Fréttablaðið - 24.07.2004, Blaðsíða 35

Fréttablaðið - 24.07.2004, Blaðsíða 35
LAUGARDAGUR 24. júlí 2004 23 virðist því sem stöðug vísun í mataræði og hreyfingu sem helstu orsakavalda offitu eigi ekki rétt á sér. En hvað getur þá mögulega skýrt þá breytingu sem orðið hefur á holdarfari fólks? Dr. Glenn Gaesser, prófessor í lífeðlisfræði hreyfingar við Virgin- íu-háskóla í Bandaríkjunum, telur að með því að einblína á hefðbundn- ar skýringar um mataræði og hreyfingu hafi kerfisbundið verið litið framhjá einum mikilvægasta en jafnframt ólíklegasta áhrifa- þættinum: Megrun. Fjöldi rann- sókna hefur sýnt að megrun ýtir undir ofát og átköst, auk þess sem hún hægir á efnaskiptum líkamans og eykur nýtingu næringarefna. Þetta er meðal annars talin ástæða þeirrar hröðu þyngdaraukningar sem gjarnan verður í kjölfar þyngdartaps. Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að langtímarannsóknir skuli benda til þess að tilraunir til þess að minnka ummál líkamans verði oftar en ekki til þess að auka það enn frekar. Í nýlegri rannsókn var til dæmis fylgst með tæplega 700 bandarískum unglingsstúlkum yfir fjögurra ára tímabil. Í lok tíma- bilsins höfðu stúlkur sem beittu einhverskonar aðferðum til þess að grennast þyngst meira en þær sem beittu engum slíkum aðferðum. Þær sem fóru í megrun voru jafn- vel þrisvar sinnum líklegri til þess að þjást af offitu við lok tímabilsins en hinar. Skipti þá engu hvort þær hefðu verið feitar eða grannar til að byrja með eða hvort þær beittu öfgafullum aðferðum, á borð við uppköst og hægðarlyfjatöku, eða viðurkenndum, á borð við megrun og líkamsæfingar. Þannig benda rannsóknir ein- dregið til þess að tilraunir til þyngdartaps valdi þyngdaraukn- ingu þegar fram í sækir og geti ýtt undir offitu. Þar sem slíkar tilraun- ir hafa, ólíkt öðrum meintum áhrifaþáttum offitu, færst mjög í aukana á undanförnum áratugum má gera ráð fyrir því að þær hafi haft talsverð áhrif á holdarfar al- mennings. Þrátt fyrir þetta er megrun aldrei nefnd sem einn af hugsanlegum orsakaþáttum offitu. Vond áhrif á heilsuna Þrátt fyrir að almennt sé gengið út frá því að þyngdartap sé nauð- synlegt til þess að bæta heilsu þeirra sem eru of þungir er lítið vitað um langtímaáhrif þyngdar- taps á heilsu. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að þyngdartapi fylgja heilsufarslegir kostir til skamms tíma, svo sem lægri blóðþrýsting- ur, aukið þol og bætt blóðsykurs- jafnvægi. Minna er hins vegar vit- að um langtíma áhrif á tíðni sjúk- dóma og dánartíðni. Faraldsfræði- legar rannsóknir sýna flestar aukna dánartíðni í kjölfar þyngdar- taps, jafnvel eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa reykinga og fyrirliggjandi sjúkdóma. Fæstar þessara rannsókna hafa þó gert greinarmun á viljandi og óviljandi þyngdartapi. Þær örfáu sem það hafa gert gefa blendnar niðurstöð- ur. Sumar benda til þess að dánar- tíðni minnki í kjölfar þyngdartaps, aðrar sýna engar breytingar eða jafnvel aukna dánartíðni. Hvort sem framtíðarrannsóknir munu leiða í ljós heilsubætandi áhrif þess að grennast til frambúðar eða ekki, er ljóst að flestir munu eftir sem áður fara á mis við þann ávinning, þar sem allt að 95 prósent þyngjast aftur innan fárra ára. Fyrir þann hóp fylgir að öllum líkindum lítill heilsufarslegur ávinningur því að grennast, aðeins mögulegur heilsu- brestur af því að léttast og þyngj- ast á víxl. Áhætta af aukakílóum ýkt Vitað er að offita tengist heilsu- brestum á borð við sykursýki, of háum blóðþrýstingi og hjartasjúk- dómum