Morgunblaðið - 26.01.2005, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 26.01.2005, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 2005 29 MINNINGAR Með fáeinum orðum langar okkur að minnast Kristjáns eins og við kynntumst honum í starfi. Meðan kraftar hans leyfðu stund- aði hann trésmíðar og varð með tím- anum sérstaklega vel að sér um gam- alt byggingarlag. Kristján aflaði sér mikillar reynslu á því sviði og þekk- ingar langt umfram það sem nauð- synlegt hefði verið. Ekkert fór fram hjá glöggu smið- sauganu þegar um viðgerðir á göml- um húsum var að ræða. Ummerki um upprunalega gerð, hefilspor og samsetningar, allt þurfti rannsóknar og skrásetningar við. Af stakri virð- ingu fyrir verkefninu hélt Kristján utan um gamalt byggingarefni til varðveislu. Eðli málsins samkvæmt var alltaf óvissa um fjármögnun verka, stundum fram á síðustu stundu. Það lét Kristján ekki aftra sér en bjó við óvissuna og umstangið eins og áhuginn kæmi úr óþrjótandi brunni, vakinn og sofinn yfir verk- efnum sínum. Við höfum verið svo heppin að vita af gömlu húsunum Gudmanns Minde, Friðbjarnarhúsi, Syðsta- bæjarhúsinu, Laufásbænum og gömlu kirkjunum í öruggum höndum Kristjáns. Verkefni af því tagi út- heimta sérstaka hugsun og helst hugsjón ef vel á að vera. Þetta hafði Kristján ríkulega til að bera. Að auki var hann laginn í samskiptum, svo hverju því verki sem hann tók að sér var farsællega fyrir komið. Fyrir fáeinum árum starfaði Kristján tímabundið við Minjasafnið á Akureyri við smíðar. Það var sönn ánægja að vera í þeim hópi. Kristján var þar í lykilhlutverki og naut sín vel útsjónarsemin og nákvæmnin þegar um smíði í gömlum stíl var að ræða. Í hugann koma myndir af glöð- um og góðum félaga, með teikningar á borði og hugmyndir um úrlausnir sem dugðu svo vel í framkvæmd að daglega gleður útkoman augað nú fimm árum síðar. Gaman er að minnast stunda eins og þegar Kristján kom snemma að morgni og hafði sofið lítið því hug- urinn var við eitthvert gamalt hús. Ákafinn og eftirvæntingin skein úr andlitinu, vegna þess að hann von- aðist til að finna mætti gamla ljós- mynd af húsinu, einmitt því atriði sem vantaði í púsluspilið. Önnur minning er þar sem Krist- ján stóð við borð þar sem lágu um þrjátíu bréfpokar allir hálffullir af allskonar skrítnum skrúfum og smá- dóti til smíða, sem hann hafði viðað að sér úr öllum áttum. Kristján hlífði sér hvergi þegar um var að ræða að geyma tugi tonna af timbri til við- gerða á gömlum húsum í framtíðinni. Það var helst að málefni gömlu húsanna kæmu Kristjáni úr jafnvægi ef honum fannst stefna í óefni. Þá hafði hann fyrst og fremst áhyggjur af húsunum, ekki eigin hag, sem hann talaði minna um. Ljóst var þó að Kristján átti fjölskyldu sem var honum meira virði en nokkuð annað. Þar hlýtur hann að hafa átt góðum skilningi að mæta þegar stundirnar fóru í að halda til haga heimildum sem til féllu við starfið, og eru nú geymdar í röð og reglu. Þar var á ferðinni fræðimaðurinn Kristján sem rannsakaði og skráði hlutina án þess að ætlast til launa eða nokkurr- ar umbunar fyrir. Handaverk Kristjáns munu end- ast í minnst 100 ár. Minningin um góðan dreng lifir, og hans verður sárlega saknað þegar vorar og