Morgunblaðið - 27.11.2005, Side 42

Morgunblaðið - 27.11.2005, Side 42
42 SUNNUDAGUR 27. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ I Nýbyggingarráð Hinn 21. október 1944 var mynd- uð svonefnd Nýsköpunarstjórn und- ir forsæti Ólafs Thors (1892–1964). Aðrir ráðherrar voru Pétur Magn- ússon úr Sjálfstæðisflokknum (1888–1948), Áki Jakobsson (1911– 1975) og Brynjólfur Bjarnason (1898–1989) frá Samein- ingarflokki alþýðu-Sósí- alistaflokki, og Emil Jóns- son (1902– 1986) og Finnur Jóns- son (1894– 1951) frá Al- þýðuflokki. Hinn 10. nóv- ember 1944 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um skipun fjög- urra manna nefndar, er kallist „Ný- byggingarráð“, og á það að semja heildaráætlun, miðað við næstu fimm ár, um nýsköpun íslensks at- vinnulífs samkvæmt málefnasamn- ingi ríkisstjórnarinnar. Árið 1941 voru í byggð á Íslandi 6.702 jarðir, sem hýstar voru á eftirfarandi hátt: A) 2.000 sæmilegar íbúðir B) 1.900 viðhlítandi íbúðir til bráða- birgða C) 2.602 mjög slæmar íbúðir Til að bæta úr þessu var ákveðið að byggja 3.353 íbúðir í sveitum lands- ins á næstu 10 árum. Í Nýbyggingarráð voru kosnir: 1) Jóhann Þ. Jósepsson (1886–1961) formaður, fulltrúi Sjálfstæðis- flokksins. 2) Einar Olgeirsson (1902–1983) frá Sósíalistaflokknum, þingmaður og ritstjóri. 3) Óskar Jónsson (1897–1971) frá Alþýðuflokknum, útgerðarmaður í Hafnarfirði. 4) Steingrímur Steinþórsson (1893– 1966) frá Framsóknarflokknum (hætti 1944). Helstu starfsmenn Nýbyggingar- ráðs voru: Bragi Kristjánsson (1921–1992), skrifstofustjóri Nýbyggingar- ráðs. Torfi Ásgeirsson (1908–2003) hag- fræðingur. Jónas H. Haralz, f. 1919, hagfræð- ingur (frá 1945). Jón R. Guðjónsson (1920–1992) stúdent frá MR, síðar sjómaður í Boston. Arnór Sigurjónsson (1893–1980) fyrrum skólastjóri að Laugum í Reykjadal. - - - Sigurður Þórðarson (1888–1967), þingmaður Skagfirðinga (F), 1942– 1946, tók sæti í Nýbyggingarráði er Steingrímur hætti, en var endan- lega skipaður 1946. II Upplýsingar mínar um þessa ný- sköpun hefi ég flestar úr ritgerð minni úr MR frá 13. mars 1946 á síðasta ári mínu í menntaskóla. Þar segir m.a.: „Hefur Nýbyggingarráð samið frumvarp, sem heitir „Frum- varp til laga um landnám, nýbyggð- ir og endurbyggingar í sveitum“. Svo segir í greinargerð frumvarps- ins: „Frumvarp þetta er annað af tveim frumvörpum, sem Nýbygg- ingarráð hefur samið um endur- skipulagningu landbúnaðarins, og er hitt frumvarpið um Ræktunar- sjóð.“ Ennfremur segir á öðrum stað: „Til þess að koma ræktunar- málunum greiðlega í gott horf, þarf ríkið að taka að sér framræslu þess lands, sem rækta skal að mestu eða öllu leyti. Ríkið ætlar þannig að hafa forgöngu um framræslu með stórtækum vélum, þar sem einstak- lingum hefur reynst ofviða að standast kostnað af slíkum fram- kvæmdum. Þegar ríkið hefur ræst landið fram, á þar víðast hvar að rísa ný byggð, byggðahverfi, þar sem hvert býli hefur fullræktað, véltækt land handa