Fréttablaðið - 15.02.2003, Blaðsíða 28

Fréttablaðið - 15.02.2003, Blaðsíða 28
28 15. febrúar 2003 LAUGARDAGUR Það hefur færst talsvert í vöxt áundanförnum árum að íslensk skáldverk séu gefin út erlendis. Oft öðlast íslenskir rithöfundar annað líf í útlöndum eftir að þeir eru löngu horfnir af sölulistum hér á landi. Íslendingar fá lítið að vita um þetta, enda fer bóklestur ekki hátt og færri sögum fer af af- rekum rithöfunda en til dæmis popptónlistarmanna. Fréttablaðið fór á stúfana og aflaði upplýsinga hjá bókaforlögum um það hvaða íslensku skáldverk hafa verið gef- in út í útlöndum nýverið. Upplýs- ingar eru strjálar og sölutölur liggja sjaldan fyrir. Engu að síður kom margt forvitnilegt í ljós. Bjartur Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó nýtur töluverðra vinsælda í Þýskalandi undir nafn- inu Die große Suche des kleinen Blidfinn. Hún er gefin út af Ber- telsmanns-forlaginu þar í landi og hefur selst innbundin í um tíu þús- und eintökum. Áætlað er að hún komi út í kilju í mars og verður þá gert söluátak á bókinni með það að markmiði að koma henni á met- sölulista yfir barnabækur. Auk þess mun önnur bókin um Blíðfinn koma út í Þýskalandi í mars. Blíð- finnur er einnig lesinn á Norður- löndum, Grikklandi, Spáni og Ung- verjalandi. Jón Kalman Stefánsson er ann- ar höfundur Bjarts sem virðist hafa fundið lesendahóp í Þýska- landi. Fyrstu tvær bækur hans voru gefnar út sem ein bók á síð- astliðnu ári undir nafninu Der Sommer hinter dem Hügel. Hefur hún selst í ríflega sex þúsund ein- tökum innbundin þar í landi. Gæludýrin, eða Kæledyrene, eftir Braga Ólafsson kom út í Dan- mörku í lok janúar. Stefnt er að því að gefa Braga út víðar og hafa for- leggjarar í Bretlandi og Banda- ríkjunum sýnt honum áhuga. JPV-útgáfa Spánverjar, Ítalir og Þjóðverjar hafa sérlega gaman af Guðbergi Bergssyni. Svanurinn hefur farið víðast af hans bókum, en útgáfu- réttur á henni hefur verið seldur til Þýskalands, Ítalíu, Spánar, Bret- lands, Búlgaríu, Brasilíu, Tékk- lands, Danmerkur, Svíþjóðar, Frakklands og Finnlands, en á finnsku heitir hún Joutsen. Brasil- íumenn stukku á Padre, madre y el misterio de la infancia, ásamt Þjóð- verjum og Spánverjum. Þær tvær þjóðir hafa einnig þýtt bókina Eins og steinn sem hafið fágar, ásamt Bretum og Svíum. Einn munur er á Spánverjum og Þjóðverjum hvað Guðberg Bergsson varðar. Spán- verjar hafa þýtt Tómas Jónsson metsölubók, en ekki Þjóðverjar, sem féllu frekar fyrir Hjartað býr enn í helli sínum. Vigdís Grímsdóttir höfðar til Norðurlandabúa, ekki síst Svía. Nánast allar bækur hennar hafa verið gefnar út í Svíþjóð, sumar við töluverðar vinsældir. Jag heter Is- björg, jag är ett lejon hefur farið víðast, til Danmerkur, Frakklands, Finnlands og Svíþjóðar, ásamt Stúlkunni í skóginum, sem komið hefur út í Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Í Svíþjóð heitir hún Flickan i skogen. Z-ástar- saga, eða Z – A love story, er eina bók Vigdísar sem komið hefur út í Englandi. Fríða Á. Sigurðardóttir er fyrr- um handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina sína Á meðan nóttin líður. Night Watch, eins og hún heitir á ensku, hefur verið þýdd á dönsku, þýsku, sæn- sku, tékknesku, norsku, finnsku og ensku. Þá hefur bók Fríðu, Í luktum heimi, komið út í Svíþjóð. Trolls’ Cathedral, eða Trölla- kirkja eftir Ólaf Gunnarsson hefur komið út í Bretlandi og Þýskalandi. Vetrarferðin hefur komið út í Bret- landi en sú bók sem farið hefur víð- ast eftir Ólaf er Fallegi flughvalur- inn, sem hefur verið þýdd á öll Norðurlandamál, þar með talið fær- eysku, og á þýsku. Spútnikhöfundur JPV-útgáfu er Mikeal Torfason, en bók hans Heimsins heimskasti pabbi var gef- in út í liðinni viku í Þýskalandi við góðar undirtektir. Hún hafði áður komið út í Litháen, Finnlandi og Danmörku og hlotið mikið lof. Stefnt er á að gefa Verldens værsta far út í fleiri löndum og forleggjar- ar eru víða með handritið til skoð- unar. Edda Innan