Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 05.01.2005, Blaðsíða 36
36 MIÐVIKUDAGUR 5. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR uðust upp fjöldi skemmtilegra og átakasamra skuggamynda frá liðnum samverustundum. Þannig verður lífið myndasýning frá þeim sem hverfur fyrir hinn sem lifir enn um stund. Ævi hugsjónamanna er í senn gleði og sorg, sókn og undanhald; stundum öfgar, svo tekur skynsemin yfirhönd- ina og lausnin verður til. Þannig tóku höndum saman þessi ákafi hugsjónamaður – Gulli Berg- mann og vættir Snæfellsness og til varð musteri náttúruunnenda, Brekkubær að Hellnum, síðasta stór- virki þessa ágæta manns og konunn- ar sem hann unni ofar öllu öðru. Að vera Íslendingur er að eiga rætur í landi, þjóð og tungu og Gulli Bergmann var mikill Íslendingur. Í aftursæti bifreiðar á ferðalagi um Norður-Ameríku og Íslendinga- byggðir Kanada lásum við til skiptis Íslandsklukku Laxness með tilheyr- andi gagnkvæmum athugasemdum og skemmtun. Í fátæklegum kveðju- orðum er við hæfi að fara í smiðju skálda. Kveðjustundin er runnin upp og enn er vísað til skuggamynda og nú úr Áföngum Jóns Helgasonar: Skuggar lyftast og líða um hjarn líkt eins og mynd á þili og svo er farið á Snæfellsnes: Nú er í Dritvík daufleg vist drungalegt nesið kalda sjást ekki lengur seglin hvít sjóndeildarhringinn tjalda. og að lokum vísuorð sem lýsir vel Gulla Bergmann: Séð hef ég skrautleg suðræn blóm sólvermd í hlýjum garði; áburð og ljós og aðra virkt enginn til þeirra sparði; Mér var þó löngum meir í hug melgrasskúfurinn harði runninn upp þar sem Kaldakvísl kemur úr Vonarskarði. Við þökkum fyrir fínt lífsferðalag um leið og við samhryggjumst Guð- rúnu og aðstandendum. Anna Sigríður og Knútur Bruun. Vinur minn, Guðlaugur Bergmann eða Gulli eins og hann var ávallt kall- aður, lést á heimili sínu að Hellnum, Snæfellsbæ, hinn 27. desember 2004. Gulli var óvenjulegur maður og alveg ljóst að „stór“ maður er horfinn af sjónarsviðinu. Hann var frumkvöðull sem var óragur við að taka mikilvæg- ar ákvarðanir þegar því var að skipta. Sú saga verður þó ekki rakin hér. Hann var einnig fyrirmynd jafnaldra sinna á unglingsárunum. Mörg dæmi má nefna um þetta. Hér skal aðeins nefnt að á meðan flestir okkar töldu sig þurfa að styrkja sjálfsímyndina með notkun tóbaks eða annarra vímuefna á mannamótum var Gulli stakur bindindismaður og bjó jafn- framt yfir slíku sjálfsöryggi að geisl- aði af honum. Þá var hann slíkur kunnáttumaður í dansi að stelpurnar biðu í röðum eftir því að fá að dansa við hann. Hann var því öfundsverður í augum okkar flestra jafnaldranna. Við litum upp til hans, það var heiður að þekkja hann og eiga að vini. Gulli var bundinn sterkum fjöl- skylduböndum úr föðurhúsum. Mikl- ir erfiðleikar voru þar oft viðloðandi sem hann tókst á við og reyndi að leysa. Hann aflaði sér góðrar mennt- unar í skóla sem hann bætti síðan kerfisbundið við alla sína ævi. Hann varð áberandi athafnamaður með ár- unum og þekktastur var hann líklega fyrir rekstur tískuverslunarinnar Karnabæjar. Þær verslanir urðu alls 8 talsins þegar best lét með hátt í 200 starfsmenn. Þar fyrir utan var hann á árum áður