allstóru búi á okkar vísu. Hverju býli er ætla að hafa að minnsta kosti 15–18 kýr, 2–4 hross, en væri sauðfjárbúskap- ur rekinn, þá 3 kýr, en 200–300 fjár. Þar sem gert er ráð fyrir, að þessar nýju byggðir séu í hverfum, þá verður mun hentugra og ódýrara við undirbúning landsins undir ræktun, haganlegra til þess að láta þessar byggðir fá öll þægindi, svo sem síma, rafmagn, vatn o.fl., en gerir íbúunum jafnframt léttara fyrir um hvers konar félagsskap. Ríkið byggir íbúðarhús og öll gripa- hús í þessum byggðum, en leigir svo ýmist bændum þessar byggingar eða selur þeim þær með hagkvæm- um greiðsluskilmálum (25% byrjun- argreiðsla, en 75% á 50 árum). Er hér um stórmerka tilraun að ræða, sem mun verða íslenskum landbún- aði til mikils góðs í framtíðinni. Auk þess hafa bændur pantað fyrir milli- göngu Nýbyggingarráðs 5.000 land- búnaðarvélar af ýmsum gerðum, svo ekki þarf að kvíða því, að land- búnaðurinn verði lengur rekinn með aðferðum fornmanna.“ III En hvernig tókst þessi áætlun um nýsköpun landbúnaðarins til? Nýbýlahverfin risu aldrei í fyrir- hugaðri mynd, vestan við Ingólfs- fjall reis að vísu lítið hverfi, en jarð- næði hverrar einingar var svo lítið, að ekki var hægt að lifa af því, helst að feðgar tækju tvær einingar og þá varð þetta sæmilegt býli og ekki spillti fyrir nálægðin við Selfoss, þar var stutt að sækja vinnu, t.d. í sláturtíðinni. Að Þverholtum í Álfta- neshreppi á Mýrum átti að rísa myndarlegt hverfi, en reyndin varð aðeins eitt nýbýli, Þverholt. Í Skagafirði mun hafa átt að reisa slíkt byggðahverfi, en ekki er mér kunnugt um afdrif þess. Sveinn B. Valfells (1902–1981) dvaldi um þess- ar mundir í USA og hafði Einar Ol- geirsson fengið Ólaf Thors til að skipa hann forstjóra Nýbyggingar- ráðs, ef hann þæði starfið, sem aldr- ei varð. Einar og Sveinn voru miklir vinir og skoðanabræður í stjórn- málum. Svo stórbrotnar voru hug- myndir Sveins um nýsköpun land- búnaðarins, að hann hugðist láta reisa eitt kúabú á Suðurlandsund- irlendinu, sem dygði fyrir héraðið allt. IV Ólafur Thors hlaut miklar ákúrur frá sumum flokksmanna sinna fyrir samvinnu við komma, enda stukku fimm þingmenn fyrir borð af íhalds- skútunni. Sjálfstæðisflokkurinn var klofinn við myndun Nýsköpunar- stjórnarinnar. Annar armurinn var haldinn kommahatri, en hinn Fram- sóknarhatri (SÍS-hatri). Kallaði Spegillinn Ólaf „Sóma Íslands, sigð þess og hamar“. Hinn armurinn fór oft með þessa setningu: „Framsókn hefur aldrei brugðist röngum mál- stað.“ Það var þó ekki sundrungin í Sjálfstæðisflokknum, sem felldi Ný- sköpunarstjórnina, heldur sam- þykkt Keflavíkursamningsins og sagði Ólafur af sér hinn 10. október 1946, en 117 daga tók að mynda nýja ríkisstjórn undir forystu Stef- áns Jóhanns Stefánssonar (1894– 1980) hinn 5. febrúar 1947. V Nýlega var þess getið í Morg- unblaðinu að við Íslendingar ættum heimsmet í fjölda mjaltaþjóna og fjós væru komin niður í 762 að tölu. Aðeins