Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Qupperneq 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. febrúar 2005
H
vað er sannleikur? Eins og margir vita velti
Pontíus Pílatus þessari spurningu fyrir sér þar
sem hann stóð frammi fyrir tiltölulega ein-
faldri og sjálfsagt (í hans augum) hversdags-
legri ákvörðun sem þó átti eftir að reynast af-
drifarík. Hvorn átti hann að láta lausan,
Barrabas eða Jesú frá Nasaret? Hvorn átti hann að senda á
krossinn? Barrabas var alkunnur sakamaður og ekki þurfti að
velkjast í vafa um sekt hans ef marka má guðspjöllin. En hvað
með hinn bandingjann? Hvað hafði hann til saka
unnið? Hann segist vera konungur gyðinga,
sögðu ákærendur hans: hann segist vera kon-
ungur okkar. Og hann leiðir okkur afvega.
Pílatus var tregur til en hafði nokkurn áhuga á því að vita
hvort sakamaðurinn liti sannarlega á sjálfan sig sem konung.
Með öðrum orðum vildi ráðamaðurinn rómverski komast að því
hvort ríkinu stafaði ógn af þessum einkennilega manni. Kristur
svarar: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og
til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.
Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ Þetta afdrátt-
arlausa svar, sem þó er ekki laust við margræðni, vakti engin
önnur viðbrögð hjá Pílatusi en hina sígildu spurningu: „Hvað er
sannleikur?“ Maður sér fyrir sér að hann hafi yppt öxlum og
grett sig um leið og hann mælti þessi orð – eða jafnvel fórnað
höndum í uppgerðar-örvæntingu.
Framhaldið er vel þekkt. Pílatus gekk út og sagði ákærend-
unum að hann fyndi enga sök hjá þessum manni. En að lokum lét
hann undan þrábeiðni þegna sinna. Barrabas var látinn laus og
Jesús frá Nasaret negldur á krossinn. Og Pílatus þvoði hendur
sínar.
Sannleikurinn – hvar? og hvenær?
Spurning Pílatusar er merkileg skepna. Hún virðist í senn allt að
því skammarlega fáfengileg og gríðarlega djúp. Skoðum mynd-
ina nánar: þarna eru þeir, hvor andspænis öðrum, Jesús og Pílat-
us, sá fyrrnefndi sjálfsagt uppréttur og hlekkjaður, í rifnum
klæðum, marinn og sár, en sá síðarnefndi sitjandi í rómversku
öndvegi, eflaust íklæddur fatnaði valdsmannsins og ríkidæm-
isins; og á að ráða því, hvort sá fyrrnefndi eigi aftur að sjá sólina
rísa að morgni.
Í fyrstu er Kristur þögull og svarar engu spurningum hins háa
herra. Að lokum leysir hann þó frá skjóðunni: já, ég er konungur,
já, ég er sannleikurinn. Og þá er eins og Pílatus geri hlé á verald-
legum áhyggjuefnum sínum – þessum hversdagslegu aðstæðum,
augliti til auglitis við samferðamann sinn sem hann hefur að vísu
aldrei áður hitt, andspænis honum, á þessum tiltekna stað og
tíma í sögu mannkyns – og horfist í augu við hyldýpisgátur tilver-
unnar sjálfrar. Sannleikurinn, já – ertu að segja satt? Og hvað er
ég þá, vesæll maðurinn? En jafnframt er engu líkara en hann vilji
gera gys að öllu saman, og þó sérstaklega að viðmælanda sínum:
þú segist til þess fæddur að bera sannleikanum vitni, en hver er
hann svo sem, þessi sannleikur þinn? Þarf það nauðsynlega að
vera minn sannleikur? Má ég ekki bara hafa minn sannleika í
friði? Og hvað er „að bera sannleikanum vitni“ – annað en að
halda fram sínum málstað á kostnað annarra?
