Morgunblaðið - 27.11.2005, Side 10

Morgunblaðið - 27.11.2005, Side 10
10 SUNNUDAGUR 27. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ H ún stendur á haus í skjalasafni föður síns, sem búið er að flokka og merkja til afhendingar í Þjóðarbókhlöðuna. „Sjáðu þetta,“ segir hún, „svona gæti ekki gerzt nútildags“. Þetta er mappa, merkt Einar Olgeirsson fimmtugur, og í henni listar með nöfnum manna, sem gáfu 10 krónur til Þjóðviljans í tilefni afmælisins. Hann pabbi geymdi ýmislegt. Ekki var til siðs að fleygja neinu á hans tíð. Fólk átti lítið og sumir ekki neitt. Bréf og kort voru gulls ígildi. Ævaforn dagskrá að tónleikum í KB Hallen í Kaupmannahöfn vorið 1948 þar sem Marían Anderson söng leynist hér ásamt stórri forsíðumynd af þessari glæsilegu konu. Tónleikum sem faðir minn hafði sótt og oft haft orð á. Aðdáun hans á þessari þeldökku, fallegu konu, sem oft var bannað að syngja vegna hörundslitar síns, varði æ síðan. Gulnuð blöð með leiðréttingum Einars á ritdómi hans sjálfs í tímaritinu Rétti um ann- að bindi af greinum Sverris Kristjánssonar sagnfræðings, sem Einar kallaði: Gimsteina íslenskrar ritlistar. Sólveig tínir mér fleira úr skjalasafni föður síns. Þorsteinn Valdimarsson þýddi mikið fyr- ir Einar Olgeirsson í tímaritið Rétt. Hér eru handrit að þýðingum hans með hans hendi, þar á meðal Promeþeifur eftir Goethe. „Hér er líka fyrsta veizla forseta Íslands og konu hans að Bessastöðum 22. janúar 1944. Pabbi hefur fest nafnspjald bandarísks hershöfð- ingja við kortið yfir borðaskipanina, en sá var sessunautur Ólafs Thors og ég ímynda mér að Ólafur hafi haft gaman af því að kynna þá pabba!“ Þarna er líka hvatningarljóð Jóhann- esar úr Kötlum í kosningabæklingi Sósíalista- flokksins 1952 – Vorsókn íslenskrar alþýðu. Og vegabréf Einars, eitt er úr ferð hans á veg- um ríkisstjórnarinnar til Stokkhólms 1945 – farkosturinn bandarísk herflugvél! Stílabók eftir stílabók sem Einar hefur fært eitt og annað inn í. Og svo framvegis. Og svo framvegis. En svo rönkum við við okkur. Við ætlum ekki að verja deginum í skjalaskoðun, heldur tala um bókina, sem hún hefur skrifað um föður sinn; Hugsjónaeldur – minningar um Einar Olgeirsson. „Það sem kveikti í mér að skrifa þessa bók var sá aragrúi bréfa, sem ég fann að foreldr- um mínum látnum. Pabbi lézt í febrúar 1993 og mamma í desember árið eftir. Þá sat ég uppi með allar þessar bækur og öll þessi skjöl, sem ég fór að sortera. Bréfin vörpuðu ljósi á margt í bernsku verkalýðshreyfingarinnar og sýndu líka að faðir minn var í miklu sambandi við fólk af öllum stéttum, ekki sízt skáldin. Því fleiri sem ég las þeim mun fleiri spurningar vöknuðu og smám saman vaknaði áhugi minn á því að gera þessu efni einhver skil. Faðir minn var í Þýzkalandi frá 1921–24 og þegar hann kom heim, fór hann beint norður, en lenti svo á Vífilsstöðum og var þar sumarið 1926. Þá er hann ákveðinn í að gefa út Rétt, sem hann ritstýrði í 60 ár, og stóð í bréfa- skiptum við fjölda manns til að fá efni í tíma- ritið. Ég held að menn hafi átt óskaplega erf- itt með að neita honum. Pabbi var mjög mikill bókmenntamaður. Hann varð að hætta námi í Berlín í enskum og þýzkum bókmenntum vegna peningaleysis, en þar drakk hann í sig stórskáldin og tók By- ron, Shelley og Heine sér að hjarta.