Morgunblaðið - 11.10.2005, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 11.10.2005, Blaðsíða 22
22 ÞRIÐJUDAGUR 11. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ MENNING LANDAMÆRIN milli leiklistar og sagnamennsku eru bæði breið og umdeild og það er úr því einsk- ismannslandi sem rödd Nigel Wat- son berst okkur. Nigel hefur fjöl- þættan bakgrunn í leikhúsi og greinilegt að reynsla hans sem hreyfihönnuður, leikstjóri og fræði- maður nýtist öll í að magna þann seið sem hann reiðir fram. Grunn- tónninn er samt úr heimi sagnanna og þaðan kemur stærsti hluti áhrif- anna. Nigel hefur að því er ráða má af leikskránni lagt sig nokkuð eftir því að vinna efni úr sagnaarfi heima- lands síns, Wales. Efni þesarar sýn- ingar kemur úr Mabinogi – Æsku- sögnum – helsta sögusafni þjóðarinnar, en úr því hefur Nigel unnið á ýmsan hátt og flutt efnið víða um heim. Lítill leikdómur er svo sem ekki vettvangur til að kryfja muninn á listum leikarans og sagnaþularins. Fyrsta hugsunin sem kviknar eftir að hafa setið bergnuminn í skelli- björtum sal Norræna hússins og starað með eyrun sperrt á svart- klæddan kall í brúnum skóm í á annan klukkutíma er undrun yfir því að jafnbeinskeytt og látlaus framsetning haldi óskiptri athygli manns. Því er nefnilega haldið fram að á okkar tímum sé orðið geng- isfallið eins og þýskt millistríðs- mark. Við lifum víst á öld mynd- anna, tíma leiftursóknar á skilningarvitin, öld óþolinmæðinnar. Hvers vegna er þá hægt að fanga huga manns svona gersamlega með því að segja manni ævintýri án nokkurra myndrænna hjálp- artækja? Kannski er hluti af svarinu fólg- inn í afstöðu sögumannsins sjálfs. Enn frekar en leikhúsmaðurinn er hann þjónn efnisins. Hann efast aldrei um að það sem hann hefur að segja er í frásögur færandi. Og hann veit að allir ljósaeffektar og skrautbúningar, allt gerviblóð heimsins nægir ekki ef sagan er ekki góð. Það er skammgóður vermir að pissa í effektaskóinn. Áhorfendur láta ekki plata sig tvisv- ar. Nigel Watson platar okkur ekki. Hann segir okkur sögur. Mergjaðar sögur sem aldirnar hafa slípað. Kynslóðirnar, stærsti rýnihópur veraldar, hafa fullvissað sögumann- inn um að efniviðurinn stendur fyrir sínu. Þá er bara að láta hann gagn- taka sig og miðla honum þannig áfram. Það tókst Nigel fyllilega. Vissulega beitti hann á köflum með- ulum leikhússins, brá sér í ólík hlut- verk, teiknaði kringumstæðurnar í rýmið. Og tækni hans er eftirtekt- arverð, hvort sem hlustað er á magnaða röddina eða horft eftir ög- uðu líkamsmálinu. Samt held ég að hann hefði getað gert helmingi minna og náð sömu áhrifum. Eins fundust mér innskot á íslensku litlu bæta við. Við vildum einfaldlega vita hvernig færi eiginlega fyrir hin- um leðurreifaða Taliesin, þeim ógæfusama en handlagna Lleu, eða hvort konungurinn Math fengi þann draum sinn uppfylltan að fá svín í stíu sína, og hvaða dilk sú græðgi drægi á eftir sér. Samt vissum við sjálfsagt fæst þegar við settumst að þetta fólk hafi nokkru sinni verið til. Núna vitum við það. Það voru sorglega fáir sem urðu vitni að galdri Nigel Watson. Hann leyfði okkur heldur ekki að kalla sig aftur á svið með lófatakinu. Það er því ekki um annað að ræða en að koma síðbúnum þökkum á fram- færi: Diolch Yn Fawr! Sagan er góð Þorgeir Tryggvason LEIKLIST Nigel Watson Unnið upp úr, „The Mabinogi“ af Nigel Watson sem einnig flytur. Norræna húsið 10. október 2005. Epic Celtic Safnahús Borgarfjarðarstendur um þessar mundirfyrir sýningu á verkumÞórðar Jónassonar á Mó- fellsstöðum, blinds þjóðhagasmiðs sem fæddist 1874 og lést 88 ára 1962. Sýningin er opin frá kl. 13 til 20 þriðjudaga og fimmtudaga, aðra virka daga til kl. 18. Laugardaginn 22. október verður hún og opin al- menningi frá kl. 14 til 18. Ása S. Harðardóttir er for- stöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar og bauð gesti hjartanlega velkomna þegar umrædd sýning opnuð þann 5. október sl. Hún sagði m.a.: „Þórður bjó alla sína ævi á Mófells- stöðum í Skorradal. Hann varð blind- ur aðeins 7 ára gamall vegna sjúk- dóms sem ekki var þekkt nein lækning við þá. Hann varð snemma næmur á umhverfi sitt og önnur skynfæri en sjónin efldust í þeim mæli að hann gekk um og þekkti um- hverfi sitt sem sjáandi maður. Heima hjá Þórði voru í æsku hans til fjögur verkfæri: hamar, naglbítur, þjöl og sög. Með þessu hóf hann að gera við tæki svo þau urðu sem ný, einnig að smíða hrífur, orf, laupa, klyfbera og fleiri nytjatól þeirra tíma. Með ólíkindum þótti hvernig alblind- ur maður gæti unnið svo haganlega að viðgerðum á munum að þeir yrðu sem nýir. Smíðaði eigin áhöld og ýmsa flókna smíðisgripi Á tvítugsaldri var hann fenginn til aðstoðar við að reisa íbúðarhúsið að Grund í Skorradal. Þar fékk hann tækifæri til að þreifa vandlega á verk- færum sem notuð voru en hann hafði ekki áður kynnst. Hann festi þau í minni í smáatriðum og hóf að smíða sín eigin áhöld. Eftir þetta tók hann að smíða viðameiri hluti, svo sem hirslur, skápa, kommóður, kistur og stokka – með öllum tilheyrandi skúff- um, hólfum og krúsidúllum. Systkinin á Mófellsstöðum, bróðurbörn Þórðar, hafa sagt mér að hverri bón hafi Þórður tekið með brosi á vör, hann hafi alltaf verið léttur í lund og unnið hvert verk svo geislaði af honum vinnugleði og jákvætt hugarfar.“ Á sýningunni í Safnahúsi Borg- arfjarðar er m.a. sög sem Þórður smíðaði árið 1911 þegar hann tók þátt í iðnsýningu í tilefni af aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, þá 27 ára gamall. „Það er full ástæða til að gera verk- um þessa manns hátt undir höfði, þau eiga það skilið,“ sagði Ása ennfremur um smíðisgripi Þórðar Jónssonar. „Mér finnst saga hans lygasögu lík- ust. Hann þreifaði t.d. á sög í smíða- verkstæði Jóns Halldórssonar í Reykjavík að vori til og smíðaði svo samskonar sög um haustið og notaði hana alla tíð og hún er á sýningunni hér núna. Þeir frændur hans Bjarni og Þórður Vilmundarsynir á Mófells- stöðum yfirfóru hana fyrir þessa sýn- ingu og er hún í fullkomnu lagi og vel nothæf. Þórður smíðaði flesta glugga, hurðir og innréttingar í „nýja“ íbúð- arhúsið á Mófellsstöðum árið 1926, ekki hið einfaldasta heldur „fuln- inga“-hurðir og samansporaða glugga. Súlurnar á skápnum sem Oddný og Margrét Eyjólfsdætur, systurdætur Þórðar, gáfu Byggða- safninu í tilefni af þessari sýningu líta helst út fyrir að vera renndar, en það er öðru nær, hann tálgaði viðarrenn- ingana. Að sögn bræðranna Bjarna og Þórðar á Mófellsstöðum þá vafði hann kaðal utan um viðarbút, strekkti svo á kaðlinum og merkti eftir honum á viðinn, svo út varð munstur. Til að auðvelda sér verkið gerði hann svo skapalónin sem einnig eru hér á sýn- ingunni og eru við hliðina á skápn- um.“ Hafði brennandi áhuga á at- vinnuháttum til sveita og sjávar Auk Ásu, forstöðumanns safnsins, tóku til máls þeir Bjarni Vilmund- arson á Mófellsstöðum og Guð- mundur Þorsteinsson í Efri-Hrepp. „Það væri mikið safn af orfum og hrífum ef allt væri saman komið af því tagi sem Þórður frændi minn smíðaði og kæmist varla hér inn,“ sagði Bjarni m.a. Bjarni, Margrét og Þórður Vilmundarbörn, sem búa á Mófellsstöum, hafa gefið flesta þá muni sem á sýningunni eru „Þórður notaði eskivið eða eik í orf- in, þau urðu að vera sterk til átaka. En Þórður gerði fleira en smíða, hann tók þátt í almennum bústörfum þótt blindur væri. Mér er m.a. í minni að Þórður mokaði flórinn oft á tíðum og tók á móti böggum í hlöðunni sem ekkert væri og leysti úr heyinu. Hann hafði brennandi áhuga á at- vinnuháttum bæði til sveita og sjávar og hlustaði mikið á útvarp. Þegar hann heyrði í fréttum 1947 um nýja verkun heys, súgþurrkun, að hægt væri að hirða hey og fullþurrka það í hlöðum þá sagði hann við föður minn: „Strákarnir þurfa að fara suður og kynna sér þetta og nýta þetta svo hér.