Morgunblaðið - 06.06.2005, Qupperneq 24
24 MÁNUDAGUR 6. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Sveinbjörn Sig-urðsson, bygg-
ingameistari, fædd-
ist á Laugavegi 30 í
Reykjavík 3. október
1919. Hann lést á
Landspítalanum við
Hringbraut föstu-
daginn 27. maí síð-
astliðinn. Foreldrar
hans voru Sigurður
Oddsson, lóðs á
Hvítabirninum, f. 24.
apríl 1874, d. 9. apríl
1942, og Herdís
Jónsdóttir, húsmóð-
ir, frá Bíldsfelli í
Grafningi, f. 6. júlí 1884, d. 23. júní
1963. Systkini Sveinbjörns eru
Steinunn Hall, f. 1909, d. 2000, Jón,
f. 1910, d. 2000, Elín Valgerður, f.
1912, d. 1946, Oddur, f. 1914, d.
1995, Þórleif, f. 1916, Málfríður, f.
1923, Herdís, f. 1926.
Hinn 23. september 1944 kvænt-
ist Sveinbjörn Helgu Kristinsdótt-
ur, f. 1. júní 1923, dóttur hjónanna
Kristins Péturssonar, blikksmíða-
meistara, f. 16. febrúar 1889, d. 5.
maí 1965, og Guðrúnar Ottadóttur,
f. 16. desember 1892, d. 23. apríl
1972. Sveinbjörn og Helga hófu bú-
skap á Laugavegi 22 en lengst af
bjuggu þau í Safamýri 73. Síðustu
18 árin bjuggu þau í Miðleiti 7.
Sveinbjörn og Helga eignuðust
fimm börn. Þau eru: 1) Kristinn,
húsasmiður og byggingafræð-
hans sem byggingameistara.
Sveinbjörn sérhæfði sig í smíði
hefðbundinna íbúðarhúsa fyrstu
árin en síðar var áhersla lögð á
stórbyggingar og mannvirki, opin-
berar byggingar, brýr, sundlaugar
og menningarstofnanir, m.a. Borg-
arleikhúsið. Sveinbjörn byggði þar
að auki nokkuð á þriðja tug leik-
skóla á höfuðborgarsvæðinu.
Sveinbjörn rak fyrirtækið til
ársins 1990 en þá tóku þrír synir
hans við rekstrinum og reka það í
dag undir nafninu Sveinbjörn Sig-
urðsson ehf.
Sveinbjörn var félagi í Oddfell-
owstúkunni Ingólfi og einn af
stofnendum Meistarafélags húsa-
smiða. 1974 keypti hann sumarbú-
staðaland í landi Alviðru í Gríms-
nesi og hóf að gróðursetja af
ástríðu og stórhug og þar er nú
myndarlegur skógur. Starf hans
að skógrækt varð svo snar þáttur í
lífi hans að þegar hann fagnaði sjö-
tugsafmæli sínu ákváðu vinir hans
og samstarfsmenn að heiðra hann
sérstaklega fyrir framlag hans á
því sviði. Ýmis fyrirtæki og ein-
staklingar í Reykjavík færðu
Skógræktarfélagi Reykjavíkur
peningagjöf í virðingarskyni við
starf Sveinbjörns og var trjám
plantað við golfvöllinn á Korpúlfs-
stöðum þar sem nú er Sveinbjarn-
arlundur. Sveinbjörn var sæmdur
riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir
störf að byggingarmálum. Síðustu
þrjú ár naut Sveinbjörn góðs fé-
lagsskapar í dagvistun eldri borg-
ara í Múlabæ.
Útför Sveinbjörns verður gerð
frá Dómkirkjunni í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
ingur, f. 1945, kvæntur
Valgerði Bjarna-
dóttur. Börn þeirra
eru Helga, Berglind,
Elinóra, Herdís og
Bjarni. 2) Sigurður,
byggingameistari, f.
1949, kvæntur Dag-
nýju Jónasdóttur. Börn
þeirra eru Sveinbjörn,
Kristín og Anna Lára.
