Morgunblaðið - 26.01.2005, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 26.01.2005, Blaðsíða 28
28 MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Kristján Péturs-son fæddist á Brávöllum í Glæsi- bæjarhreppi 10. nóv- ember 1947. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 15. janúar síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru hjónin Pétur Guðjónsson, f. á Hesjuvöllum í Kræklingahlíð 25. október 1898, d. 11. júlí 1970, og Jónína Jónsdóttir, f. á Klúk- um í Hrafnagils- hreppi 7. apríl 1914, d. 3. nóvember 2004. Systkini Kristjáns eru: Svanfríður Jóna Hallfríður, f. 19. mars 1940, d. 22. nóvember 1991, Guðrún, f. 13. september 1944, d. 21. desember 1953, og Pétur Ágúst, f. 13. nóv- ember 1952, sem búsettur er á Akureyri. Hinn 26. apríl 1967 kvæntist Kristján eftirlifandi eiginkonu sinni, Þórkötlu Sigurbjörnsdótt- ur, f. á Siglufirði 31. október 1946. Foreldrar Þórkötlu eru Sigurbjörn Frímannsson, f. 26. apríl 1917, og Ragnheiður Pálína Jónsdóttir, f. 5. desember 1919, d. 21. nóvember 1998. Börn þeirra Kristjáns og Þórkötlu eru: a) Guðrún Heiða, f. 13. janúar 1968, gift Þorsteini Krüger, þau eiga þrjú börn, þau eru: Katrín Þóra, f. 27. apríl 1988, Helena Rán, f. 26. júní 1995, og Nikulás Þór, f. 14. ágúst 2000. b) Pétur Guðjón, f. 6. júlí 1970, sambýliskona Júlía Garðarsdóttir, þau eiga tvö börn, þau eru: Sólrún Svana, f. 16. apríl 1993, og Arnar Andri, f. 25. septem- ber 2001. c) Helga Sóley, f. 24. apríl 1976. d) Halla Björk, f. 20. ágúst 1977, sonur hennar er Kristófer Ísak, f. 10. júní 1995. e) Kristín Mjöll, f. 9. ágúst 1980, sambýlismað- ur Atli Steinn Frið- björnsson, sonur þeirra er Mikael Máni, f. 28. júlí 2001. Að loknu námi í húsasmíði árið 1970 hóf Kristján störf hjá tré- smíðaverkstæðinu Reyni á Akur- eyri og vann á vegum þess fram til ársins 1981 að fjölskyldan flutti til Siglufjarðar. Á Siglufirði starfaði Kristján fyrst og fremst sem verkstjóri við löndun hjá Skipaafgreiðslu Siglufjarðar en við smíðastörf í ígripum. Árið 1987, eða tveimur árum eftir að fjölskyldan fluttist aftur til Akur- eyrar, hóf hann störf við félags- íbúðir á Akureyri, en frá 1989 vann hann einnig við viðhald frið- lýstra húsa. Að viðhaldi friðlýstra húsa og kirkna sneri hann sér síðan alfarið árið 1997, en frá 1994 hafði hann umsjón með framkvæmdum fjölda slíkra verkefna á Norðurlandi eystra, einkum á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Útför Kristjáns verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Tengdafaðir minn, Kristján Pét- ursson, hefur kvatt þetta líf eftir erf- iða baráttu við sjúkdóm sem engu eirir. Það var samt aðdáunarvert, svo dapurlegt sem það annars var, að fylgjast með honum í veikindum sín- um. Hann virtist líta á þau sem hvert annað verkefni sem þyrfti að leysa vel af hendi, rétt eins mörg önnur sem honum var trúað fyrir. Hann var bjartsýnn lengi vel og hélt lífsgleði sinni og stóð svo lengi sem stætt var. Síðustu vikurnar var mjög af honum dregið og hann vissi hvert stefndi. Enn hélt hann þó kímninni og kom fólkinu sínu til að brosa alveg undir það