Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Page 4

Lesbók Morgunblaðsins - 17.09.2005, Page 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 17. september 2005 K ari Hotakainen er ekki í fyrsta skipti hér á landi. Hann kom hingað í brúðkaupsferð árið 1983 – „svo mínar minningar frá þeirri ferð eru alls ekki venjulegar túristaminningar – ég á mér mjög ljúfar minningar frá þeirri reisu. Ís- lenskt loftslag hentar mér mjög vel – ég hef átt við húðvandamál að stríða alla ævi, ég verð mjög slæmur í húð- inni ef birta er ónóg og ef ég dvelst þar sem loft er mengað. Þegar ég var hér í brúðkaupsferðinni gleymdi ég að taka með mér áburð sem ég verð að nota daglega, en þessa daga sem ég dvaldi hérna þurfti ég ekkert á honum að halda. Sömu sögu er að segja núna – þegar ég kom hingað voru hendur mínar í mjög slæmu ástandi, en eftir aðeins nokkra daga eru þær orðnar mjög góðar – hið íslenska loftslag og vatn hentar mér mjög vel – þyrfti bara að lækka verð á flugi frá Finnlandi hingað og uppihaldi svo maður gæti komið oftar. Skoðun mín á Íslandi er sem sagt byggð á læknisfræðilegum ástæðum. Ef húð mín fengi að ráða þá byggi ég örugglega hérna.“ Alltaf viðfangsefnið sem velur formið Hotakainen er mjög fjölhæfur og afkastamikill rithöfundur, hann hefur m.a. skrifað ljóðabækur, barnabækur, skáldsögur, barnaleikrit, handrit að sjónvarpsþáttum og hefur nýlokið gerð handrits að leikriti. Ég spyr hvort það sé takmarkið að prófa sem flest. „Já mig langar til að prófa allar hliðar skáldskapar þótt mér hafi alls ekki tekist vel með allt sem ég hefi reynt. Árið 1995 þegar ég tók þessa stóru ákvörðun lífs míns að gerast rithöfundur og hætta ann- arri vinnu þá bjó ég mér til veggspjald sem á stóð: Kari, skrif- aðu mikið og af öllum gerðum, en skrifaðu aldrei líbrettu fyrir óperu. Það er nokkuð sem ég held að mér sé ómögulegt. Næst- um allt annað er mögulegt. Ég hef trú á að maður haldist fersk- ur ef maður prófar sem flest, því mistök gera mann að mann- eskju. Nú, ef manni tekst illa til með eitthvert formið þá þarf maður ekki að halda áfram á sömu braut og getur reynt eitt- hvað annað. Ég tel það mjög mikilvægt sem rithöfundur að það sem ég skrifa sé af mismunandi toga – að maður sé ekki alltaf að gera það sama. Það er leiðindalíf ef maður er alltaf að skrifa sömu bókina aftur og aftur. Það er mér eðlilegt að skipta um viðfangsefni, ég er ekkert að pæla í því að nú þurfi ég að skipta og gera eitthvað annað – það er alltaf viðfangsefnið sem velur formið.“ Skotgrafarvegur var ekki saga um hús Hvaðan kemur viðfangsefni bókarinnar Skotgrafarvegar, sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu? „Ég vildi sýna fram á út í hvaða ógöngur ósköp venjuleg manneskja getur álpast ef hún er haldin mikilli örvæntingu. Það er engin tilviljun að ég hef valið henni nafnið Matti Virt- anen – það er eitt venjulegasta nafn í Finnlandi. Í kvikmyndum og bókmenntum er mikið um öfgapersónur sem undir áhrifum eiturlyfja eða áfengis gera eitthvað óafturkallanlegt – mér finnst það ekki áhugavert. Mér finnst mun áhugaverðara það sem á sér stað þegar venjuleg manneskja fer t.d. allt í einu að óttast hjónaskilnað. Skotgrafarvegur var ekki saga um hús í mínum huga. Húsið er metafóra, líking fyrir samkennd, ein- semd, fjölskyldu, hamingju. Húsið er mikilvægt vegna hústeg- undarinnar – svokallað hermannahús – og það tengir okkur í Finnlandi við seinni heimsstyrjöldina. Húsið er aðeins fjalls- toppurinn, fjallið samanstendur af tilfinningum eins og ein- manaleika, sársauka, ást, vonleysi. Kaup á húsinu er aukaatriði. Svoleiðis hugsaði ég það, en rithöfundur er undarleg vera, hann getur ekki farið og bankað upp á hjá lesandanum og sagt: „Þú átt að lesa þessa bók svona, ég skrifaði hana svona og þannig átt þú að túlka hana.