3) Árni, bygginga-
meistari, f. 1952,
kvæntur Áslaugu Sig-
urðardóttur. Börn
þeirra eru Sigurður
Rikharð, Andrea og
Helga Björk. 4) Sveinbjörn, bygg-
ingameistari, f. 1955, var kvæntur
Magneu Bjartmarz. Börn þeirra eru
Gunnar, Sveinbjörn, Bjartmar og
Birkir. Sambýliskona Sveinbjörns
er Auður Jónsdóttir. 5) Anna María,
gullsmiður, f. 1961, maki Egill Ingi-
bergsson. Börn þeirra eru Máni og
Sveinbjörn. Barnabarnabörn Svein-
björns og Helgu eru 15 talsins.
Sveinbjörn ólst upp á Laugavegi
30. Hann komst á samning í trésmíði
17 ára gamall hjá Ólafi Theódórs-
syni, húsasmíðameistara, og lauk
sveinsprófi 1940. Sveinbjörn réðst
til starfa hjá Almenna bygginga-
félaginu hf. eftir sveinspróf. Árið
1942 hóf hann sjálfstæðan rekstur í
eigin nafni með byggingu á húsinu
við Bollagötu 7 en bygging hússins
markaði upphafið að löngum ferli
Afi minn, Sveinbjörn Sigurðsson
byggingameistari, er látinn, 85 ára að
aldri. Hann á að baki langa og farsæla
ævi sem byggingameistari og einnig
hefur gæfan verið honum hliðholl í
einkalífinu, þar sem hann lætur eftir
sig 37 afkomendur þegar þetta er
skrifað.
Ég er elstur af drengjunum í
barnabarnahópi afa Sveinbjörns og
alnafni hans. Þrátt fyrir að afi ætti
stóran barnabarnahóp naut ég þess að
kynnast honum vel og urðum við mikl-
ir mátar. Afi Sveinbjörn var dugnað-
arforkur, vinnuþjarkur, beinskeyttur
og ákveðinn og þeir sem hann þekktu
vita að hann hefði ekki viljað neinn lof-
söng um sjálfan sig að sér látnum.
Engu að síður langar mig að minnast
hans með nokkrum orðum.
Það fyrsta sem kemur upp í huga
minn eru ferðir okkar nafna austur í
sveitina. Sveitin var sumarbústaðar-
land í Grímsnesi sem afi keypti og hóf
hann þar skógrækt um svipað leyti og
ég fæddist. Frá því ég var smábarn
tók hann mig með í ferðir austur í
sveitina. Tilgangurinn með þessum
ferðum austur í sumarbústaðarland
var sá að planta trjám og rækta land-
ið. Í huga afa snerist lífið um vinnu og
hans áhugamál var skógrækt. Það
þarf því engan að undra að það fór vel
um hann fyrir austan þar sem hann
gat sameinað þessi tvö hugðarefni sín,
vinnu og skógrækt, því fyrir austan
snerist allt um að gróðursetja tré og
hirða um landið.
Í þessum ferðum okkar austur í
sveitina var alltaf stoppað á bensín-
stöðinni á Selfossi þar sem afi sótti
vatn í tunnur og þar keypti hann
handa okkur sinn hnetutoppinn hvor-
um, því honum þótti hnetutoppur svo
góður. Var tómt mál að tala um að
biðja um annað sælgæti.
Þrátt fyrir að afi gæti verið harður í
horn að taka þá var hann nú samt
meyr innst inni því í bílferðunum okk-
ar austur í bústað rétti hann iðulega
út höndina í áttina til mín og átti ég þá
að smeygja lófanum mínum í höndina
á honum. Það var honum einnig hjart-
ans mál að ég svæfi í bílnum á leiðinni.