ásamt aukinni dánartíðni. Margt er þó enn á huldu hvað varð- ar hlutverk offitu við þróun þess- ara sjúkdóma og ekki hefur verið sýnt fram á að hún gegni þar sér- stöku orsakahlutverki. Engu að síð- ur hafa þrjár vafasamar ályktanir ítrekað verið dregnar af tengslum offitu og heilsubresta: Í fyrsta lagi að offita sem slík valdi sjúkleika, í öðru lagi að hvers kyns þyngdar- aukning sé hættuleg heilsu og í þriðja lagi að þyngdartap sé nauð- synlegt til að bæta heilsu þeirra sem eru of þungir. Þessar ályktanir eru gjarnan meðhöndlaðar sem staðreyndir í umræðu um offitu þrátt fyrir að fátt bendi til þess að þær eigi við rök að styðjast. Þótt oftar megi finna háan blóð- þrýsting, hækkaðar blóðfitur og lækkað sykurþol meðal feitra en grannra er ekki þar með sagt að lík- amsfitan hafi valdið þessum vanda- málum. Fylgni segir ekki til um or- sök og vel er hugsanlegt að aðrir þættir en offita valdi í raun þeim heilsubrestum sem gjarnan fylgja. Þeir þættir sem m.a. hafa verið nefndir í þessu samhengi eru hreyf- ingarleysi, slæmt mataræði, slæmt líkamlegt ásigkomulag, megrun og þyngdarsveiflur. Þessir þættir eru allir algengari meðal feitra en grannra og hafa allir reynst skað- legir heilsu. Þar sem aldrei hefur fyllilega verið tekið tillit til þessara þátta við mat á heilsufarslegum af- leiðingum offitu er raunverulegt framlag hennar sjálfrar að mestu óþekkt. Þjóðin fitnar en tíðni hjartasjúkdóma lækkar Þrátt fyrir að tengsl offitu og heilsubresta hafi verið staðfest, eru þau engan veginn eins afdráttarlaus og oftast er gefið í skyn. Tengsl of- fitu og hjartasjúkdóma er ágætt dæmi. Ólíkt því sem margir halda er offita ekki einn af mikilvægustu áhættuþáttum fyrir hjarta- og æða- sjúkdóma. Samkvæmt niðurstöðum úr rannsókn Hjartaverndar eru hel- stu áhættuþættir hjarta- og æða- sjúkdóma hér á landi reykingar, blóðfitutruflanir, hækkaður blóð- þrýstingur og sykursýki. Þessir þættir skýra samanlagt fjögur af hverjum fimm tilfellum kransæða- sjúkdóma. Þrátt fyrir að offita fylgi oft þremur þeirra síðarnefndu er hún hvorki nauðsynlegt né nægjan- legt skilyrði fyrir því að þeir komi fram. Þegar þeir koma fram er jafn- framt alls ekki víst að fitan sjálf hafi valdið þeim. Allir helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúk- dóma að reykingum undanskildum eru til dæmis einnig fylgifiskar þyngdarsveiflna. Nýleg ítölsk rann- sókn sýndi sem dæmi að of feitar konur sem aldrei höfðu farið í megr- un höfðu eðlilegan blóðþrýsting, en blóðþrýstingur þeirra, sem höfðu gert margar tilraunir til að grennast var of hár. Blóðþrýstingurinn var hærri eftir því sem konurnar höfðu þyngst um fleiri kíló í kjölfar megr- unarkúra síðustu fimm árin. Sam- kvæmt þessari rannsókn gæti hærri blóðþrýstingur meðal feitra mikið til stafað af því að þeir gera að jafn- aði fleiri tilraunir til þess að grenn- ast en aðrir. Rannsóknir á æðakölkun ganga sömuleiðis gegn því að offita sé einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æða- sjúkdóma. Beinar mælingar í fjölda mismunandi rannsókna hafa jafnan leitt í ljós að offita sé gjörsamlega ótengd þessari tegund æðasjúk- dóma. Þetta sést sjálfsagt best á því að þátt fyrir aukna offitu á Vestur- löndum síðustu áratugi hefur tíðni hjarta- og æðasjúkdóma farið lækk- andi. Á árunum 1981 til 1994 lækk- aði tíðni kransæðastíflu á Íslandi um 44 prósent meðal karla og 36 prósent meðal kvenna. Þessi þverstæðu- kenndu tengsl milli aukinnar offitu og lækkandi tíðni hjartasjúkdóma er afar erfitt að útskýra með tilliti