umboðsmaður hljóm- sveita, eigandi og stjórnandi hljóm- flutningsfyrirtækja, tók virkan þátt í stjórnmálum, sat í stjórnum nokk- urra félaga og þannig mætti lengi telja. Hann var á tímabili mikill íþróttamaður og í marga áratugi var hann ef svo má segja „landsliðsmað- ur“ í laxveiðum. Þegar best lét virtist mér oft að hann hefði eins konar hirð aðdáenda í kringum sig. Þetta var einkum augljóst þegar hann stundaði laxveiði og gufuböðin hjá Jónasi á Kvisthaga á árum áður. Gulli var mikill hugsjónamaður og fylgdi skoð- unum sínum eftir af einstökum sann- færingarkrafti. Hann gaf sér ávallt tíma til að ræða málin í botn. Spurn- ing var aðeins hve mikið úthald við- mælandi hans hafði. Hann var mikill trúmaður og víðlesinn. Hugsjónir hans beindust að ýmsum ólíkum at- riðum í gegnum tíðina, t.d. að guð- speki, stjörnuspeki, heilbrigðismál- um, stjórnmálum og umhverfismálum. Sameiginlegur kjarni þessara hugsjóna var maður- inn sjálfur og velferð hans. Honum hætti til að sjá lausnir mála í eins konar leikfléttum þar sem allt myndi ganga upp ef settum reglum væri fylgt. Þetta þvældist oft fyrir mér. Ekki var auðvelt að andmæla honum því hann hafði ýmsar reynslusögur og tilvitnanir í lærdómsrit á hrað- bergi og virtist því betur undirbúinn en flestir. Ekki var þó alltaf sjáanlegt að hann fylgdi sjálfur eftir þeim boð- skap sem hann hvatti aðra til að fylgja. Þetta þýddi m.a. að hann var oft kærulaus um eigin velferð. Gulli var umdeildur maður. Hjá því varð ekki komist. Hann var einfaldlega of áberandi og velgengni hans of aug- ljós til þess að allir gætu sætt sig við hann. Í fari hans var einkennandi að hann treysti flestum í fyrstu umferð án mikillar gagnrýni. Slíkt trúnaðar- samband gat brugðist. Í slíkum til- vikum gat hann verið harður af sér og óvæginn. Á hinn bóginn var hann ein- staklega ljúfur og alltaf tilbúinn að fyrirgefa eða sætta ágreining ef því var að skipta. Við Gulli héldum vináttu okkar með ágætum og reglubundnum sam- skiptum í yfir fimmtíu ár. Sennilega hefur enginn einn maður haft svo mikil áhrif á mig sem hann jafnvel þó ég efaðist oft um aðferðir hans og skoðanir. Mestan hluta lífsins virtist mér Gulli eiga mikilli velgengni að fagna. Því er þó ekki að neita að það á ekki við um síðustu ár hans vegna veikinda og dvínandi heilsu. Ég hef velt því fyrir mér hvaða samveru- stundir okkar Gulla hafi verið ánægjulegastar. Niðurstaða mín er sú að þær hafi allar verið það. Ég færi konu hans Guðrúnu sam- úðarkveðjur mínar, svo og sonum þeirra hjóna, Guðjóni og Guðlaugi. Samúðarkveðjur færi ég einnig son- um hans Ragnari, Daníel og Ólafi, svo og öðrum aðstandendum. Stefán Már. Það var fyrir mörgum árum að 14 ára drengur fluttist á Kvisthagann til Jónasar Halldórssonar sundkappa og Rósu konu hans. Jónas rak gufu- baðstofu um áratugaskeið í kjallaran- um. Það leið ekki á löngu uns dreng- urinn rataði niður í gufuna og skildi fljótt að það var ekki bara gufan sem gerði manni gott, heldur félagsskap- urinn. Þarna voru áberandi menn sem töluðu hátt og snjallt, leystu öll vandamál þjóðlífsins léttilega og voru snöggir að því. Einn þessara fasta- gesta skar sig þó úr. Alltaf