Sumarbústaðurinn sem reis fyrir
austan var engu líkur. Í fyrstu var
flutt lítið afdrep á landið til bráða-
birgða. Aldrei gafst tími til að byggja
nýtt hús svo þrívegis var byggt við
bráðabirgðahúsnæðið hjá sjálfum
byggingameistaranum. Dugði þessi
bústaður honum fyllilega, þrátt fyrir
ágætis afkomu, því afi var mjög nýt-
inn og barst aldrei á.
Í dagsferðunum okkar austur í bú-
stað hitaði afi iðulega kakó og ristaði
með því gróft brauð. Áleggið var ost-
sneið, skorin með búrhníf. Ef við gist-
um fyrir austan var afi alltaf vaknaður
mjög snemma á morgnana og var það
hans fyrsta verk að fara út og flagga.
Fyrir austan var afi alltaf með kveikt
á útvarpinu og var jafnvel kveikt á því
á næturnar. Ef við vorum fyrir austan
á sunnudegi lagði afi niður störf þegar
sunnudagsmessan hófst í útvarpinu
og fór hann þá inn í bústaðinn og lagði
sig og hlustaði á messuna á meðan
amma eldaði hádegismat.
Í sveitinni fórum við stundum í
heimsókn í nágrannabústaðina. Oft
var farið til Óla Óskars, en Óli og afi
voru miklir vinir. Einnig fórum við afi
oft í sund á Selfossi og var notalegt að
koma til baka í bústaðinn í hádegis-
matinn til ömmu.
Þegar afi og amma bjuggu í Safa-
mýri 73 var mikið að gera hjá afa í
byggingabransanum. Hann var farinn
til vinnu eldsnemma á morgnana og ef
ég var staddur hjá þeim var skynsam-
legast að láta lítið fyrir sér fara í há-
deginu því oft gekk mikið á þegar afi
kom heim í hádegismat. Eftir hádeg-
ismatinn hjá ömmu var farið í símann
og talaði hann hátt og mikið og gaf
fyrirskipanir í allar áttir og svo lagði
hann sig á bekknum við matarborðið
áður en hann fór aftur til vinnu.
Afi var mikill matmaður og fannst
gott að borða góðan heimalagaðan
mat sem amma eldaði handa honum í
rúmlega sextíu ára hjónabandi þeirra.
Hann talaði einnig um það ef hann
fékk góðan mat annars staðar en hjá
ömmu. Ekki spillti ef maturinn var úr
ódýru hráefni, því það bar vott um
nýtni og hagsýni.
Það sem einkenndi afa var að hann
var með einstaklega gott hjartalag.
Hann mátti aldrei neitt aumt sjá og
honum þótti miður ef eitthvað bjátaði
á hjá öðru fólki. Honum var alltaf um-
hugað um að öllum liði vel í kringum
sig.
Afi var stálminnugur allt til dánar-
dags og fannst fátt skemmtilegra en
að segja gamlar sögur af sjálfum sér,
ef hann hafði áhugasaman hlustanda.
Að auki hafði afi mjög gaman af að
segja sögur af fólki sem hann þekkti
og þótti mikið til koma. Hann hafði frá
mörgu að segja og var fróðleiks-
brunnur um byggingarsögu Reykja-
víkur. Einnig hafði afi gaman af að
rifja upp þegar hann fór til New York
í frægðarför með Jóni bróður sínum
að sækja seglskipið Capitana.
Það gekk alltaf mikið á þegar afi
var í byggingabransanum og fór ekk-
ert á milli mála þegar hann var mætt-
ur á staðinn. Þegar Borgarleikhúsið
var í byggingu var ég settur í vinnu
við að sópa gólfin ásamt Sigga frænda
mínum og vorum við bara smáguttar.
Ég var hálfsmeykur við afa þegar
hann var í vinnuhamnum og eitt sinn
sem oftar vorum við frændurnir að
sópa í Borgarleikhúsinu þegar skaftið
á sópnum mínum brotnaði. Í því birt-
ist afi og ég var svo hræddur við að fá
skammir fyrir að brjóta sópinn að ég
hélt um skaftið þar sem brotið var svo
hann tæki ekki eftir neinu og hélt
áfram að sópa. Auðvitað sópaði ég
hálfskringilega og fór þetta náttúr-
lega í taugarnar á afa sem reif af mér
sópinn til að sýna mér réttu handtök-
in. Hann stóð orðlaus með brotið kúst-
skaftið í höndunum og gekk í burtu.
