Morgunblaðið - 20.06.2005, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 20.06.2005, Blaðsíða 25
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. JÚNÍ 2005 25 MINNINGAR LEGSTEINAR Steinsmiðjan MOSAIK Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík sími 587 1960 • www.mosaik.is LEGSTEINAR Helluhrauni 10, 220 Hf. • sími 565 2566 Englasteinar ✝ Ólöf Pálsdóttirfæddist hinn 9. nóvember 1909 í Ak- urhúsum í Grinda- vík. Hún lést á hjúkr- unarheimilinu Garðvangi í Garði hinn 14. júní síðast- liðinn. Foreldrar hennar voru Páll Magnússon útvegs- bóndi í Grindavík, f. 5. júlí 1866, d. 5. nóv- ember 1922, og kona hans Valgerður Jónsdóttir, f. 8. apríl 1868, d. 13. ágúst 1930. Systkini Ólafar voru: 1) Valgerður Jóna, f. 22. október 1891, d. 1964, gift Alexander Klemenssyni. 2) Loftsína Guðrún, f. 23. janúar 1894, d. 1963, gift Baldvini Jónssyni. 3) Pálína Magðalena, f. 29. maí 1898, d. 1977, gift Ólafi R. Björnssyni. 4) Guðmundur Júní, f. 17. júní 1901, d. 1939. 5) Gunnhildur Magnúsa, f. 4. október 1903, d. 1969, gift Ólafi Árnasyni. Ólöf giftist 8. apríl 1944 (Öss- uri) Bjarna Össurarsyni frá Keldudal í Dýrafirði, f. 24. nóv- ember 1914 í Haukadal í Dýra- firði, d. 28. september 1987. For- eldrar hans voru Össur Björn Kristjánsson og Jófríður Gests- dóttir. Synir Ólafar og Bjarna eru: 1) Gestur Ágúst bifvélavirki, f. 19. ágúst 1943, búsettur í Keflavík. Kona hans er Sigríður Guðrún Birgisdóttir. Þeirra börn eru: a) Bjarni, kvæntur Eddu Guðrúnu Guðnadóttur og eiga þau þrjú börn, Guðna Ágúst, Guð- rúnu Maríu og óskírða stúlku. b) Ás- dís Ólöf, gift Stefáni Einari Matthíassyni og eiga þau tvö börn, Björn Thor og Thelmu Eir. 2) Páll Valur arkitekt, f. 6. mars 1946, búsettur í Reykjavík. Kona hans er Sigríður Harðardóttir ritstjóri. Þeirra börn eru a) Ólöf, sambýlismaður Guðmundur Al- bert Harðarson og eiga þau tvo syni, Hörð Sindra og Val. b) Sigurrós, sambýlismaður Sverrir Viðarsson og eiga þau eina dótt- ur, Heklu. c) Þorgerður, sam- býlismaður Þórhallur Helgi Sævarsson. Ólöf ólst upp í Grindavík, fór í Húsmæðraskólann á Staðarfelli um 1930 og vann síðan ýmis störf, m.a. í Kaupmannahöfn, þar til hún fluttist til Keflavíkur um 1940. Þar kynntist hún Bjarna og bjuggu þau síðan allan sinn bú- skap í Keflavík, þar sem hún sá um börn og bú og vann ýmis störf utan heimilisins. Útför Ólafar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Látin er í hárri elli tengdamóðir mín Ólöf Pálsdóttir. Líf hennar fjar- aði hægt út – í fullum samhljómi við allt hennar líf. Þar var ekki hrapað að neinu og allt gert á yfirvegaðan og rólegan hátt. Hún var ein af þeim manneskjum sem tókst að feta sig í gegnum þær miklu breytingar sem urðu á lífsháttum fólks á tuttugustu öld án þess að láta glepjast af óþarfa. Í mínum huga var Ólöf lánsöm kona þótt óhjákvæmilega hafi á ýmsu gengið á svo langri ævi. Hún var einstaklega glæsileg og bjó alla tíð við hestaheilsu. Ég veit ekki til að hún hafi stigið fæti inn á sjúkra- hús fyrr en hún var komin vel að ní- ræðu, og þá út af einhverju lítilræði. Hún átti góðan og traustan mann og tvo vel gerða syni. Barnabörnin og barnabarnabörnin eru öll hraust og spjara sig vel. Ólöf talaði ekki mikið um liðna tíð og þóttist lítið muna þegar hún var spurð. Hún var yngst sex systkina og mátti horfa á eftir þeim öllum – fyrst á eftir eina bróð- urnum sem fékk ungur heilahimnu- bólgu og skaðaðist illa. Foreldra sína missti hún ung, föðurinn þegar hún var 12 ára og móðurina þegar hún var 21 árs. En systurnar voru mjög nánar og sem sú yngsta naut hún mikillar ástúðar og umhyggju þeirra eldri á meðan þær lifðu. Því skilaði hún í ríkum mæli áfram til sinna afkomenda. Ég kynntist Ólöfu fyrir nær þrjá- tíu og fimm árum. Hún var þá komin fast að sextugu, búin að skila upp- eldishlutverki sínu og barnabörnin farin að tínast í hús. Hún tók mér opnum örmum og ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi borið skugga á samband okkar. Þótt lífs- máti okkar og skoðanir á ýmsu væru af eðlilegum ástæðum afar ólíkar lét hún aldrei styggðaryrði falla um aðferðir mínar og bram- bolt. Frá henni fékk ég aldrei annað en fullan stuðning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Nú er komið að leiðarlokum hjá henni og ég þakka góðri og traustri vinkonu samferðina. Blessuð sé minning hennar. Sigríður. Elsku amma er nú horfin yfir móðuna miklu. Í hárri elli. 96 ára. Hvíldinni fegin eftir að ellihrumleiki svipti hana því sem hún var. Það var alltaf gott að koma á Norðurtúnið til hennar og afa. Tóku ætíð fagnandi á móti okkur unga fólkinu. Alltaf nægur tími til að sinna okkur, spjalla og leiðbeina. Umhyggja og áhugi á daglegu viðfangi okkar barnanna sem í heimi hinna full- orðnu þykja á stundum lítilmótleg. Lífið í litlum bæ og nálægðin virtust gera lífið svo sjálfsagt. Að hlaupa yfir götuna úr skólanum í hádeginu til ömmu. Eða á verkstæðið til afa var hversdagleiki þess tíma. Seinna meir eitthvað sem maður vildi óska sínum eigin börnum. Ekki fór mað- ur hungraður af þeim bæ. Amma var alltaf bakandi gómsætar kökur og brauð. Myndarskapurinn ein- stæður. Allt tandurhreint og fínt. Röð og regla á heimilishaldinu. Amma hafði mikið yndi af fallega garðinum sínum þar sem við áttum margar ógleymanlegar stundir. Á milli þess sem við dunduðum okkur við að reyta arfa og segja sögur, útbjó amma lautarferðir í garðinum með nesti og tilheyrandi. Eitthvað sem í barnsminningunni var heims- ferð og heilt ævintýri sem ekki gleymist. Hún var óspör á að miðla þekkingu sinni til okkar sem yngri vorum. Með þolinmæði tókst henni að kenna okkur krökkunum að prjóna, hekla og taka fyrstu sporin í saumaskap. En sjálf var hún mikil hannyrðakona. Ætíð prjónandi á okkur sokka, vettlinga og peysur. Amma var einstaklega hlý. Mun- um ekki eftir að hafa verið skömm- uð. Skilaboðin voru hins vegar skýr þegar henni mislíkaði. Maður skildi skilaboðin á þann hátt sem þau voru fram borin með umhyggju og vin- áttu að leiðarljósi. Hún var trúræk- in. Við minnumst þess þegar við vorum lítil og gistum hjá þeim afa að þá var ætíð farið með Faðir vorið og á eftir fallegar kvöldbænir eða vers sem enn standa fyrir sínu áratugum síðar. Þakka þér fyrir allar þær ógleymanlegu stundir sem við átt- um saman. Það er sárt að fá ekki að hitta þig oftar en góðu minningarn- ar um þig munu alla tíð lifa meðal okkar. Ásdís og Bjarni. Þá er elsku amma okkar farin frá okkur. Við geymum alla yndislegu tímana sem við áttum með henni í hjarta okkar. Heimili hennar var ávallt opið fyrir okkur grislingunum þar sem okkur var tekið opnum örmum og með bros á vör. Hún var alltaf svo góð við okkur og það var svo gott