Fréttablaðið - 08.04.2004, Blaðsíða 20

Fréttablaðið - 08.04.2004, Blaðsíða 20
20 8. apríl 2003 FIMMTUDAGUR Fermingarvertíðin er hafin og núþegar hefur fjöldi barna verið tekinn í fullorðinna manna tölu. Yfir páskahátíðina standa margar ferm- ingar fyrir dyrum og jafn margar fermingarveislur. Slíkar veislur eru jafnan tilkomumiklar og glæsilegar og það er foreldrum og öðrum for- ráðamönnum fermingarbarna mikið kappsmál að standa vel að veislun- um. Vikum og jafnvel mánuðum er varið til undirbúnings svo allt verði sem best og mest enda ber veislan vott um hve mikilvægt blessað barn- ið er og sú staðreynd að það hefur ákveðið að staðfesta skírn sína. Allur gangur er á hvar ferming- arveislan er haldin. Búi fjölskyldan í stóru og rúmgóðu húsnæði er hún haldin heima. Tilefnið er notað til að taka allt í gegn enda tilvalið „þar sem við erum hvort eð er að ferma“. Þeir stórtækustu mála og leggja nýtt parkett, skipta um eldhúsinnréttingu og brjóta jafnvel vegg á milli eld- húss og stofu „til að fá betra rými“. Aðrir fara varlegar í sakirnar og láta sér nægja að mála og skipta um gardínur í stofunni. Ef híbýlin eru í smærra lagi eða þeim mun fleiri gestum boðið til veislunnar er leigður salur úti í bæ. Þeir allra flottustu fara á hótel en aðrir leigja sal af einhverju stéttar- félaginu, íþróttafélaginu eða fá inni í salnum í vinnunni. Gott að borða Veitingarnar eru helst af tvennum toga; kaffi eða matur. Og sé síðar- nefndi kosturinn valinn er ýmist um heitan eða kaldan mat að ræða. Í kaffiboðunum svigna veisluborðin undan þunganum af vel smurðum brauðtertum, vöfflum, pönnukökum, flatbrauði, heitum brauðréttum, kransakökum, brúnkökum og rjóma- tertum og öllu er skolað niður með kaffi og appelsíni. Á köldu matarborðunum er lax, silungur, paté, roast beef, skinka, brauð og ostar en á þeim heitu eru steikur af ýmsu tagi; lamb, svín, naut og jafnvel hreindýr. Í eina tíð var boðið upp á gin og vodka í fermingarveislum en sú tíð er liðin. Flestar eru þær með öllu vín- lausar nú til dags en þó er á stöku bæ dreginn tappi úr rauðvínsflösku eða tveim til að renna niður steikunum. Leggst á sálina Þó að mikið sé lagt upp úr ferm- ingarveislunum og jafnan girnilegar veitingar í boði verður það að segjast alveg eins og er að fólk tekur boðum um slíkar veislur upp og ofan. Sumir vita nefnilega ekkert hræðilegra en að mæta í fermingarveislu og ganga með fýlusvip í marga daga og kvíða- hnút í maganum yfir að þurfa að mæta. Raunar virðist þetta ríkara í körlum en kon- um. Engar hald- góðar skýring- ar hafa fengist á þessari ferm- ingarveislufælni en þó nefndu nokkrir karlar sem rætt var við að annars vegar væri svo ómögulegt að þurfa að fara í jakkaföt og setja upp bindi og hins vegar væru samræðurn- ar í veislunum svo þvingandi og stirð- ar. „Maður hittir eitthvað fólk sem maður hefur eiginlega aldrei séð áður og veit ekki hvað heitir og þarf að segja því hvað maður er að gera og hvað börnin manns séu orðin gömul og svona. Þetta er bara hundleiðin- legt,“ sagði karl um þrítugt sem talað var við. Annar bar því við að það væri alltaf sama sagan; þótt fjöldi fólks væri í veislunni söfnuðust alltaf sömu fjölskyldurnar saman við borð og hann talaði því bara við fólkið sem hann þekkir best. „Við getum alveg eins verið heima hjá mér,“ sagði hann. Umræðuefnin Umræðuefnin í fermingarveisl- unum eru nokkuð hefðbundin, ef undan eru skilin dægurmál hvers tíma. Vinsælustu efnin í þeim flokki þessa vertíðina eru hvað Davíð gerir í haust, hvort einhver eigi séns í Ólaf Ragnar og hvort Bjöggarnir séu hreinlega að eignast allt Ísland. Tíðin er alltaf ofarlega á baugi enda sískemmtilegt umræðuefni og er þá talað um hvort sumarið verði gott og að þetta hafi nú