Ég heimsótti afa síðasta daginn
sem hann lifði. Þá var hann orðinn
mjög veikur og máttfarinn. Ég náði
samt að spjalla aðeins við hann og bar
honum kveðju frá gömlu vinnufélög-
unum. Það gladdi hann að fá kveðjur
úr vinnunni og það síðasta sem hann
sagði við mig var: „Þið eruð alltaf að
slá upp?“ Þrátt fyrir að vera orðinn
gamall og þreyttur var hugur hans við
vinnuna. Ég er viss um að minningin
um afa Sveinbjörn mun lifa í hugum
allra sem hann þekktu því þar fór
sterkur persónuleiki og góður maður.
Ljúf sé minningin um hann.
Sveinbjörn Sigurðsson.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Afi okkar var að mörgu leyti merki-
legur maður og kemur upp fjöldi
minninga þegar hugsað er til baka.
Það var afa alltaf mikið kappsmál að
gera góð kaup. Minnisstæðar eru inn-
kaupaferðirnar hans þar sem allt var
keypt í miklu magni svo að góður af-
sláttur fengist. Ef það þurfti að prútta
um verð á einhverju var hann líka
betri en enginn.
Afi var á tímabili alltaf með stóra
bunka af happaþrennum í vasanum og
gaf okkur barnabörnunum og jafnvel
ókunnugum. En gjafmildi hans er
okkur krökkunum sérstaklega minn-
isstæð.
Á sumrin var farið reglulega í heim-
sókn í sumarbústaðinn en þar undi afi
sér jafnan best við gróðursetningu
enda sjást þess skýr merki á sum-
arbústaðarlandinu. Það er dálítið lýs-
andi fyrir afa að til að byrja með sam-
anstóð sumarbústaðurinn af vinnu-
skúr sem var síðan stækkaður í
nokkrum áföngum.
Afi var vinnusamur maður og hans
sjötta barn var fyrirtækið hans og
mennirnir sem unnu hjá honum. Við
vorum ung þegar við fengum sumar-
vinnu hjá honum og hafa tvö okkar
lært húsasmíði.
Það er stundum sagt að bak við öll
mikilmenni sé sterk stoð. Í lífi afa stóð
amma alltaf sem klettur við hlið hans
en stórt skarð er höggvið í fjölskyld-
una með andláti hans.
Elsku amma, megi Guð styrkja þig
á þessum sorgarstundum.
Sigurður Rikharð,
Andrea og Helga Björk.
Í dag kveð ég ástkæran tengdaföð-
ur minn til margra ára, Sveinbjörn
Sigurðsson.
Sveinbjörn var litríkur karakter og
hafa margar skemmtilegar sögur ver-
ið sagðar af honum bæði úr vinnu og
utan vinnu. Hann lifði tímana tvenna
og hafði sjálfur jafnframt gaman af að
segja frá liðinni tíð og sögur af sam-
ferðafólki sínu.
Nýlega festi ég kaup á nýrri íbúð
sem ekki var búið að innrétta. Svein-
björn var mjög áhugasamur um gang
mála og vildi fá að fylgjast með fram-
kvæmdum og hafði jafnframt orð á
hvort hann gæti ekki flutt þangað
líka, svo vel líkaði honum íbúðin. Því
miður entist honum ekki tími til að sjá
íbúðina fullkláraða, en ég er viss um
að hann fylgist enn vel með gangi
mála.
Þó að ég hafi skilið við son hans
reyndust þau hjónin, Helga og Svein-
björn, mér áfram sem góðir tengda-
foreldrar og vinir og met ég það mik-
ils við þau.
Elsku tengdamamma, ég votta þér
samúð mína og dáist að hvað þú hefur
staðið þig vel í að hugsa um Svein-
björn síðustu árin.