hafði hann skoðanir og lá svo sannarlega ekki á þeim. Hann gaf sér alltaf tíma til að tala við unglinginn, rífast við hann um pólitík og landsmálin, eða bara um daginn og veginn. Þetta var Gulli. Þarna var upphafið á löngum og góðum vinskap okkar og miklum samskiptum. Þó ferðum í gufuna hafi fækkað þá voru samskiptin tekin upp á nýjum vettvangi. Við áttum eftir að veiða saman um áratuga skeið, sátum saman í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur og vorum saman í veiði- hópnum Fjaðrafoki. Gulli var frum- kvöðull í orðsins fyllstu merkingu. Hvort sem um var að ræða verslun- arrekstur eða veiðimál, umhverfis- mál eða andans mál. Ekki skorti hug- myndirnar og það sem meira er, þær voru framkvæmdar – bæði góðar og slæmar! Það var alveg sama á hverju var tekið, alltaf var hann fremstur í flokki, alltaf var hann með nýja sýn á málin, alltaf bjartsýnn og jákvæður, alveg sama á hverju gekk. Núna, þrjátíu árum frá fyrstu kynnum, kveðjum við Gulla með söknuði. Það voru forréttindi að þekkja þennan mann og kynnast við- horfum hans til lífsins og þess sem tekur við að því loknu. Ég veit að í hvert sinn sem við hjónin eigum eftir að fara um Norðurárdal verður okk- ur hugsað til Gulla og þeirra fjöl- mörgu ánægjustunda sem við höfum átt með honum þar á bökkunum og reyndar er ég sannfærður um það næst þegar við eigum eftir að veiða Eyrina, að Gulli verður með okkur þar og fylgist vel með hvernig geng- ur. Við hjónin sendum svo Guðrúnu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Bjarni og Dísa Klara. Hvað á maður að segja þegar einn af manns allra bestu vinum deyr á besta aldri? Þegar fréttin af andláti Gulla Bergmann, vinar míns, barst, þá setti menn hljóða. Gulli var goð- sögn í lifanda lífi. Leiðir okkar lágu saman um það leyti sem Gulli var um- boðsmaður Lúdó sextetts sem allir þekkja. Við áttum samleið í skemmt- anaiðnaðinum fyrstu ár vináttu okk- ar. Þar næst lágu leiðir okkar saman þegar Gulli og félagar hans fengu umboð fyrir tískuföt frá Carnaby Street í London. Þá vann ég hjá P&Ó í Austurstræti og vildi Gulli fá Herra- deildina til að setja upp tískuvöru- verslun unga fólksins í kjallaranum, en það fékk ekki hljómgrunn á þeim tíma, frekar en í öðrum fataverslun- um í Reykjavík. Gulli vildi vera heild- sali en ekki smásali. Að endingu ákvað hann í samráði við félaga sína að opna Karnabæ, tískuverslun unga fólksins, við Týsgötu, sem varð síðan allra vinsælasta og þekktasta verslun í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Þegar ég hóf störf hjá Morgun- blaðinu haustið 1966 var blómaskeið í íslensku menningar- og viðskiptalífi. Lifandi tónlist í hverju veitingahúsi í Reykjavík, „bítlað um alla borg“. Menn höfðu miklar tekjur og eyddu miklu. Þetta var mikið byltingarskeið í íslensku samfélagi og gróskan var sem aldrei fyrr. Bítlatímabilið gekk yfir Ísland rétt eins og önnur lönd. Ást, vinátta og friður voru kjörorð þessa tímabils. Gulli Bergmann var með fingurinn á púlsi samfélagsins á þessum tíma og var ókrýndur konungur tískunnar og tónlistarinnar, það fór ekki framhjá nokkrum manni. Hann var brautryðjandi og mikill frumkvöðull. Hann