síðasta. Hann óttaðist ekki dauðann en ég veit að honum fannst sárt að þurfa að skilja við ástvini sína. Hann var æðrulaus og sterkur í þessum raunum sínum og hélt fullri reisn til hinstu stundar. Það eru bráðum 20 ár síðan ég hitti Kristján fyrst, verðandi tengda- föður minn. Handtak hans var þétt, brosið hlýtt og innilegt. Allar götur síðan var viðmót hans þannig gagn- vart mér. Hann sýndi mér skilyrðis- lausa vináttu frá fyrstu stundu til þeirrar síðustu og hjálpsemi sem seint verður fullþökkuð. Kristján var einstaklega lifandi persónuleiki, hafði sterka og góða nærveru, veitull og hjartahlýr. Hann hafði óvenjulétta lund og smitandi hlátur og þetta einstaka blik í augum sem í senn lýsti einlægni og hlýju ásamt stríðni og barnslegri kæti. Hann varðveitti vel strákinn í sér og lék við barnabörnin og skemmti sér jafnvel enn meir en þau. Hann var alltaf sá sem hæst hló, galsinn mest- ur hjá honum. Hann var sá sem fyrstur fór út um áramótin til að sprengja og skjóta upp flugeldum, hann var líka allra síðastur inn, en það var ekki fyrr en Þóra tengda- mamma var margbúin að kalla á hann og vera ekki með þennan há- vaða, enda allir hættir að skjóta! Það þurfti ekki síður að sussa á hann eins og barnabörnin þegar ærslin keyrðu fram úr hófi! En þrátt fyrir galsann var lífssýn hans þroskuð og heil- steypt og andleg málefni lét hann sig varða nú í seinni tíð. Tengdapabbi minn starfaði lengst af við viðhald gamalla húsa á Akur- eyri og í Eyjafirði sem eru á varð- veisluskrá Þjóðminjasafnsins. Hann var góður fagmaður og hafði viðað að sér mikilli þekkingu á sérsviði sínu. Hann var forkur til vinnu og hún var honum í senn áhugamál og lífsfyll- ing. Fjölskyldan var honum samt allt og ófáar eru stundirnar sem hann gaf okkur sem við munum nú varð- veita í minningunni. Kristjáns verður sárt saknað af öllum þeim sem þekktu hann, enda mannkostamaður sem gaf mikið af sér. Guð gefi fjölskyldu hans styrk í sorginni. Ég kveð minn kæra tengdaföður með virðingu og þökk fyrir allt. Þorsteinn Krüger. Ég ætla að skrifa nokkur orð um án efa besta og merkilegasta mann í heimi, þar að auki besta afa. Hvorugt þoldum við ljósin í Hag- kaup, og okkur fannst báðum gott að borða samloku, þar sem önnur sneið- in var úr venjulegu brauði og hin sneiðin úr rúgbrauði. Ég man svo vel eftir því þegar ég var lítil og afi kom heim á bláa gamla skrjóðnum með brúna rispaða nestisboxið sem hann notaði örugglega líka í barnaskóla og ég fór alltaf strax í nestisboxið og borðaði leifarnar sem voru eftir í því, oftast heilar rúgbrauðssneiðar en stundum voru þær hálfétnar. En mér var alveg sama, mér fannst bara svo gott að borða nestið hans afa. Svo má nú ekki gleyma þegar hann gerði flotta sylvaníhúsið mitt með ekta glergluggum og allt. Á kvöldin hringdi ég í afa frá Reykjavík og gáði hvernig gengi með húsið og hann lék alltaf fjölskyldurnar í húsinu og ég fékk að tala við sylvanífólkið. Hann afi minn var líka mikill púki og stríddi mér mikið. Samt hafði ég oft bara gaman af því en ekki eins gaman af því og hann hafði. Hann sagði mér að hann hefði fundið ömmu