Með kærri kveðju,
Magnea Sólveig.
Sveinbjörn Sigurðsson bygginga-
meistari er látinn.
Ég kynntist Sveinbirni á unga aldri
en hann var kvæntur frænku minni
Helgu. Það var alltaf gaman að Svein-
birni og ekki nein lognmolla yfir hon-
um. Það gustaði af manninum, hann
talaði hátt og það var stemmning í
kringum hann. Með fráfalli Svein-
björns er farinn einn síðasti stórbygg-
ingameistarinn í Reykjavík en hann
reisti fjölmargar byggingar, stórar og
smáar, um alla borg. Ég man vel eftir
helgarferð með Sveinbirni og sonum
hans í veiðihús sem hann átti við
Þingvallavatn og fannst mér stórkost-
legt að hann nennti að fara með okk-
ur. Hann bjó til matinn, en ég var ekki
vanur því að pabbi stæði í eldhúsinu
heima hjá mér við matreiðslu. Hann
sauð bjúgu og kartöflur og mér fannst
þetta herramannsmatur. Þetta var
sannkölluð kallaferð, ekkert vesen.
Þegar ég hugsa um þetta í dag, finnst
mér ótrúlegt að hann skuli hafa bætt
þessu við allt, sem hann hafði á herð-
um sér. Ég lærði húsasmíði hjá Svein-
birni og þar kynntist ég persónunni
enn betur. Hann var góður og sann-
gjarn maður og ef maður stóð sig í
vinnunni, mætti vel og var ekki að
gaufa þá var maður hans maður.
Sveinbjörn var höfðingi heim að
sækja. Hélt alltaf góðar veislur og
gerði vel við sitt fólk í veiðitúrum í
Veiðivötn á sumrin og á veturna var
farið á herrakvöld Lions. Þetta er allt
eftirminnilegt. Sveinbjörn var góður
sögumaður og var oft gaman að vera
með honum í bílnum. Þar sagði hann
frá sér og hvernig hann byrjaði með
sitt fyrirtæki. Það var bæði fróðlegt
og skemmtilegt.
Eftir að ég lauk sveinsprófi hjá
Sveinbirni var haldið til Kaupmanna-
hafnar til framhaldsnáms, en á móti
mér þar tók enginn annar en Kiddi
sonur Helgu og Sveinbjörns. Hann
var þá í sama skóla og ég var að fara í
og gaf hann mér góð ráð um hvernig
ég ætti að bera mig að í Köben. Lagði
hann til dæmis mikla áherslu á að
maður yrði að vera stundvís.
Fyrir mína hönd og fjölskyldunnar
þakka ég góð kynni við Sveinbjörn og
hans fólk. Það er sjónarsviptir að
manni eins og honum.
Finnur Björgvinsson.
Sveinbjörn Sigurðsson er genginn
á vit forfeðra sinna. Með honum
hverfur af sjónarsviðinu einn merk-
asti maður sinnar samtíðar, sem ég
hef kynnst, og er ég örugglega ekki
einn um þá skoðun. Mín kynni af
Sveinbirni voru þannig að ég vann
fyrir hann sem verktaki við jarðvegs-
vinnu á árunum upp úr 1975, þar
kynntist ég vinnubrögðum manns af
gamla skólanum, manns sem taldi það
ekki eftir sér að vinna fram eftir jafn-
vel fram á nótt ef því var að skipta og
alla daga vikunnar ef svo bar við og
allt sem gera þurfti gerði hann.
Það að vinna með Sveinbirni var
næstum eins og að vera á námskeiði í
nær öllu sem við kom húsbyggingum,
hann gerði flest bæði hratt og nær
alltaf rétt og skammaði mann strax ef
ekki var rétt að farið og hann batt
hnúta sem ég nýkominn af sjónum
hafði aldrei séð og mun seint gleyma.
