Morgunblaðið - 15.12.2005, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 15.12.2005, Blaðsíða 8
8 BÆKUR Það er nóg að gera hjá íslenskum rithöfundum þessa daganna eins og reglan segir til um á þessum árstíma. Vertíð þeirra er í algleymingi sem skyldar þá til að þjóta um allan bæ og útum allt land með bækur sínar og lesa upp. Rithöfundurinn Hall- grímur Helgason lætur ekki sitt eftir liggja þessi jól- in við að kynna nýútgefna bók sína Rokland sem hlotið hefur tilnefningu til Íslensku bókmennta- verðlaunanna í flokki fagurbókmennta. Hallgrímur hitti blaðamann og ræddi við hann meðal annars um bókina, blogg, lágmenningu og heita potta. Hallgrímur hefur nýlokið upplestri fyrir MS- sjúklinga þegar hann hittir blaðamann á kaffihús- inu Segafredo við Lækjartorg. Það er mikið um upplestra hjá honum þessa dagana og hann nefnir að sá næsti sé bókaður morgunin eftir. „Það er í tísku núna að vera með svokallaða að- ventumorgna í stórfyrirtækjum þar sem menn bjóða vinum og viðskiptavinum í morgunmat og hlusta t.d. á KK og Ellen syngja og mig lesa,“ segir Hallgrímur og hrærir í froðunni á latteinu sínu. Að- spurður um stemmninguna svona snemma dags segir hann að hún sé yfirleitt mjög fín en hann við- urkennir að það sé svolítið mismunandi. „Þegar maður er að lesa upp fyrir klukkan níu á morgnana getur stemmningin stundum orðið dauf,“ segir hann og hlær. „Fimmtíu nývaknaðir bílasalar eru t.d. nokkuð þungur hópur.“ Hallgrímur er á því að það sé mun meiri erill á hon- um í kringum þessa bók en var síðustu jól. „Kannski er það bara af því að þessi bók gengur betur en sú síðasta að mér finnst það vera meira. Síðasta bók hitti ekki eins vel í mark eins og þessi sem gerist í samtímanum. Það er alltaf vinsælt.“ Bylting á Íslandi Rokland segir frá Bödda sem býr á Sauðárkróki. Hann er ómögulegur maður; of gáfaður fyrir Krók- inn, of reiður fyrir Reykjavík og of hreinskilinn fyrir Ísland. „Í upphafi bókarinnar er hann rekinn frá Fjöl- brautaskólanum þar sem hann var að kenna en ástæðan fyrir því er sú að hann fór með nemendur upp á hálendið og lét þá gista yfir helgi í Grett- ishelli þar sem Grettir Ásmundsson er sagður hafa búið um skeið. Böddi vildi láta nemendur sína upp- lifa Grettissögu á eigin skinni en þetta var að vetri til og krakkarnir lentu í mikilli vosbúð, tveir komu heim með lungnabólgu og ein stelpan fótbrotnaði. Sú hafði skömmu áður verið krýnd Ungfrú Norður- land og þetta var því mikið hneyksli auk þess sem skólinn þurfti að borga 2.7 milljónir fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Böddi er því látinn fara og í atvinnu- og eirðaleysi sínu eyðir hann tímanum í að úthúða bæjarbúum á bloggsíðu sinni rokland.- blogspot.com. Svo verða aðrir atburðir til þess að hann fer endanlega yfir um og ákveður að ríða á hrossi suður til Reykjavíkur þar sem hann ætlar að gera byltingu á Íslandi einn síns liðs.“ Of gott þjóðfélag Um hvað snýst barátta Bödda? „Það má segja að efnislega séð sé íslenskt þjóð- félag sé komið á þann stað að vera nokkuð óum- deilt því allir eru hér saddir og öllum er heitt,“ út- skýrir Hallgrímur. „Þetta er besta þjóðfélag sem jörðin hefur séð. Við vitum það öll en Bödda finnst það hinsvegar orðið of gott. Hann telur okkur hafa það of gott, lífið sé of þægilegt og alltaf verið að mata okkur: Við hefðum gott af því að hafa það svolítið meira skítt því þá upplifum við lífið sterkar og erum meira vakandi. Í paradís efnishyggjunnar verður sálin útundan. Hann er alltaf að reyna að vekja fólk til lífsins, nemendur sína, krakkana í ung- lingavinnunni og þá sem lesa bloggsíðuna. Böddi er sífellt að leita eftir æðri gildum og reyna að hefja andann uppúr lágkúrunni sem honum finnst ríkja á öllum sviðum. Honum finnst lágmenningin hafa sigrað, að menning okkar sé ein lágmenning. Kvik- myndirnar frá Ameríku, tölvuleikirnir, rokktónlistin, popptónlistin, sjónvarpsglápið endalausa. Þetta er allt saman flatneskja fyrir honum. Hann vill reyna að rísa upp úr henni og kýs fremur rok og ró en rokk og ról. Hann er í rauninni spámaður í föð- urlandi í bókstaflegri merkingu því hann er mjög þjóðlegur í sér. Stundum kalla ég hann hrópandann í heita pottinum af því þetta þjóðfélag er hálf- gerður heitur pottur þar sem allir hafa það svo gott. Samt sem áður er hann að hrópa á móti því og hann er náttúrulega í þessum heita potti sjálfur. Það er svo aftur spurning hvort nokkur sé að hlusta.