Þóru í sjónum á Brávöllum og hún hefði þá verið hafmeyja. Ég held að ég hafi verið um átta ára þegar ég fékk að vita að það væri ekki satt. Svo var hann alltaf að segja mér ein- hverjar hræðilegar úlfasögur þegar við vorum í sumarbústað og eitt kvöld var ég úti í skógi sem var þarna rétt hjá og afi fór náttúrulega á eftir mér og ýlfraði nokkrum sinn- um og fór svo inn í bústaðinn. Þegar ég kom inn með tárin í augunum og sagðist hafa séð úlf sá ég afa með prakkaraglottið sitt. En amma skammaði hann og hann gekk ekki svona langt aftur. Svo voru það náttúrulega marglitu skrímslin á Brávöllum. Þau voru öll góð, nema fjólubláu, þau voru sko vond. Einu sinni vorum við Helena, Krissi og afi á bílastæðinu fyrir utan Hagkaup að bíða eftir ömmu og Krissi spurði afa sinn „afi, af hverju er þetta stóra þarna?“ (hann var að tala um stóru tankana á Víkings- verksmiðjunni) og afi svaraði „í þess- um tönkum eru skrímslin búin til“. Eftir smástund voru Helena og Krissi farin að gráta úr hræðslu og afi var að reyna að segja þeim að hann hefði verið að plata. Svo kom amma inn og þau sögðu auðvitað ömmu strax að afi hefði verið að stríða þeim. Svo þurfti maður alltaf að tala við bréfalúguna áður en maður kom inn. Þegar maður dinglaði dyrabjöllunni þá heyrði maður alltaf einhvern taka á rás úr eldhúsinu niður stigann og svo opnaðist bréfalúgan. Svona var hann, þurfti ekkert að leggja neitt á sig við að vera skemmtilegur afi, hann var bara svona. Allt sem krökk- unum fannst gaman fannst honum gaman. Svo var það alltaf svo gaman að fá að stríða Stínu með afa. Við sögðum alltaf við hana að við værum að fara að smíða pony-rúm á verkstæðinu handa henni (það var bara svona venjulegt rúm með útskornum pony- hestum). Hún þoldi það ekki. Við höfðum jafn gaman af því að stríða henni og hann var sá eini sem skammaði mig ekki þegar ég var að stríða henni. Afi minn var svo frábær. Allt sem hann gerði var svo ekta. Hann var líka svo ánægður með fjölskylduna sína. Amma þú ert búin að vera alveg jafn dugleg og afi, og Helga þú líka. Og auðvitað þið hin, Pétur, Halla, mamma og Stína. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín. (Úr Spámanninum.) Ég elska þig afi, Katrín Þóra. Kistján frændi hefur kvatt þennan heim eftir harða baráttu við banvæn- an sjúkdóm. Áður náði hann að kveðja aldraða móður sína hinstu kveðju sárþjáður. Ættingjum og vin- um, sem fylgdust með honum þá, líð- ur seint úr minni undraverður styrk- ur hans. Allir sáu, að þarna var tekið á öllum þeim kröftum er hann enn réð yfir, og það sem á vantaði veittu mjúkar og hjálpfúsar hendur eigin- konu og barna. Réttum tveimur mánuðum síðar var hann allur. Kristján ólst upp á Brávöllum, litlu nýbýli byggðu út úr Ytra- Krossaneslandi, ásamt systkinum sínum. Tvítugur hóf hann nám í tré- smíði á Akureyri, þar kynntist hann Þóru Sigurbjörnsdóttur frá Siglu- firði, en hún var þá nemi í Mennta- skólanum á Akureyri. Þegar Þóra útskrifaðist úr MA stofnuðu þau Kristján heimili á Akureyri, á næstu tólf árunum eignuðst þau fimm mannvænleg börn. Með barnaupp- eldinu vann Þóra á Símanum og