“ Lítum nánar á kompurnar og litlu miðana hans pabba. Hann skrifar hjá sér málsgreinar sem honum þykja merkilegar; ljóð og ljóð- línur; gagnrýni og umsagnir um hin ýmsu bókmenntaverk. Vinnan á þessum litlu miðum er með ólíkindum. Næstum hvert einasta orð er skýrt og fallega skrifað með blekpenna. Blekið hlýtur að hafa verið gott því enn er það eins svart og skýrt eins og þegar það snerti pappírinn. Ekki er Einar ætíð jafn hrifinn af þessum skribentum og fellir stundum harða dóma, einkum ef honum þykja rithöfundarnir of borgaralegir. „Þegar ég rakst á alla þessa hluti fór ég að hugsa með mér: Ja hérna. Hvað get ég gert við þetta? Og í hvert skipti sem ég kom heim gluggaði ég í þessa pappíra. Og innra með mér óx löngun til að gera manninum skil. Kommúnistastimpillinn var svo svæsinn og er reyndar enn að fólk sá og sér ekki enn föður minn í réttu ljósi fyrir honum. Mig langaði að sýna á honum fleiri hliðar. Ég fór að ljósrita pappíra og taka með mér til Ástralíu og þar byrjaði ég svo að skrifa bókina, eins langt frá söguslóðum hennar og hægt er á byggðu bóli. Þegar ég var komin í gang með skriftirnar fór ég að fá áhuga á ættartölunni; fólkinu sem faðir minn er kominn af. Þá rak ég mig á svo margt, sem hann talaði aldrei um; hvernig æska hans var. Mig langaði til þess að gera skil þessum íslenzka veruleika, sem hann spratt upp úr; fátæktinni og þessari hörðu lífsbaráttu, sem gerir hann að þeim eldheita kommúnista sem hann var. Pabbi hans, afi minn, Olgeir Júlíusson, barðist fyrir málstað verkamannsins og var einn af stofnendum fyrsta verkamannafélags- ins á Íslandi; Verkamannafélags Akureyrar (hins eldra) og var kosinn í stjórn þess. Faðir minn fékk efalaust að kenna á því sem elzti sonur þessa verkalýðsforingja. Langafi pabba var séra Páll Jónsson í Viðvík, sem orti marga sálma, þar á meðal: Ó Jesú bróðir bezti. Séra Páll missti þrjú börn sín í sömu vikunni úr einhverri hálsveiki og varð að jarðsetja þau sjálfur. Það er þessi harði veruleiki og þessi breiða fjölskyldusaga sem mig langaði að segja í bókinni. Mér fannst ég einhvern veg- inn verða að skrifa um þetta. Þess vegna er bókin mín bæði fjölskyldu- og stjórnmála- saga.“ Um fjölskylduflæking og ljóðelsku „Þegar foreldrar Einars, Sólveig Gísladótt- ir Pálssonar og Olgeir kynnast og taka saman, hefur hann komið undir sig fótunum, búinn að fara til Noregs að læra bakaraiðn og stofna bakarí á Akureyri. En hann er alltaf að ves- enast í verkalýðsmálunum. Og pólitíkinni. 1908 er háð sú harðasta og orðljótasta kosn- ingabarátta sem Íslandssagan kann að greina frá, þegar kosið er um sambandslagauppkast- ið. Skúli Thoroddsen var einn nefndarmanna á móti uppkastinu og Olgeir var Skúlamaður.“ Nóttin var norðlensk og björt. Hvergi kunni Olgeir betur við sig en á Akureyri. Hér var framtíð hans og fjölskyldunnar. Olgeir gekk hljóðlega upp stigann. Allir voru í fastasvefni. Einar svaf fremst í rúminu en fyrir ofan hann svaf litla Hildigunnur og María lengst uppi í horninu. Olgeir hagræddi sænginni yfir börnunum. Einn góðan veður- dag myndi hann segja Einari litla frá því hvernig fyrsta verkamannafélagið á Íslandi varð til. Frá Skúla Thoroddsen, Þjóðviljanum og frelsisbaráttunni. Strákurinn var greindur og vildi óður og uppvægur heyra