að koma til hennar og eyða stundunum með henni við að spila eða prjóna. Prjónaskapurinn skip- aði stóran þátt oft í samverustund- unum og hún kenndi okkur öllum að prjóna listavel. Eftir eina helgina hjá þér var Þorgerður búin að prjóna svo mikið og vel að handa- vinnukennarinn hennar henti henni út úr tíma fyrir að láta mömmu sína prjóna fyrir sig, slík var þjálfunin. Ógleymanlegar voru líka stund- irnar í eldhúsinu hjá henni þar sem uppáhaldsmaturinn var ávallt í boði og þannig var fasið hjá henni að við stelpurnar fengum alltaf að taka þátt í matseldinni og gengum glaðar frá eftir matinn. Þolinmæðina þraut aldrei þótt við létum stundum ílla og aldrei var rómurinn hækkaður þeg- ar eitthvað var skemmt. Hún hafði svo þægilega nærveru og svo róandi að það var sama hvað á bjátaði, þá rann úr manni æsingurinn og stressið þegar við komum í heim- sókn. Þannig var það þegar við vor- um börn og þannig var það enn eftir að við fullorðnuðumst. Hún var svo dugleg eftir að afi dó, þrátt fyrir að hún saknaði hans svo óendanlega mikið en nú vitum við að hún er loksins komin til hans. Við eigum eftir að sakna elsku ömmu okkar. Ólöf, Sigurrós og Þorgerður. Í æsku minni stóð sérstakur ljómi um Keflavík í hugum okkar bræðr- anna. Í Norðurtúninu í hjarta bæj- arins bjó Bjarni frændi, eldri bróðir pabba okkar, með sinni yndislegu konu, Ólöfu Pálsdóttur, og sonunum Gesti og Páli. Það var ævintýri lík- ast að fara í sunnudagsbíltúr með pabba og mömmu að heimsækja þau í Keflavík. Óla frænka tók á móti okkur með hlýju, geislandi brosi og ákveðinni röddu sem við hlýddum miklu betur en okkar eigin foreldr- um. Örlát og veitul á jafnt hlýju og amerísk leikföng af Vellinum sem við höfðum aldrei séð áður. Í minningunni er Norðurtúnið umvafið móðurlegri hlýju hennar og ástúð í garð lítilla frænda úr Reykjavík. Hlaðin veisluborð stóðu í stofunum þegar hátíðir gengu í garð eða tímamót í lífi fjölskyldunnar urðu tilefni fagnaðarfunda. Ekki spillti húsið sjálft sem okkur fannst risastórt, með ranghölum og dimm- um herbergjum í kjallaranum og háalofti sem undursamlegt var að rannsaka. Ekki var síðra að hitta frændurna, Gest og Pál, sem voru keflvískir töffarar einsog þeir gerð- ust flottastir, með brilljantín og spiluðu í hljómsveitum, áttu mótor- hjól og ameríska kagga. Það ríkti mikil hlýja milli bræðr- anna úr Keldudal, pabba og Bjarna, eiginmanns Ólu frænku. Bjarni, sem var eldri, hafði tekið á móti föð- ur mínum barnungum vestan af fjörðum. Þeir voru ólíkir, annar svartur og hinn rauðleitur, þver- öfugt við pólitík þeirra,og annar hæglátur en hinn hávær. Saman ráku þeir verslun í Keflavík, spiluðu á böllum og sömdu og léku revíur með leikurum sem síðar urðu lands- frægir. Það var gaman að sitja og hlusta á þá rifja upp ævintýri sín áð- ur en þeir gerðust ráðsettir fjöl- skyldufeður, af æskuárunum í Dýrafirði, og ekki síður að hlusta á Ólu frænku segja frá miklum ætt- boga sínum af Suðurnesjum. Það sló líka sérstökum ævintýrabjarma á Ólu í okkar huga að hún hafði með vissum hætti tengsl við annan heim – sem í okkar fjölskyldu var sann- kallað aðalsmerki – því hún var skírð eftir huldukonu einsog rakið hefur verið annars staðar. Hlýja hennar og vinsemd birtist mér líka þegar ég var að stálpast og stóð andspænis stúdentsprófum við MR eftir skemmtanaríkan og