Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 13.09.2003, Blaðsíða 18
m18 VILTU GLAS AF ZWEIGELT? Austurríki er þekktast fyrir hvítvín en á síðustu árum hefur mesta þróunin verið í rauðvínsgerð, ekki síst vegna þess að Austurríkismenn sjálfir drekka stöðugt meira af rauðvíni. Rauðvín eru framleidd í nær öllum víngerðarsvæðum Austurríkis en hjarta rauðvínsframleiðslunnar er í Burgenland suður af Vín. Rauðvín úr þrúgunum Zweigelt, St. Laurent og Blaufränkisch eru oft glettilega góð. Blaufränkisch minnir svolítið á Cabernet Sauvignon í stílnum, er stór, hörð og tannísk. St. Laurent minnir hins vegar meira á Pinot Noir og unir sér vel við svipaðar aðstæður. Zweigelt er hins vegar blendingur úr tveimur fyrrnefndu þrúgunum sem búinn var til af prófessornum Fritz Zweigelt árið 1922. Er Zweigelt nú útbreiddasta rauðvínsþrúga Austurríkis. Hún er stundum borin saman við Merlot, er mjúk og ein- kennist af miklum kirsuberjaávexti. Inni á milli má jafnvel finna rautt vín úr Bordeaux-þrúgunum klass- ísku Cabernet Sauvignon og Merlot og öðrum frönskum þrúgum á borð við Syrah og Pinot Noir. Rétt eins og með hvítu vínin eru það hins vegar austurrísku þrúgurnar sem alla jafna gefa af sér bestu vínin. Öflugustu rauðvínstegundirnar koma yfirleitt frá Mittel- og Südburgenland. Austurrísku rauðvínin eru enn sem komið er ekki í sama klassa og hvítvínin en þau gætu orðið það miðað við þá hröðu þróun sem er í gangi. Sumir austurrískir sérfræðingar spá því jafnvel að Austurríki verði smám saman að rauðvíns- framleiðsluríki, ekki síst ef hitastig heldur áfram að hækka líkt og síðustu ár. Þeir viður- kenna að Austurríki eigi ekki möguleika að keppa við bestu rauðvín veraldar enn sem kom- ið er en vona að sú verði raunin eftir tuttugu ár eða svo. Z w ei ge lt au st ur rí ki SAUVIGNON FRÁ STEIERMARK Syðsta víngerðarhérað Austurríkis og eitt hið fegursta (ásamt Wachau) er loks Steiermark, sem skiptist í þrjú undirsvæði, Weststeiermark, Südsteiermark og Südoststeiermark. Þaðan kemur að mínu mati besti matur Austurríkis og sömuleiðis mörg af bestu vínunum. Stór og öflug vín, jafnt hvít sem rauð. Hvítu þrúgurnar Sauvignon Blanc, Muskateller og Welschriesling eru algengar, ferskar og sýrumiklar og ekki síst ættu menn að gefa Sauvignon Blanc frá Steiermark tækifæri, rekist þeir á slík vín. Sauvignon frá framleiðendum á borð við Gross, Wohlmut, Ploder og að ég minnist nú ekki á Skoff eru vín í heimsklassa. Í nýlegri Steiermark-smökkun stóðu vín þess síðastnefnda upp úr hvað hvítvínin varðaði. Aflið og breiddin í vínunum þvílíkt, ekki síst í Sauvignon Blanc Hochsulz 2002, að ég hef varla kynnst öðru eins. Það vín var raunar slíkt tryllitæki (áfengismagnið 16%) að maður veit ekki alveg við hvaða tækifæri það gæti passað. Þrúgan Chardonnay er einnig algeng í Steiermark og gengur þar alla jafna undir nafninu Morillon. Vín úr henni eru yfirleitt ágæt en það á við í Steiermark sem í öðrum austurrískum héruðum að hún á ekki séns í heimamennina. Manni finnst eiginlega synd að vínræktendur skuli vera að eyða orku og landi í að rækta Chardonnay í staðinn fyrir Riesling og Sauvignon. En væntanlega er það gert að kröfu markaðarins. Rauðvín eru einnig ræktuð með góðum árangri í Steiermark og minna að mörgu leyti á ítölsk vín (enda ekki langt að ítölsku landamærunum). Nokkur þeirra koma manni verulega á óvart, ekki síst vín úr þrúgunni Blauer Wildbacher frá Weststeiermark.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.