fram- kvæmdatími rennur upp. Við send- um fjölskyldu Kristjáns Péturssonar innilegar samúðarkveður og þökkum fyrir þau forréttindi að hafa fengið að kynnast honum. Starfsfólk Minjasafnsins á Akureyri. Hann Kristján vinur okkar er lát- inn langt um aldur fram. Verkefnin öll sem biðu vandvirkni hans og nákvæmni munu því miður ekki njóta krafta hans. Kynni okkar hjóna af þessum ljúfa manni hafa staðið sl. 10 ár, og sá tími er eftirminnilegur. Kristján var um margt merkilegur maður með notalegt viðmót og gleði- legt. Það var þægilegt að umgangast hann og spjalla við hann um heims- málin. Hann hafði fordómalausar skoðanir, hélt sínu fram, en hlustaði með opnum huga á skoðanir ann- arra. Hann var mjög fær í því fagi sem hann helgaði krafta sína, að gera við og lagfæra gömul hús. Gamli bærinn í Laufási naut þess um árabil hversu laghentur hann var og vandvirkur. Þar var augljóslega fagmaður á ferð. En notalegustu minningamyndir okkar um Kristján tengjast matar- og kaffitímum, þegar Kristján sat við matarborðið í Laufási ásamt sam- starfsmönnunum og ræddi um mál- efni líðandi stundar. Vissar venjur Kristjáns eru eftirminnilegar, eins og það að fá sér ætíð smurða sneið á undan sætabrauðinu, og hann hvatti samstarfsmenn sína til að gera slíkt hið sama. Og ánægja Kristjáns með blá- berjasultu maddömunnar í Laufási gleymist ekki, og það eru ekki miklar ýkjur þótt sagt sé að hann hafi notað sultuna með öllum mat. Hundarnir í Laufási hændust mjög að Kristjáni, – ekki síst fyrir þá hugulsemi hans að hafa ætíð með sér kexpakka til að gefa þeim úr. Við erum viss um að Kubbur og Lady hafa fagnað honum innilega, þegar Kristján gekk inn í ríki himn- anna. Það er gott nú á sorgarstund að geta rifjað upp öll góðu samskiptin við Kristján, og átt um ókomin ár ótalmargar ljúfar minningamyndir. Síðustu tvö árin voru Kristjáni erf- ið vegna sjúkdóms sem sífellt tók meira og meira af lífskrafti hans. Við vottum eiginkonu og ástvinum öllum samúð okkar og biðjum þeim blessunar Guðs. Við í Laufási þökkum Kristjáni notaleg samskipti og felum hann í Guðs góðu hendur. Inga og Pétur Laufási. Varðveisla byggingararfs þjóðar- innar er vandasamt verk og mikils- vert er hvernig til tekst. Algengt er að þeir sem ráðast í viðgerðir á göml- um húsum hafi ekki til þess nægilega þekkingu og grípi því til nærtækustu og ódýrustu lausnarinnar sem kann að vera dýrust þegar upp er staðið auk þess að vera skemmandi fyrir útlitið. Er hér átt við arkitekta, hús- eigendur og síðast en ekki síst húsa- smiði. Ábyrgð smiðanna er afar mikil því þeir koma oft fyrst á vettvang og verða síðan aðalráðgjafar húseig- enda. Kristján Pétursson var einn af þessum fágætu smiðum, sem unnu ötullega að varðveislu byggingararf- leifðar þjóðarinnar. Ekkert fór úr- skeiðis þar sem hann kom við sögu. Ég hef þekkt Kristján í ein 12 ár vegna starfa minna fyrir Húsafrið- unarnefnd ríkisins, einkum vegna viðhalds og endurbóta friðaðra og varðveisluverðra húsa í Eyjafirðin- um sem m.a. hafa hlotið styrk úr Húsverndarsjóði eða tilheyra Húsa- safni Þjóminjasafnsins. Kristján lagði ætíð áherslu á að kynna sér heimildir, jafnt skráðar sem óskráðar, og ummerki í viðkom- andi húsum sem hann skráði síðan