áhyggjulausan vetur þar sem minna var lagt í námið en í upphafi var efnt til. Þá bauð hún mér úr solli Reykja- víkur til þeirra Bjarna í Norðurtún- ið. Ég kom þangað með félögum mínum sem höfðu runnið í svipaðan farveg. Óla kom okkur fyrir í kjall- aranum í Norðurtúninu, bar okkur mat og kaffi þegar hún taldi okkur þurfa næringar við, vakti okkur á morgnana – og allt endaði þetta lið að lokum með nokkrar háskólagráð- ur heima og erlendis. Við höfum stundum minnst á það félagarnir að í Keflavík hafi okkur endanlega ver- ið stýrt með handafli inn á mennta- veginn. Háskólaár mín bar upp á hátind lopapeysunnar íslensku. Á þeim tíma var hún og gæruúlpurnar aðalsmerki ungs róttæks fólks og kannski allra ungmenna. Allar mín- ar lopapeysur, og okkar systkina, komu úr Keflavík frá Ólu. Hún var nefnilega einstök hannyrðakona og sannkölluð listakona á því sviði. Þegar ég nokkru síðar var kominn í nám á fenjasléttum Austur-Anglíu þar sem rakinn og kuldinn nístu gegnum merg og bein í ókyntum vistarverum í verkamannahverfum Norwich héldum við Árný á okkur hita í keflvískum lopapeysum Ólu, og sváfum jafnvel í þeim. Þá var hennar minnst með miklu þakklæti! Ég hafði orð á því við hana hversu kennurum mínum þættu peysur hennar mikið listaverk sem auðvitað varð til þess að hún sendi þeim líka peysur – sem enn eru í hávegum hafðar hjá kulsæknum breskum prófessorum sem komnir eru á eftirlaun. Við systkinin minnumst Ólu frænku okkar í Keflavík með mikilli hlýju. Hún og Bjarni maður hennar voru sæmdarfólk sem gott var að eiga að frændum. Hún lifði ham- ingjuríku lífi, var alltaf glöð og ánægð og lést í hárri elli eftir að hafa lifað hátt í hundrað ár á heima- slóðum sínum. Guð blessi minningu hennar. Össur Skarphéðinsson. Ólöf Pálsdóttir, eiginkona föður- bróður míns, Bjarna heitins Össur- arsonar, lést í síðustu viku í hárri elli á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði. Hún varð rösklega 95 ára gömul. Hún átti góða og hamingju- ríka ævi, og hélt sem betur fer góðri heilsu fram undir síðustu ár. Synir hennar þeir Gestur og Páll Valur, sýndu henni sonarlega ræktarsemi fram í andlátið og reyndust henni ekki síðri en hún reyndist þeim í uppvextinum. Alla tíð var mjög kært á milli heimila okkar, og aldrei man ég eft- ir því að nokkurn skugga bæri þar á, í þessari annars stórlyndu fjöl- skyldu minni. Það voru því líka sannkallaðar gleðistundir þegar Bjarni og Óla frænka komu í heim- sókn í Bólstaðarhlíðina með sonum sínum. Því alla tíð var ákaflega kært milli þeirra bræðra Skarphéðins og Bjarna og við sátum öll og hlust- uðum á þá rifja upp sameiginlega tíma fyrir vestan þar sem Bjarni hafði jafnan verndað litla bróður sinn þegar þeir misstu báða foreldra sína ungir að árum og í erfiðu ver- aldarvolki. Og síðan fengið hann til sín á unglingsárum suður til Kefla- víkur, sem er mín skoðun að skipti sköpum í lífi föður míns. Þar kynnt- ist hann svo mörgu og mörgum í Keflavíkinni sem breyttu lífi hans, ekki síst skátahreyfingunni og Helga S. sem hafði einstakt lag á óstýrilátum strákum og koma þeim í alvöru skátastarf og á leiksvið, og reyndar ýmislegt fleira sem ekki verður nefnt hér. Ekki var síðra fyr- ir mig og systkini mín síðar meir að koma suður til Keflavíkur í heim- sókn til þeirra í Norðurtúnið. Kefla- vík var á þeim tíma töluvert öðruvísi