hef- ur gert fram að þessu. Árið 1970 lést faðir hans og varð þá fyrirsjáanlegt að Brávallabú- skapnum væri lokið. Jörðin var of rýr til að brauðfæða stóra fjölskyldu. Kristján hjálpaði móður sinni að selja og rýma jörðina og koma sér fyrir í íbúð við Byggðaveg á Akur- eyri. Hann var alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd, sem skipti miklu eftir að Svana, elsta systir hans, dó 1991. Það gladdi ávallt mik- ið móður hans og systkini, er Krist- ján og Þóra komu í heimsókn með börnin. Með samhentum dugnaði komu Kristján og Þóra öllum börn- unum sínum til manns og í dag eru barnabörnin orðin sjö. Það leit út fyrir að Kristján gæti í vaxandi mæli beint vinnu sinni þang- að, sem hugur hans og hæfileikar stóðu til, sem var endurgerð og varð- veisla gamalla húsa. Kristján var hagur sem faðir hans, öll verk sem kröfðust útsjónunarsemi og hugsun- ar lágu vel fyrir honum. Allt benti til að Kristjáns og Þóru biðu mörg góð ár, þar sem þau mundu njóta þess, sem þau höfðu sáð til, en sá sem ræð- ur för vildi annað. Ég og fjölskylda mín vottum Þóru, börnum, tengdabörnum og Pétri bróður Kristjáns okkar dýpstu sam- úð. Njörður Tryggvason. Kær frændi og æskufélagi, Krist- ján Pétursson, er látinn langt um aldur fram. Hann lést á heimili sínu 15. janúar sl. í faðmi eiginkonu og barna. Á þessum tímamótum er eðlilegt að hugurinn leiti minningabrota er við áttum saman. Þá kemur upp í hugann dvöl mín á Brávöllum í Glæsibæjarhreppi nokkur sumur eftir miðja síðustu öld. Þar bjuggu þá Pétur og Ninna afasystir mín, for- eldrar Kristjáns, ásamt börnum og vinnufólki. Allur búskapur miðaðist við að lifa af því sem náttúran gaf. Trillan, byssan, handfærið, netið og bústofninn var það sem lífið snerist um. Vélaöldin var að ganga í garð og Farmal Cub var aðalheyvinnutækið. Lífsbaráttan var vinna og aftur vinna. Okkur frændum voru ætluð störf eins og öðrum, en við vildum frekar gera eitthvað sem var skemmtilegra. Svo sem kveikja í sinu uppi í Hvömmum, vera með þegar vitjað var um hrognkelsanetin, veiða silungslontur í Lóninu, ganga um fjörur og skoða rekann eða róa út á Eyjafjörðinn og veiða fisk í soðið. Við þessi ævintýri gleymdist tíminn. Oft komum við heim blautir, skítugir eða illa lyktandi eftir sinubruna en sælir og þreyttir og hlökkuðum til ævin- týra næsta dags. Áhyggjuleysi æskuáranna er að baki og alvara lífsins tekin við. Tím- inn líður alltof hratt og samveru- stundirnar verða færri. Kristján lær- ir húsasmíði á Akureyri og síðan sérhæfir hann sig í endursmíði frið- lýstra húsa og kirkna, og þar geym- ist snilldarhandbragð hans um ókomin ár. Ungur kynntist Kristján konu sinni og besta vini, Þórkötlu Sigur- björnsdóttur frá Siglufirði, og eiga þau saman fimm mannvænleg börn, tengdabörn og barnabörn. Kæru vinir Þóra og fjölskyldur, við Liv sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur á þessum erf- iða tíma, en minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar og ekki síst það æðruleysi sem hann sýndi í veikindum sínum. Ég er þakklátur fyrir þau spor sem við Kristján gengum saman, hvort sem þau voru