Morgunblaðið - 11.12.2005, Blaðsíða 61

Morgunblaðið - 11.12.2005, Blaðsíða 61
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11. DESEMBER 2005 61 MINNINGAR Þessi gerð sem hér fer áeftir er endursögnbandaríska rithöfund-arins Angelu ElwellHunt og kom út á prenti á ensku árið 1989 undir heitinu The Tale of Three Trees, ríkulega myndskreytt af Tim Jonke. Sú bók er margverðlaun- uð og hefur nú verið þýdd á sautján tungumál og ein milljón eintaka selst. Íslenska þýðingu gerði Hreinn S. Hákonarson, og gaf Skálholtsútgáfan hana út árið 1995. En sagan er á þessa leið: Einu sinni stóðu þrjú lítil tré uppi á fjalli nokkru og létu sig dreyma um hvað biði þeirra þegar þau yrðu stærri. Fyrsta tréð leit upp í skínandi bjartan næt- urhimininn en þar sindruðu stjörnurnar eins og litlir demantar. Það sagði: „Ég vil verða gullkista; geyma fjársjóð og svigna af gulli og vera troðin af dýrmætum eðalstein- um. Ég verð langfallegasta gullkistan í öll- um heiminum.“ Annað tréð horfði á lækjarsprænu skoppa niður fjallshlíðina í átt til sjávar. „Ég vil verða stórt og sterkt skip,“ sagði það. „Ég vil fara um mikil höf og sigla með volduga konunga. Ég vil verða sterkasta skipið í öll- um heiminum.“ Þriðja tréð renndi augum yfir dalinn fyrir neðan en þar í þorpinu var fólk á ferð og flugi í dagsins önn. „Ég vil bara alls ekki fara af þessu fjalli,“ sagði það. „Ég vil verða svo stórt að þegar fólk horfir á mig þá líti það til himins og hugsi til Guðs. Ég vil verða stærsta tréð í öllum heiminum.“ Árin liðu hvert af öðru. Það rigndi og sól skein í heiði. Litlu trén urðu stór og bústin. Dag nokkurn gengu þrír skógarhöggsmenn á fjallið. Fyrsti skógarhöggsmaðurinn leit á fyrsta tréð og sagði: „Þetta er fallegt tré og hent- ar mér alveg prýðilega.“ Hann hóf öxi sína á loft og sólin glampaði á axarblaðið. Fyrsta tréð féll til jarðar. „Nú verður smíð- uð gullkista úr mér,“ hugsaði tréð. „Ég mun geyma stórkostlegan fjársjóð.“ Annar skógarhöggsmaðurinn leit á annað tréð og sagði: „Þetta tré er stórt og hentar mér alveg prýðilega.“ Og hann hóf líka öxi sína á loft og sólin glampaði á axarblaðið. Annað tréð féll til jarðar. „Nú mun ég sigla um öll heimsins höf,“ hugsaði tréð. „Ég verð sterkbyggt skip sem sæmir kon- ungum.“ Þriðja trénu brá heldur en ekki í brún þeg- ar þriðji og síðasti skógarhöggsmaðurinn leit á það. Það stóð svo beinvaxið og hátt og benti djarflega til himins. En skógarhöggs- maðurinn kærði sig kollóttan og það söng í öxinni. Hann tuldraði: „Mér er svo sem sama hvaða tré ég fæ.“ Og þriðja tréð féll til jarðar. Fyrsta tréð gladdist innilega þegar skóg- arhöggsmaðurinn dró það til trésmiðs nokkurs. En það hvarflaði ekki að iðjusöm- um trésmiðnum að gera úr því gullkistu. Nei, vinnulúnar hendur hans smíðuðu úr trénu jötu handa skepnum. Tréð sem eitt sinn var svo fagurt á að líta svignaði ekki af gulli né dýrum fjársjóði. Það var þakið sagi og fyllt með heyi handa soltnum búpeningi. Annað tréð brosti með sjálfu sér þegar það var flutt til skipasmiðsins. En þann dag var ekkert tilkomumikið skip smíðað. Tréð sem eitt sinn hafði verið svo sterkt var sagað niður og úr því smíðaður ósköp venjulegur fiskibátur. Báturinn var svo lítilfjörlegur og veikbyggður að hans beið ekki einu sinni sigling á fljótum og þaðan af síður um út- höf. Nei, hann var fluttur á lítið stöðuvatn. Af bátnum lagði megna fisklykt því á hverj- um degi kom hann með vænan afla að landi. Þriðja tréð varð afar skelkað þegar skóg- arhöggsmaðurinn hjó það niður í sterka bjálka og setti í timburgeymslu. „Hvað hef- ur gerst?