Fréttablaðið - 02.06.2004, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 02.06.2004, Blaðsíða 12
12 2. júní 2004 MIÐVIKUDAGUR ABU GHRAIB KVATT Fangar Abu Ghraib-fangelsisins veifa í kveðjuskyni er þeim er fylgt út úr fangels- inu. Mörgum föngum hefur verið sleppt úr fangelsinu eftir að upp komst um mis- þyrmingar í fangelsinu í síðasta mánuði. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ: Vill samvinnu sveitar- félaga við Faxaflóa SVEITARSTJÓRNARMÁL Árni Sigfús- son, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, kallar eftir samvinnu sveitarfé- laga við Faxaflóa við skipulagn- ingu iðnaðar- og atvinnusvæða auk samgönguleiða. „Ég hef verið að benda á mikil- vægi þess að menn skipuleggi ekki iðnaðarsvæði og stórskipa- hafnir inni í íbúðarhverfum,“ seg- ir Árni og bætir við að í framtíð- inni bendi allt til þess að strand- lengjan frá Akranesi til Helguvík- ur verði íbúðarbyggð. „Því er mikilvægt að horfa til framtíðar og ákveða staðsetningu stórskipahafna og aðstöðu fyrir iðnað. Margt mælir með því að þær verði settar sín í hvorn enda, annars vegar á Helguvíkursvæð- inu og hins vegar Grundartanga- svæðinu, auk Straumsvíkur. Þá er hægt að skipuleggja iðnaðar- byggð með tilliti til þessa og það þýðir auðvitað að sveitarfélögin verða að ræða saman og skoða sameiginlega hagsmuni.“ Árni segir hvert sveitarfélag halda utan um sínar skatttekjur og framkvæmdir í dag. „Það er þess vegna sem það er mjög mik- ilvægt að menn skoði saman þá kostnaðar- og tekjuliði sem slíku verkefni væru samhliða.“ ■ Sjálfstæði Ríkisútvarpsins þarf að vera óumdeilt Sérfræðingur í fjölmiðlarétti segir að almenningsútvarp hafi sérstakar skyldur umfram einkarekna ljósvaka- miðla. Yfirstjórn þarf að starfa sjálfstætt og ráða þarf fólk á grundvelli hæfis en ekki vegna pólitískra tengsla. Almenningsútvarp hefur sérstakarskyldur umfram aðra einkarekna ljósvakamiðla að því leytinu til að sjálfstæði þess gagnvart pólitískum og viðskiptalegum öflum verður að vera óumdeilt,“ segir dr. Herdís Þor- geirsdóttir, prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst og sér- fræðingur í fjölmiðlarétti. Hún segir að viðurkenndar skyld- ur almenningsútvarps séu meðal ann- ars trúnaðarskylda við almenning, eins og hún er viðurkennd í réttar- framkvæmd beggja vegna Atlantsála. „Almenningsúvarp hefur þær skyldur að móta almenningsálitið eft- ir ábyrgum og lýðræðislegum leiðum þannig að vilji almennings sem end- urspeglast í kosningaúrslitum sé mót- aður með lögmætum hætti. Almenn- ingsútvarp þjónar öllu samfélaginu og miðlar til þess upplýsingum, menningarlegu og fræðandi efni sem og afþreyingu,“ segir Herdís. Hún segir að hlutverk almenn- ingsútvarps sé að þjappa samfélaginu saman og að það sé mikilvægur vett- vangur fyrir hina pólitísku umræðu. Trúnaðarskyldan sé jafnframt fólgin í því að lýðræðislegar grundvallar- reglur séu virtar, andmælareglan sé virt og stofnunin sé ábyrg gagnvart almenningi. Pólitísk íhlutun hugsanlega hindrun Aðspurð um hvaða skyldum al- menningsútvarps Ríkisútvarpið sinni að svo stöddu segir hún að væntan- lega séu fréttir og fréttatengt efni þar mikilvægasti þátturinn. Einnig séu fræðsluþættir og annað menning- arlegt efni og vandað íslenskt dag- skrárefni. „Hins vegar má spyrja að því hvernig RÚV sinni trúnaðarskyldu sinni við almenning og hvort lýðræð- islegu grunnreglunum sé framfylgt? Hindrar pólitísk íhlutun RÚV í að sinna lýðræðislegum grunnskyldum sínum, ekki eingöngu í efnistökum og í vali á viðmælendum í fréttum og fréttatengdum þáttum - heldur einnig með afskiptum af ráðningum frétta- manna? Ef pólitísk öfl innan RÚV úti- loka ráðningar einstaklinga sem væru jafnvel enn betur í stakk búnir að sinna þessu hlutverki en þeir sem ráðnir eru, er verið að hlunnfara al- menning í þeim lögmæta rétti að fá ít- arlegustu og best unnu fréttir og út- tektir sem völ er á,“ segir Herdís. Hætt við að lög standist ekki evrópsk viðmið Þegar Herdís er spurð hvaða starfsemi Ríkisútvarpsins flokkist ekki undir þessar skyldur segir hún að það þyrfti að skoða vandlega á hvern hátt fjármunum almennings sé varið í afþreyingarefni sem raskar jafnvægi á markaði þar sem einka- reknar stöðvar þurfa að þrífast líka. „Evrópusambandið hefur á stefnu- skrá sinni markmiðið um tvískiptan ljósvakamarkað, þar sem viðurkennt er aukið eftirlit á grundvelli sam- keppnislaga og hins vegar