einn bóndi handmjólkar nú kýr sínar, svo stórbýli og tæknivæð- ing hefur tekið við af kotbúskapn- um, sem ég lýsti hér að framan. Er það vel og það svo, að nú ber á mjólkurskorti til vinnslu í mjólk- urstöðvunum og samkeppni ríkir. Víða um land eru komin nýtískuleg fjós, svo jafna má til þeirra fjósa, sem fullkomnust eru erlendis. Má þar nefna Þorvaldseyri undir Eyja- fjöllum, mörg bú í Öngulstaða- hreppi í Eyjafirði og búið að Lamb- astöðum í Álftaneshreppi. Í Vogum í Mývatnssveit er jafnvel komið „kaffifjós“ hjá afkomendum Þór- hallar húsbónda míns Hallgríms- sonar (1879–1941) nefnt „Vogafjós“. Þar eru boðnar alls kyns veitingar og hægt er að sýna börnunum, hvaðan mjólkin kemur. Íbúðarhús eru nýleg á flestum bæjum, þar hef- ur orðið alger bylting og víða boðið upp á bændagistingu. Eitt og eitt gamalt hús er þó látið halda sér, sem eins konar byggðasafn um horfna tíð, sem þó má ekki gleym- ast. VI Sjálfstæðisflokkurinn átti 20 menn á þingi, er Nýsköpunarstjórn- in var mynduð. 15 fylgdu stjórninni, en 5 voru ekki fylgismenn hennar. Það voru þeir Gísli Sveinsson, landskjörinn þingmaður Vestur- Skaftfellinga (1880–1959), Jón Sig- urðsson, landskjörinn þingmaður Skagfirðinga (1888–1972), Ingólfur Jónsson, landskjörinn þingmaður Rangæinga (1909–1984), Pétur Ottesen, þingmaður Borgfirðinga (1888–1968) og Þorsteinn Þorsteins- son, þingmaður Dalamanna (1884– 1961). Vildu sumir sjálfstæðismenn láta reka þá úr flokknum, en Ólafur Thors neitaði því og sættist smám saman við þá fjóra, en sam- bandslaust var alveg við Gísla Sveinsson og var hann ekki end- urkosinn forseti Sameinaðs þings 1945, heldur tók Jón Pálmason við því embætti og gegndi því m.a. árin 1945–1949 og síðar. Frá þessum átökum segir greinilega í sögu Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen, bls. 398–439, I bindi, AB 1981. VII Í ritgerð minni í MR 13. mars 1946 lýsti ég ástandinu í lok 4. ára- tugarins þannig: „Atvinnutækin voru orðin gömul og úrelt, flestir togararnir 20–30 ára gamlir, en landbúnaðurinn langt á eftir samtíð sinni, hvað véltækni snerti. Ástand- ið var að verða ískyggilegt fyrir þjóðarbúskap vorn, þar sem skuld- irnar við lánardrottna okkar erlend- is jukust svo ört, að ekkert virtist líklegra en við mundum innan skamms glata fjárhagslegu sjálf- stæði okkar.“ Bretavinnan bjargaði svo öllu í bili, þótt hún væri nokkuð dýru verði keypt, því verðbólgan fylgdi fast á eftir og stórfelldur fólksflótti varð úr sveitum með miklum skorti á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Flestir muna þó eftir landbúnaðarjeppunum (Willys) sem afrakstri nýsköpunarinnar, þeir voru nýttir sem fólksbílar, þegar hús höfðu verið byggð á þá, en fæstir til landbúnaðarstarfa. Hart var barist um jeppaleyfin og fengu færri en vildu. Við sem dvöldum í sveit í hriplekum bæjarhúsum, t.d. lak gamli Vogabærinn á 100 stöðum og í stórrigningu hófst „sinfónía regnsins“, sem var ekki neikvæð