Morgunblaðið - 31.01.2005, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 31.01.2005, Blaðsíða 20
20 MÁNUDAGUR 31. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Kristján Ísfeldfæddist á Akur- eyri 21. júní 1941. Hann lést á Sjúkra- húsinu á Hvamms- tanga að morgni 25. janúar síðastliðinn. Móðir hans var Krist- ín Guðmundína Andr- ésdóttir Ísfeld, f. 28. júlí 1909, d. 18. júní 1997. Kristján var einkabarn Kristínar. Kristján kvæntist 21. nóvember 1970 Hólmfríði Hjördísi Sigurðardóttur frá Jaðri, f. 24. febrúar 1936. Foreldr- ar hennar voru Sigurður Hjartar- son frá Jaðri og Kristín Jónsdóttir frá Fossi. Börn Kristjáns og Hólm- fríðar eru: 1) Kristín, f. 18. júní 1970, gift Einari Sigurjónssyni og eiga þau þrjú börn, Sigurjón Má, Kristján Loga og Fríðu Björk. 2) Sigurður Óli, f. 2. nóvember 1973. 3) Guðmundur Hjörtur, f. 28. júlí 1976, kvæntur Aðalheiði Jóhanns- dóttur, sonur þeirra er Jóhann Indriði Ís- feld. Kristján ólst upp á Akureyri en hugur hans stefndi snemma á landbúnaðarstörf. Hann fór í Bænda- skólann á Hvanneyri og lauk þaðan prófi sem búfræðingur. Hann var um árabil í vinnumennsku hjá bændum í Borgar- firði en kom svo norður í Húnavatns- sýslu og kynntist upp úr því Hólmfríði konu sinni. Þau hófu búskap á Jaðri 1969 og bjuggu þar allt til ársins 2001 þeg- ar þau hjónin fluttust til Hvamms- tanga. Kristján vann af miklum hug að ýmsum félagsstörfum og hann vann mikið og óeigingjarnt starf í þágu fatlaðra. Útför Kristjáns fer fram frá Staðarkirkju í Hrútafirði í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Góður félagi og höfðingi, Kristján Ísfeld, hefur kvatt. Ég hitti Krist- ján fyrst á Landsþingi Þroskahjálp- ar haustið 1999. Varð strax áskynja um hina sterku nærveru hans og þá góðmennsku sem af honum stafaði. Kristján var öflugur liðsmaður Landssamtakanna Þroskahjálpar og sat þar í stjórn í 8 ár. Þar lágu leiðir okkar saman um tveggja ára skeið. Hann var málefnalegur, rök- fastur og með ríka réttlætiskennd. En hann bjó einnig yfir þeim sjald- gæfa eiginleika að kunna að gefa með þögninni, og oft með henni einni saman, að skapa í kringum sig andrúmsloft eindrægni og gleði. Persónulega verður Kristján mér þó minnisstæðastur fyrir lykilhlut- verk sitt í hinni árlegu Fjölskyldu- hátíð Þroskahjálpar að Steinsstöð- um í Skagafirði. Þá helgi þegar sólargangur er lengstur safnast fjölskyldur fatlaðra barna, fatlaðir, vinir og kunningjar saman undir skagfirskum bláhimni og gera sér glaðan dag og nótt. Þá hefur Kristján brugðið sér í hlut- verk matreiðslumeistara samtak- anna og snúið norðlensku lamba- kjöti yfir glóandi grillkolum. Og leiddist greinilega ekki að sýna eina ferðina enn yfirburði íslenska lambakjötsins fram yfir allan annan veislukost. Það er erfitt að hugsa sér þennan mannfagnað án Krist- jáns. Eins og að ímynda sér Skaga- fjörð án Mælifells eða að sleppa því að syngja Undir bláhimni þessa nótt þegar raddir eru hvað sam- stilltastar. Við Kristján sátum síðustu árin saman í Stjórnarnefnd málefna fatl- aðra. Þrátt fyrir að um langan veg væri að fara og heilsan að bresta lét hann það ekki á sig fá og mætti manna best á fundi. Hann nýtti þá gjarnan ferðina og heimsótti skrif- stofu samtakanna öllum þar til ómældrar ánægju. Nú skilur leiðir í bili. En minn- ingin um dagfarsprýði Kristjáns Ís- felds og framgöngu mun vísa þeim sem honum kynntust veginn, þegar þörf er á samstöðu og eðalfínum fé- lagsanda. Fyrir hönd Landssamtakanna Þroskahjálpar færi ég fjölskyldu Kristjáns