót við örlögin“ eftir árásirnar 11. september. Og hann reyndi síðan, einn fárra fundarmanna á mánudag, að sýna fram á að demókratar og repúblikanar væru alls ekki óvinir í þeirri baráttu sem nú hefði verið efnt til heldur vinir sem vildu nálgast málin á ólíkan hátt. Hvorir tveggju væru Bandaríkjamenn og það skipti mestu. Hermenn hylltir Meðal ræðumanna á mánudag voru þrjár konur sem misstu ástvini í árásunum 11. september 2001. Stóðu orðin „11. september 2001“ á tjaldi fyrir aftan þær á sviðinu í Madison Square Garden þegar þær ræddu þann harmleik sem þær máttu upp- lifa og þær hetjudáðir sem ástvinir þeirra frömdu en yfirskrift kvöldsins var einmitt „hugrökk þjóð“. Mátti sjá marga þingfulltrúa tárast við að heyra sögu kvennanna þriggja. Tara Stackpole var ein kvennanna sem ræddu um afdrif ástmenna sinna 11. september en eiginmaður hennar, Timmy, var meðal slökkvi- liðsmannanna sem fórust í World Trade Center. „Ég er stolt af því að deila honum með ykkur. Rétt eins og ég er stolt af því að lána Bandaríkj- unum elsta son minn, Kevin, en hann heldur til Íraks með herdeild sinni í desember.“ Stóðu þingfulltrúar á fætur og klöppuðu lengi er þeir heyrðu þessi orð. Engin kvennanna lýsti beinlínis yfir stuðningi við Bush en sögur þeirra þóttu þó sterkt mótvægi við þá gagnrýni sem margir ættingja fórnarlamba árásanna hafa beint gegn stjórn Bush forseta. Aðrir telja hins vegar þá áherslu sem repúblik- anar leggja á 11. september 2001 á flokksþingi sínu engan veginn við hæfi. Íraki meðal ræðumanna Meðal annarra hápunkta kvöldsins var sú stund þegar Dick Cheney varaforseti og eiginkona hans, Lynne, gengu í salinn og settust meðal þingfulltrúa. Þá hlaut George Bush eldri, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, góðar viðtökur við- staddra. Loks vakti athygli ávarp Zainabs al-Suwaij sem er íraskur innflytjandi í Bandaríkjunum. Full- yrti hún að Írak stæði mun betur nú en fyrir innrás Bandaríkjamanna í landið í mars í fyrra. „Jú, vissulega er blóði ennþá úthellt og ástandið er ótryggt. En Bandaríkin, undir styrkri forystu Bush forseta, hafa gefið Írökum þá verðmætustu gjöf sem nokkur þjóð getur gefið annarri þjóð: lýðræði og frelsið til að ákveða sjálf framtíð sína,“ sagði hún. Bush sagður sá staðfasti leiðtogi sem Bandaríkin þurfa Flokksþing bandarískra repúblikana hófst í New York á mánudaginn. Davíð Logi Sigurðsson var í Madison Square Gard- en þegar þeir Rudy Giuliani og John McCain, aðalræðumenn á fyrsta degi flokksþingsins, stigu á stokk og ræddu um það hvers vegna Bandaríkjamenn ættu umfram allt að tryggja George W. Bush endurkjör sem forseta Bandaríkjanna. Reuters Rudy Giuliani flytur ávarp sitt undir risastórri tölvumynd af Frelsisstyttunni og fána Bandaríkjanna. ’Með Bush sem forsetamunu Bandaríkin stýra ferðinni en ekki aðeins bregðast við aðstæðum.‘ david@mbl.is KVIKMYNDAGERÐARMAÐURINN Michael Moore stal sen- unni eitt stundarkorn í Madison Square Garden-íþróttahöll- inni á mánudagskvöld en hann gekk í salinn um klukkan 21, skömmu áður en öldungadeildarþingmaðurinn John McCain flutti ávarp sitt. Er víst óhætt að segja að repúblikanar, sem nú halda flokksþing sitt í New York, fyrirlíti fáa menn jafn mikið og Moore – en eins og mynd hans Fahrenheit 911 sýnir er Moore ekki heldur neinn aðdáandi George W. Bush Banda- ríkjaforseta. Blaðamaður Morgunblaðsins gekk í flasið á Moore þar sem hann var um það bil að koma inn í fundarsalinn í Madison Square Garden. Mikil rekistefna var þá um það bil að hefjast en öryggisverðir höfðu þegar þarna var komið áttað sig á því hver var hér mættur til leiks og umkringdu þeir Moore skyndilega og ræddu við hann í því skyni að skoða skilríki hans áður en honum var hleypt alla leið í salinn. Var um- stangið svo mikið að halda mátti að Moore væri þungvopn- aður og stórhættulegur. Ekki var að sjá að þingfulltrúar hefðu veitt Moore athygli en óhætt er að segja að fjölmiðlafólk hafi gert það hins vegar – en sjálfur var Moore mættur sem dálkahöfundur fyrir blaðið USA Today og hafði hann skilríki sem slíkur. Það átti hins vegar eftir að koma á daginn að menn höfðu sannarlega tekið eftir kvikmyndagerðarmanninum umdeilda. Þegar John McCain vísaði til Moore án þess að nefna hann á nafn – og ekki er ljóst hvort McCain vissi að Moore var staddur í húsinu því ummælin hafði McCain útbúin fyrirfram – fauk nánast þakið af Madison Square Garden þegar repúblikanar, allir sem einn, snéru sér í átt að þeim stað þar sem Moore sat og púuðu sem mest þeir máttu á hann. Sungu þeir síðan „fjögur ár í viðbót“ en Moore virtist líka óskipt athyglin og spennan í andrúmsloftinu og veifaði hann tveimur fingrum að salnum og gaf þannig til kynna að hann teldi að George W. Bush sæti aðeins tvo mánuði í viðbót sem forseti. Ekki löngu síðar yfir- gaf hann samkunduna í fylgd hátt í 20 öryggisvarða og létu fundarmenn hann þá á ný fá það óþvegið. Michael Moore stal senunni Morgunblaðið/Davíð Logi Michael Moore gengur inn í fundarsalinn í Madison Square Garden. Öryggisverðir hafa umkringt hann en koma hans vakti takmarkaða hrifningu viðstaddra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.