“ Þess vegna er skáldskapur svo frábært list- form, því fyrst gerist eitthvað í hausnum á mér og svo gerist eitthvað allt annað í haus lesandans.“ Ekki ætlunin að reita neinn til reiði Matti Virtanen er mikill hlaupagarpur og hann notar púlsmæli til að fylgjast bæði með líkamlegu og andlegu ástandi sínu. Ég spyr hvort Hotakainen sé að vísa til erfiðleika karlmanna við að skynja eigin tilfinningar, hvort þeir þurfi mæli sem segir þeim hvernig þeim líði. „Já meðal annars og það er mjög sorglegt. Sjálfur komst ég að því að hægt er að lesa andlegt ástand af púlsmæli þegar ég notaði hann heima við. Ég setti hann á mig við venjulegar heim- ilisaðstæður, ég fylgdist með honum þegar ég var að elda og ryksuga, ég athugaði púlsinn þegar dætur mínar voru að rífast – púlsinn reis um leið, þótt ég væri ekki einu sinni þátttakandi í rifrildinu. Þegar ég reifst við konuna mína rauk púlsinn upp í 167. Ég hugsaði með mér að það væri góð hugmynd að nota þetta í sögunni. Púlsmælirinn sýnir okkur að hugur Matta sé við það að gefa sig, að hann sé að breytist í eitthvað hræðilegt skrímsli. Því betra sem líkamlegt ástand Matta verður því verra verður andlegt ástand hans.“ Þegar Hotakainen er spurður út í samanburð sem hann gerir í bókinni á heimavallarmanni og vígstöðvamanni segir hann að það megi kannski segja að hann hafi gerst metnaðarfullur, sem ekki sé alltaf gott fyrir rithöfunda. „Mig langaði til að gera samantekt á þróun karlmannsins og fjölskyldunnar eftir seinni heimsstyrjöldina. Mín kynslóð er sú fyrsta þar sem karlmaðurinn er með í jafnréttisbaráttunni af heilum hug, en Matti Virtanen hefur tekið þann dapurlega út- gangspunkt að gera heimilistörfin að lífsspursmáli. Ég hef fengið sterk viðbrögð frá lesendum við þessu. Það eru margir karlmenn í Finnlandi sem líður alls ekki vel í þessu hlutverki og þeir hafa auðvitað túlkað bókina á sinn hátt. En það var alls ekki ætlunin að reita neinn til reiði með bókinni.“ Klisjukenndar karlmannsímyndir Þú tekur sterka afstöðu til klisjukenndrar karlmannsímyndar – til þess hóps karlmanna sem fjölmiðlarnir dýrka eins og segir í bókinni: „Þeim sem stunda fjallgöngur, klifur, flúðasiglingar, þeim sem þramma í sköflum og selja styrktaraðilum þessa karl- mannsímynd og koma svo fram í sjónvarpi með merki þeirra límd á afturendann og segja frá sínum stórfenglegu ævintýrum, þessir mömmudrengir sem ekkert vita um alvöru eldraunir.“ „Já dýrkun á svona karlmannsímynd fer ofsalega í taugarnar á mér og á þeim tíma þegar ég var að skrifa bókina fóru fjalla- garpar einna mest í taugarnar á mér. Það var fylgst með þeim í sjónvarpi þar sem þeir eru einhvers staðar að klifra og vinna sigur á sjálfum sér – dáist að mér vegna þess að ég hef klofið þennan eða hinn fjallstindinn … Þetta ergir mig rosalega því ég veit að það eru margir karlmenn sem hugsa: Ekki draga upp svona mynd af okkur, þetta er út í hött. Margir okkar hafa ekki nokkurn áhuga á rallíakstri, formúlu eitt, fjallaklifri eða svona sýnimennsku – vinir mínir hafa flestir meiri áhuga á matseld og ekki er verið að klappa þeim á öxlina þess vegna. Einn vinur minn var tvö ár heima að hugsa um börnin – það ætti frekar að veita honum orðu en þessum fjallaklifrurum – en það myndi hann náttúrulega aldrei taka í mál, honum finnst þetta bara skemmtilegt, hann er ekki að færa neina fórn. Ég mun svo sannarlega halda áfram að gera grín að þessum hópi manna svo lengi sem kraftar mínir endast.