hikaði aldrei við að taka áhættu og hann var fyrir bragðið umdeildur en virtur af samferðamönnum sínum. Hann var það sem nútímamenn myndu kalla spennufíkill. Hann var aldrei hræddur við að taka áhættu og lét sér í léttu rúmi liggja gagnrýni annarra því hann var ætíð trúr því sem hann tók sér fyrir hendur og var mjög ástríðufullur maður sem kunni að lifa. Þannig menn eru áhugaverðir menn sem gott er að eiga sem vini. Orðið viðskiptavinur kemur mér í huga þegar ég minnist hans hér. Þetta fallega íslenska orð segir svo margt um viðskipti á milli manna. Það er nefnilega hægt að eignast vini á grundvelli viðskipta og viðskipti á grundvelli vináttu. Það þýðir í raun að fullkomið traust ríkir á milli manna sem meta vináttuna ofar við- skiptunum því sannir vinir svíkja ekki hvor annan. Við Gulli áttum gríðarlega mikil viðskipti til langs tíma þau ár sem ég vann á Mogg- anum og allir samningar sem gerðir voru á milli okkar og hans voru munnlegir og stóðust alltaf. Það þarf ekki að undirrita samninga á milli vina, orð standa. Gulli var því ekki bara viðskiptavinur minn hann var, og er samkvæmt hans kenningu, líka einn minn allra besti vinur. Fyrir nokkrum árum lágu leiðir okkar Gulla saman enn einu sinni og nú á sviði umhverfismála. Hann og Guðrún eiginkona hans reistu sér glæsilegt heimili í Brekkubæ á Snæ- fellsnesi. Þá storkaði Gulli enn einu sinni samfélaginu og nú með því að umturna lífi sínu og allir vinir hans stóðu á öndinni og spurðu hver ann- an: Hvað er hann Gulli að gera núna? Er hann orðinn eitthvað klikkaður? Ég var svo lánsamur að fá að heim- sækja þau hjón í Brekkubæ fljótlega eftir að þau fluttu vestur. Við fórum saman á hugarflugsfund með fjölda íbúa Snæfellsbæjar og þar á löngum og afar skemmtilegum fundi, sem stóð langt fram á nótt, var lagður grunnur að því merka starfi sem þar hefur verið unnið við að gera Snæ- fellsbæ að vistvænu samfélagi. Hinu fyrsta í heiminum, hvorki meira né minna. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með framgöngu þessarar miklu og metnaðarfullu vinnu sem þar hefur verið unnin af festu, þol- inmæði og þrautseigju og þar naut Gulli sín vel. Braut af sér allar gamlar hefðir og hóf nýjan lífsstíl undir jökli. Ekki alveg það sem vinir hans áttu von á en mikið óskaplega var gaman að finna hjá honum að honum leið vel. Þar gat hann látið svo gott af sér leiða. Gat leyft sér að umgangast fólk og veita því gleði og miðlað af langri, spennandi og flókinni lífsreynslu. Gulla þótti svo gott að gefa. Þegar við heimsóttum Gulla síðast, þá stóð til að við tækjum höndum saman á nýju ári við að efla enn frek- ar vitund fólks í okkar landi á mik- ilvægi sjálfbærrar þróunar og stefna að því að gera Ísland að fyrsta sjálf- bæra landi heims. Að landið okkar, sameiginlegt hlutafélag íbúanna, yrði metið að verðleikum og afurðir þess metnar og virtar sem einstakar af- urðir. Að landið væri áfram hreint og fallegt sem styrkja myndi sérstöðu þess og að það hefði það hlutverk fyr- ir umheiminn að verða fyrirmyndar- land öðrum þjóðum til eftirbreytni. Gulli og Guðrún sameinuðu ferða- þjónustu sína Ferðaþjónustu bænda sem nú þegar hefur tekið