innilegar samúðarkveðj- ur. Halldór Gunnarsson. Fallinn er í valinn Kristján Ísfeld bóndi á Jaðri í Hrútafirði. Þar er genginn mikill ágætismaður. Mér er það í fersku minni þegar ég varð fyrst var við Kristján. Það var í kosningabaráttu fyrir alþingiskosn- ingar vorið 1967. Ungur garpur lagði okkur framsóknarmönnum í Norðurlandskjördæmi vestra lið við utankjörstaðakosningu í Reykjavík með svo vasklegum hætti að eftir var tekið. Þó átti Kristján heima í öðru kjördæmi svo liðveisla hans var óvænt, en vel þegin, þar sem þriðji maður á lista okkar Björn Pálsson á Löngumýri var í mikilli fallhættu. Frægur kosningasigur vannst og skömmu síðar fluttist Kristján í kjördæmið til okkar og bjó þar til æviloka. Heimasætan á Jaðri í Hrútafirði Hólmfríður Sigurðardóttir og Krist- ján felldu hugi saman og hófu bú- skap á Jaðri. Þau ráku myndarlegt og gagnsamt sauðfjárbú, enda hafði Kristján gott vit á sauðfé og hafði metnað og vildi eiga fallega hjörð. Fyrir fáum árum létu þau Hólm- fríður búið á Jaðri í hendur syni sínum og tengdadóttur og fluttu til Hvammstanga, enda var þá heilsu Kristjáns mjög að hraka. Það var Kristjáni mikið gæfuspor að giftast Hólmfríði því hún er ein- stök ágætiskona. Þeim varð þriggja barna auðið. Elst er Kristín kennari á Akureyri. Þá er Sigurður, hann hefur átt við fötlun að stríða og er búsettur á Sambýlinu á Blönduósi og yngstur er Guðmundur bóndi á Jaðri. Kristján var mikill hugsjóna- og félagshyggjumaður. Hann gekk að hverju verkefni með brennandi áhuga og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn. Hann náði venjulega góð- um árangri og hafði mannheill, fólki líkaði ósjálfrátt vel við þennan stóra og hressilega mann. Of langt yrði upp að telja öll þau trúnaðar- og forystustörf sem Kristján gegndi fyrir sveit sína og hérað. Hann var mjög ötull, fórnfús og virkur í starfi Framsóknar- flokksins bæði sem foringi og liðs- maður. Formaður Framsóknar- félags Vestur- Húnavatnssýslu var hann um langt árabil, tók mikinn þátt í flokksstarfi á landsvísu og vann þar sem annarsstaðar gott starf. Málefni fatlaðra og lífsaðstaða þeirra stóðu hjarta Kristjáns nærri. Hann var forvígismaður um stofnun sambýlis fatlaðra á Gauksmýri og sem forystumaður í Þroskahjálp, Svæðisstjórn um málefni fatlaðra og í Framkvæmdasjóði fatlaðra átti hann drjúgan þátt í að lyfta því Grettistaki sem raun ber vitni til hagsbóta fyrir hina fötluðu. Þegar við nú kveðjum þennan einlæga félagsmálamann er mér efst í huga söknuður og þakklæti fyrir órofa vináttu og áratuga sam- starf. Ég færi Hólmfríði og afkom- endum þeirra innilegar samúðar- kveðjur. Minning um góðan dreng lifir áfram með okkur. Páll Pétursson. Kristján Ísfeld er látinn eftir erf- iða baráttu við illvígan sjúkdóm. Með Kristjáni er genginn einstak- lingur sem var reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Kristján var áhugasamur félags- málamaður sem sýndi í verki að hann vildi með störfum sínum taka þátt í að móta samfélagið, hann var mjög virkur í mörgum félögum í sínu byggðarlagi. Ég var svo hepp- inn að fá að starfa með Kristjáni að félagsmálum og vil ég þá sérstak- lega geta samstarfs að málefnum fatlaðra, en sá málaflokkur var Kristjáni sérstaklega hugleikinn og hann var tilbúinn að fórna sér öllum í þágu fatlaðra. Hann starfaði mikið í Þroska- hjálp einnig var hann í Stjórnar- nefnd málefna fatlaðra og í svæð- isráði um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra frá því að lög um málefni fatlaðra voru sett árið 1992 og áður