“ hugsaði tréð með sér undrandi. Það sem eitt sinn hafði verið svo hávaxið! „Og ég sem vildi aldrei annað en vera uppi á fjallinu og benda til Guðs!“ Og margir, margir dagar gengu hjá og nætur liðu. Trén þrjú gleymdu næstum því draumum sínum. Nótt eina helltist gullinn stjörnuljómi yfir fyrsta tréð þegar ung kona lagði nýborið barn sitt í jötu. „Ég vildi óska þess að ég gæti búið til vöggu handa honum,“ hvíslaði eiginmaður hennar lágum hljóðum. Móðirin unga þrýsti hönd hans og brosti blíðlega. Stjörnurnar vörpuðu ljóma sínum á mjúkan og sterkan viðinn. „Þessi jata er falleg,“ sagði hún. Og skyndilega áttaði fyrsta tréð sig á því að það geymdi mesta fjársjóð ver- aldar. Kvöld nokkurt fór þreyttur ferðalangur ásamt vinum sínum um borð í gamla fiski- bátinn. Ferðalangurinn lagðist til svefns um leið og báturinn sigldi hljóðlega út á vatnið. Allt í einu skall á stormur mikill með þrumum og eldingum. Háar öldur risu á vatninu og lömdu bátinn utan. Litla tréð skalf og nötraði því það vissi mæta vel að báturinn var alltof veikbyggður til að geta staðist svona ógurlegan storm og mikið úr- felli og skilað svo mörgum mönnum heilum á land. Þreytti ferðalangurinn vaknaði. Hann reis upp, rétti út hönd sína og mælti: „Haf hljótt um þig.“ Storminn lægði jafn snögglega og hann hafði brostið á og varð stillilogn. Og skyndilega áttaði annað tréð sig á því að það flutti konung himins og jarðar. Föstudagsmorgun nokkurn varð þriðja tréð forviða þegar bjálkar úr því voru dregnir harkalega úr löngu gleymdum við- arstafla. Það kveinkaði sér þegar það var borið í gegnum mikinn mannfjölda sem steytti hnefann reiðilega og lét hæðnisorð fjúka. Og ótti mikill hljóp um æðar þess þegar hermenn negldu hendur manns á það. Því fannst það vera ljótt, grimmt og vægðarlaust. En við sólarupprás á sunnudagsmorgni þegar jörð titraði af fögnuði og gleði skildi þriðja tréð að kærleikur Guðs hafði öllu breytt. Hann hafði gert fyrsta tréð öðrum fegurra. Annað tréð hafði hann fyllt styrkleika. Og í hvert sinn er menn hugsuðu til þriðja trésins var hugsun þeirra beint til Guðs. Það var betra en að vera heimsins hæsta tré. Óskir trjánna sigurdur.aegisson@kirkjan.is Jólahátíðin fram- undan markar upp- haf stærstu atburða í lífi mannkynsins. Aðrir fylgja á eftir, á nýju ári. Sigurður Ægisson hefur sem pistil þriðja sunnu- dags í aðventu æv- intýri, firnagamalt að stofni til, mótað á vörum kynslóðanna. HUGVEKJA ✝ Ásgeir Jónssonfæddist í Reykjavík 1. janúar 1914 og lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. nóv- ember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Ófeigsson dr. phil. yfirkenn- ari við Menntaskól- ann í Reykjavík, f. í Reykjavík 22. apríl 1881, d. þar 27. febrúar 1938, og kona hans Rigmor Julie Frederikke, f. Schultz, kaupmannsdóttir frá Jyderup í Danmörku, f. þar 1. október 1881, d. í Reykjavík 7. júlí 1967. Systir Ásgeirs var Kristín, f. 2. nóv. 