sjálfur. Hann kom sífellt á óvart með nýjum uppgötvunum, sem urðu til að vanda enn frekar verkið. Mér er minnisstætt þegar við hitt- umst einu sinni sem oftar og þá úti í Hrísey og sátum fram á rauða nótt og fórum yfir mörg sameiginleg áhugamál okkar. Ekki bara hvernig ljúka ætti við Hákarlahúsið þar í eyj- unni heldur það sem framundan væri í Eyjafirðinum. Einn af draumum hans var að komið yrði á fót eftir- menntunarverkstæði fyrir smiði í samvinnu við Þjóðminjasafnið og Húsafriðunarnefnd. Starfsemin var ráðgerð í Gæruhúsinu svokallaða, sem Kristján og hans menn tóku nið- ur fyrir nokkrum árum niðri á Odd- eyrinni og ráðgert er að endurreisa uppi á Naustum. Væri ekki úr vegi að láta draum Kristjáns rætast, koma slíku verk- stæði á fót í samvinnu við áður- nefnda og e.t.v. Verkmenntaskólann á Akureyri líka og kenna slíkt verk- stæði við hann? Við kveðjum hér góðan dreng og vandaðan fagmann. Blessuð sé minn- ing hans. Magnús Skúlason. ✝ Dr. Maro R. Sön-dahl fæddist í Paraná fylki í Bras- ilíu 1943. Hann lézt í bílsysi í Brasilíu 10. janúar síðastliðinn. Faðir hans var Bald- ur Magnússon, Árnasonar Sigfús- sonar frá Sunnudal í Vopnafirði, en Árni og Magnús voru meðal þeirra, er fluttu til Brasilíu ár- ið 1873. Árni Sigfús- son var bróðir Vig- fúsar Sigfússonar verts á Hótel Akureyri. Móðir Maros er Izolina Sön- dahl, fædd í Brazilíu. Eftirlifandi eiginkona Maros er Clemenza Söndahl, fædd í Columbia. Dóttir Maros frá fyrra hjónabandi er Erica Sön- dahl Levine, lögfræðingur í New York. Maro varð verkfræðingur frá Ohio State Univers- ity í Bandaríkunum, stundaði framhalds- nám í kaffiverk- fræði og lauk dokt- orsprófi í þeim fræðum. Hann var mjög vel þekktur fyrir rannsóknir sínar á kaffijurtum, ekki sízt það að hafa tekist að rækta kaffibaunir, sem voru með full- um bragðstyrkleika kaffis, en innihéldu u.þ.b. helmingi minna magn af koffíni. Fjöldi fræðigreina eftir Maro, svo og viðtöl við hann hafa birzt í þekktum fagtímaritum víða um heim. Maro var skipaður kjörræðis- maður Íslands í Curitiba fyrir nokkrum árum. Útför Maro fór fram í Rio de Janeiro 14. janúar. Við bræðurnir vissum að eitt- hvað af okkar fólki hafði farið til Brasilíu 1873, en áhuginn á að finna það kviknaði ekki fyrr en í kring um 1990 og hófst þá óform- leg leit að þessu fólki. Hún bar árangur 1997 þegar símtal náðist við elsta ættingjann, Dr. Nönnu Magnúsdóttur Söndahl í Curitiba, en hún er elst okkar fólks á þessum slóðum. Í framhaldi af þessu símtali komumst við í samband við bróðurson Nönnu, Dr. Maro Söndahl, sem þá bjó að hálfu leyti í Brasilíu og hálfu leyti í New Jersey. Var ákveðið að við mynd- um hittast í anddyri tiltekins hótels í New Jersey á hádegi laugardag- inn 4. janúar, 1998. Við gengum frá bílnum í átt að hótelinu, en stönz- uðum skyndilega og varð starsýnt á mann, sem stóð á gangstéttinni. Við gengum að honum og sögðum einum rómi: „Þú hlýtur að vera Maro Söndahl“. Jú, þetta var hann, svona sláandi líkur móðurfólki okk- ar. Upp frá þessum degi hefir verið mjög gott samband okkar í milli. Maro kom til Íslands við tólfta mann 1998 og fórum við með hóp- inn um landið og auðvitað til Vopnafjarðar, þar sem þau voru loksins komin heim aftur. Þar