“ Bók í beinni Hallgrímur segist hafa kynnt sér eitthvað blogg- síður þegar hann var að skrifa bókina en slíkar síður eru einmitt vel til þess fallnar að hrópa ýmiss konar formælingar að samfélaginu líkt og Böddi gerir. „Það er eins og fólk þori meiru á netinu en í dag- blöðunum. Menn nota annan stíl og eru kaldari. Þeim finnst eins og engin sé að hlusta og þeir geti sagt hvað sem er. Í bókinni er ég að velta fyrir mér hversu langt megi ganga. Það hafa komið upp mál undanfarið þar sem menn í opinberum störfum létu stórkarlaleg orð falla á bloggsíðum sínum og voru svo reknir fyrir vikið. Böddi er svolítið þannig.“ Eftir að bókin kom út um miðjan síðasta mánuð hefur Hallgrímur haldið úti bloggsíðu Bödda sem nefnd er í bókinni og skrifað undir hans nafni. „Þetta er skondið verkefni. Ég held þannig áfram að skrifa bókina eftir að hún er kominn út. Sem er náttúrlega visst bögg, en gaman samt. Svo er líka gaman að fá viðbrögð frá lesendum. Það eru alls- konar geðsjúklingar farnir að skrifast á við Bödda, þykjast jafnvel vera hálfbræður hans og hvaðeina. Þá eru aðrir að kvarta yfir því að færslurnar séu dagsettar aftur í tímann, en það er einföld skýring á því sem menn sjá þegar þeir lesa bókina.“ Ætlunin er að halda áfram færslunum fram til áramóta alla vega en þetta er í fyrsta skipti sem Hallgrímur skrif- ar inn á bloggsíðu. „Það besta við bloggið er að það fer strax í loftið. Þetta er eins og að skrifa í beinni útsendingu.“ Áhugasömum er svo bent á að fylgjast með lífi og hugleiðingum Bödda á www.rokland.blog- spot.com HRÓPANDINN Í HEITA POTTINUM ROKLAND EFTIR HALLGRÍM HELGASON Texti Þormóður Dagsson Mynd Þorkell Þorkelsson Flestar Ofurhetjur fela sig bak við grímur, og hafa margar augljósar ástæður fyrir því. Þá helst til að vernda ástvini sína frá vondu köllunum en líka til að geta átt almennilegt einkalíf í friði. Elongated Man (Lengdi maðurinn) er einn þeirra fáu sem berst gegn glæpum grímulaus. Honum finnst ástæðulaust að skipta lífinu í tvennt, að einkalíf og ofurhetjulíf þurfa ekki að vera aðskilin. Auk þess er húsið hans búið há- þróuðu þjófavarnarkerfi, svo að konan hans þarf ekki að óttast um líf sitt daglega. En í ofur- hetjuheimi getur allt gerst. Eiginkona Lengda mannsins er í miðju kafi við að undirbúa afmæl- isveislu síns heittelskaða, þegar hún er myrt á afar hrottalegan hátt. Ofurhetjusamfélagið fyll- ist skelfingu og bregst skjótt við. Ofurhetjusögur eru, þegar öllu er á botninn hvolft, sápuóperur. Sápuóperur fullar af erkitýp- um og dramatískum atburðum. Bardagar, skrímsli og hetjudáðir eru bara notaðar til að fylla upp í eyðurnar. Og eins og í öllum góðum sápum kemur af og til þáttur sem markar mik- ilvæg tímamót í tilheyrandi heimi, og hefur af- gerandi áhrif á lykilpersónur hans. Slæmt dæmi um þetta er dauði Súpermans, en margir ofur- hetjulesendur reyna enn að gleyma þeirri úr- kynjuðu sölubrellu. Gott dæmi er hinsvegar þessi saga: Identity Crisis. Hér er spilað á mann- lega strengi, skyggnst inn í brothættar sálir hetjanna og beinagrindur skoppa úr skápnum í hrönnum. Við kynnumst fólkinu á bakvið grím- urnar og stöðugan ótta þeirra við afhjúpun. Hin sönnu andlit þeirra eru feimnismál. Lesendur eru upplýstir um myrk feimnismál meðal góðu gæjanna sem, eins og góðri sápu sæmir, eiga eftir að hafa mikil áhrif á DC-heiminn eins og við þekkjum hann og elskum. Eini galli bók- arinnar er hvað hún er væmin, en sjaldan hafa jafnmargar ofurhetjur grenjað. GRÁTIÐ BAK VIÐ GRÍMUNA IDENTITY CRISIS EFTIR BRAD MELTZER OG RAGS MORALES Texti Hugleikur Hann kýs fremur rok og ró en rokk og ról

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.