1922, d. 2005, gift Gesti Jónssyni cand. oecon. frá Una- stöðum í Kolbeinsdal, Skag. Hinn 16. desember 1939 gengu þau í hjónaband, Ásgeir og Anna Súsanna Brynjólfsdótt- ir sauma- og sníðameistari, f. á Ytri-Ey í Hún., 6. janúar 1910 d. 22. maí 1999 í Reykjavík, dóttir Brynjólfs Lýðssonar bónda þar og smiðs frá Skriðins-Enni á Ströndum og konu hans Krist- ínar Indriðadóttur frá Ytri-Ey. Einkasonur þeirra Ásgeirs og Súsönnu er Jón, vinnuvélstjóri f. 11. maí 1950. Eig- inkona hans er Þorbjörg Skjald- berg skurðhjúkr- unarfræðingur, f. 15. apríl 1952. Son- ur þeirra er Ás- geir, f. 22. febrúar 1997. Ásgeir varð stúdent 1933, var síðan við nám í Handelsvidenskabelig Lærean- stalt í Kaupmannahöfn 1933-35 og lauk prófi þaðan, H.A. Hætti við frekara nám, er faðir hans veiktist og kom hingað heim. Var bókari og sölumaður hjá G. Helgason og Melsteð 1935-39. Var þá ráðinn skrifstofustjóri hjá Kol og salt hf. og síðan framkvæmdastjóri frá 1943 og þar til fyrirtækið var lagt niður. Þá stofnaði Ásgeir vinnuvélafyr- irtækið Hegra hf. sem hann rak með aðstoð sonar síns allt til dauðadags. Útför Ásgeirs var gerð frá Fossvogskapellu 22. nóvember í kyrrþey að hans ósk. Látinn er í Reykjavík Ásgeir Jónsson, æskuvinur föður okkar, Gríms Gíslasonar. Ásgeir var sonur dr. Jóns Ófeigssonar, yfirkennara við Menntaskólann í Reykjavík og orðabókahöfundar og danskrar eig- inkonu hans frú RigmorJulia Frederike Schultz. Ásgeir og faðir okkar Grímur, sem lést í Reykjavík í ágúst 1978 langt um aldur fram, voru skóla- bræður í Menntaskólanum í Reykjavík og þar bundust vina- böndin, sem aldrei slitnuðu. Svo skemmtilega vildi til að þeir gengu síðar að eiga vinkonur, því móðir okkar, Ingibjörg Jónsdóttir sem lést í nóvember 1999 og kona Ás- geirs, Súsanna Brynjólfsdóttir, sem reyndar var aldrei kölluð annað en Dúdda í okkar fjölskyldu, voru æskuvinkonur, lést einnig sama ár. Foreldrar okkar gengu í hjónaband í október árið 1934 en Ásgeir og Dúdda giftu sig í desember 1939. Þessi tvenn hjón höfðu mikinn samgang og nutum við systkinin góðs af því, það er fátt yndislegra en að alast upp með góðu fólki við gott atlæti, hlýju og í góðum vina- hópi foreldranna. Einnig komu mik- ið við sögu móðir Ásgeirs, Rigmor, svo og amma okkar Margrét og móðursystir Gyða. Amma okkar Margrét lést þann 30. apríl 1955 eftir langa sjúkralegu. Atvik höguðu því þannig, að for- eldrar okkar urðu að fara utan á þessum tíma, en ekki var fyrirséð að andlátið bæri svo brátt að. Slík var vináttan, að Ásgeir var við dán- arbeð ömmu og til er skeyti, sem hann sendi foreldrum okkar til Hamborgar, þar sem hann tilkynnir andlát hennar. Ásgeir stundaði viðskipti alla tíð, var sölumaður og ferðaðist vítt um landið sem slíkur, en þekktastur er hann fyrir fyrirtækið Kol og Salt, sem hann átti í sameign með öðrum og í okkar huga er það kunnast fyr- ir kolakranann stóra sem var við Arnarhól, en hann hvarf árið 1968. Í apríl árið 1949 héldu þau vin- ahjónin í langa ferð til Bandaríkj- anna, sem þótti mjög óvenjulegt í þá tíð. Þau héldu utan með Goða- fossi og var bíll Ásgeirs og Dúddu tekinn með, grár glæsilegur Ford, þar sem ekki voru bílaleigubílar á hverju strái eins og í dag. Þau óku um Bandaríkin þver og endilöng, ferðin