Undir niðri býr ef til vill eftirfarandi hugsun: sannleikurinn er
lítils verður andspænis valdinu. Sannleikurinn er innantómt orð
sem menn geta leyft sér að kvaka um og flíka á samkomum og
þingum, en hvað varðar mig, valdsmanninn, um hann: þegar til á
að taka og stund ákvörðunarinnar rennur upp, þá skiptir sann-
leikurinn mig engu, ekki fremur en aðrar háleitar hugsjónir; þá
stend ég einn úti á eyðimörk viljans og veit það eitt að ákvörðun
mín mun standa, hversu umdeild sem hún kann að reynast. Er
sannleikurinn á mínu færi? Ekki veit ég það, en hitt veit ég að
það er mitt að taka ákvörðun, undan því verður ekki komist; og
allt orkar tvímælis þá gert er. Það sem máli skiptir er að spyrja
að leikslokum og hengja sig ekki um of í það sem gert hefur ver-
ið, heldur horfa til framtíðarinnar – því að hún mun leiða í ljós að
ég hafði rétt fyrir mér frá upphafi. Tíminn einn getur svipt hul-
unni af raunverulegri merkingu ákvörðunar minnar, þeirri
merkingu sem henni var alla tíð ætlað að hafa. Og þar verður
hann þá lifandi kominn – þessi sannleikur sem ykkur er svo um-
hugað um.
Sviptingar. Af gæsalöppum
Löngu fyrir daga Pílatusar höfðu merkir heimspekingar tekist á
við spurninguna um sannleikann, og er skemmst frá því að segja
– svo farið sé leifturhratt yfir sögu – að glímu þeirri er hvergi
nærri lokið. Frægust, þrautreyndust og þar af leiðandi sígildust
skilgreininga á sannleikanum er sú sem Aristóteles setti fram á
fjórðu öld fyrir Krist: að segja um það sem er, að það sé, er satt.
Á síðustu áratugum hafa bollaleggingar spekinga náð svo langt
að útfæra skilgreiningu Aristótelesar á þann veg að halda því
fram að sannleikurinn sé fólginn í samsvörun þess sem sagt er
við það sem er – eða, með örlítið myndrænna orðalagi, að sann-
leikurinn búi í þeirri aðgerð að svipta setningar gæsalöppum.
„Snjór er hvítur“ ef snjór sé hvítur, segja menn; eða, nánar sagt,
setningin „snjór er hvítur“ er sönn ef og aðeins ef það er sann-
arlega tilfellið að snjór sé hvítur. Er snjór hvítur? Já, að minnsta
kosti sá sem ég sé fyrir utan gluggann minn, á þessu augnabliki;
setningin „snjór er hvítur“ er þá sönn. Jónas Hallgrímsson var
sannarlega þessarar skoðunar eins og velþekkt (og kynngimögn-
uð) hending úr ljóði hans Alsnjóa ber vitni um: „Dauðinn er
hreinn og hvítur er snjór.“ Útlærður merkingarfræðingur ætti
að vísu erfitt með að taka á fyrri hluta þessarar tvöföldu staðhæf-
ingar; hann tæki eflaust svo til orða að seinni staðhæfingin sé
jafnljós og sú fyrri er myrk. Jafnvel mætti dæma fyrri yrðinguna
öldungis fráleita merkingarleysu. En gæti hún ekki þar fyrir ver-
ið sönn? Hver veit? Er dauðinn hreinn... eða er hann kannski
óhreinn? Til hvers gætum við vísað til að skera úr um það? Varla
til reynslunnar, því að enginn hefur beina reynslu af dauðanum –
það er að segja, enginn þeirra sem við, sem dveljumst héðra,
gætum hugsanlega haft samskipti við. (Látum miðilsfundi liggja
milli hluta hér!) Reynsla okkar af dauðanum er alltaf reynsla af
dauða annarra. Það er alltaf hinn sem deyr – enda þótt Steinn
Steinarr hafi séð ástæðu til að spyrja sig, þar sem hann stóð við
leiði vinar síns í gamla kirkjugarðinum, „hvort er ég heldur hann,
sem eftir lifir, / eða hinn, sem dó?“. Merkingarfræðingurinn okk-
ar ætti ekki í vandræðum með að svara þessari spurningu Steins
í eitt skipti fyrir öll: auðvitað ertu sá sem eftir lifir, annars hefð-
irðu ekki getað skrifað þetta! Sá sem talar, sá sem skrifar er allt-
af lifandi. En bíðum samt við – því hérna virðist vera maðkur í
mysunni. Er ekki sannleikurinn sá, sannleikur okkar hér og nú,
að Steinn er jafndauður og „hinn sem dó“? Því fer fjarri að sá
sem skrifar eða talar sé alltaf lifandi! En hann er kannski ekki
heldur alveg dauður: eftirlifandi, ef til vill, lifir hér á meðal okkar,
í orðum sínum. Lifandi/dauður. Það er engu líkara en spurningin
um sannleika þess sem skrifað stendur verði einmitt ekki svarað
í eitt skipti fyrir öll.
