Fréttablaðið - 27.06.2004, Blaðsíða 10

Fréttablaðið - 27.06.2004, Blaðsíða 10
Björn bróðir Á þingi Sambands ungra framsóknarmanna í gær var samþykkt sérstakt samkomulag milli tveggja fylkinga innan sambandsins sem kveður á um helmingaskipti á kjörtíma- bili stjórnarinnar. Núverandi formaður, Haukur Logi Karlsson, hefur gagnrýnt forystu flokksins mjög harkalega að undanförnu, einkum í tengslum við fjölmiðlamálið. Samkvæmt samkomulaginu mun Haukur Logi víkja úr formannsstóli þegar kjör- tímabil stjórnarinnar er hálfnað og í hans stað kem- ur Jakob Hrafnsson. Sá síð- arnefndi er bróðir Björns Inga Hrafnssonar, aðstoð- armanns Halldórs Ás- grímssonar, formanns Framsóknarflokksins og verðandi forsætis- ráðherra. Heimildir herma að hátt settir menn í flokknum hafi beitt sér mjög fyrir því að Haukur viki sem formaður en viljað um leið forðast átök innan ungliðahreyfingar- innar. Flestum þykir ljóst að ungliðahreyfing Framsóknarflokksins verður flokksforystunni ekki eins óþægur ljár í þúfu eftir að bróðir aðstoðarmanns flokksformannsins er kom- inn þar í forystu. Jakob hefur klifið hratt upp metorðastiga flokksins en þó ekki eins hratt og Björn bróðir, því sá síðarnefndi var orðinn hægri hönd formannsins ör- fáum mánuðum eftir að hann gekk í Framsóknarflokkinn. Þórólfur betri en Ingibjörg Þórólfur Árnason hefur nú gegnt starfi borgarstjóra í um það bil eitt og hálft ár. Eins og gengur eru skiptar skoðanir um störf hans og eðlilega eru þau iðulega borin saman við störf Ingibjargar Sólrúnar Gísld- óttur sem var borgarstjóri frá 1994 til ársloka 2002. Á einu sviði er árangur Þórólfs óumdeilan- lega betri en það er í laxveiðinni. Hefð er fyr- ir því að laxveiði í Elliðaánum hefjist á því að borgarstjóri veiði fyrsta laxinn. Ingibjörg Sól- rún þótti með eindæmum mikil fiskifæla og gekk illa mestallan sinn feril. Gárungarnir höfðu þá á orði að laxarnir í ánni vissu greinilega hver hefði völdin í borginni því iðulega fékk framsóknarmaðurinn Alfreð Þorsteinsson fyrsta laxinn. Þórólfur er hins vegar mun fisknari en Ingibjörg og þegar Elliðaáin var opnuð á dögunum fékk hann fyrsta laxinn, 4ra punda hrygnu. Æviráðning opinberra embættis- manna var afnumin fyrir nokkrum árum. Það var skynsam- leg ákvörðun. Ekki er hollt, hvorki fyrir viðkomandi embætt- ismann né þjóðfélagið, að sami maður ríki yfir stofnun um langt árabil. Völd og áhrif til langs tíma sljóvga jafnan - og spilla jafnvel - sama hve grandvarir menn eru og gætnir í upphafi. Auðvitað eru frá þessu margar undantekningar en á þeim er ekki rétt að byggja regl- una. Hæstaréttardómarar eru sér á báti. Ekki hefur verið rætt um að afnema æviráðningu þeirra í embætti. Þeir geta þó farið nokkrum árum fyrr en aðrir emb- ættismenn á full eftirlaun. En ekki mun neitt dæmi þess að hæstaréttardómari hafi horfið úr embætti án þess að hafa annað hvort verið búinn að tryggja sér full eftirlaun eða annað sambæri- legt starf. Kemur svo sem engum á óvart. Ætli við hugsum ekki flest þannig sjálf? Í ljósi þessa vekur tilkynning Péturs Kr. Haf- stein í síðustu viku meiri athygli en ella. Hann er aðeins 55 ára gamall en ákveður nú að biðjast lausnar frá embætti hæstaréttar- dómara til að geta sinnt hugðar- efnum sínum, hestamennsku og háskólanámi í