Morgunblaðið - 13.10.2005, Síða 2

Morgunblaðið - 13.10.2005, Síða 2
2 ÆVI OG STÖRF / DAVÍÐ ODDSSON 13. OKTÓBER 2005 Þ að skarast aðeins það sem ég man og hvað mér var sagt,“ segir hann þegar ég spyr hvað hann muni fyrst eftir sér. „Ég var ekki það undrabarn að ég muni atvik úr minni frumbernsku. En ég fylgdist með umhverfi mínu frá fjögurra, fimm ára aldri. Ég man töluvert frá verunni á Selfossi, hjá ömmu og afa; [Ástu Jónsdóttur og Lúðvík Norðdal Davíðssyni]. Reyndar fæddist ég í Reykjavík, í rúmi Einars ríka í Drápuhlíðinni. Hann var giftur ömmusystur minni, þau voru reyndar að skilja um þetta leyti, og ég er fæddur hans megin í rúminu. Svo fórum við móðir mín á Selfoss, þar sem afi var læknir og þar ólst ég upp með hálfbróður mínum, Birni Snorrasyni, þangað til við mæðginin fluttum í bæinn; í Barmahlíð 47. Árið eftir komu amma og afi og bróðir minn til okkar, en þá var afi orðinn veikur. Hann dó 59 ára, útslitinn læknir í stóru héraði á Selfossi og áður Eyrarbakka. Ég man að amma hafði oft á orði, að það væri alltaf gott veður á Eyrarbakka. Föðuramma mín [Valgerður Haraldsdóttir Briem] og föðursystir [Ingibjörg Ólafsdóttir] bjuggu á Njálsgötunni, leigðu þar af Ólafi í Fálkanum. Mér líkaði vel hjá þeim enda var ég þar í miklu eftirlæti. Þær lifðu báðar af ellilaunum ömmu hvernig sem þær fóru að því. Föðuramma mín var í peysufötum upp á hvern dag og hin amman alltaf með skotthúfu.“ Í smásagnasafninu Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar eftir Davíð Oddsson, sem kom út 1997 (annað smásagnasafn; Stolið frá höfundi stafrófsins kom út 2002), er sagan Snúist til varnar Íslandi, þar sem söguhetjan hleypur heim til mömmu að segja henni frá hernámi Breta. Og viðbrögðin eru fumlaus. „„Hvað segirðu barn. Hafa Bretarnir hernumið Ísland? Þá verð ég strax að fara í peysuföt.“ Hún fór fram úr í rólegheitum og hóf að klæða sig hægt og virðulega en spurði einskis frekar. Þá vissi ég að Ísland hafði gripið til viðeigandi varnaraðgerða gegn innrás- arhernum og var í hjarta mínu sannfærð um að þær myndu duga.“ „Móðir mín, Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir, starfaði sem ritari á lög- fræðistofu Einars Baldvins Guðmundssonar og félaga í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og í áraraðir síðar í Landsbankanum,“ heldur Davíð áfram. „Hún giftist aftur Gunnari Ólafs bankafulltrúa, sem varð stjúpi minn.“ – Þú hefur deilt með okkur bernskuminningum frá Selfossi í smásögum þín- um. „Já, ég hef skrifað svolítið um árin mín á Selfossi. Mér fannst til um staðinn, afa minn og húsið, sem við bjuggum í að Austurvegi 28. Það hafði reyndar smækkað talsvert frá því sem það var í mínum huga, þegar ég kom þar inn síð- ar! Afi var ágætlega hagmæltur og vel pólitískur. Hann velti fyrir sér þátttöku í stjórnmálum, en var sagt að hann hefði fullmikla tendensa til að segja sitt álit umbúðalaust! En hann var farsæll læknir. Það hef ég fundið á ferðum mínum síðar. Honum var oft hrósað fyrir læknisverk, en ein hrósyrði veit ég ekki hvernig á að skilja. Þau lét útfararstjóri nokkur falla: Það mátti Norðdal læknir eiga að hann reyndi ekki að lífga manninn við! Ég var kallaður Beysi. Ekki veit ég hvaðan það kom. Ég var lítið hrifinn af því og þótt það fylgdi mér lengi frameftir á Selfossi leyfði ég það ekki í bænum. Einu sinni var ég að leika í útvarpsleikriti undir stjórn Ævars Kvaran og þar var líka frændi hans, Gísli Alfreðsson. Allt í einu heyri ég Ævar segja; „Beysi, komdu hér að finna mig.“ Mér brá því ég skildi ekki hvernig Ævar vissi þessi deili á mér. Ég fór inn í leikstjóraherbergið og þar var þá Gísli kominn. „Hvað vilt þú,“ spurði Ævar mig og þá kom í ljós að Gísli var líka kallaður Beysi. Ég fór orðalaust út aftur og mér létti mikið að vita að Beysanafn mitt var áfram bundið við Selfoss. Ævar var afskaplega góður maður. Ég var í skóla hjá honum í tvö ár, þar var líka meðal annarra Stefán Baldursson, sem síðar var þjóðleikhússtjóri. Áður en ég fór í stúdentspróf var ég að velta fyrir mér leiklistarnámi í Japan. Ekki man ég nú af hverju hugurinn stefndi þangað. En svo varð ég sem betur fer ástfanginn og þá hvarf Japan úr huga mér. Á Herranótt lék ég Bubba kóng og út á það réð Sveinn Einarsson mig sem leikhúsritara hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þar starfaði ég í um það bil tvö ár, 1970–72, með laganáminu, mest með sómamanninum Guðmundi Pálssyni leikara. Á þessum árum lék ég jólasvein með Katli Larsen og hafði gott upp úr því. Ég vona bara að það sé nú fyrnt, því mér er til efs að jólasveinalaunin hafi öll ratað inn á skattskýrsluna. Vonandi fæ ég ekki Indriða [H. Þorláksson rík- isskattstjóra] á mig út af þessu! Ég var auðvitað í algjöru aukahlutverki á móti Katli, því sá ágæti maður er eilífðarjólasveinninn holdi klæddur. Hins vegar var ég einu sinni fenginn í að- alhlutverk jólasveins í jólastund sjónvarpsins en fékk alveg hræðilega dóma. Þetta var þannig, að það þurfti að taka atriðið upp aftur og ég þá að spyrja börnin sömu spurninganna. En þau létu ekkert plata sig og sögðust vera búin að svara þessum spurningum. Þeim þótti greinilega ekki mikið til jólasveins- ins koma. Þá ætlaði ég að bjarga málunum með því að taka einn krakkann á hné mér og söngla Þyrnirós var bezta barn. En það vildi þá ekki betur til en svo að krakkinn var tvíburi og hinn fór að gráta út af því að vera skilinn út- undan og þá fóru öll börnin að gráta. Ég held að sjónvarpið hafi fengið Róbert Arnfinnsson árið eftir til þess að bjarga heiðri sínum og jólasveinsins, en þess- um leikferli mínum lauk þarna með ósköpum. Ég ætla bara rétt að vona að þeir séu búnir að henda upptökunni!“ Við straumhvörf Hann hverfur af hinu pólitíska sviði, þar sem hann lungann úr röskum þremur áratugum hefur verið borgarstjóri og forsætisráðherra. En Davíð Oddsson er ekkert að fara út af, hann er bara að skipta um stöðu á vellinum og ætlar áfram að láta að sér kveða, þótt með hægari og hljóðari hætti verði. Kominn á tindinn.Hjá pabba. Hjá mömmu. Eftir Freystein Jóhannsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.