Fréttablaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 21

Fréttablaðið - 07.11.2007, Blaðsíða 21
Perla Rós Árnadóttir er fimm ára stelpa í Kópa- voginum sem veit fátt skemmtilegra en að vera í prinsessuleik en á þó ýmis önnur áhugamál, enda snjöll stelpa hér á ferð. „Mér finnst skemmtilegast að leika mér með dótið mitt en uppáhaldsdótið mitt er hjólið. Mér finnst gaman að fara í hjólatúr með mömmu og pabba en annars geymum við bara hjólið úti í geymslu,“ segir Perla Rós og þegar hún er spurð hvort hún sé ekki alltaf með hjálm á hjólinu svarar hún játandi á inn- soginu og bætir við alvarleg: „Maður er með hjálm svo maður meiði sig ekki á höfðinu og svo að haus- kúpan brotni ekki.“ Næst snýr Perla Rós sér að jólunum sem hún hlakkar mikið til. „Á jólunum fær maður dót ef maður þarf að fá dót og það er gaman að opna pakka,“ segir hún ánægð en þessi jólin langar hana helst að fá dúkku með þrjá hunda. En hvað borðar Perla Rós á jólunum? „Bara önd með brauði,“ segir hún. Perla Rós er á leikskólanum Hvarfi og finnst henni það vera góður leikskóli og unir sér þar vel. „Mér finnst skemmtilegast að leika mér bæði úti og inni. Ég og Birgitta og Eva María erum að fara í fótbolta í dag,“ segir hún full tilhlökkunar og þrátt fyrir að hafa gaman af að hamast í fótbolta og leika sér með bíla er Perla Rós líka mikil dama og þegar spurt er hvaða leikir henni finnist skemmtilegastir stendur ekki á svarinu: „Mömmó og prinsessuleikur,“ segir hún einlæg og bætir við: „Ég var einu sinni í prins- essubol og á alls konar prinsessudót.“ Prinsessuáhuginn er augljóslega mikill þar sem Perla Rós ætlar að verða Þyrnirós þegar hún verður stór. En ætlar hún þá bara að sofa og sofa? „Þyrnirós var ekki bara sofandi, hún svaf bara pínu og þegar hún vaknaði fór hún að leika sér með dótið sitt,“ segir Perla Rós ákveðin. „Ef ég væri prinsessa þá myndi ég vilja eiga heima í Vík í stóru húsi með kertum og mamma og pabbi væru með mér þar,“ bætir hún við dreymandi en í Vík búa amma og afi sem gaman er að heimsækja. Perla Rós á tvö yngri systkini og er ábyrgðarfull stóra systir. „Ég kenni litlu systur minni og ég sýni henni hvernig maður á að hegða sér,“ útskýrir Perla Rós en hún á líka lítinn bróður. „Litli bróðir minn er góður en hann er alltaf við hliðina á mömmu og pabba,“ segir hún og finnst hann greinilega þurfa töluverða athygli þó að hún sé augljóslega stolt af litla manninum. Með þeim orðum kveðjum við litlu prinsessuna í Kópavogi sem trítlar spennt í leikskól- ann á leið í fótbolta. Ætlar að verða Þyrnirós

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.