nut- um við gestrisni Vopnfirðinga í rík- um mæli og þau voru endalaust að finna frændur og frænkur sem og við bræður. Þá áttum við mjög góða helgistund með séra Sigfúsi Árnasyni í kirkjunni á Hofi. Heimsókn þeirra var endurgold- in árið 2000 er við fórum 12 ætt- ingjar þeirra í heimsókn til Bras- ilíu. Var aðaltilgangur ferðarinnar að komast til Curitiba í Paraná- fylki, en á þeim slóðum settust flestir Íslendinganna að á sínum tíma. Maro hafði undirbúið komu okkar af mikilli snilli, og m.a. var okkur haldin veizla með öllu Ís- landsættuðu fólki, sem til náðist. Þarna hittum við að sjálfsögðu fullt af Söndahls úr Sunnudal, Reykdals úr Reykjadal, Barddals úr Bárðardal, Joakinsons, John- sons og fleiri. Hápunktur ferðar þessarar var þegar fram fór vígsla „Praca de Is- landia“, Íslandstorgs, sem er lítið torg í borginni helgað Íslandi. Þarna voru 100-150 manns af ís- lenzkum ættum ásamt borgarstjóra Curitiba og hans fólki. Lúðrasveit lék þjóðsöngva landanna þegar fán- ar Íslands og Brasilíu voru dregnir að húni, og þarna mátti sjá margan manninn fella lítið tár. Maro kom aftur tíl Íslands fyrir tveimur árum á vegum utanríkis- ráðuneytisins til þess að sitja fund kjörræðismanna Íslands víða að úr heiminum. Nú er Maro allur. Þessi geðugi og góði drengur fór allt of snemma. Hans verður sárt saknað. Við vottum Clemenzu, Ericu, Izolinu, Nönnu og öðrum aðstand- endum Maros okkar dýpstu samúð með kveðjum frá ættingjunum heima á Íslandi. Sveinn Gústavsson, Einar Gústavsson. Einar Gústavsson, ferðamála- fulltrúi í New York og frændi hans flutti okkur þá harmafregn, að Maro Söndahl, ræðismaður Íslands í Curitiba í Brasilíu, hefði farist í hörmulegu umferðarslysi í Norður- Brasilíu hinn 10. jan. sl. Maður sem geislaði af bjartsýni, atorku og lífsgleði væri allur. Mig setti hljóð- an. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Minningarnar um góðan dreng hrannast upp. Það var síðla vors árið 1999. Sendiherrahjónin í Washington D.C. héldu til Brasilíu til að afhenda Cardosa forseta trúnaðarbréf fyrir sendiherra Ís- lands í Brasilíu. Ég átti í framhald- inu viðræður við utanríkisráðherra, þróunarmálaráðherra, sjávarút- vegsráðherra, senatora og fylkis- stjóra. En hafði samt allan tímann í huga að taka frá tvo daga til að heimsækja borgina Curitiba í Par- aná í Suður-Brasilíu. Af því að ég hafði haft spurnir af því, að þar væri marga af afkomendum Bras- ilíufaranna að finna. Sú von brást ekki. Tugir manna tóku á móti okkur Bryndísi á flug- vellinum. Svo tóku við samfelldir fagnaðarfundir. Nanna Magnús- dóttir, læknir og lífskúnstner, var í forsvari fyrir hópnum. Bróðurson- ur hennar Maro, doktor í lífeðlis- og erfðafræði, gegndi hlutverki túlksins. Undir hlöðnum veislu- borðum, sem svignuðu undan krás- um, (að ógleymdum pönnukökun- um) var talað saman þindarlaust fram undir rauðamorgun. Það var frá mörgu að segja. Þetta voru bara þrjár kynslóðir, sem áttu allar ættir að rekja til Vopnafjarðar og Þingeyjarsýslna. Magnús, faðir Nönnu, var á barns- aldri, þegar foreldrar hans fluttust frá Sunnudal í Vopnafirði til Bras- ilíu. Barnlaus hjón, sem heyrðu ljóshærðan dreng leika á flautu í farandsirkus, gengu honum í for- eldrastað. Þau