Sannleikurinn – okkar á milli
Hvað eigum við þá að halda um sannleikann? Skiptir hann máli?
Skiptir hann okkur máli? Skiptir það okkur (til dæmis) máli að
valdhafarnir, þeir sem véla um í samfélaginu, til dæmis í stjórn-
arráðum, á þingum og í fjölmiðlum, viti hver sannleikurinn er –
og skiptir það máli að þeir láti okkur vita hver sannleikurinn er?
Ljóðlína Jónasar færir okkur heim sanninn um það, í einni hend-
ingu, að sannleikurinn er ekki jafneinfaldur og hann virtist í
fyrstu. Réttara sagt: sannleikurinn virðist vera í senn einfaldur
og flókinn, ýmist á okkar færi („snjór er hvítur“) eða okkur of-
vaxinn („dauðinn er hreinn“). Fær þessi mótsagnarkennda af-
staða til sannleikans staðist? Þorsteinn Gylfason heimspekingur
er alkunnur innan fræðanna fyrir vægðarlausa gagnrýni á hvers
kyns tvöfeldni um sannleikann. Sannleikurinn er aðeins einn,
segir Þorsteinn. Hann er það sem við kennum börnum að segja
og það sem við viljum að standi í fréttablöðum og kennslubókum.
Braust þú rúðuna, Nonni litli? Sannleikurinn er einfaldur, já eða
nei. En hver verða þá örlög spurninga af taginu „er dauðinn
hreinn?“ – eða, svo tekin séu skýrari og eflaust kunnuglegri
dæmi sem þó eru af sama toga: Er einhvers konar líf eftir dauð-
ann? Er Guð til? Er Guð múslima sá sami og Guð kristinna – eða
er aðeins annar þeirra til og hinn ekkert annað en skurðgoð?
Svarið við þessum spurningum er, ef marka má skilgreiningu
Þorsteins á sannleikanum, eins einfalt og hugsast getur: ann-
aðhvort já eða nei, og ekkert þar á milli.
En er þar með öll sagan sögð? Er málið leyst svo viðunandi sé?
Það er engu líkara en vandinn snúi aftur; því að hann er einmitt
fólginn í því að við, hér og nú, æskjum svara. Vandinn er með
öðrum orðum sá að svarið liggur ekki fyrir. Það er ekki á okkar
færi – að minnsta kosti ekki enn. Það býr í framtíðinni og vænt-
anlega mun það einhvern tímann koma í ljós: um leið og við höf-
um yfir að ráða þeim aðferðum og tólum sem þarf til að svipta af
því hulunni. Með öðrum orðum er svarinu slegið á frest – en ekki
er þar með sagt að við getum látið hjá líða að taka afstöðu.
Spurningin sækir á okkur hér og nú – og hún kallar á ákvörðun
af okkar hálfu; hún kallar á að við tökum afstöðu. En á hverju
eigum við að byggja og við hvað eigum við að miða? Við viljum
svara rétt, í samræmi við það sem er – við viljum að svar okkar
verði sannleikanum samkvæmt... en jafnframt verðum við að við-
urkenna að við stöndum uppi ráðalaus og svo gott sem allslaus.
Við erum í klípu – milli spurningar og svars, milli þarfar og svöl-
unar, milli ákalls sannleikans og uppfyllingar hans.