“ Guð ekki í næsta verki Vegna frumsýningar á leikriti Hotakainens Hvítablettum (Punahukka) á þriðjudagskvöldið verður hann að rjúka til Hels- inki daginn eftir upplestur úr bók sinni á bókmenntahátíðinni. Um hvað fjallar leikritið? „Það fjallar um trú – trúir fólk í dag á Guð, Nokia eða eitt- hvað annað? Þetta er erfitt viðfangsefni, ég vildi skrifa um eitt- hvað sem maður sér ekki með eigin augum. Ég er ekki trúleys- ingi og ég er heldur ekki guðhræddur – ég er eitthvað mitt þar á milli. Mér fannst hugmyndin áhugaverð því ef sú mynd er rétt sem biblían dregur upp af Guði hlýtur hann að vera rugludallur og mikill húmoristi því hann hefur skapað hinar undarlegustu verur – t.d. bavíana og Finna. Þetta er gamanleikrit sem fjallar um trú.“ Vinna við gerð handritsins hefur tekið eitt og hálft ár og er það erfiðasta viðfangsefni sem Hotakainen segist hafa tekist á við. „Í leikriti er ekki hægt að vera með neinar útskýringar, það er ekki hægt að segja að tilfinningar aðalpersónunnar séu svona eða hinsegin, þær verður að tjá myndrænt, með til- þrifum. Leikritið er systraverk bókarinnar Kirkju Ísaks (Iis- akin kirkko) sem var gefin út á síðasta ári. Í sama ferlinu, sem tók fjögur ár, varð bæði til bók og hugmynd að þessu leikriti. Í næsta verki sem ég skrifa mun Guð ekki koma við sögu.“ Hef áhuga á kvikmyndinni Tvær kvikmyndir hafa verið gerðar eftir bókum Hotakainens, og er önnur einmitt byggð á bókinni Skotgrafarvegi. Myndin var frumsýnd fyrir rúmu ári. Ég spyr hvort höfundur sé ánægður með myndina og hvort hann hafi sjálfur komið eitt- hvað að gerð hennar. Hann kveðst ánægður með myndina og hann sé ekkert að bera hana saman við bókina. Hann beri fulla virðingu fyrir fólki sem sé að fást við aðrar tegundir listar en hann sjálfur. Þegar leikstjórinn hafi leitað til hans við upphaf kvikmyndagerðarinnar hafi hann fórnað höndum og sagst ekki geta orðið að liði á nokkurn hátt, hann hefði einfaldlega ekki næga starfsþekkingu á kvikmyndagerð. „Ég tók enga afstöðu til þess hvernig leikari færi með aðal- hlutverkið, hverjar væru áherslur í verkinu né nokkurs annars. Í fyrsta lagi hef ég ekki næga þekkingu á gerð kvikmynda og í öðru lagi tel ég mig ekki eiga rétt á því að vera að skipta mér af verkum annarra, finnst ekki sanngjarnt að ég myndi spyrja t.d. um það hvers vegna Matti Virtanen sé svona grannur í kvik- myndinni og af hverju sé myndað frá þessu sjónarhorni en ekki einhverju öðru. Ég skrifaði bókina alls ekki með það í huga að hún yrði einhvern tímann kvikmynduð. Hins vegar finnst mér það mjög spennandi tilhugsun að reyna sjálfur við gerð kvik- myndahandrits, en ég legg ekki í að byrja á svoleiðis verki núna.“ Ég spyr Hotakainen hvort hann sé kominn með hugmynd að næsta viðfangsefni. „Hún er hér uppi,“ segir Hotakainen og bendir á höfuð sér, „en ég held ég hafi hana skýrari í kollinum eftir eitt ár. Ég er þreyttur eftir gerð leikritshandritsins. Í gærkveldi þegar ég kom upp á hótelherbergi var klukkan bara rétt um ellefu og ég sofnaði næstum undireins. Það segir mér að loftslagið hér er gott og ég þarf á hvíld að halda núna.“ Skrifaðu aldrei líbrettu Finnski rithöfundurinn Kari Hotakainen hlaut bókmennta- verðlaun Norðurlandaráðs árið 2004 fyrir bókina Skotgraf- arveg. Hotakainen segist vilja takast á við eitthvað nýtt þótt hann gæti sennilega aldrei skrifað líbrettu fyrir óperu. Morgunblaðið/Jim Smart Kari Hotakainen „Í kvikmyndum og bókmenntum er mikið um öfgapersónur sem undir áhrifum eiturlyfja eða áfengis gera eitthvað óaft- urkallanlegt - mér finnst það ekki áhugavert.“ Eftir Steinunni Guðmundsdóttur steina@luukku.com Höfundur er þýðandi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.