eiginlega ekki verið neinn vetur. Persónulegri málefni koma líka til tals, t.d. hvað Ragnar og Ingiríður séu eiginlega komin með mörg börn, hvort Óli sé ennþá í ballett og Stella í fiðlunni. Þegar umræðuefni skortir er alltaf gott að gera sér mat úr næsta umhverfi. Sé veislan í sal er tilvalið að tala um hvað salurinn sé nú fallegur, hvað hann sé opinn og skemmtilegur og lýsingin þægileg. Sé hún í heimahúsi er upplagt að ræða um hvað breytingarnar hafi nú tekist vel, hvað nýi liturinn á stof- unni sé vel heppnaður og að gardín- urnar í borðstofunni séu algjört æði. Svo er náttúrlega við hæfi að tala um hvað veislan sé nú frábær „enda Stella og mamma hennar svo rosa- lega sniðugar í eldhúsinu. Já, og Friðgeir auðvitað líka.“ Þetta er allt í lagi En sé nú öllu á botninn hvolft er ljóst að enginn þarf að bera kvíðboga fyrir fermingarveislum, þær eru nefnilega bæði góðar og skemmti- legar. Maturinn er yfirleitt óviðjafn- anlegur, það er nóg til frammi og því hægt að borða og borða og flestir hafa jú gaman af því. Og svo er fé- lagsskapurinn fínn, fjölskyldan sam- an komin í sínu fínasta pússi, glöð í bragði yfir að Snjólfur sé nú loksins fermdur og margt að ræða. En sjái fólk ekki nokkra leið færa til að hafa ánægju af veislunni er betra að boða forföll. Segjast bara vera slappur og komast ekki. Því miður. Það er mun skárra en að mæta og láta sér leiðast. Fýldir karlmenn í krumpuðum jakkafötum með ómögulegan bindishnút, japlandi á brauðtertu og sötrandi Mix, er sorgleg sjón. bjorn@frettabladid.is Fermingarveislur fara núna fram um allan bæ með öllum þeim kræsingum og herlegheitum sem þeim fylgja. Það hefur lengi loðað við veislurnar að svo virðist sem fólk hafi misgaman af því að sækja þær. Margir njóta þeirra, en aðrir kvíða þeirra. Fermingarveislur – kátína eða kvöl? Fermingarveisluleiði getur átt sér djúpstæðar orsakir. Sálfræðingur nefnir erfið- leika, kvíða og átraskanir sem algengar skýringar. Margir upplifa mikinn kvíða Fermingarveislur fara fyrirbrjóstið á fólki af ýmsum ástæðum, bæði einföldum og flóknum. Björn Harðarson sál- fræðingur segir að sumum finnist einfaldlega leiðinlegt í slíkum veislum, öðrum hrjósi hugur við að fara á mannamót þar sem þeir þekkja varla sálu og enn aðrir fá sig sadda ef margar veislur eru á skömmum tíma. Svo vilja sumir einfaldlega verja tímanum í eitthvað annað, t.d. áhugamál sín eða til afslöppun- ar. Djúpstæðari ástæður geta einnig legið að baki: „Erfiðleikar í fjölskyldum, t.d. vegna áfengis- neyslu eða ósættis, geta einnig haft áhrif. Óþægindin vegna slíks geta verið mikil og jafnvel valdið kvíða,“ segir Björn. „Og þeir eru margir sem upp- lifa mjög mikinn kvíða í svona veislum. Mjög margir þjást af fé- lagslegum kvíða eða ennþá erfið- ari félagsfælni og eru þá stór mannamót, þar sem „athygli“ margra er á þeim, einna erfiðust.“ Björn segir marga skjólstæð- inga sína í gegnum árin hafa nefnt fermingarveislur sem dæmi um aðstæður sem valda þeim erfið- leikum og kvíða. Og fleiri vandamál koma við sögu: „Svo er eitthvað um fólk með t.d. offituvandamál eða aðrar átraskanir sem upplifir kvíða gagnvart því að vera á stað þar sem það „þarf“ að borða fyrir framan aðra,“ segir Björn. Það er því greinilega ekki að ástæðulausu sem margir eru með böggum hildar í tengslum við fermingarveislur, þó að vissulega kunni líka margir að njóta herlegheitanna og hafa gaman af. ■ MIKIÐ STENDUR TIL Fermingarveislur eru haldnar með pompi og prakt um allan bæ þessa dagana. Ljóst er að fólki finnst misgaman að sækja veislurnar. KRÆSINGAR Margir sem haldnir eru átröskunum af ýmsu tagi fá kvíða út af kræsingunum í fermingarveislum, segir Björn Harðarson sálfræðingur.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.