Staðið í fætur
Hvort er sannleikurinn einfaldur eða flókinn? Stundum er hann
eitt, stundum er hann annað. Alkunna er, og óþarfi að tönnlast á
því, að „við lifum í upplýsingaþjóðfélagi“. Sannleikurinn í þeirri
staðhæfingu stendur sjálfsagt í nánum tengslum við þá skoðun
að stöðugt sé verið að miðla til okkar upplýsingum um eitt og
annað: hinir ýmsu og ólíku miðlar beina til okkar, hvers og eins,
látlausum straumi af orðum, táknum og myndum sem hafa það
meginhlutverk að greina okkur frá ýmsu sem gerst hefur, nær
og fjær, fyrr og síðar. Eins og skilgreining Þorsteins Gylfasonar
ber með sér er auðvitað til þess ætlast að upplýsingar þessar séu
sannar. Sé sagt frá því að 53 hafi látist í lestarslysi í London er
hugmyndin sú að sannarlega hafi 53 manneskjur týnt lífi í slíku
slysi á þeim stað og tíma sem greint er frá. Þarna er sannleik-
urinn einfaldur og blátt áfram. En málið tekur að vandast, á svip-
aðan hátt og ljóðlína Jónasar, þegar lesið er lengra – því að eins
og allir vita einskorða upplýsingamiðlar nútímans sig ekki við að
miðla óyggjandi sannindum. Stór hluti upplýsinganna miðast til
dæmis ekki við það að lýsa því sem gerst hefur, heldur því sem
talið er að hafi gerst – eða jafnvel því sem talið er að kunni að
gerast: að þetta og hitt verði rætt á þessum fundi, að gripið verði
til þessara aðgerða hér, að þetta og hitt muni hafa tilteknar af-
leiðingar, o.s.frv. Upplýsingarnar sem miðlað er til okkar vísa
semsé ekki allar til fortíðarinnar, heldur fela sumar þeirra í sér
skírskotun til framtíðarinnar; í stað þess að staðhæfa að eitthvað
hafi gerst felst í þeim sú skoðun að eitthvað muni gerast. Með
öðrum orðum: tíminn mun leiða í ljós að fréttin sem um er rætt
mun reynast sönn – ef allt fer eins og ætlað er.
Sannleikurinn er það sem við viljum að standi í kennslubókum
og fréttablöðum, segir Þorsteinn. En hvernig getum við nokkurn
tímann verið viss um að þessum vilja okkar sé fullnægt? Að það
sem við lesum í blaðinu sé satt og rétt? Hvernig getum við – á
þessum síðustu og verstu tímum, og fyrr og síðar – útilokað að
annarlegir hagsmunir hafi komið til og valdið því að orðin sem
fyrir okkur eru borin séu ekki (nægilega) sannleikanum sam-
kvæm? Rétt eins og sannleikurinn ætti að vera einfaldur, en virð-
ist í raun, þar sem við stöndum, vera æði flókinn, þá ætti lygin
auðvitað að vera einföld og auðþekkjanleg en reynist hins vegar
vera býsna slungin. Og sjaldnast höfum við sjálf, einmitt vegna
þess að við erum þiggjendur í heimi fjölmiðlanna, þau gögn við
höndina sem þyrfti til að skera á óyggjandi hátt úr um það, hvað
sé satt og hvað sé lygi. Enn og aftur erum við eins og klemmd á
milli skips og bryggju, steins og sleggju, stafs og hurðar. Hvorki
inni né úti. Vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga. Vitum
ekki hvar við stöndum.
Slegið úr og í
En einhvers staðar verðum við að standa og einhverju verðum
við að trúa – er það ekki hlutverk okkar sem borgara í lýðræð-
isríki að mynda okkur skoðanir og taka virkan þátt í þjóðlífinu á
grundvelli þeirra? Rétt eins og Pílatus forðum erum við undir
þrýstingi, það er beðið eftir okkur, við verðum að hlaupa, og þó
að sjálfur boðberi sannleikans – holdtekja hans! – standi and-
spænis okkur þá höfum við einfaldlega ekki tíma til að taka hann
alvarlega. Eins og Pílatus virðumst við dæmd til að spyrja: Hvað
er sannleikur? Hvers vegna ætti ég að trúa þér frekar en öðrum?
