Fréttablaðið - 27.06.2004, Blaðsíða 30

Fréttablaðið - 27.06.2004, Blaðsíða 30
20 27. júní 2004 SUNNUDAGUR GUNNAR INGI GUNNARSSON LÆKNIR „Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvers vegna læknisfræðin varð fyrir valinu en tel þó að ég hafi fylgt samferðarmönnum mínum í menntaskól- anum sem voru ákveðnir í að fara í læknisfræði.“ Allur gangur er á hvers vegna fólk vinnur við það sem það vinnur við. Sumir völdu sér ævistarfið strax í barnæsku en hreinar tilviljanir réðu ferð hjá öðrum. Fréttablaðið leitaði til nokkurra einstaklinga og grennslaðist fyrir um leiðir þeirra til núverandi starfs. Hvers vegna gerum við það sem við gerum? Edda Rún Ragnarsdóttir vinnur við tamningar og reiðkennslu auk þess að vera knapi. Líf hennar snýst því að stóru leyti um hesta og þannig hefur það ver- ið nánast alla hennar ævi enda er hún af hestafólki komin. „Það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en að vinna við hesta, ég er alin upp við þetta og mig langar ekki til að gera neitt annað,“ segir Edda Rún. Pabbi hennar, Ragnar Hinriksson, er tamningamaður en hefur þó tannsmíðapróf upp á vasann. Edda Rún segir starf sitt spennandi og heillandi og getur ekki hugsað sér að vinna við neitt annað. „Þetta er samt ekki eitthvað sem ég tók sérstaka ákvörðun um að gera, þetta bara æxlaðist svona. Ég hef í raun ekki enn ákveðið hvað ég ætla að verða.“ Og hún var ekki hvött af fólkinu sínu til að gera hestamennskuna að atvinnu sinni. „Nei, alls ekki. Þetta var algjörlega mín ákvörðun. Ég var hinsveg- ar skikkuð í menntaskóla en lærði lítið þar, ég var mest í hesthúsunum.“ Hún hefur ekki lært tamning- ar í skóla en hefur sína kunnáttu og vitneskju frá föður sínum og hestunum sjálfum. „Ég er mjög ánægð í vinnunni, þetta er mjög skemmtilegt allt saman,“ segir Edda Rún og tiltekur sérstaklega reiðkeppnir, „það er gaman að keppa, þá fyllist maður metnaðargirnd.“ Hún er þó ekki fullviss um að vinna við hesta fram eftir öllum aldri, það gæti vel breyst. „Ég hef svo sem ekki fundið neitt sérstakt sem mig langar til að læra í skóla en það er aldrei að vita nema maður skelli sér einhvern tíma í nám. Tannsmíðarnar verða þó ekki ofan á,“ segir hún og hlær. ■ EDDA RÚN RAGNARSDÓTTIR, TAMNINGA- MAÐUR, REIÐKENNARI OG KNAPI „Það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina en að vinna við hesta, ég er alin upp við þetta og mig langar ekki til að gera neitt annað.“ Gunnar Inga Gunnarsson, yfirlækni á heilsugæslustöðinni í Árbæ, lang- aði á æskuárunum að verða flugmaður en faðir hans, Gunnar Þorbjörn Gunnarsson, var framkvæmdastjóri Loftleiða. „Sem lítill drengur var ég á fleygiferð í flugvélum og fékk mikinn áhuga á flugi,“ segir Gunnar Ingi. Hann valdi sér þó læknisfræðina. „Það var í lok menntaskólatíma- bilsins sem ég fór að velta vöngum í alvöru um hvað ég ætti að leggja fyrir mig. Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir hvers vegna lækn- isfræðin varð fyrir valinu en tel þó að ég hafi fylgt samferðarmönnum mínum í menntaskólanum sem voru ákveðnir í að fara í læknisfræði.“ Sérstakt ástand ríkti í samfélaginu þegar Gunnar Ingi hóf háskóla- nám sitt 1968, leifarnar af frönsku stúdentabyltingunni var að reka á Ís- landsfjörur. „Það var mikil ólga í nemendum skólans og við nýliðarnir mættum strax í mótmælagöngu án þess að hafa hugmynd um hverju ver- ið var að mótmæla,“ segir Gunnar Ingi. En ekki nóg með það: „Við fórum nokkrir læknisfræðinemar á fund Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráð- herra og kvörtuðum undan lélegri kennslu við Háskólann. Hann hafði þá samband við vin sinn Ingvar Carlsson, menntamálaráðherra Svíþjóðar, og þeir komu okkur að í Háskóla í Svíþjóð. Það var sagt að Gylfi Þ. hefði þannig losað Háskóla Íslands við erfiðustu nemendur skólans.“ Gunnar Ingi hefur unnið í tæpan aldarfjórðung á Heilsugæslunni í Árbæ og unir hag sínum vel. „Ég var svo gæfusamur að hefja hér störf stuttu eftir að stöðin opnaði og er staðráðinn, eins og staðan er í dag, að ljúka mínum starfsferli hér. Ég er afar ánægður í vinnunni og hef verið heppinn með samstarfsfólk.“ Um skeið leit þó út fyrir að Gunnar Ingi léti af lækningum og sneri sér að stjórnmálum. „Ég gerði tilraun til að fara út í pólitík en gerði mér grein fyrir að ekki gengi að blanda þessu saman og ég yrði að velja. Ég kom því til baka og tel að það hafi verið afskaplega farsæl ákvörðun.“ ■ Edda Rún Ragnarsdóttir tamningamaður, reiðkennari og knapi Gunnar Ingi Gunnarsson læknir

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.