upp sjálf- bærni sem meginþátt þjónustunnar og í því samfélagi leið þeim vel. Kom- in aftur til baka til náttúrunnar og farin að vinna með bændum við varð- veislu landsins og nýtingu þess á far- sælan hátt. Það sem þeim Gulla og Guðrúnu hefur tekist að gera í sam- vinnu við vini sína í Snæfellsbæ hefur sýnt svo ekki verður um villst að það er hægt að ná miklum árangri með mikilli vinnu. Árangri sem skilar sér í bættri afkomu og betri líðan sem um- fram allt er það sem lífið snýst um. Gulli var kraftaverkamaður, hann vissi að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að við hverfum öll úr þessu jarðneska lífi. Það vissi hann og hafði lagt sig fram um að taka á móti þeirri stundu með lotningu. Það hefur hann nú gert og skilið við þetta líf með glæstum brag og skilur ekkert eftir annað í minningu okkar, sem eftir lif- um, en þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að eiga með honum fagr- ar stundir. Skemmtilegar og stund- um ævintýralegar stundir en ætíð áhugaverðar. Sá tími á vonandi eftir að koma að okkur takist að minnast Gulla með öðrum hætti en hér er gert í stuttri minningargrein. Vonandi tekst það með einhverjum hætti, það vona ég. Við áttum ætíð svo góðan tíma saman og Gulli kenndi manni það, svo ekki verður um það deilt, að vinátta er það dýrmætasta sem menn skapa sér í þessu jarðlífi. Það er ekk- ert sem skiptir meira máli en góðir vinir. Við Margrét vottum Guðrúnu, börnunum, barnabörnunum, tengda- börnunum og öðrum ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð um leið og við kveðjum Gulla og þökkum hon- um fyrir það að vera ætíð góður vin- ur. Gulli var góður drengur. Baldvin. Kveðja frá Handknattleiksdeild K.R Vinur okkar og félagi Gulli .Berg- mann er fallinn frá. Hann var dreng- ur góður og vinfastur. Hann spilaði með okkur í meistaraflokki í allmörg ár og dugði vel bæði í vörn og sókn. Einnig sat hann í stjórn deildarinnar. Elju hans, bjartsýni og dugnaði var við brugðið, hann hreif alla með sér bæði utan vallar sem innan. Í orðasafni hans rúmuðust ekki orðin „ekki hægt“, eða að „gefast upp“. Í keppnisferðum innan lands sem utan var hann jafnan hvers manns hugljúfi og hrókur alls fagn- aðar. Við vottum aðstandendum hjart- anlega samúð. Gamli vin, Guð og hinn góði K.R. andi fylgi þér um ókomna vegu. Sveinn Kjartansson fyrrverandi formaður. Guðlaugur Bergmann kom eins og stormsveipur inn í samfélagið á Snæ- fellsnesi. Hann beitti sér fyrir marg- víslegum úrbótum og gekk til þeirra verka af ríkri sannfæringu athafna- mannsins með sterk rök að vopni í þágu byggðarinnar. Á skömmum tíma tókst honum með sinni góðu konu, Guðrúnu, að marka spor í sam- félaginu með starfsemi sinni á Helln- um. Hann haslaði sér völl í íslenskri ferðaþjónustu og ekki síst á sviði um- hverfisvænnar ferðaþjónustu. Fljót- lega eftir að Guðlaugur flutti að Hellnum lágu leiðir okkar saman. Varð mér strax ljóst að þar fór ein- stakur maður. Hann var eldhugi og hugsjónamaður sem hafði af mikilli reynslu að miðla. Þess hafa Snæfell- ingar notið. Reynsla og þekking Guð- laugs í viðskiptum nýttist honum í starfi á vettvangi ferðaþjónustu bænda og innan greinarinnar