Fréttablaðið - 03.07.2004, Blaðsíða 31

Fréttablaðið - 03.07.2004, Blaðsíða 31
LAUGARDAGUR 3. júlí 2004 19 Óperur eiga greiðari leið að hlustum Úlfs en söngleikir og hef- ur hann hlustað á þær margar um ævina. Hann segir sögurnar í sum- um þeirra lítt merkilegri en gengur og gerist í söngleikjum, Notaði slettur og „vonda“ íslensku Úlfur Eldjárn er sterkur á því flug- hála svelli sem íslensk tunga er, hann talar jafnan vandað og gott mál og á ekki í vandræðum með að ger- ast kjarnyrtur þegar svo ber undir. Hinum rándýru vopnum var þó að mestu haldið til hlés við þýðinguna á Fame, ekki síst í söngtextunum sem kölluðu á rím á rím ofan. „Ég reyndi að láta söngtextana ganga upp sem einhvers konar millistig af talmáli og dægurlagaþvaðri, sem uppfyllti þó lágmarkskröfur um stuðla og rím. Ég skammast mín hinsvegar lít- ið fyrir að sletta og nota „vonda“ ís- lensku þar sem við á. Við vorum jú að reyna að koma verkinu í tengsl við nútímann og notuðum því að ein- hverju leyti það orðfæri sem tíðkast meðal ungs fólks.“ Þó að Úlfur hafi skemmt sér ágætlega við þýðinguna er hann feginn því að verkefnið sé að baki. „Það er mjög gott. Ég kíkti á eina af lokaæfingunum fyrir frumsýningu og leið mjög vel að vera búinn með mitt. Ég hef áður starfað í leikhúsi, samdi t.d. tónlistina við leikritið Vinur minn heimsendir, og þá mæddi talsvert á mér á lokastigun- um. Það var hins vegar mjög þægi- leg tilfinning nú að hafa skilað sínu og þurfa ekki að taka við milljón at- hugasemdum á síðustu stundu.“ Úlfur var að sjálfsögðu á frum- sýningu á fimmtudaginn fyrir rúmri viku og fannst gaman. „Ég skemmti mér bara nokkuð vel. Í hléinu tók fólk til við að horfa á víta- spyrnukeppni Englendinga og Portúgala á EM og spennan þar minnkaði ekki stemninguna, nema síður væri.“ Apparat hans ær og kýr Tónlistin er Úlfi kær, hann leikur á hljómborð af ýmsu tagi og hefur verið í nokkrum hljómsveitum um ævina. Kunnastar eru Kósý, Kanada, Trabant og Apparat Organ Quartet og stendur sú síðastnefnda hjarta hans hvað næst. „Á tímabili var ég í þremur hljómsveitum sam- tímis en hef markvisst unnið að því að fækka vígstöðvunum. Kanada er í óskilgreindu hléi og ég tók mér launalaust leyfi frá Trabant fyrir um ári síðan. Það má segja að Trabant hafi tekið óvæntan fjörkipp eftir að ég hætti, sveitin fann sér nýja vídd og vinsældir hennar jukust og það má að ein- hverju leyti þakka mér fyrir það, með því að hafa hætt,“ segir Úlfur og brosir. „Apparat er mínar ær og kýr núna. Þetta er alveg langbesta hljómsveit sem ég hef verið í og það má segja að ef ég væri ekki í henni þá væri þetta sú hljómsveit sem ég myndi alltaf mæta á tón- leika með.“ Með Úlfi í Apparat eru Arnar Geir Ómarsson, Hörður Bragason, Sighvatur Ómar Kristinsson og Jó- hann Jóhannsson og er þetta eflaust eini fimm manna kvartettinn í ver- öldinni. „Við erum allir mjög ólíkir en það er eitthvað sem sameinar okkur í þessu. Í raun er þetta bæði rokkhljómsveit og áhugamanna- klúbbur um gömul tæki og tól þan- nig að þessu fylgir mikil söfnunar- árátta og metingur innbyrðis.“ Apparat hefur gefist færi á að spila á mörgum merkilegum og skemmtilegum stöðum og hefur sveitin ferðast víða um heim. „Við höfum haldið hljómleika í Finn- landi og Rússlandi svo dæmi séu tekin og einnig spilað á Hró- arskelduhátíðinni, í Pompidou listamiðstöðinni í París, Central Park í New York og á Paradiso klúbbnum í Amsterdam sem er mekka pönksins í Evrópu. Þetta er gömul kirkja sem hefur verið inn- réttuð sem tónleikastaður og þar var virkilega gaman að spila. Hljómsveitin hefur semsagt oft spilað á mjög skrítnum stöðum og það hefur aldrei verið neitt sér- staklega leiðinlegt hjá okkur.