hófst í New York og henni lauk þar í júlí þetta sumar er þau flugu heim til Íslands með flugvél- inni Geysi frá Loftleiðum og tók flugið 13 klukkustundir með milli- lendingu á Gander til að taka elds- neyti. Félagarnir tóku kvikmyndir á öllum markverðustu stöðum sem þau heimsóttu og söfnuðu töluverðu af minjagripum. Við heyrðum oft rifjaðar upp sögur og frásagnir af náttúruperlum Bandaríkjanna svo sem Grand Canyon, Niagara-foss- unum og mörgum fleiri. Það var gaman að heimta foreldrana aftur heim, því þau komu heim með margt fallegt og gott, m.a. fengum við þá í fyrsta skipti banana. Ásgeir Jónsson var mikill ferða- og útivistarmaður. Hann tók þátt í björgun á slysstað þegar flugvélin Geysir fórst á Vatnajökli, sama flugvél og hafði flutt þau vinina frá Bandaríkjunum árið áður. Til eru margar lýsingar á þeirri fræknu björgun á jöklinum en á þessum ár- um um 1950 var ekki mikið um ferðir inn á hálendið og ekki margir sem áttu farartæki sem gerði fólki kleift að komast í óbyggðir. Nokkrir ungir menn mynduðu með sér lítið ferðafélag, sem þeir kölluðu MFF – Minnsta Ferða Félagið. Ásgeir og pabbi voru meðal félaga ásamt mörgum mætum mönnum svo sem þeim bræðrum Guðmundi og Jónasi í Kistufelli, og fóru þeir margar ferðir inn á hálendið. Fararskjót- arnir voru Willys-herjeppar, sem þeir höfðu getað fest kaup á. Þetta voru einu jepparnir á boðstólum í þá daga og mjög eftirsóttir. Ekki voru þægindin mikil í þessum bílum en þeir reyndust vel miðað við vegi og vegleysur. Öll okkar bernskuár var gleð- skapur á gamlárskvöld á heimili Ás- geirs og Dúddu að Hólavallagötu 3, og vorum við börnin alltaf með í för. Jólatré var skreytt með fögrum jólaseríum, sem ennþá eru til á Hólavallagötunni og eru að okkar mati dýrgripir. Við börnin lékum lausum hala um allt húsið og skemmtum okkur alltaf jafn vel. Það var sungið og jafnan sat frú Rigmor við píanóið og lék undir. Ekki var mikið um flugelda í þá daga, en þeir félagar náðu alltaf í nokkrar skiparakettur, sem var skotið upp af Landakotstúninu við mikinn fögnuð allra, bæði fullorð- inna og barna. Þessar gleðistundir á áramótum eru okkur ógleymanleg- ar og eru varðveittar í minninga- safninu ásamt svo mörgu öðru, þar sem Ásgeir og Dúdda koma við sögu. Árið 1950 fæddist Jón sonur Dúddu og Ásgeirs og var hann sannur gleðigjafi. Jón óx upp við gott atlæti á Hólavallagötunni, þar sem hann býr enn, nú með konu sinni Þorbjörgu og syni þeirra Ás- geiri, sem færði afa sínum ómælda gleði. Við lítum til baka með þakklæti fyrir liðnar samverustundir. Það er dýrmætt að hafa kynnst svo mæt- um manni sem Ásgeir Jónsson var og fengið að eiga með honum og hans fjölskyldu margar góðar og glaðar stundir.Við sendum Jóni og hans fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum þeim alls hins besta. Lucinda Grímsdóttir, Almar Grímsson. Sumir eru þannig að manni finnst maður alltaf fara ríkari af fundi þeirra en maður kom. Ásgeir Jóns- son í Hegra var slíkur maður. Ég kynntist honum ekki fyrr en hann var orðinn áttræður, en ég áttaði mig strax á því að þar fór óvenju- legur maður. Hjá flestum hefur hægst um á þeim aldri og margir telja að á þeim aldri sé best að hvíl- ast að loknum starfsdegi. Ásgeir var ekki þannig skapi