sögur. Hann hafði meira að segja áhuga á Njálu – svona ungur! Vonandi gæti hann komist til mennta seinna meir. Gáfurnar voru fyrir hendi – svo mikið var víst. Olgeir var býsna stoltur af einkasyninum. Olgeir féll í þungan svefn um leið og hann lagði höfuðið á koddann. Svefninn varð ekki langur. Olgeir rauk upp með andfælum. Var einhver að kalla? Hann hóstaði og blés. Herbergið var fullt af reyk. Hann tók í öxlina á konu sinni. Hristi hana svo hún vaknaði. Þau ruku upp til handa og fóta. Vöktu börn- in. Olgeir vakti stúlkurnar þrjár sem einnig sváfu uppi á loftinu. Eldurinn var laus í kjall- aranum og logaði glatt. Hitann frá honum lagði upp stigann. Þau vöfðu telpurnar í teppi og báru þær út í næsta hús. Einar litli greip fötin sín og koddann. Skelfingin skein úr aug- um barnsins. Voru þau öll að brenna inni eins og í sögunni?... Í bókinni vitnar Sólveig til bréfs frá Mar- gréti Héðinsdóttur, en móðir hennar ólst upp á Akureyri hjá móður Olgeirs. Segir Margrét að móðir hennar hafi sagt sér að kveikt hafi verið í bakaríinu. ...Ber okkur Margréti saman um þetta. Ekki man ég til þess að faðir minn hafi talað um brunann. Hins vegar man ég vel að Sol- veig amma, systurnar, bæði Hildigunnur og María, töldu víst að kveikt hefði verið í. Þegar ég dvaldi á Akureyri um aldamótin síðustu og kom inn á mörg myndarleg heimili þá hafði ein húsfreyjan hiklaust orð á því að það hefðu verið tveir menn að verki. „Húsið eyðilagðist svo mikið að þar varð hvorki bakað né búið meir. Olgeir varð gjald- þrota og fjölskyldan tvístraðist. Pabbi fór 6 ára að Hraunum í Fljótum, amma fór með yngsta barnið austur á firði til bróður síns, eldri systirin fór til vandalausra og afi varð einn eftir á Akureyri og fór að vinna hjá öðrum. Það varð honum huggun, þótt lítil væri miðað við aðstæður, að and- stæðingar uppkastsins unnu kosningarnar. Eftir brunann tók við flækingur á fjölskyld- unni, þar til Olgeir fékk vinnu í Hafnarfirði, þar sem fjölskyldan kom aftur saman. Þessi æskuár föður míns voru mikil vinna og settu sitt mark á hann og hans skoðanir. Olgeir afi hafði vanizt því í foreldrahúsum að heyra Ís- lendingasögurnar lesnar og hann hélt þeim sið á sínu heimili. Þegar pabbi var að vinna sem drengur í Hafnarfirði, þar sem hann vann í fiski og bar út Moggann og Vísi, keypti hann sér smám saman Íslendingasögurnar 11 ára gamall. Eitthvað mun hafa vantað upp á en kaupmaðurinn gaf þessum áhugasama strák það eftir. Ég man hvað hann var alltaf stoltur, þegar hann sýndi okkur systkinunum og síðar barnabörnunum þessar bækur. Og ekki sveikst hann um að lesa úr þeim fyrir okkur! Ég sagði áðan, að pabbi hefði tekið mikið eftir Páli Jónssyni langafa sínum. Önnur manneskja sem varð honum rík fyrirmynd var amma hans í föðurætt; María Flóvents- dóttir í Barði, sem var efst í brekkunni á Ak- ureyri. Kíkt undir komma Sólveigu langaði til að gera skil þeim íslenzka veruleika, sem faðir hennar spratt uppúr og gerði hann að þeim eldheita kommúnista sem hann var. Sólveig Kristín Einarsdóttir hefur skrifað bók um föður sinn, Einar Olgeirsson, og segir í samtali við Freystein Jóhannsson að hún vilji sýna fólki þá mynd af Einari sem það hefur ekki séð fyrir komm- únistastimplinum.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.