mikilvægi útvarps í almannaþágu með sérstakri reglu um opinberan stuðning. Ríkis- útvarpið má með starfsemi sinni á engan hátt raska þessu tvíeðli mark- aðarins,“ segir Herdís. Að sögn Her- dísar kveða tilmæli frá Evrópuráðinu á um gagnsæi með störfum eftirlits- stofnana í útvarpi og sjónvarpi. Aðspurð hvaða breytingar þurfi að gera á Ríkisútvarpinu svo það megi sem best sinna skyldum al- menningsútvarps segir Herdís að RÚV þurfi að tryggja sjálfstæði yfir- stjórnunar með breytingu á lögum. Slík lagasetning tryggi faglegt út- varpsráð og að útvarpsstjóri og stjórnendur dagskrárefnis og frétta- deilda séu ráðnir á grundvelli hæfis en ekki vegna pólitískra tengsla. „Lög um almenningsútvarp mega ekki stangast á við evrópsk viðmið en það er hætt við því að ýmis ákvæði núgildandi laga um ríkisútvarpið stæðust ekki slíka endurskoðun,“ segir hún. Hætta á pólitískum geð- þótta ef RÚV er sett í fjárlög Aðspurð hvernig skynsamlegast væri að hátta fjármögnun Ríkisút- varpsins eftir endurskipulagningu í ljósi þess að RÚV fær opinbera styrki og er einnig að keppa við aðra fjöl- miðla á auglýsingamarkaði segir Herdís að Ráðherranefnd Evrópu- ráðsins hafi skuldbundið sig til að tryggja öflugt almenningsútvarp. „Evrópusambandið hefur einnig staðfest mikilvægi almenningsút- varps með sérstökum viðauka við Amsterdamsamninginn. Það er hins vegar áhyggjuefni að þessar skuld- bindingar hafa ekki verið virtar vítt og breitt í hinum 45 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Mótun fjölmiðla- stefnu innan ýmissa Evrópuríkja tekur aukið mið af þróun stafræns sjónvarps með þeim afleiðingum að hlutverk almenningsútvarps er hvorki skilgreint né styrkt og stutt sem skyldi,“ segir Herdís. Hún bendir á að ef RÚV verði sett á fjárlög sé hætta á því að pólitískur geðþótti verði of ráðandi. „Afnotagjöldin eru leið til þess að sneiða hjá þeirri hættu. Hvaða leið sem valin er verður að huga að þrennu. Í fyrsta lagi pólitísku sjálf- stæði, í öðru lagi fjárhagslega raun- hæfri afkomu og síðast jafnvægi á markaði í ljósi samkeppnislaga og op- inbers stuðnings,“ segir Herdís. Banna ætti undirboð á auglýsingamarkaði Þegar Herdís er spurð að því hverju þurfi að breyta í fjármögnun- arleiðum Ríkisútvarpsins til að ganga úr skugga um að það sé ekki í ólög- mætri samkeppnisstöðu gagnvart öðrum fjölmiðlum segir hún að skoða þurfi auglýsingaþáttinn vel. „RÚV má ekki raska fjárhagslegri afkomu einkarekinna ljósvakamiðla með til dæmis undirboðum á auglýs- ingaverði. Það er spurning hvort það ætti ekki að banna undirboð opinbers fjölmiðils og leiðrétta þannig sam- keppnisstöðuna í þágu einkarekinna miðla,“ segir hún. Einnig veltir hún því fyrir sér hvort það sé fjárhagslega raunhæft að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Það þurfi jafnframt að skoða það út frá jafnræðisreglu í ljósi annarra ákvæða svo sem meiri skyldna sem lagðar eru á almenningsútvarp og þeirrar skyldu stjórnvalda að efla og styðja slíkt útvarp. „Í Altmark-málinu svokallaða dæmdi Evrópudómstóllinn í Brussel nýlega að aðildarríki Evrópusam- bandsins mættu skilgreina markmið útvarps og sjónvarps í almannaþágu en almenningsútvarp yrði að sæta ströngum skilmálum um gagnsæi og ríkisvaldið yrði að tryggja sann- gjarna samkeppni við einkarekin fyrirtæki, ekki síst í samkeppninni um auglýsingar,“ segir Herdís. ■ Brotthvarf frá Gaza: Meirihluti með Sharon ÍSRAEL Meirihluti Ísraela er fylgjandi áætlun Ariels Sharons forsætisráð- herra um brotthvarf frá Gaza, sam- kvæmt nýrri skoðanakönnun. 54 pró- sent segjast fylgjandi því að hverfa alfarið frá Gaza en 31 prósent voru fylgjandi því að rýma aðeins þrjár litlar landnemabyggðir þar, eins og Binyamin Netanyahu fjármálaráð- herra leggur til. Stjórnin er klofin í afstöðu sinni og óvíst er að Sharon nái að vinna til- lögu sinni næganlegt fylgi. Shimon Peres, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði í útvarpsviðtali að flokkur hans myndi ekki fara í stjórn með Likud ef leið Netanyahu yrði valin. ■ ÁRNI SIGFÚSSON Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir mikil- vægt að iðnaðarsvæði og stórskipahafnir verði skipulögð inni í íbúðarhverfum. SIGRÍÐUR D. AUÐUNSDÓTTIR BLAÐAMAÐUR FRÉTTASKÝRING ENDURSKIPULAGNING RÍKISÚTVARPSINS HERDÍS ÞORGEIRSDÓTTIR „Lög um almenningsútvarp mega ekki stangast á við evrópsk viðmið.“

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.