Morgunblaðið - 24.11.2005, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 24.11.2005, Blaðsíða 4
4 MYNDASÍÐA Á dögunum hélt Stórsveit Nix Noltes í níu daga Evrópureisu þar sem hún hitaði upp fyrir banda- rísku hljómsveitina Animal Collective á tónleika- ferðalagi þeirra um Evrópu. MÁLIÐ kom að máli við mig og bað mig að skrifa smávegis um ferðina. Það gjöri ég hér með: Leigður var forláta sendibíll sem reyndist innihalda gps leiðartölvu sem hlaut viðurnefnið Rebekka. Rebekka var pollróleg allan tímann en ef bílstjóri reyndi að óhlýðnast henni umturnaðist hún á fínlegan hátt í „passive- agressive“ Jedi meistara með linnulausum leið- beiningum um að snúa til hægri. „Please turn right at the next exit,“ sagði hún og meinti hvert einasta orð sem hún sagði. Og það var vissara að hlýða, þótt kortið gæfi fyrirheit um vænlegri leið. Í þessari ferð lærðum við mennirnir að hlýða tölv- unni. Ógnvænlegt en satt. Brian Eno fantaseraði einhvern tímann um hljómborð sem hefði mann- legan skekkjustilli. Það hefði verið áhugavert að geta skekkt hana Rebekku eitthvað og látið hana missa sig. Hún hefði kannski getað morsað okkur leynileg hatursskilaboð með rúðuþurrkunum. Fikt- að í samlæsingunni í takt við útvarpið þangað til allir brjáluðust. Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta baktalað yfirmanninn sinn, þótt hann sé tölva. Níu tónleikar á níu dögum Þegar Rebekka hafði lóðsað okkur á tónleikastað kvöldsins tók við hefðbundið rót eða leitun að gististað. Gekk það jafnan vel og undu allir vel við sitt. Stöku sinni gafst dauð stund aflögu og sátu þá margir við og kembdu hár sitt eða stautuðu sig fram úr sálmakverum. En það er nú eins og það er; það er strembið mál að rækta andann á tónleika- ferðalagi og þess vegna fór þorrinn af frítímanum í að herma eftir Loðni úr Stjörnustríði, eða þá að hlæja að óþörfu. Fæstir sem mættu á tónleika höfðu neina hug- mynd um hvaða band Stórsveit Nix Noltes var eða hvernig tónlist við spiluðum, en viðtökurnar voru þó einatt góðar og hlýjar. Fyrir þá sem ekki vita, þá spilar Stórsveit Nix Noltes þjóðlagatónlist frá Balkanskaganum, en þó sérstaklega frá Búlgaríu. Animal Collective, sem fylgdi í kjölfarið, er gjör- ólík hljómsveit, og það var skemmtilegt að hafa svona misræmi á milli banda. Þess ber að geta að Animal Collective er alveg ógnargóð hljómsveit og ólík öllum öðrum böndum sem mér er kunnugt um, ef mig skyldi kalla. Og alveg fáránlega skemmtileg. Á köflum náði hún líka þeim sjald- gæfa galdri að geta hljómað niðdimm og skínandi björt á sama augnablikinu, sem er að jafnaði bara á færi dauðustu tónskálda. Við spiluðum níu tónleika á níu dögum og náðum þess vegna að verða geysiþétt á þessu tímabili. Tónleikarnir fóru fram í Frankfurt, Munchen, Berl- ín, Hamborg, Utrecht, Árósum, Gautaborg, Stokk- hólmi og Malmö. Lokahnykkurinn var svo sérlegt dansiball í Iðnó á laugardaginn var, og eru þessar myndir teknar þar. Í Iðnó var líka lítill bar, og hlutu dansararnir á danshælinn mar. FERÐASAGA NIX NOLTES Á TÚR MEÐ ANIMAL COLLECTIVE Texti Eiríkur Orri Ólafsson Myndir Árni Torfason

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.