Sveinbjörn var einnig alltaf að
koma manni á óvart. Eitt sinn er ég
var að vinna seint að kveldi fyrir
hann, þá kemur Sveinbjörn og spyr
mig hvort ég sé ekki svangur, hvort
mig langi ekki í pylsu ég játti því og
þá dregur hann upp hitabrúsa og úr
hitabrúsanum átum við síðan alveg
sjóðandi heitar pylsur.
Afkomendum Sveinbjörns og
Helgu votta ég samúð mína. Ég sjálf-
ur mun ekki syrgja Sveinbjörn heldur
geyma minningu hans og verð ætíð
þakklátur fyrir þann heiður að hafa
fengið að kynnast og starfa með þess-
um einstaka manni.
Magnús Jónsson.
Sveinbjörn Sigurðsson var maður
sem upplifði íslenskan byggingariðn-
að frá þeim handvirka iðnaði sem
hann var fyrir heimsstyrjöldina síðari
til þess tæknivædda og afkastamikla
iðnaðar sem hann er í dag.
Starfsferill hans stóð meir en 60 ár
í greininni. Framsýni hans og dugur
var slíkur að hann fór fremstur meðal
jafningja allan tímann og nú þegar
hann hverfur á braut stendur eftir
elsta byggingarfélag á Íslandi með
liðlega 60 ára samfellda og farsæla
starfsemi.
Sú staðreynd segir meir en annað
um dugnað og útsjónarsemi Svein-
björns, það er á færi fárra að standa
af sér hina hörðu og grimmu sam-
keppni sem einkennir íslenskan
byggingar- og verktakaiðnað eins og
hann gerði í þennan langa tíma og
skilja eftir sig bautasteina í formi
hundruða bygginga og mannvirkja
sem hann var stoltur af.
Dugnaði hans og útsjónarsemi
fylgdu svo þau atriði í hans viðskipta-
siðferði sem sköpum skiptu, ná-
kvæmni hreinskiptni og heiðarleiki.
Þeir eiginleikar hans áunnu honum
það traust og álit, að eftir því var sóst
að fá hann til að vinna verkin, lítil sem
stór, auðveld sem erfið. Þessir eigin-
leikar hans birtust jafnframt í þeim
metnaði að skila ávallt góðu verki.
Gæðin gengu framar fjármunum á
því sviði. Hann skildi að verkinu lauk
ekki á skiladegi heldur fylgdu þau
honum sem hans verk um ókomna tíð.
Metnaður hans um gott ástand verka
sinna var slíkur að alltaf hafði hann
auga með ástandi þeirra húsa og
mannvirkja sem hann hafði reist og
benti á þörf lagfæringa ef ástæða var
til.
Það var gott að eiga viðskipti við
Sveinbjörn. Alla sína samninga efndi
hann af fullkominni nákvæmni og ætl-
aðist til þess sama af sínum viðsemj-
endum um þeirra hlut. Þeir sem ekki
efndu sitt gagnvart honum fengu
sjaldan annað tækifæri, einkum ef
hann taldi grundvallaratriði brotin.
Mér kemur hér í hug ágæt
skemmtisaga sem lýsir Sveinbirni vel
að þessu leyti.
Fyrir aldarfjórðungi síðan vorum
við Sveinbjörn ásamt fleirum á leið á
byggingarsýningu í München. Þannig
atvikaðist að ég sótti Sveinbjörn heim
í Safamýri á leið á flugvöllinn. Þegar
við vorum að kveðja Helgu konu hans
á tröppunum segir hún við mig: „Æ,
góði Víglundur, sjáðu nú um að hann
kaupi sér góð föt í Þýskalandi.“ Við
Sveinbjörn hétum því í sameiningu að
það skyldi gert. Á þriðja degi förum
við á stað í fatakaupin, vorum búnir að
staðsetja góða fataverslun fyrir stóra
menn og lögðum í verkið.
Vel var tekið á móti okkur þegar
inn var komið og erindið hafði verið
borið upp. Sveinbjörn skoðaði af ná-
SVEINBJÖRN
SIGURÐSSON