sagnfræði. Vænt- anlega er traustur efnahagur for- senda fyrir ákvörðun af þessu tagi, því ekki fær dómarinn nema brot af þeim launum sem hann fengi ef hann hætti við vanaleg aldursmörk. En efnahagur manna er ekki aðalatriðið þegar svona ákvarðanir eru teknar. Margir vel stæðir menn kjósa að halda í opin- ber embætti sín von úr viti, ekki launanna vegna heldur vegna valda og áhrifa, virðingar og sam- félagsstöðu. Í því ljósi er ákvörð- un Péturs Kr. Hafstein svo lofs- verð að manni kemur ekki í hug nema eitt orð, nútímalegt eins og ákvörðunin, flott. Ekki minnkar álitið á dómaranum við þær frétt- ir að hann, langskólagenginn og lærður lögspekingur, hafi ákveðið að setjast á skólabekk með ungu fólki, sem er að byrja háskóla- nám, til að nema sögu. Pétur hefði hæglega getað haslað sér völl í sagnfræði án þess að leggja stund á greinina í háskólanum, eins og mörg fordæmi eru fyrir. Leiðin sem hann valdi er til marks um óvanalegt lítillæti. Um leið og hún stækkar hann – og það gerir hún sannar- lega – eflir hún álit há- skóladeildarinnar, ekki síst í augum þess unga fólks sem þar er að hefja nám. Í hugann kemur indverskt spakmæli sem segir: „Aldinviðir hneigja sig niður þegar þeir bera gnótt ávaxta, ský fara því lægra sem þau eru vatnsríkari, og öðlingar þjóðar eru því lítillátari sem þeir eru fleiri mannkostum búnir.“ Manni verður af þessu tilefni ósjálfrátt hugsað til annarra manna sem standa á vegamótum. Alþingismenn og ráðherrar eru ekki æviráðnir (- til allrar ham- ingju!). Fæstir geta ráðið því al- gjörlega einir hve lengi þeir eru á vettvangi. Stunda taka kjósendur af þeim ráðin – og skeyta þá engu um hve lengi þeir hafa verið við völd og stundum ekki heldur hvort þeir hafa staðið sig vel eða illa. Höfundur þessarar greinar fæddist sama árið og Gylfi Þ. Gíslason varð menntamálaráð- herra vinstri stjórnarinnar fyrstu 1956 og var í gagnfræðaskóla þegar hann missti embættið í kjölfar kosningaósigurs viðreisn- arstjórnarinnar árið 1971. Í aug- um unglings í Reykjavík var Gylfi jafn ómissandi partur af tilver- unni og Esjan. Mér hefur alltaf þótt það Gylfa til mikils álitsauka hvernig hann haslaði sér völl að nýju sem háskólaprófessor, fræðimaður og rithöfundur eftir meira en tuttugu ára stjórnmála- vafstur. „Kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki“, segja kaldlyndir menn. Og víst er að engir menn – segjum þó fáir í varúðarskyni – eru alveg ómissandi. Sumir skila að vísu meira og betra dagsverki en aðrir eins og gengur. En þeirra tími kemur líka. Gamlir vinir og baráttufélagar Davíðs Oddssonar forsætisráð- herra hafa um skeið verið hugsi yfir þeim tímamótum sem fram undan eru í haust eftir feril sem óhætt mun að segja að sé, að minnsta kosti á köflum, ótrúlega glæsilegur. Sumir geta ekki sætt sig við tilhugsunina um lands- stjórnina án hans í forsæti. Þeir róa að því öllum árum að hann finni leið til að halda áfram stjórnmálaþátttöku og helst for- ystu líka. Við höfum mörg til- hneigingu til þess að hafa samúð með þessu viðhorfi, þótt ósam- mála séum ýmsu sem forsætis- ráðherra hefur aðhafst að undan- förnu; treystum því einhvern veg- inn ekki almennilega að festan og stöðugleikinn, sem hann hefur staðið fyrir, haldi áfram. En tímans rás stöðvar enginn. Hollt