Morgunblaðið - 17.11.2005, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 17.11.2005, Blaðsíða 16
16 TÓNLIST Þegar hljómsveitin Jan Mayen hóf opinbera spila- mennsku seinnipart ársins 2003 settu meðlimir hennar sér tvö markmið; að komast á samning hjá Smekkleysu og taka þátt í Popppunkti. Núna þegar um það bil tvö ár er liðin eru þeir búnir að ná báðum þessum markmiðum og því ljóst að þeir þurfa að finna sér eitthvað nýtt til að stefna að. „Okkur langar til að spila á Hróarskeldu og síðan langar okkur til að sigra heiminn,“ segir Valli, söngv- ari/gítarleikari Jan Mayen, þegar hann lýsir í grófum dráttum nýrri stefnuskrá hljómsveitarinnar. „Það er reyndar eitt annað markmið sem við eigum eftir að uppfylla en það er að hætta. Við höfum alltaf verið mjög ákveðnir í því að hætta áður en við förum að dala. Það er draumurinn. Það gerist samt alls ekki strax.“ Hann situr að sumbli á Kaffibarnum ásamt Viðari trommara og Ágústi gítarleikara. Seinna um kvöldið er búið að plata piltana til að spila í nístingskulda á útitónleikum í portinu hjá versluninni Illgresi við Laugaveginn. Þeir hlakka ekki til enda hvín óhugn- anlega í vindinum inni á hlýjum og huggulegum barnum. Hvalveiðimaðurinn Jan Sagan segir að árið 1612 hafi hollenskur hval- veiðimaður að nafni Jan Jacobsz May fyrir slysni lent á 380 ferkílómetra eyju í Norður-Íshafi. Þessi eyja var svo nefnd Jan Mayen í höfuðið á hvalveiðimann- inum. Ef þessum Hollendingi hefði dottið í hug að tæpum fjögur hundruð árum síðar myndi stíga á sviðið rokkhljómsveit með þessu nafni yrði hann að teljast afar getspár. Hvernig lenti þetta nafn á hljóm- sveitinni? „Einar Baldvin, sá sem gerir myndböndin fyrir okkur, sagði mér einhvern tíma að hann væri búinn að finna flottasta nafn á hljómsveit í heimi og ætlaði að stofna hljómsveit sem myndi heita Jan Mayen.“ Stuttu síðar tilkynntu þeir honum að það væri búið að taka nafnið og spiluðu svo á tónleikum sem Jan Mayen. „Ég viðurkenni að ég var mjög efins um þetta nafn fyrst,“ segir Ágúst en síðan hafi það fljót- lega vanist. „Núna finnst mér það algjör snilld.“ Þeir segjast allir fegnir því að hafa endað með þetta nafn enda alltaf mjög örlagaríkt skref að skíra hljómsveit. „Ég er til dæmis sannfærður um að The Beatles er mjög slæmt nafn. Ef þeir hefðu ekki verið svona góðir hefðu þeir algjörlega sokkið,“ segir Valli. Þrjár kærustur Þessa dagana eru þeir að semja efni fyrir næstu plötu í gluggalausri svitakompu úti á Höfða. „Mark- mið okkar er að semja bara ódauðlega tónlist. Ekk- ert drasl. Við getum ekki samið uppfyllingarefni. Má búast við einhverjum róttækum breytingum á vænt- anlegri plötu? „Nýju lögin eru kannski þroskaðri. Það er samt allt til staðar hér sem er á gömlu plöt- unni,“ segir Valli og lofar auk þess óhefðbundnari uppbyggingu í lögunum. Og Ágúst segist ekki geta lofað bestu plötu í heimi en hann ábyrgist þó að platan verði önnur tveggja bestu og bætir við: „Jan Mayen er ekki besta hljómsveit landsins en hún er án vafa á topp-tvö-listanum.“ Ein af augljósari breytingum á hljómsveitinni er nýr bassaleikari að nafni Sveinn sem einhverjir ættu að kannast við úr pönkhljómsveitinni Ælu frá Keflavík. „Hann er akkúrat það sem okkur vantaði,“ segja þeir, augljóslega mjög ánægðir með nýja liðsmann- inn. „Við ákváðum að gera þetta „pro“ og fá okkur bassaleikara, ekki gítarleikara,“ segja þeir en Sig- ursteinn, fyrrverandi bassaleikari bandsins, er í raun- inni fyrst og fremst gítarleikari eins og svo margir bassaleikarar. „Nýi bassaleikarinn okkar er bara bassaleikari og það skiptir rosalega miklu máli.“ Þeir segja að brott- rekstur fyrri bassaleikarans hafi orðið án verulegra leiðinda en aftur á móti viðurkenna þeir að það hafi verið erfitt. „Þetta er svolítið í líkingu við það að kærastan segi manni upp nema að það eru þrjár kærustur að segja þér upp í einu.“ Eitt af þekktari lögum sveitarinnar heitir „Nick Cave“, í höfuðið á tónlistargoðinu, og kemur þar fram setningin „Nick Cave is a real motherfucker“. Þetta á sumsé að vera vel meint, eins og þegar sagt er á jákvæðan máta að einhver sé rosalegur and- skoti og er lagið á þann hátt lofsöngur um tónlistar- manninn. Alla vega. Eins og flestir vita dvaldi þessi rosalegi andskoti í stuttan tíma hér á landi í tilefni af frumsýningu Vesturports á leikritinu Woyzeck þar sem hann samdi tónlistina fyrir verkið. Þá kom nátt- úrulega ekki annað til greina en að hljómsveitin sendi Nick Cave eintak af plötunni sem þeir gerðu í gegnum fólkið í Vesturporti. „Við höfum enn ekkert heyrt frá honum. Hann hlýtur að hafa fílað þetta,“ segir Valli. „Ég las það reyndar í viðtali við manninn að hann hlustaði ekki á neina nýja tónlist. Þannig að við erum ekkert að búast við því að hann hafi sam- band við okkur,“ segir hann og hlær og allir hlæja. „Upphaflega planið var að hann yrði svo móðgaður að hann myndi kæra okkur og við fengjum þannig massaumfjöllun út á þetta. Ætli hann sé ekki bara of næs gaur? Alla vega heyrir maður að hann sé alls enginn „motherfucker“.“ JAN MAYEN ÁN VAFA NÆSTBESTA HLJÓMSVEIT ÍSLANDS Myndir Árni Torfason Texti Þormóður Dagsson Nick Cave er rosalegur andskoti

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.