upp til fjalla við rjúpnaveiðar eða í fjörunni neðan við Brávelli, þau eru mér dýrmæt minn- ing. Snæbjörn Þórðarson. Kveðja frá Þjóðminjasafni Í dag kveðjum við góðan sam- starfsmann og félaga, Kristján Pét- ursson smið á Akureyri. Hann sinnti um langt árabil timburviðgerðum á gömlum húsum í umsjá Þjóðminja- safns Íslands af mikilli kostgæfni. Hann vann um skeið með Sverri Hermannssyni smið á Akureyri að viðgerðum gamalla húsa fyrir Þjóð- minjasafnið en eftir að Sverrir sett- ist í helgan stein tók Kristján einn við verkefnum fyrir safnið á Eyja- fjarðarsvæðinu. Einnig sinnti hann viðgerðarverkefnum fyrir Akureyr- arbæ, ýmsa einstaklinga og félaga- samtök. Viðgerð þeirra gömlu húsa, sem eru í senn menningarminjar og sýningargripir, er mjög vandasöm. Slík vinna krefst sérstaks hugarfars og mikillar færni í mjög sérhæfðum vinnubrögðum, sem nú eru ekki lengur almennt stunduð. Kristján bjó yfir þessum eiginleikum í ríkum mæli. Stærstu verkefni sem Kristján Pétursson leysti af hendi fyrir Þjóð- minjasafnið voru viðgerðir á gamla bænum í Laufási. Hann tók niður nokkur húsanna þar og setti upp aft- ur eftir gagngerar viðgerðir. Önnur stór verkefni hans voru Saurbæjar- kirkja og klukknaportið á Möðru- völlum í Eyjafirði. Kristján sinnti einnig gamla bænum á Hólum í Eyjafirði og húsunum á Skipalóni. Auk þess sá hann um árstíðabundið eftirlit allra þessara húsa og gerði viðeigandi ráðstafanir fyrir vetur og á vorin. Hann hafði umsjón með timburforða safnsins og rekaviðar- birgðum og bar hann gott skynbragð á það hvaða viður hentaði bezt fyrir hvert verk. Margt hefur breytzt til batnaðar í aðferðum við viðgerðir gamalla húsa á Íslandi á síðustu áratugum og hef- ur Kristján Pétursson lagt sín lóð á vogarskálarnar í því efni. Nærgætni hans og ígrundun á viðfangsefnum sínum er mjög til eftirbreytni. Í höndum Kristjáns var verkefnum ævinlega vel borgið. Þau standa nú til vitnis um handbragð hans og færni. Missir þjóðminjavörslunnar er nú mikill. Við þökkum Kristjáni ánægjuleg- ar og mjög gefandi samverustundir á sameiginlegum starfvettvangi. Hans er sárt saknað. Ástvinum hans fær- um við innilegustu samúðarkveðjur. Guðrún Harðardóttir, Haraldur Helgason. Við ótímabært fráfall Kristjáns Péturssonar er höggvið skarð sem seint verður fyllt. Það eigum við eftir að reyna sem höfum starfað með honum að varð- veislu gamalla húsa á vettvangi safnamála. KRISTJÁN PÉTURSSON Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, JOHN LARSEN, Flintevænget 9, Fredriksværk, Danmörku, andaðist mánudaginn 24. janúar. Jóhanna Björk Höskuldsdóttir Larsen, Laila Björk Larsen, Palle Rasmussen, Martin Halldór Larsen, Kristoffer Jon. Elskuleg dóttir okkar, systir og barnabarn, BIRGITTA HRÖNN EINARSDÓTTIR, lést á Landspítalanum aðfaranótt föstudagsins 21. janúar. Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju föstudag- inn 28. janúar kl. 14:00. Karen Hilmarsdóttir, Einar Hafsteinn Árnason, Árni Sævar Einarsson, María Sigríður Einarsdóttir, Ólöf Sigfúsdóttir, Hilmar Arason, Annie Sigurðardóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.