sarfaði hann í svæð- isstjórn. Það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa með honum í svæðisráði og finna þann mikla áhuga og kraft sem var alltaf til staðar þegar hagsmunir fatlaðra voru annarsvegar. Fatlaðir hafa misst mikið við fráfall Kristjáns en hann hefur haft mikil áhrif á þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í þjónustu við fatlaða hér á Norður- landi vestra. Mér er mjög minn- isstætt þegar Kristján barðist fyrir kaupum á bifreið fyrir sambýlið, sem þá var að Gauksmýri. Þar lagði hann sig allan fram og fékk ýmsa aðila til að koma að því verki og ár- angurinn varð sá að bifreið kom í hlaðið á Gauksmýri til hagsbóta fyr- ir hina fötluðu íbúa þar. Ég vil fyrir hönd svæðisráðs um málefni fatl- aðra á Norðurlandi vestra þakka Kristjáni samstarf og góð kynni ásamt því að þakka hans miklu störf í þágu fatlaðra. Persónulega vil ég þakka samstarfið og þær stundir sem við áttum semeiginlegar. Minn- ingin um sterkan persónuleka og hugsjónamann lifir. Við í svæðisráðinu flytjum Hólm- fríði og fjölskyldunni okkar innileg- ustu samúðarkveðjur, þeirra er missirinn mestur. Valgarður Hilmarsson. Það bar til tíðinda haustið 1968 að kominn var nýr maður í sveitina. Slíkt þykja alltaf nokkrar fréttir. Kristján Ísfeld hét hann og var fluttur að Jaðri, ysta bæ í Stað- arhreppi í V.-Hún. Heimasætan á Jaðri, Hólmfríður Sigurðardóttir, og Kristján höfðu opinberað trúlof- un sína. Kristján var Akureyringur en hafði dvalið um tíma í Borgarfirði, bæði við nám í Bændaskólanum á Hvanneyri og við ýmis störf þar í héraði áður en leið hans lá hér norður í Húnaþing. Kristján tók þegar þátt í fé- lagsmálum í sveitinni, m.a. í Ung- mennafélaginu Dagsbrún og þar hófust kynni okkar. Það kom strax í ljós hvað Kristján var öflugur liðs- maður þar og taldi ekki eftir sér stafskrafta sína. Ungu hjónin hófust þegar handa við framkvæmdir á Jaðri, byggðu upp ný fjárhús og nýtt íbúðarhús og sinntu jafnframt öðrum endurbót- um. Fljótt kom í ljós að Kristján var afburða fjármaður, hann vann alla tíð að fjárrækt og var á skömm- um tíma kominn með eitt best ræktaða fé í sveitinni. Margir sóttu til hans kynbótagripi og hrútar frá honum fóru á sæðingarstöðvar. Þess ber líka að geta að Hólm- fríður, sem fædd er og uppalin á Jaðri, er mikil búkona og feikna dugleg og vann með manni sínum bæði úti sem inni að öllum verkum. Eins og áður var vikið að kynnt- umst við Kristján fyrst í Ung- mennafélaginu. Þessi kynni urðu síðan að órofa vináttu, sem aldrei bar skugga á. Við unnum mikið saman að hverskonar félagsmálum en Kristján kom nærri flestum þeim málum hér heima í héraði, ungmennafélagi, ungmennasam- bandi, búnaðarfélagi, búnaðarsam- bandi, fjárræktarfélagi, sóknar- nefnd Staðarkirkju og svona mætti áfram telja. Formaður í þessum fé- lögum var hann um langan tíma og sumum allt til dauðadags. Kristján var eindreginn fram- sóknarmaður og tók mikinn þátt í störfum flokksins, bæði hér heima í héraði og á flokksþingum. Margar ferðirnar höfum við Kristján farið saman og margs er að minnast frá þeim og alltaf var hann hrókur alls fagnaðar. Og þar var ekki aðeins að við hittumst oft, símtöl okkar voru óteljandi. Þá skal þess getið að Kristján vann í margskonar vinnu utan bús, eins og sagt er. Ég veit að margir minnast hans úr fjárréttinni við sláturhús KVH á Hvammstanga en þar stjórnaði hann um árabil. Það fylgja því miklir erfiðleikar fyrir fólk að eignast fatlað barn, en annað barn þeirra hjóna Hólmfríðar og Kristjáns, Sigurður, var