tónlist, heldur róandi. Svefndeildir héldu þó oftast vatni, en gangar og skemmur ekki. Við fögnum upp- byggingu íbúðarhúsa í sveitum, svo og hinni stórkostlegu byltingu í gerð fjósa og innleiðingu „mjalta- þjóna“. Draumur Thors Jensen um landbúnað sem stóriðju rættist þá þrátt fyrir allt. Enn mun mjólk- urbúum fækka, jarðir stækka og samkeppni ríkja í mjólkuriðnaði. Er það vel og mun leiða til betri og ódýrari mjólkurafurða. Eftirmáli En hvernig tókst Ólafi Thors að mynda Nýsköpunarstjórnina með vinstri öflunum og halda henni sam- an allt þar til Keflavíkursamning- urinn felldi hana? Því verður best lýst með orðum frú Jakobínu Math- iesen (1900-2000), er hún viðhafði á fundi í fulltrúaráði sjálfstæðisfélag- anna í Reykjavík um það leyti, sem Ólafur átti stórafmæli, en hann hafði bannað öllum að minnast á það í ræðu eða riti. „Þrátt fyrir öll bönn legg ég til að hrópað verði fjórfalt húrra fyrir afmælisbarninu, því hann er bæði sjarmör og gení.“ Stjórnin var veikari vegna þess að Ólafi tókst ekki að fá Einar Olgeirs- son til að taka við ráðherraembætti. Eiginkona Einars, Sigríður Þor- varðardóttir (1903–1994), tilkynnti honum, að ef hann þægi ráðherra- embætti yrði hann að skilja við sig fyrst. Völdust því aðrir menn til ráðherraembætta, þeir Áki Jakobs- son og Brynjólfur Bjarnason. Nokk- ur embætti stóðu sósíalistum til boða, m.a. mátti Erling Ellingsen (1905–1970) verkfræðingur velja á milli sendiherrastöðu í Moskvu eða flugmálastjóraembættisins. Elín Haraldsdóttir Ellingsen móðursyst- ir mín (1909–1970) aftók með öllu að fara til Moskvu, svo Erling tók flug- málastjóraembættið. Árið 1947 tók Fjárhagsráð við af Nýbyggingarráði og dr. Magnús Jónsson guðfræðiprófessor kosinn formaður þess. Var þar sem fyrr harðast barist um jeppaleyfin. „Spegillinn“ var á þessum tíma áhrifablað og birtist í einu eintakinu heimatilbúið viðtal, sem maður einn átti við dr. Magnús: „Bróðir minn er prestur fyrir austan og þarf nauðsynlega á jeppa að halda, því hann þarf að fara á milli margra kirkna.“ Eftir að hafa margoft vitn- að í „Predikarann“ neitaði Magnús prestbróðurnum um jákvæð erind- islok og mælti: „Kristnaði ekki Páll postuli Rómaveldi jeppalaus?“ Nýsköpun atvinnuveganna Eftir Leif Sveinsson Heimildir: A) Alþingismannatal, 1845-1995, Skrifstofa Al- þingis gaf út. B) Matthías Johannessen, Ólafur Thors, I bindi, Almenna bókafélagið 1981. C) Ritgerð greinarhöfundar frá 13. mars 1946, þá nemandi í 6. bekk B, MR. D) Munnleg heimild: Jónas H. Haralz. Brattahlíð í Svartárdal, byggt árið 1900, 98,4 fm, nú nýtt sem geymsla. Stafn í Svartárdal, íbúðarhús byggt árið 1950, 148,8 fm. Tjarnargata 4, þar sem Nýbyggingarráð var til húsa 1944–1947. Ólafur Thors, forsætisráðherra Nýsköpunarstjórnarinnar, vakir yfir íbúum Tjarnargötu. Myndastyttan er á jólakorti. Sigurður Þórðarson Leifur Sveinsson Einar Olgeirsson Jóhann Þ. Jósepsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.