kostuðu hann til náms. Hann varð verkfræðingur og síðar yfirmaður járnbrautanna í Norður- Brasilíu. Á upplausnarárum, um og eftir fyrra stríð, þegar stjórnleysi ríkti í landinu, tók hann að sér stjórn héraðs, sem var um það bil sjö sinnum stærra en Ísland. Til eru seðlar með mynd og undirskrift forstjóra járnbrautanna, sem voru gjaldmiðill svæðisins. Magnús Vopnfirðingur var sósíalisti og hug- sjónamaður. Svo komu herforingj- arnir, og allt féll aftur í sama farið: Harðstjórn og spillingu. Verkfræð- ingurinn sneri sér að málvísindum. Hann hannaði nýtt alþjóðatungu- mál, sem hann kallaði „eining“. Það byggðist á germönskum og lat- neskum orðstofnum og náði um skeið meiri útbreiðslu en esper- anto. Ég gleymi seint, hvernig Nanna ljómaði, þegar hún sagði frá afreksmanninum, föður sínum og afa Maros. Mér var það mikill heiður að hafa komið því til leiðar, að Maro Sondahl var skipaður ræðismaður Íslands í Curitiba. Curitiba er borg með um hálfa aðra milljón íbúa. Þar eru engin slömm. Yfirmaður borgarskipulagsins hafði nýlega þegið alþjóðleg verðlaun fyrir bestu lausn á almannasamgöngum sambærilegra borga. Skipulags- verkfræðingurinn var af ætt Sunn- dæla. Sjálfur var Maro þekktur vísindamaður. Hann átti einkaleyfi á ræktun kaffijurta, sem stóðust þurrka og ásókn skordýra betur en önnur afbrigði. Og annað á kaffi- jurt, sem hann hafði ræktað, þar sem hægt var að stýra kaffein- innihaldi baunanna. Og hafði stofnað fyrirtæki um ræktun og dreifingu kaffis af þess- ari jurt, bæði í Brasilíu og Banda- ríkjunum. Allt sem hann snerti virtist vaxa og dafna. Nanna, og frændgarður Maros, var með réttu stolt af hon- um. Trúlega hefur dr. Maro erft marga eðliskosti afa síns, Magn- úsar Vopnfirðings. Hann vildi beita þekkingunni til að leysa sitt fólk úr fjötrum fátæktar eins og afi. Og hann var á réttri leið, þegar honum var kippt úr umferð fyrirvaralaust. Það er vandséð, hvað réttlætir slíka ráðstöfun. Það er skarð fyrir skildi hjá frændgarðinum vopnfirska í Curi- tiba. Eftir lifir minningin um hríf- andi hugsjónamann, sem lét verkin tala í þágu þeirra, sem neyta síns brauðs í sveita síns andlits. Þeir mættu vera fleiri. Við Bryndís flytjum ekkju Maros, Clemenzu, Eriku dóttur þeirra og frændgarð- inum heima í Curitiba okkar dýpstu samúðarkveðjur. Það er huggun harmi gegn, að minning Maros mun lifa og verða öðrum fordæmi til eftirbreytni. Helsinki, 17. jan. 2005, Jón Baldvin Hannibalsson. MARO R. SÖNDAHL Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, ELÍSABET KRISTJÁNSDÓTTIR, Hrepphólum, Hrunamannahreppi, sem andaðist á hjúkrunarheimilinu Ási, Hvera- gerði, fimmtudaginn 20. janúar, verður jarð- sungin frá Hrepphólakirkju laugardaginn 29. janúar kl. 14.00. Rútuferðir verða frá Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík kl. 11.30 og frá Fossnesti, Selfossi, kl. 12.30. Elín Jónsdóttir, Ámundi Elísson, Sigurður Jónsson, Guðrún Sólveig Guðmundsdóttir, Stefán Jónsson, Katrín Ólafsdóttir, Guðjón Jónsson, Guðmunda Ólafsdóttir, Kristján Jónsson, Ásta Gottskálksdóttir, Gunnar Jónsson, Sigríður Karlsdóttir, Sólveig Jónsdóttir, Ake Jonsson, Anna Jónsdóttir, Sigurður Kristinsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.