Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. JANÚAR 2005 33 MINNINGAR ✝ Ólöf Svavarsdótt-ir fæddist 2. júní 1955. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi sunnudag- inn 26. desember síð- astliðinn. Foreldrar hennar eru Kristín Ingvarsdóttir, f. 14. febrúar 1933 og Svavar Halldórsson, f. 16. nóvember 1931, d. 16. júní 1989. Systkini Ólafar eru: Sigríður Inga, maki Steingrímur Guð- jónsson og Halldór, maki Jósefína V. Antonsdóttir. Ólöf giftist 1. apríl 1978 Garðari Flygenring, f. 7. desem- ber 1955. Foreldrar hans eru Mar- grét D. Flygenring, f. 2. október 1931 og Kristján Á. Flygenring, f. 29. júní 1927. Börn Ólafar og Garðars eru: a) Hilmar Darri, f. 22. janúar 1980, sam- býliskona Hólmfríð- ur Kristjánsdóttir, f. 22. júlí 1974, sonur hennar er Jack Wall- ace, f. 13. október 1997 og b) Margrét Ýr, f. 2. nóvember 1985. Ólöf lauk námi frá Húsmæðraskóla Suðurlands, Náms- flokkum Reykjavík- ur og Sjúkraliða- skóla Íslands. Hún starfaði sem sjúkraliði á Hrafn- istu í Hafnarfirði en lengst af á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði og starfaði þar þangað til hún lést. Útför Ólafar fer fram frá Víði- staðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13. Elsku mamma. Ég veit í rauninni ekki hvað ég get sagt annað en að ég sakna þín sárt. Undanfarna daga hefur allt verið svo fjarlægt og ég reyni að segja sjálfri mér að þetta sé ekki rétt en að lokum grípur raunveruleikinn í mig og neyðir mig til þess að horfast í augu við sannleikann. Þú ert farin og það er ekkert sem ég get gert. Þú varst yndisleg manneskja og góð við alla. Þeir sem hafa unnið með þér og þeir sem þú hefur sinnt hrósa þér allir og segja að þú hafir unnið starf þitt af nærgætni og ná- kvæmni. Enginn getur efast um það þegar hann heyrir að um þig er að ræða. Við vorum ólíkar en vorum þó sammála um margt og um leið og ég missti móður mína misst ég einnig vinkonu mína. Ég veit ekki hvað ég geri án þín en sem betur fer á ég góða að sem hjálpa mér í gegnum sorgina. Ég þakka bara Guði fyrir tímann sem ég átti með þér og bið hann um að vernda þig þarna uppi. Ég elska þig heitt og veit að þú elsk- ar mig líka. Þar til við hittumst næst. Hvenær endaði lífið? Hvenær endaði allt? Ég föst er í ókunnugum heimi og er svo kalt. Leitaði dyranna að leiðinni heim umvafin fólki en enda alltaf ein. Fann þessar dyr en kemst ekki inn þunglyndið sækir á mig því veröldin er dimm. Frelsaðist frá heiminum og veit aðeins eitt líður svo vel og nú er mér heitt. Þín elskandi dóttir, Margrét Ýr. Annan dag jóla fékk ég hringingu snemma morguns og var það móðir mín sem sagði mér að hún systir mín væri látin. Hvernig gat þetta gerst, af hverju? spurði ég sjálfa mig, hvernig gat vanlíðan þín farið framhjá mér, eins nánar og við vor- um? Desembermánuður er oft erf- iður vegna anna og hefur maður ekki eins mikinn tíma til að skreppa í heimsókn og spjalla yfir kaffibolla eins og við gerðum oft. Ég vissi að þú áttir erfitt með svefn en það er al- gengt þegar fólk vinnur vaktavinnu. En við verðum að sætta okkur við að þú sért farin frá okkur og vil ég minnast margra góðra stunda sem við áttum saman. Ég man þegar þú eignaðist börnin þín hvað þú varst stolt móðir enda börnin líka mynd- arleg. Þú og Bóbó byggðuð ykkur lítinn sumarbústað í Svínadal og þar áttu þið ykkar góðu stundir saman því þið voruð mjög samrýmd hjón, nutuð þess að vinna í garðinum og hlúa að litlu trjásprotunum sem þið höfðuð sett niður. Þú hafðir gott auga fyrir fallegum hlutum og eru margir hlutir sem þú gerðir sem við eigum eftir þig. Þegar þið keyptuð einbýlishúsið fannstu þig strax í að hlúa að gróðrinum í lóðinni. Sem sjúkraliði sýndir þú sjúklingum mikla alúð og varst mjög vel liðin í starfi. Elsku Bóbó, Margrét Ýr, Hilmar Darri, Hóffý og mamma, sorg ykkar