“ Annars er helst tíðinda af sveit- inni að einhvern tímann í óljósri framtíð er væntanleg plata í betri hljómplötuverslanir í Bandaríkjun- um og að auki er unnið að laga- smíðum fyrir nýja plötu sem vænt- anlega kemur út á Íslandi og víðar. Tónlistargáfan frá ömmu Úlfur er sonur hjónanna Unnar Ólafsdóttur veðurfræðings og Þór- arins Eldjárns rithöfundar. Hann segist aðspurður hafa orðið fyrir áhrifum frá föður sínum. „Ótví- ræðum. Þó að pabbi minn búi að vísu yfir miklum tónlistargáfum held ég að ég hafi fengið mínar frá ömmu minni í móðurættina. En ég held að ég hafi fyrst og fremst orð- ið fyrir almennum jákvæðum áhrifum frá foreldrum mínum og fjölskyldu. Maður býr að einhverri hefð sem gerir það að verkum að maður treystir sér til að takast á við ólíklegustu hluti. Og svo hefur það auðvitað einhver áhrif að alast upp hjá manni sem talar nánast í bundnu máli. Maður getur nú ekki verið svo heimskur að það síist ekki eitthvað inn.“ Úlfur segir föður sinn í hópi sinna uppáhaldsrithöfunda og seg- ist helst hrífast af því lífsviðhorfi sem einkennir hann og verk hans. Að gera mikið úr litlu og lítið úr miklu, að finnast ómerkilegu hlut- irnir merkilegir og taka allt grín svo alvarlega að það jaðrar við leiðindi. „Þetta lífsviðhorf birtist t.d. hjá okkur bræðrunum með þeim hætti að höfum aldrei vílað fyrir okkur hluti á borð við að vera í hljóm- sveitum eða fást við kvikmynda- gerð eins og yngri bræður mínir gera. Það hefur aldrei verið nein fyrirstaða, afstaðan hefur verið sú að allt sé hægt og almenn skynsemi fær helst ekki að spilla fyrir fram- kvæmdagleðinni. Ætlar að semja óperu Þó að tónlistin sé snar þáttur í lífi Úlfs dugar hún honum ekki til framfæris enda er það að vera í orgelkvartett ekki ósvipað því að vera í fornbílaklúbbi. Hann hefur unnið undanfarin ár á aug- lýsingastofu og kann því vel. „Vinnan á auglýsingastofunni hefur reynst mér mjög vel og gefið mér mikið. Í henni þjálfast ég upp í að fylgja eftir hugmynd- um og koma þeim í fram- kvæmd.“ Hann starfaði lengi á auglýs- ingastofunni Fastland sem nýlega sameinaðist Fíton og vinnur þar að nokkrum spennandi verkefn- um sem hann þó er ófáanlegur til að greina nánar frá en segir von á allskonar fínu dóti þaðan. Um framtíðina að öðru leyti segist Úlfur allt eins eiga von á að koma aftur að sviðsverki og hann á sér raunar gamlan draum hvað það snertir. „Mig hefur lengi langað til að semja óperu, svona útfrá mínum forsendum, enda er ég nú stundum kallaður Úlli Mozart af þeim sem þekkja mig. Og ég er viss um að af því verður einhvern tíma. Það var því ágætt að fara í gegnum Fame áður til að læra á formið.“ Ljóst er að Úlfur Eldjárn nær- ist á sköpun, hvort sem hún lýtur að tónlist, skriftum eða hug- myndasmíði. Allt er undir. Og auðvitar stoðar lítt að vera latur þegar allt lífið blasir við með tækifærum á hverjum strái. „Jájá, ég er nokkuð vinnusamur,“ svarar hann aðspurður, „en það er ekkert endilega gott því mér skilst að allir mestu snillingar mannkynssögunnar hafi verið bölvaðir letingjar. Þannig að ég reyni að taka mín letiköst einsog aðrir.“ bjorn@frettabladid.is FÆ EKKI FRIÐ (brot úr textanum) Ég skal segja ykkur frá þeirri sorgar- stund er ég felldi mitt fyrsta tár. Þegar dauðinn mætti heim til mín, ég man það upp á hár. Öll ættin saman sorgarklædd að syrgja langömmu mína. Hver haldiði birtist svo fögur og fín nema frænka mín hún Nína? Með titrandi tár, ég trúði ekki hvað hún var mögur. Þetta viðkvæma grey, orðin gjafvaxta, þrýstin og fögur. Hún kyssir þau öll en kemur svo loksins að mér og hún faðmar mig blítt og kyssir á kinn. Þá kíki ég svo enginn sér á brjóstin tvö stinn, sem bjóða mér inn. Og ég fæ, nei ég fæ… Ég fæ aldrei frið.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.