“ Og við fórum suður og ekki leið á löngu þar til súgþurrkun var komin á laggirnar á Mófellsstöðum. Sama var að segja um votheys- verkun, þegar hún var tekin upp kom Þórður einnig að því, hann raðaði m.a. steinum skipulega yfir heyið. Hann vildi ekki kvistóttan við í smíðar sínar, það vissu þeir hjá Völ- undi sem hann verslaði mikið við. Hann keypti þó einnig við í kerruhjól hjá Jóni Loftssyni og margt vanhag- aði hann um sem fékkst í versluninni Brynju. Við bróðursynir hans fórum með honum til Reykjavíkur og leiddum hann þar um götur í þær verslanir sem hann átti erindi í, hann vissi hvar allt fékkst sem hann vildi fá og oftar en ekki komu afgreiðslumennirnir fram fyrir búðarborðið og spurðu: „Hvað getum við nú gert fyrir þig, Þórður minn?“ Bjarni gat þess ennfremur hve mikið þau systkin hefðu lært af sam- vistunum við Þórð frænda sinn og hve mikils virði þær samvistir hefðu jafn- an verið þeim alla tíð sem Þórður Jónsson lifði. Guðmundur Þorsteinsson sagði frá kynnum sínum af Þórði blinda. „Ég kom oft að Mófellsstöðum, m.a. var ég þar stundum í farskóla. Þá fengum við nemendurnir að fara í smíðastofu Þórðar, eina skilyrðið var að við settum alla þá hluti á sama stað sem við tókum fram svo hann gæti gengið að þeim vísum þegar hann þyrfti að nota þá, öllu var mjög vand- lega og skipulega komið fyrir í smíða- stofu Þórðar í kjallara íbúðarhússins að Mófellsstöðum.“ Það var auðheyrt á sýningar- gestum að þeim þótti mikils um vert að munir Þórðar væru nú sýndir al- menningi á skipulegan hátt og vissu- lega er mikill fengur að sýningum sem þessari. Ása S. Harðardóttir var spurð hvort safninu bærist mikið af munum úr héraðinu. „Safnið á mikið af munum sem því hefur borist í gegnum tíðina,“ svaraði Ása. Hún gat þess að starfshópi hefði verið komið á laggirnar í haust til þess að móta stefnu safnsins varðandi sýningarhald og geymslumál, en þar væri nú gífurlegt verk fyrir höndum og vonir stæðu til að málin kæmist í betra horf en verið hefði. „Enn berst safninu margt merki- legra muna og því eðlilegt að skapa skilyrði til þess að þeir fái að njóta sín sem skyldi,“ sagði Ása. Þess má geta að einnig er uppi núna sýning á munum Hússtjórn- arskólans á Varmalandi sem starfaði á árabilinu 1946 til 1986. „Ég vil vekja sérstaka athygli á að sýningin á verkum Þórðar Jónssonar verður opin laugardaginn 22. október frá kl. 14 til 18 og hvet fólk til þess að láta ekki sýninguna á verkum þessa merka manns framhjá sér fara,“ sagði Ása að lokum. Smíðisgripir blinds þjóðhaga Safnahús Borgarfjarð- ar í Borgarnesi er nú með sýningu á verkum Þórðar Jónssonar, blinds þjóðhagasmiðs sem lést árið 1962, 88 ára að aldri. Guðrún Guðlaugsdóttir var viðstödd opnun sýn- ingarinnar, ræddi við Ásu S. Harðardóttur forstöðumann safnsins og skoðaði ýmsa muni sem Þórður smíðaði á langri starfsævi, muni sem þættu listasmíði þótt sjáandi maður ætti í hlut. Sögunarvélin sem Þórður smíðaði eftir að hafa þreifað á samskonar vél í Reykjavík nokkru áður. Brjóstmynd af Þórði Jónssyni sem Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði árið 1959. Morgunblaðið/Guðrún Guðlaugs F.v. Jóhanna Skúladóttir og Sævar Ingi Jónsson, starfsmenn Safnahúss Borgarfjarðar. Þá eru þau Þórður Vilmundarson, Oddný Eyjólfsdóttir, Margrét Vilmundardóttir, Margrét Eyjólfsdóttir og Bjarni Vilmundarson – öll systkinabörn Þórðar Jónssonar og hafa gefið safninu smíðisgripi eftir hann. T.h. er Ása S. Harðardóttir, forstöðumaður safnsins. Í baksýn er skápurinn með tálguðu súlunum sem sagt er frá í greininni. gudrung@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.