til þess hve offita er jafnan talin sterk- ur áhættuþáttur. Þegar áhættuþátt- ur sjúkdóms fer vaxandi á sama tíma og tíðni hans lækkar verulega hljóta hins vegar að vakna spurning- ar um réttmæti þessara tengsla. Áhersla á heilsu en ekki holdarfar Á grundvelli þess sem hér hefur komið fram hafa sífellt fleiri áskor- anir um breytta stefnu í heilbrigðis- málum komið fram síðustu áratugi. Hvatamenn að þeirri breytingu nefna að fátt bendi til þess að núver- andi áherslur í heilbrigðismálum hafi haft jákvæð áhrif á líf og heilsu almennnings auk þess sem vísbend- ingar séu um að þær hafi valdið skaða. Til dæmis eru flestir rann- sakendur sammála um að sífelldur áróður um mikilvægi þess að vera grannur hafi haft skaðleg áhrif á líf og heilsu Vesturlandabúa með því að stuðla að almennri vanlíðan, slæmri líkamsmynd, átröskunum og for- dómum gagnvart feitu fólki. Þar sem flestar rannsóknir sýna jafn- framt að nær ómögulegt er að við- halda þyngdartapi til langframa og aukin heilsufarsleg áhætta geti fylgt hinni nánast óhjákvæmilegu þyngdaraukningu í kjölfar megrun- ar, virðist fátt geta réttlætt þá miklu áherslu sem lögð er á þyngdartap meðal heilbrigðisstétta. Eðlilegri viðbrögð við því sem nú er vitað um árangur og afleiðingar megrunar væru að stíga varlega til jarðar og leita annarra leiða við að bæta heilsu sé þess kostur. Þær rannsókn- ir sem hér hefur verið fjallað um benda allar til þess að markvissari nálgun að heilbrigði felist í hvatn- ingu til hollra lífsvenja án áherslu á líkamsþyngd. Hugsanlega myndi slík nálgun ekki aðeins reynast árangursríkari við eflingu heil- brigðis heldur fylgja henni ekki þær neikvæðu afleiðingar sem óhjá- kvæmlega fylgja áherslu á holdar- far. sigrun@hi.is Höfundur greinarinnar er Sig- rún Daníelsdóttir, Cand.Psych. nemi í sálfræði við Háskóla Ís- lands og virkur meðlimur alþjóð- legra fagsamtaka um átraskanir og offitu, sem nefnast Academy for Eating Disorders. Þyngdartap ekki nauðsynlegt fyrir bætta heilsu Fjöldi rannsókna hefur sýnt að hægt er að bæta og jafn- vel lækna flesta „offitutengda“ kvilla með heilsusamlegu líferni þrátt fyrir litlar eða engar breytingar á líkamsþyngd. Þetta eru áhrifamikil rök gegn því að offita sem slík valdi heilsutjóni og þyngdartap sé þess vegna nauðsynleg lækning. Dr. Steven Blair og samstarfsfólk hans við Cooper-rannsóknarstöðina í Bandaríkjunum hafa mikið rannsakað áhrif hreyfingar meðal of feitra á heilsufar. Rannsóknir þeirra benda eindregið til þess að lífsstíll, frekar en líkamsþyngd, sé lykillinn að heilbrigði. Niður- stöður Blairs og félaga hafa meðal annars leitt í ljós að dánartíðni of feitra karlmanna, sem í upphafi rannsóknar lifðu kyrrsetulífi og voru illa á sig komnir líkamlega, lækk- aði um 44 prósent við að þeir juku hreyfingu sína og komust í betra form. Við lok rannsóknar var dánartíðni þessara manna jafnlág þeirra grönnu, þrátt fyrir að þeir teldust ennþá of feitir samkvæmt stöðlum. Dánartíðni þessara manna var ennfremur helmingi lægri en dánar- tíðni grannra karlmanna sem enn lifðu kyrrsetulífi. Fjöldi annarra rannsókna hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að lífs- stíll vegi þyngra en líkamsþyngd þegar kemur að heil- brigði. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að hægt er að bæta og jafnvel lækna flesta „offitutengda“ kvilla með heilsusamlegu líferni þrátt fyrir litlar eða engar breytingar á líkamsþyngd. ,, 34-35 (22-23) helgarefni 23.7.2004 19:33 Page 3

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.