þar sem hann lét til sín taka. En þau störf Guðlaugs sem ég tel að muni halda nafni hans á lofti er það stórvirki að ná Snæfellingum saman um það stór- kostlega verkefni að fá byggðir Snæ- fellsness vottaðar eftir alþjóðlega vottunarkerfinu GREEN GLOBE21 sem umhverfisvænn áfangastaður ferðamanna. Sú vottun nýtist öllum atvinnugreinum á Snæfellsnesi sem geta kynnt starfsemi sína og fram- leiðslu á þeirri forsendu að hún fari fram í samfélagi sem vill byggja á forsendum sjálfbærrar þróunar. Til þess að ná því takmarki þurfti nýja hugsun og nýtt skipulag allrar starf- semi í sveitarfélögunum og í raun hugarfarsbreytingu. Fyrir því stóð frumkvöðullinn Guðlaugur með öðru góðu fólki. Guðlaugur fór sjaldan troðnar slóðir. Hann hikaði ekki að ganga fram fyrir skjöldu og verja samherja sína og vini þegar honum þótti þörf á. Hann sýndi það í verki að hann var vinur vina sinna og keppn- ismaðurinn brást þann veg við að sókn væri besta vörnin þegar á þurfti að halda. Þessum eðliskostum Guð- laugs kynntist ég vel og naut vináttu hans og stuðnings. Skömmu fyrir andlát Guðlaugs átti ég ásamt öðrum góða samverustund með honum og Guðrúnu. Þar var hann að kynna fyr- ir mér hugmyndir sínar um frekari framrás í landinu á sviði sjálfbærrar þróunar í íslenskri ferðaþjónustu og hjá samfélögum líkt og gert hefur verið á Snæfellsnesi. Hann hafði óbil- andi trú á verkefninu sem hann byggði á hugsjóninni um sjálfbæra nýtingu landkosta okkar og auðlinda í þágu mannsins. Þetta verkefni var honum hugsjónastarf og leiðarljós. Um leið og við Hallgerður minn- umst Guðlaugs með söknuði og virð- ingu sendum við Guðrúnu og fjöl- skyldunni samúðarkveðjur. Sturla Böðvarsson. Það var um haustið ’69 að ég labb- aði mig niður á Týsgötu og bað um að fá að tala við Guðlaug Bergmann. Vantaði vinnu fyrir jólin. Því miður, öll störf frátekin í Karnabæ, en hafði ég pælt í því að tala við þá í Faco? Þar var gengið frá ráðningu minni. Ekki vissi ég samt fyrr en nokkrum árum síðar að eftir viðtalsbilið hafði Guð- laugur hringt og lagt að Pétri Ara- syni að ráða þennan strák. Árið 1976 ákvað ég að leita mér samstarfsaðila og hélt í annað skipti á fund Guð- laugs. Úr varð samstarf í hartnær 20 ár. En á þeim tíma vorum við sameig- endur að Steinum hf. og eftir að því lauk deildu fyrirtæki okkar sameig- inlegri rekstraraðstöðu. Á þessum tíma kynntist ég Gulla vel og við unn- um náið saman. Hann beitti við- skiptareynslu sinni og persónutöfr- um til að ná erlendum viðskiptasamböndum og brjóta upp ríkjandi einokun á innflutningi tón- listar og hafði auk þess mikinn áhuga á framgangi íslenskrar tónlistarút- gáfu. Ég lærði að meta atorku hans og lifandi áhuga á mannlegum og andlegum málum, ákefð hans og öfl- uga málafylgju. Eftir að samstarfi okkar lauk, leitaði ég ráða hans, sem varð til þess að Spor ehf. var stofnað. Þá er mér minnisstæður hlýhugur hans þegar ég átti við veikindi að stríða og heimsókn að Brekkubæ þar sem ég fékk að drekka vatn úr bless- aðri uppsprettu í hraunjaðrinum. Kannski skipti það sköpum? Hann og Guðrún eiginkona hans GUÐLAUGUR BERGMANN

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.