fatlaður frá fæðingu. Eftir að Sigurður var kominn á Sólborg á Akureyri gaf Kristján sig af fullum krafti að mál- efnum fatlaðra og vann að þeim af mikilli atorku alla tíð. Hann rakti þessi mál oft fyrir mér og manni var ljóst hvað þetta hvíldi á honum. Ekki ræddi hann síður um hin börnin sín, Kristínu og Guðmund sem voru honum svo mikils virði. Það varð svo breyting á fyrir fáum árum. Kristján og Hólmfríður keyptu sér íbúð á Hvammstanga og fluttu þangað en Guðmundur tók við búi á Jaðri. Þrátt fyrir það fór Kristján flesta daga heim að Jaðri til að vinna að búskapnum með syn- inum. Á árinu 2003 kenndi Kristján sér lasleika og við rannsókn kom í ljós að hann var kominn með krabba- mein. Hann gekkst undir aðgerð og síðan lyfjameðferð. Undir lok þess árs, eftir erfiða baráttu, fór Krist- ján að ná betri heilsu og sumarið 2004 og fram á haustið tók hann þátt í bústörfum og manni fannst sem kraftaverk hefði gerst. Síðasta ferð okkar saman var á Kjördæmisþing Framsóknarflokks- ins í Norðvesturkjördæmi, er haldið var í Borgarnesi í byrjun nóvember. Þetta var ein af okkar skemmtilegu samverustundum og málin skoðuð og rædd. Rétt um þetta leyti fór lasleiki aftur að hrjá Kristján og ljóst varð að meinið hefði tekið sig upp að nýju. Fór hann í rannsókn á Sjúkrahúsið á Akranesi og á Land- spítalann og síðan á Sjúkrahúsið á Hvammstanga. Tækni nútímans gerði okkur kleift, þrátt fyrir sjúkrahúslegu, að eiga mörg sam- tölin saman. Þar eins og áður voru flest mál tekin fyrir, heimtur á fé, skepnuhöld og héraðs- og landsmál- in. Það segir einhversstaðar að vinir koma og vinir fara. Þegar vinur er kvaddur við leiðarlok eru minning- arnar eftir. Minningar, sem eru fjársjóður manns sjálfs, sem enginn fær af manni tekið. Við í Hrútatungu vottum Hólm- fríði, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð. Gunnar Sæmundsson. Fallinn er í valinn höfðingi horsk- ur svo alltof fljótt. Ég hafði fyrst af honum Kristjáni spurnir sem einum þeirra er fremstir fóru í fylking hjá Þroskahjálp í Húnaþingi og við fyrstu samfundi varð mér ljóst að þar fór vaskur maður til allra at- hafna, heilsteyptur drengur með hjartað á réttum stað. Kristján fékk mig svo eitt sinn til að koma á bændahátíð þar nyrðra, þar sem glögglega komu í ljós vin- sældir hans í héraði svo og að þar naut hann mikils trausts. Það var myndarleg og góð hátíð og á eftir áttum við Sigurður Jónsson tann- læknir kærkomna næturgistingu og nutum góðra veitinga hjá þeim hjónum, Hólmfríði og Kristjáni. Við Kristján áttum svo eftir að treysta vináttuböndin svo víða á vettvangi málefna fatlaðra og það var mér gott gleðiefni þegar Páll Pétursson félagsmálaráðherra skipaði Kristján sem annan fulltrúa sinn í stjórn- arnefnd um málefni fatlaðra. Það var vel valið, enda þekkti Páll Krist- ján ágætlega og vissi að þar fór maður sem bar hag og heill fatlaðra af einlægni fyrir brjósti. Þar áttum við hið ágætasta samstarf, vorum samstiga í öllu er máli skipti, Krist- ján setti sig vel inn í öll mál og lagði eingöngu gott til mála í stjórnar- nefndinni. Þar sakna menn nú sann- arlega vinar í stað. Við Kristján báðir sveita-menn miklir í eðli okk- ar, hann var enda góðbóndi nyrðra og ekki amalegt að fregna af skepnuhaldi og fallþunga dilka og það því fremur sem hann var óvenjumikill, þar um bárum við oft saman bækur okkar. Kristján er ógleymanlegur fyrir svo margt, hressileika þess andblæs sem æv- inlega fylgdi honum, en ekki sízt fyrir þennan létta húmor sinn og sögumaður var