farinn. Á hverjum degi mætti hann til vinnu í Borgartúnið. Jafnvel um helgar kom hann til þess að líta eftir því að allt væri eins og það ætti að vera. Hann sagði mér að hann hefði séð marga vini sína veslast upp strax og þeir hættu að vinna og hann ætlaði ekki að fara sömu leið. Ásgeir var fæddur 1. janúar árið 1914 og fór að loknu stúdentsprófi til Kaupmannahafnar til náms í við- skiptum. Þegar hann kom heim aft- ur árið 1935 kom hann til starfa hjá G. Helgason og Melsted en hóf árið 1939 störf hjá því þekkta fyrirtæki Kol og salt. Allir Reykvíkingar þekktu kolakranann, Hegrann, sem setti svip sinn á höfnina. Ásgeir rak það í 22 ár ásamt félaga sínum Geir Borg. Árið 1967 hafði dregið úr um- svifum og fyrirtækið var lagt niður. Ásgeir hafði nokkru áður stofnað nýtt fyrirtæki sem hann nefndi Hegra. Aðalverkefni þess var að leigja út vinnuvélar og gekk vel allt fram á tíunda áratuginn. Smám saman dró þó úr þeirri starfsemi og aðalrekstur Hegra síðustu árin var umsjón fasteignarinnar í Borgar- túni. Áttatíu og sex ára gamall ákvað Ásgeir að byggja hæð ofan á húsið og hafði yfirumsjón með því verki sjálfur. Ég vissi líka að hann fylgdist náið með sumarbústaði sín- um í Þjórsárdal, bústaði sem faðir hans, Jón Ófeigsson þýskukennari, hafði reist. Ásgeir var af gamla skólanum í jákvæðustu merkingu. Hann taldi að orð ættu að standa og þannig var það ætíð hjá honum. Hann fylgdist geysilega vel með í þjóðfélagsmál- um og viðskiptum, þekkti marga og hafði ákveðnar skoðanir. Á síðustu árum hafði hann þó oft orð á því að hann ætti orðið erfitt með að skilja viðskiptalífið. En það var gaman að sitja hjá honum og heyra hann segja frá fyrri tíð. Á langri ævi hafði margt á dagana drifið og Ás- geir átti auðvelt með að segja frá. Okkur langaði til þess að fá hann í viðtal þegar Frjáls verslun varð 65 ára því að hann var líklega eini maðurinn sem hafði rekið fyrirtæki nær allan líftíma blaðsins. En hann lét þess engan kost, vildi ekki láta á sér bera. Ekki hafði hann þörf fyrir tölvur. Bókhaldið færði hann í dálkadagbók og reikninga vélritaði hann á ritvél frá því fyrir daga raf- magnsritvélanna. En bókhaldið var alltaf fært upp á punkt og prik og síðustu færslurnar færði hann sömu vikuna og hann lagðist á spítala í síðasta sinn. Það er óhætt að segja að aðferð Ásgeirs til þess að halda heilsu hafi tekist svo vel að undrum sætti. Hann var ótrúlega hress allt fram á síðasta ár, tók menn tali og gekk svo löngum skrefum upp á skrif- stofu sína. En enginn má betur í glímunni við Elli kerlingu og svo fór að Ásgeir var farinn að mæðast. Vinir féllu frá einn af öðrum. Þó að hann væri hressari andlega og lík- amlega en margir sem voru áratug yngri eða meira, var hann samt leiður á því að vera ekki í fullu fjöri. Athafnir voru líf Ásgeirs. Hann lést aðfaranótt 14. nóvember. Jarðarför- in fór fram í kyrrþey. Starfsmenn Talnakönnunar og Heims kynntust gamansemi Ás- geirs og einbeittum skoðunum. Það er lán að fá að kynnast slíkum mönnum. Ég votta fjölskyldu Ás- geirs samúð á skilnaðarstundu. Benedikt Jóhannesson. ÁSGEIR JÓNSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76
Blaðsíða 77
Blaðsíða 78
Blaðsíða 79
Blaðsíða 80

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.