er mikil, minning um yndislega konu mun lifa í hjörtum okkar. Sigríður Inga. Ólöf kom inn í fjölskylduna fyrir rúmum þrjátíu árum í fylgd með bróður mínum. Hún var hljóðlát, prúð og lét lítið fyrir sér fara. Þann- ig var hún alla tíð og nú hefur hún kvatt. Í miðri hátíð ljóss og friðar þraut hana lífskraftinn. Eftir stönd- um við, drúpum höfði og söknuður- inn er sár. Sárast er þó að hafa ekki getað rétt henni hjálparhönd á erf- iðum tímum. Engin orð megna að lýsa þeirri kvöl. En við eigum líka ljúfar minning- ar sem gott er að ylja sér við. Minn- ingar um konu sem lét sér annt um allt sem lífsandann dregur. Þau voru samstiga í gegnum lífið, hún Ólöf mágkona mín og hann Bóbó bróðir, enda aldrei minnst á annað þeirra öðruvísi en nafn hins fylgdi á eftir. Þau deildu sömu áhugamálum, hlúðu vel hvort að öðru og sínum nánustu. Heimilið og börnin þeirra tvö, Hilmar Darri og Margrét Ýr, bera því fagurt vitni. Ólöf var listræn og hafði yndi af hvers kyns handverki og handa- vinnu og börnin í fjölskyldunni nutu góðs af því. Hún hafði áhuga á garð- rækt og hafði mikið yndi af því að rækta landið við sumarbústaðinn þeirra. Þar átti hún góðar stundir, hvort sem var að sumri eða að vetri til. Lífsstarf hennar var að hjúkra sjúkum og þar naut hún sín vel, var hlý, samviskusöm, natin og einkar glögg á þarfir þeirra. En fyrst og síðast var hún vakandi yfir velferð fjölskyldu sinnar, ávallt reiðubúin að rétta fram hjálparhönd á sinn hljóð- láta hátt og hlúa sem best að þeim sem henni þótti svo vænt um. Ólöf skilur eftir sig stórt skarð í fjölskyldunni og var okkur svo miklu dýrmætari en hún gerði sér grein fyrir. Hennar er sárt saknað. Mest- ur er þó söknuður bróður míns, barnanna þeirra og móður hennar. Ég bið algóðan Guð að styrkja þau og blessa. Fjölskyldunni allri og vin- um hennar sendi ég mínar innileg- ustu samúðarkveðjur. Mágkonu mína kveð ég með virð- ingu og þakklæti fyrir allt. Ég bið Guð að geyma hana. Jafnframt langar mig til að kveðja hana með sálminum sem kom aftur og aftur upp í huga mér þegar við biðum milli vonar og ótta eftir því að takast mætti að bjarga lífi hennar. Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim, mig glepur sýn, því nú er nótt, og harla langt er heim. Ó, hjálpin mín, styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt, ég feginn verð, ef áfram miðar samt. Ég spurði fyrr: Hvað hjálpar heilög trú og hennar ljós? Mér sýndist bjart, en birtan þvarr, og nú er burt mitt hrós. Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið, uns fáráð öndin sættist Guð sinn við. Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér, þú logar enn, í gegnum bárur, brim og voðasker. nú birtir senn. Og ég finn aftur andans fögru dyr og engla þá, sem barn ég þekkti fyrr. (Matthías Jochumsson.) Birna G. Flygenring. Að kvöldi annars dags jóla hringir síminn okkar og okkur er flutt sú harmafregn að okkar kæra vinkona Ólöf Svavarsdóttir hafi látist þá um morguninn. Okkar fyrstu viðbrögð eru að þetta geti ekki verið raun- veruleikinn en staðreyndinnni verð- ur ekki breytt og upp í hugann koma minningar margra ára, allt frá fyrstu kynnum þegar Bóbó frændi kynnti okkur fyrir konu sinni. Þannig atvikaðist nokkrum árum seinna að við fluttum öll á Breið- vanginn, Ólöf og Bóbó á nr 30 og við á 24. Varð þá samgangur fjölskyldn- anna mikill, bæði léku börnin sér saman og Addý og Ólöf skokkuðu sér til heilsubótar og ánægju. Var þessi tími okkur til mikillar ánægju og gleði og á þessari stundu er okkur efst í huga þakklæti til góðrar vin- konu fyrir allar samverustundirnar. Nú á kveðjustund eru þessar ljóð- línur ofarlega í huga okkar. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Vald. Briem.) Elsku Bóbó, Hilmar, Margrét og aðrir vandamenn, megi góður guð vaka yfir ykkur og styrkja í ykkar miklu sorg. Ásthildur, Friðrik og fjölskylda. Elsku Ólöf frænka. Með logandi kertaljós og tárin í augunum sit ég í stofunni heima og hugsa til þín. Minningarnar sem ég á um þig eru svo ljóslifandi og ég á mjög erfitt með að sætta mig við það að þú varst tekin burtu frá okkur. Ein af mínum elstu æskuminning- um er í fyrstu íbúðinni ykkar Bóbó á Suðurbrautinni, ég var þá um fimm ára gömul og við mamma komum í heimsókn til þín. Þú varst nýbúin að baka marengstertu og ég man hvað mér þótti hún rosalega góð. Þessi heimsókn er lýsandi fyrir allar aðrar heimsóknir mínar til þín, þú áttir alltaf eitthvað heimabakað með kaffinu. Svona varstu, alltaf svo myndarleg. Það lék allt í höndunum á þér hvort sem það var bakstur, saumaskapur, föndur eða garðyrkja. Umhyggjan var þér einnig gefin í vöggugjöf, af henni áttir þú nóg, ekki bara fyrir þína nánustu heldur einnig fyrir það fólk sem þú annaðist í starfi þínu sem sjúkraliði. Elsku Ólöf, að leiðarlokum kveð ég þig með virðingu og þakka Guði fyrir að hafa átt þig að. Hvíl í friði, kæra frænka. Elsku Bóbó, Margrét Ýr, Hilmar Darri, Hoffý og amma, missir ykkar er mikill. Megi Guð vera hjá ykkur og gefa ykkur styrk. Kveikjum á kertaljósum fyrir Ólöfu og varðveit- um minningarnar um hana. Kristín Lind Steingrímsdóttir. Hver verður með á vaktinni? „Mikið er gaman að hitta þig Ólöf, það er alltaf svo gott að vinna með þér. Hvernig er deildin? – Æ, eru svona mikil veikindi. En hvað; við hjálpumst að, við stöndum saman.“ Það er svo ómetanlegt að vita að hópurinn okkar hér á lyflækninga- deildinni er samhentur og að við get- um treyst hvert á annað í vinnunni. Það er gengið til verka. – Hver og einn hefur ákveðið hlutverk, sem gengið er að í upphafi vaktar og áfram, en þó alltaf með þá vissu að allir eru til staðar, því þetta eru sam- eiginleg verk okkar sem höldum ut- an um sjúklingahópinn hverju sinni. Við þekkjumst svo vel – okkur þykir svo vænt hverju um annað. Spítalinn er okkar annað heimili. En hvernig má það vera, að við vitum svona lítið um innstu tilfinningar, um innri vanda og sálarglímu hvers og eins? Meira að segja VIÐ – sem erum fagfólk til hjálpar öðrum? Við megum til með að opna hug okkar hvert við annað. Mörg okkar gætu verið í hættu, og spurningin hvað ef … er því miður allt of al- geng. Gæti verið að okkur takist svona illa að vaxa frá fordómum um þann sjúkdóm, sem svo marga hrjáir, en er ekki hægt að skera burt? Gæti verið að við Íslendingarnir hörðu, duglegu, ættum bara talsvert erfitt með að viðurkenna að nútíma- lyf geta hjálpað sálinni og þar með tilverunni, alveg eins og t.d. hjarta- sjúklingurinn sem getur horft fram á lengra líf með réttri lyfjagjöf? Á spítalans stóra heimili þarf vök- ul augu til að skynja tilfinningar hvers og eins sem þar er. Jafnvel innan veggja í eigin ranni er alls ekki sjálfgefið að einstaklingarnir hver og einn geti tjáð það sem innst inni hrærist og vanlíðanin svo oft dulin. Elsku Ólöf okkar átti gott líf. Besta trúnaðarvininn átti hún í sín- um góða eiginmanni, en jafnvel þótt hennar tryggasta skjól væri að sofna við öxl hans, þá getur óvæntur sjúk- dómurinn sem skapar svartnætti í sálinni ekki komið í veg fyrir slys – já ég vil kalla það slys – þegar hug- urinn virðist umpólast og sá sem verður fyrir slíku ræður ekki sjálfur sínum gerðum. Og við sem vitum hversu óskaplega mikið hún Ólöf elskaði Bóbó og börnin sín erum þess fullviss að á þessari ögurstundu hefði hún ekki lagt á þau svo þunga byrði hefði hugurinn verið sjálfráð- ur. Þarna réð afl sem enginn fær við ráðið. Á bænastund með séra Þórhalli Heimissyni í gömlu góðu kapellunni á St. Jósefsspítala skynjuðum við sterka samkennd, þar sem starfsfólk allra deilda kom saman. Við svona óvænt áfall virðist eins og allra hugir sameinist; tilfinningaflæði, tár og