er sálinni að bægja hugsun- um af þessu tagi frá sér. Þeir sem studdu Davíð Oddsson til valda og áhrifa á níunda og tíunda áratugn- um gerðu það ekki í greiðaskyni við persónuna heldur vegna þeirra hugmynda sem Davíð vildi berjast fyrir og vegna þess að hann var álitinn hæfastur manna til að bera þær fram til sigurs. Sem og gerðist smám saman á tí- unda áratugnum. Menn eru stöðugt með vanga- veltur um það hvort Davíð Odds- son verði nú dómsmálaráðherra í haust eða láti skipa sig seðla- bankastjóra, sendiherra eða í ein- hverja aðra háa stöðu. Ég held að ekkert af þessu gerist. Ég held að forsætisráðherra, sem þjóðinni er farið að þykja drambsamasti mað- ur landsins, muni sýna á sér önd- verðu hliðina þegar stundin loks rennur upp. Ég er ekki að spá því að hann setjist á skólabekk með Pétri Kr. Hafstein – þótt það væri óneitanlega skemmtilegt. Aftur á móti treysti ég því að hin sterka söguvitund og söguskynjun, sem alla tíð hefur verið ríkur þáttur í fari forsætisráðherra, leiði til þess að hann yfirgefi völlinn hvorki sneypulega né með brauki og bramli, enda væri hvort tveggja ósæmandi, heldur á sinn sérstaka hátt og gangi síðan í endur- nýjun lífdaga. Með óvanalegt atgervi í veganesti er aldrei að vita nema seinni hlutinn geti jafnvel tekið hin- um fyrri fram. ■ N æstu daga mun baráttan um forsetakosninganar halda áfram.Nú verður barist um túlkun á niðurstöðum þeirra. ÓlafurRagnar Grímsson mun halda því fram að hann hafi ekki aðeins sigrað í kosningunum heldur einnig lagt forystu Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið, sem er ekki lengur hægt að kalla annað en málgagn forystu flokksins. Morgunblaðið og harðasti kjarninn í kringum forystu Sjálfstæðisflokksins munu telja sig hafa laskað Ólaf Ragnar svo með auðum atkvæðum að hann hafi á einhvern hátt takmarkaðra umboð frá kjósendum en forsetar hingað til. Næstu daga mun verða deilt um þessar mismunandi túlkanir. Niðurstöður kosninga eru sjaldn- ast mjög skýrar og það á einnig við um þessar. Baráttan um túlkun þeirra getur því fært báðum nokkurn sigur – eða í það minnsta varnar- sigur. En það er ljóst að hvorugur tapaði. Það er nokkuð afrek að fá frá fimmtungi að fjórðungi þeirra sem mæta á kjörstað til að skila auðu. Það eru sterk mótmæli. Það er hins vegar erfitt að meta styrk þeirra sökum þess hversu öflugir aðilar stóðu að þeim og beittu sér í kosningabaráttunni. Það voru álíka margir sem skiluðu auðu í forsetakosningunum og skrifuðu undir hvatningu til Ólafs Ragnars að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Svipaður fjöldi hefur áður hvatt forseta til að staðfesta ekki lög um virkjanir og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Mun fleiri skrifuðu þó undir stuðning við varnarsamninginn í herferð Varins lands fyrir þrjátíu árum. Auðu seðl- arnir nú skipa sér samt sem áður í flokk með sterkustu mótmælum sög- unnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar verið gríðarsterkt afl í ís- lenskum stjórnmálum marga undanfarna áratugi og það er óvanalegt að hann beiti sér í mótmælaaðgerðum. Það er því ef til vill hægt að ætla honum meiri árangur í slíkum aðgerðum en til dæmis Vinstri- hreyfingunni – grænu framboði. Styrkur Sjálfstæðisflokksins og það afl sem Morgunblaðið