hann sér í lagi góð- ur. Það var gott í Kristjáni hljóðið nú fyrir skömmu er ég hringdi í hann og vongóður var hann sem fyrr um að hann mætti á meini sínu sigrast, en svo gripu örlögin á ann- an veg í taumana. Þar var sann- arlega staðið meðan stætt var. Hann Kristján átti í ódeigu hjarta sínu hugsjónina um jafnrétti allra, hann fagnaði því að mega taka þátt í hinni jákvæðu og öru þróun sem þar hefur orðið til hagsbóta fyrir fatlaða. Án slíkra hugsjónamanna hefði þróunin aldrei orðið söm, sigr- arnir aldrei eins. Ég kveð Kristján vin minn með kærri þökk fyrir einkar gjöful kynni, harma það að eiga hann ekki lengur að í starfi stjórnarnefndar, en fyrst og síðast sakna ég góðvinar sem gott var að eiga samfylgd með. Hólmfríði og börnum og öðru hans fólki sendi ég innilegar sam- úðarkveðjur, veit að minningarnar mörgu um góðan dreng munu milda sáran söknuð. Blessuð sé minning Kristjáns Ís- felds. Helgi Seljan. Kristján Ísfeld var stór og mikill maður á velli. Þrekinn og svipmikill með mikið dökkt hár, hátt enni og augun skýr og gátu verið leiftrandi ef svo bar undir. Hann var athugull og stálminnugur, kunni óhemju- margar sögur og sagði skemmtilega frá. Allt hans yfirbragð bar þess vitni að þar fór ljúfur maður og drengur góður. Kristján bjó við sauðfé og átti bú- skapurinn ásamt sjálfboðavinnu að félagsmálum hug hans allan. Hann var fyrirmyndarbóndi. Vakinn og sofinn yfir búinu og oft var svefn- tíminn stuttur til að mynda um sauðburð. Árangur hans í sauðfjár- ræktinni var líka góður. Frjósemi mikil og sömuleiðis fallþungi. Þeir sem til þekkja vita að til þess að ná slíkum árangri þurfa menn bæði að vera ræktendur og búmenn. Krist- ján starfaði mikið að félagsmálum og sinnti þeim af sömu elju og sam- viskusemi og bústörfunum. Hann var stundvís, samviskusamur og aldrei minnist ég þess að Kristján hafi öðruvísi mætt til fundar en vel lesinn og undirbúinn. Leiðir okkar lágu fyrst saman haustið 1987 þegar ég ritstýrði Ein- herja, flokksblaði framsóknar- manna á Norðurlandi vestra, en Kristján var lengi í blaðstjórn Ein- herja. Síðar sátum við saman í Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og Framkvæmdasjóði faltaðra. Kristján átti fatlaðan dreng. Starf- aði með Þroskahjálp á Norðurlandi og átti einnig sæti í stjórn Lands- samtakanna Þroskahjálpar. Stjórnarnefnd um málefni fatl- aðra hefur haft það fyrir reglu að heimsækja heimili og vinnustaði og starfsfólk fatlaðra vítt og breitt um landið. Margar þær ferðir eru eft- irminnilegar eins og gefur að skilja fór talsverður tími í að ferðast á milli staða og var þá margt skrafað. Það er unun að hlusta á góða sögu- menn segja frá eigin lífi og sam- ferðamanna. Það gátu þeir Kristján Ísfeld, Helgi Seljan og Jón Krist- jánsson og gerðu það vel. Með okkur Kristjáni tókst góð vinátta og við héldum alla tíð sam- bandi þó að samstarfinu í stjórn- arnefnd lyki. Hann lést langt fyrir aldur fram. Hann tókst á við ill- vígan sjúkdóm og varð að lokum að lúta í lægra haldi. Barðist til síðasta dags enda ekki í eðli hans að gefast upp. Ég vildi óska að hann hefði mátt meira næðis njóta eftir mikið og gott dagsverk en þetta er eitt af því sem við getum ekki ráðið. Eng- inn ræður sínum næturstað. Aðstandendum og ástvinum Kristjáns Ísfeld votta ég samúð. Það er mikið skarð fyrir skildi. Við kveðjum mann sem var stór og ein- lægur í öllu sem hann gerði. Drott- inn blessi minningu hans. Árni Gunnarsson. KRISTJÁN ÍSFELD

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.