hugsanir renna um sama farveg. Ólafar er sárt saknað og við minn- umst hennar sem frábærs starfs- manns, en ekki síður fyrir persónu- leika hennar. Hún hafði mikið góða nærveru, var brosmild, hógvær, samviskusöm og trúr vinur. Við vildum svo öll hafa verið til staðar og veitt þér stuðning í erfiðri þraut. Minning um brosið þitt birtu fram laðar. Guð blessi þér framhald á eilífðarbraut. Bóbó, Margrét, Hilmar Darri, Hólmfríður, Jack, móðir hennar Kristín og fjölskyldan öll eiga okkar einlægastan samhug. Hjartans kveðja frá okkur öllum á lyflækningadeild St. Jósefsspítala. Hildigunnur Ólafsdóttir. Elsku Ólöf mím, nú ertu horfin frá okkur á besta aldri. Ekki hefði ég trúað því er við kvöddumst á að- fangadag jóla að við myndum ekki hittast aftur. Ólöfu kynntist ég gegnum starfið á L-deild St. Jósefsspítala. Hún var einlæg og vinaleg og talaði alltaf vel um alla. Það var gott að vinna með henni þótt lítið færi fyrir henni. Hún talaði ekki um sjálfa sig, en dýrmæt- asta voru börnin hennar tvö og eig- inmaður hennar. Aldrei kvartaði hún yfir neinu, en talaði um hversu vel henni liði í litla bústaðnum þeirra hjóna og hlakkaði hún alltaf til að fara þangað. Var ég ávallt velkomin ef ég ætti leið um, sem hefur ekki orðið. Síðastliðið sumar gengum við vinnufélagarnir Fimmvörðuhálsinn. Ólöf og Bóbó voru með húsbílinn sinn á Skógum og gengu með okkur að skálanum, og gengu aftur til baka en við fórum í Þórsmörk. Veðrið var satt best að segja slæmt þegar upp var komið. Ferðin var mér erfið á köflum og kom Bóbó mér til hjálpar og vil ég þakka honum fyrir það. Slegið var á létta strengi í skálanum, mikið hlegið áður en haldið var áfram. Vil ég þakka fyrir þessa ferð sem við fórum saman. Á aðfangadag jóla vorum við Ólöf saman á morgunvakt. Dagurinn var yndislegur, allt gekk svo vel og gerð- um við að gamni okkar eins og alltaf og í lok dags óskuðum við hvor ann- ari gleðilegra jóla þar til næst. Ólöf mín, vil ég þakka þér sam- starfið. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (Vald. Briem.) Elsku Bóbó, Margrét og Darri, votta ég ykkur mína dýpstu samúð og megi Guð styrkja ykkur. Bára Hauksdóttir. Elsku vinkona, ég sit hér nú og skrifa nokkrar línur, við eldhúsborð- ið mitt, þar sem við sátum svo oft bara tvær að spjalla. Hugurinn reik- ar, það kemur svo margt upp, gam- alt og nýtt. Síðast, þegar þið Bóbó komuð og glöddust með okkur á 50 ára afmælinu hans Halldórs núna í desember, þá gafstu mér bangsa, því við höfðum jú haft þann sið til margra ára að gefa hvor annarri bangsa við ýmis tækifæri. Vinátta okkar var alltaf mjög sterk. Það má segja að við höfum al- ið börnin okkar upp samhliða, deild- um gleði og sorgum alla tíð. Brot úr ótal ferðalögum og samverustundum okkar rifjast upp og renna fyrir hug- skotssjónum mínum. Þær minningar munu ætíð ylja okkur fjölskyldunni. Efst í huga mér nú er þakklæti fyrir okkar dýrmætu vináttu og hversu mikil forréttindi það hafa verið að eiga þig að. Vinátta okkar hefur ver- ið óslitin í yfir 30 ár og hún slitnar heldur ekki nú, þó við kveðjumst að sinni. Elsku Ólöf mín, ég og fjölskylda mín kveðjum þig með orðum Valdi- mars Briem; Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Elsku Bóbó, Margrét Ýr, Hilmar Darri og Hófí, Stína og fjölskylda. Við biðjum góðan guð að styðja ykkur og styrkja í sorginni. Sigríður, Halldór og fjölskylda. ÓLÖF SVAVARSDÓTTIR Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og sonur, EINAR RÚNAR STEFÁNSSON vélfræðingur, lést á Sunnuhlíð í Kópavogi fimmtudaginn 30. desember. Bálförin fer fram frá Fossvogskirkju fimmtu- daginn 6. janúar kl. 13.00. Stefanía Haraldsdóttir, Hildur Björk Einarsdóttir, Sigurjón Óttarsson, Ingibjörg Ösp Einarsdóttir, Hlífar Einarsson, Hildur Benediktsdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.