lagði í kosningabaráttuna gerir það að verkum að þótt veikari öfl gætu vel við unað er fjöldi auðra seðla ekki sigur fyrir flokkinn eða blaðið. En þeir eru nægjanlega margir til að forða tapi. Hvað forysta flokksins hins vegar ætlaði sér með þessum leiðangri sínum er enn óskýrt. Það mátti öllum vera ljóst að þótt flokknum tækist að skaða stöðu forsetans myndi yfirlýst andstaða flokks og blaðs færa Ólafi Ragnari persónulegan sigur. Ólafur Ragnar situr vissulega uppi með mun verri kosningu en Vigdís Finnbogadóttir fékk árið 1988. Þetta eru einu forsetakosning- arnar þar sem sitjandi forseti hefur fengið mótframboð og því einu kosningarnar sem eðlilegt er að bera þessar saman við. Mótframbjóð- endur Ólafs Ragnars voru tveir og fengu aðeins meira en tvöfalt fylgi eina mótframbjóðanda Vigdísar. Mismunurinn liggur í auðum seðlum. Árið 1988 voru þeir rúm 2 prósent en nú bætast við meira en 20 prósent til viðbótar. Þrátt fyrir að kannanir hafi sýnt að Ólafi Ragnari hafi gengið vel að afla sér fylgis þrátt fyrir pólitíska fortíð sína gerir enginn ráð fyrir að hann verði nokkru sinni jafningi Vigdísar að vinsældum. Hann hefði því mátt búast við fleiri auðum seðlum en Vigdís fékk þótt ekki hefði komið til andstaða Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Og þegar þessar kosningar eru bornar saman er - munurinn ekki mikill í ljósi þess hversu öfluga andstæðinga Ólafur Ragnar var að glíma við. Við getum spurt okkur hvort við hefðum talið það sigur eða tap fyrir Ólaf Ragnar Grímsson fyrir nokkrum misserum síðan að fá þrisvar sinnum meira fylgi en sá kostur sem forysta Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið börðust fyrir. Þótt það séu ekki góð tíðindi fyrir forseta að hátt í fimmtungur kjósenda skili auðu í mótmælaskyni eru niður- stöður þessara kosninga hins vegar nokkur sigur fyrir Ólaf Ragnar. Baldur Ágústsson má síðan vera stoltur af því að fá um þriðjungs fylgi á við Pétur Thorsteinsson 1980 og helminginn af fylgi Alberts Guðmundssonar i sömu kosningum. ■ 27. júní 2004 SUNNUDAGUR MÍN SKOÐUN GUNNAR SMÁRI EGILSSON Eftir úrslit kosninganna munu margir segjast hafa unnið kosningabaráttuna en það var aðeins einn sem vann kosningarnar. Sigur fyrir Ólaf Ragnar Af auðmýkt og endurnýjun lífdaga FRÁ DEGI TIL DAGS degitildags@frettabladid.is ÚTGÁFUFÉLAG: Frétt ehf. RITSTJÓRI: Gunnar Smári Egilsson FRÉTTASTJÓRI: Sigurjón M. Egilsson RITSTJÓRNARFULLTRÚAR: Steinunn Stefánsdóttir og Jón Kaldal AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN, AUGLÝSINGAR OG DREIFING: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 515 75 06 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is SETNING OG UMBROT: Frétt ehf. PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja ehf. Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fyrirtæki geta fengið blaðið gegn greiðslu sendingarkostnaðar, 1.100 krónur á mánuði. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871 SUNNUDAGSBRÉF GUÐMUNDUR MAGNÚSSON Indverskt spakmæli segir: „Aldinviðir hneigja sig niður þegar þeir bera gnótt ávaxta, ský fara því lægra sem þau eru vatnsríkari, og öðlingar þjóðar eru því lítillátari sem þeir eru fleiri mannkostum búnir. ,,

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.