... og að því búnu er tíminn úti, við verðum að hrökkva eða
stökkva, enginn tími til að fara í saumana á neinu. Engu að síður,
og þrátt fyrir allt, hljótum við að halda í einhvers konar hugmynd
um sannleikann – eða, réttara sagt, í einhvers konar sannleika,
einhvern milliliðalausan og áreiðanlega einfaldan sannleika sem
er í kjarna sínum ekkert annað en trúin á það að hægt sé að segja
satt og rétt frá því sem gerst hefur. Hvernig bar það til að Íslend-
ingar lýstu yfir stuðningi við árásina á Írak? Hverjir áttu þar hlut
að máli? Hver bað hvern um hvað, hver átti hugmyndina, hverjir
tóku hana upp á sína arma, hverjir andmæltu henni? Hvenær var
þessi hugmynd rædd og meðal hverra? Hverjir bera ábyrgðina á
því að Ísland lenti á lista yfir þær (vígfúsu) þjóðir sem studdu
innrásina? Þessar spurningar kalla ekki á flókin og margþætt
svör með miklum bollaleggingum og aðdróttunum um annarlega
hagsmuni, ómálefnalegan málatilbúnað eða illa orðaðar spurn-
ingar; þær eru ekki af taginu „er dauðinn hreinn?“. Þær biðja um
hrein og bein svör: einfalda lýsingu, í sem allra fæstum orðum, á
því sem gerðist. Hitt er svo annað mál að spurningarnar sem
óhjákvæmilega fljóta með – eru Íslendingar friðelskandi þjóð?
Vilja þeir vera það? Er öllu fórnandi fyrir „öryggishagsmuni Ís-
lendinga“, meira að segja hugmyndinni um Ísland sem einhvers
konar (smáan en metnaðarfullan) málsvara friðar í alþjóða-
málum? –, þessar spurningar krefjast ekki einfaldra svara heldur
opinnar og skapandi umræðu sem að endingu vísar til framtíð-
arinnar. Sannleikurinn sem þessi síðari flokkur spurninga snýst
um er ekki af tagi þess sem er búið og gert. Svarið við þeim ligg-
ur ekki endanlega fyrir hér og nú, en það er einmitt þess vegna
sem þessar spurningar eru okkur ætlaðar. Ætlaðar til umræðu
hér og nú – og, í vöntun á sannleikanum sjálfum í áþreifanlegri
og eilífri mynd, til lýðræðislegrar ákvarðanatöku sem hlýtur að
miðast við það sem við viljum að muni reynast satt: sannleik-
urinn um okkur og ráðamenn okkar, um ákvarðanir þeirra í okk-
ar nafni. Stund ákvörðunarinnar er ráðamannsins. Mestu skiptir
að hann sitji ekki einn að framtíðinni.
Orðaskipti Krists og Pílatusar um sannleikann er að finna í Jóhannesarguðspjalli
(18:37). Ljóðlína Jónasar Hallgrímssonar er hér tilfærð að hætti Svövu Jakobsdóttur,
sjá rökstuðning hennar í greininni „Ljós og litir í Alsnjóa“, Skyggnst á bak við ský
(Forlagið 1999), s. 277-280. Skilgreining Þorsteins Gylfasonar á sannleikanum
stendur til dæmis í grein hans „Sannleikur“, í Andri Steinþór Björnsson o.fl. (ritstj.),
Er vit í vísindum? (Háskólaútgáfan 1996), s. 154.
Stríðið um sannleikann
Hvað er satt og hvað er ósatt? Er sannleikurinn einfaldur eða
flókinn? Hvenær má halda því fram að allur sannleikurinn sé
kominn fram? Er sannleikurinn yfirhöfuð á okkar færi? Hér
er leitað svara við ýmsum spurningum um sannleikann –
sannleikann um stríðið og stríðið um sannleikann – í fylgd
ýmissa fróðra og frægra manna.
Eftir Björn
Þorsteinsson
bjorntho@hi.is
Reuters
Sannleikurinn, eða hvað? „Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór.“