Eddu eru nokkur forlög, Mál og menning, Vaka-Helgafell, Forlagið og Almenna bókafélagið. Samtals hefur Edda gert yfir 200 útgáfusamninga á síðustu þremur árum í yfir þrjátíu löndum, vegna bóka ríflega þrjátíu höfunda. Þar í bæ fylgjast menn spenntir með gengi Mýrarinnar eftir Arnald Ind- riðason í Þýskalandi. Nordermoor - Island krimi kom út í lok janúar og hefur forleggjarinn Lübbe lagt upp með mjög metnaðarfulla markaðs- áætlun. Bókin er þegar komin á metsölulista. Gerðir hafa verið út- gáfusamningar fyrir Mýrina í sex öðrum löndum. Þegar litið er yfir útgáfu á verk- um Eddu-höfunda í útlöndum kem- ur í ljós staðfesting á því sem marga hefur eflaust grunað, að það eru einkum Þjóðverjar sem sýna ís- lenskum bókum áhuga. „Þýski markaðurinn hefur á undanförnum árum orðið helsta vígi íslenskra bókmennta erlendis,“ segir Val- gerður Benediktsdóttir hjá rétt- indastofu Eddu-miðlunar, en stofan hefur umsjón með gerð útgáfu- samninga á erlendri grundu. „Fjöldi íslenskra skáldsagna kemur út á hverju ári þar í landi og marg- ir höfundar eiga sér sinn for- leggjara, sem heldur tryggð við höfundinn og er áhugasamur um að gefa út fleiri bækur eftir viðkom- andi.“ Sú bók sem farið hefur víðast frá Eddu á liðnum árum er Englar alheimsins eftir Einar Má Guð- mundsson, en útgáfuréttur að Eng- el des Universums hefur verið seldur til 19 landa. 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason er farin til 12 landa, Slóð fiðrildanna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson til 11 landa, Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason til 10 landa, Djöflaeyjan eftir Einar Kárason hefur verið seld til 9 landa og sömuleiðis Grámosinn glóir, eða Gråmosen gløder, eftir Thor Vil- hjálmsson, svo nokkur dæmi séu tekin. Brotahöfuð eftir Þórarin Eldjárn kemur á næstunni út í Frakklandi og Íslandsförin eftir Guðmund Andra Thorsson er kom- in út í Þýskalandi. Steinunn Sig- urðardóttir er gefin út með góðum árangri í Þýskalandi, sem og í Frakklandi, Svíþjóð og Finnlandi. Einnig hafa Steinunn Jóhannes- dóttir og Kristín Marja Baldurs- dóttir komið ár sinni ágætlega fyr- ir borð í Þýskalandi undanfarið. Að sögn Valgerðar er engilsax- neski markaðurinn mun erfiðari. Þeir höfundar Eddu sem náð hafa árangri nýverið í hinum ensku- mælandi heimi eru einkum þeir Hallgrímur Helgason, Arnaldur Indriðason, Ólafur Jóhann Ólafs- son, og svo síðast en ekki síst Hall- dór nokkur Laxness. Það er skemmst frá því að segja að eng- inn íslenskur höfundur kemst með tærnar þar sem Halldór Laxness hefur hælana í sölu á bókum í út- löndum. Metið var sett árið 1946 og verður líklega seint slegið. Independent People kom út það ár í Book of the Month Club og seldist í fimm hundruð þúsund eintökum á einu bretti. Bækur Laxness selj- ast ennþá eins og heitar lummur víða um heim. gs@frettabladid.is Íslenskar bækur gera það gott í útlöndum. Sífellt fleiri bækur eru þýddar og fara víða um lönd. Íslenskir höfundar í víking ANDRI SNÆR MAGNASON Sagan af Bláa hnettinum er komin til tíu landa og forleggjarar eru heitir fyrir LoveStar. ÞÝDDAR Á ÚTLENSKU Þarna gefur að líta bækur eins og Die große Suche des kleinen Blidfinn von Thorvaldur Thorsteinsson, The Journey Home by Olafur Olafsson, Kæledyrene av Bragi Olafsson, Le Voleur de Vie de Stein- unn Sigurdardottir og Die Bronzestatue - Ein Island Krimi von Stella Blomkvist. HALLGRÍMUR HELGASON Einn af fáum sem náð hafa árangri á ensku. 101 Reykjavik er gefin út af Faber and Faber, eins og Slóð fiðrildanna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. KRISTÍN MARJA BALDURSDÓTTIR Hefur selt Mávahlátur, eða Möwengelächt- er, vel í Þýskalandi. MIKAEL TORFASON Var að gefa út bók sína Heimsins heimsk- asti pabbi í Þýskalandi og virðist vera á góðri siglingu. HALLDÓR LAXNESS Nóbelsskáldið skýtur öllum öðrum ref fyrir rass. Sjálfstætt fólk fór í 500.000 eintök í Bandaríkjunum 1946.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.