bær en Reykjavík. Amerísk áhrif voru allmikil í þessum Suðurnesja- útgerðarbæ enda unnu margir Suðurnesjamenn hjá hernum. Óla frænka vann um skeið hjá aðmír- álum á Vellinum og það kom fyrir í veislum að við hittum borðalagða herforingja sem töluðu á ókunnri og undarlegri tungu. Tengslin við Völl- inn leiddu til þess að í Norðurtúninu var jafnan á boðstólum góðgæti sem strákar úr Reykjavík höfðu aldrei séð. Það var því sérstakt tilhlökk- unarefni að hitta Ólu frænku því hún stakk alltaf að okkur amerísku sælgæti sem hvergi fékkst annars staðar og við aldrei séð fyrr á ævi okkar þá. Óla frænka var falleg kona með skýra andlitsdrætti, sérstaklega fal- legt hár, kvik í hreyfingum og bros- mild. Hún var örlát og hlý og tók okkur jafnan opnum örmum. Hún var einstaklega ræktarsöm. Sjálf átti hún stóran ættboga á Suður- nesjum, enda dóttir útvegsbónda úr Grindavík og hélt góðu sambandi við frænkur og frændur á öllum aldri. Eftir að Bjarni maður hennar lést hélt hún stöðugu sambandi við foreldra mína. Hún hringdi árum saman reglulega í þau og lét sig aldrei vanta í veislur og fagnaði inn- an fjölskyldunnar. Föður mínum var hún sérstaklega kær og hann minntist þess oft hversu vel hún hafði reynst Bjarna bróður sínum. Mér þótti afar vænt um alla þessa ræktarsemi við okkur öll og er henni mjög þakklátur fyrir hversu vel hún reyndist foreldrum mínum í hvívetna. Sjálfur hafði ég mjög gaman af því að spjalla við Ólu frænku um allt milli himins og jarðar. Hún var góð- ur hlustandi og hafði alltaf gaman af áhuga mínum á dulrænum efnum. Þótti mér því sérstakur fengur þeg- ar ég frétti það frá henni sjálfri og öðrum að hún hefði á sínum tíma verið skírð eftir huldukonu. Og gaman þótti mér þegar hún rifjaði eitt sinn upp gamla tíma þegar hún var að kynnast Bjarna manni sínum en á þeim tíma ráku þeir Skarphéð- inn faðir minn verslun í Keflavík. Voru þeir því á margan hátt áber- andi í félagslífi bæjarins. Bjarni var mjög músíkalskur og laghentur maður í alla staði. Var hann í hljóm- sveitum sem spiluðu á böllum í Keflavík, og það var einmitt þannig sem þau kynntust. Hún sýndi mér eitt sinn eina af uppáhaldsmyndun- um af Bjarna, þar sem hann situr við hljóðfærið með hljómsveitinni, dökkur og flottur sjarmör sem heill- aði flestar ungar konur á þeim ár- um. Þegar kona eins og Óla frænka, eins og við bræður gjarnan kölluð- um Ólu, fellur frá, þá er eins og slitni strengur í hjarta manns. Því þó Óla hafi verið orðin vel fullorðin kona og í sjálfu sér ekkert annað eftir en að flytja í Sumarlandið góða, þá var og er sjónarsviptir að henni. Hún skilur eftir sig skarð í tilverunni vegna þess að henni tengjast hlýjar minningar ein- göngu. Ég er þess fullviss að hún er sátt við sjálfa sig og líf sitt þegar hún situr nú í góðum fagnaði ætt- ingja og vina handan við landamær- in miklu og hlær og tístir svo undir tekur þegar gamlir tímar eru rifj- aðir upp. Það verður líka gaman að hitta hana í fyllingu tímans á nýjan leik. Og þar verður ekki síður hlegið innilega og tíst eins og Óla átti svo gjarnan til þegar vel lá á henni og hún heyrði eitthvað skoplegt um náungann og frændgarðinn, sem enginn skortur var á þegar ég og mín sérstaka fjölskylda vorum ann- ars vegar. Magnús H. Skarphéðinsson. ÓLÖF PÁLSDÓTTIR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.