Fréttablaðið - 21.01.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 21.01.2008, Blaðsíða 12
12 21. janúar 2008 MÁNUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA: Páll Baldvin Baldvinsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871 Ég hef kenningu um það hvers vegna fólk hrækir svona mikið á höfuðborgarsvæðinu. Hrækir? Eru Íslendingar ekki hættir að hrækja? Nei, óekkí: Tyggjóklessa er nefnilega hráki. Sá sem spýtir út úr sér tyggjó- klessu er að hrækja. Og sá sem laumast til að taka út úr sér tyggjóklessu og lætur hana detta með leynd á götuna – hann er að hrækja. Sá er þó munurinn að í tilviki tyggjóklessunnar lifir slumman þangað til næst verður malbikað. Helsta kennileiti Reykjavíkur er tyggjóklessan. Hún þekur opinber svæði á höfuðborgar- svæðinu: Skólalóðir, bankalóðir, verslunarlóðir, bílastæði við bókasöfn og bíó, lögreglustöðvar og sýslumannsembætti. hjól- barðaverkstæði og bílaumboð – öll þessi endalausu bílastæði sem vegferð okkar í lífinu virðist einatt helguð. Almanna- rými líkist á höfuðborgarsvæð- inu útdrituðum sjófuglaklettum. Malbikið er dröfnóttur vitnis- burður um menningarstig Íslendinga. Reykjavík er dritvík. Það kann að vera munur á skrifstofumanninum sem hrækir tyggigúmmíi á götu og lang víunni sem dritar á klettinn – en sá munur blasir ekki við. Útkoman er hins vegar jafn hvítskellótt. Ég hef sem sagt kenningu um þetta. Hún er ekki frumleg en það hlýtur samt að vera ómaks- ins vert að hafa orð á henni. Ég held að fólk hræki svona mikið á almannafæri af því að almannafærið er svo ljótt. Engum þykir vænt um það. Hin daglega atkvæðagreiðsla Það er talað um að fólk greiði atkvæði með pyngjunni – versli þar sem því líkar verðið og þjónustan. Á sínum tíma var líka talað um að fólk sem bjó við kommúnismann í Austur-Evrópu hafi greitt atkvæði með fótun- um; það flúði. Mér virðist hins vegar að Íslendingar greiði atkvæði með munninum: þeir hræki á svæðum þar sem þeim finnst ljótt. Í Suður-Evrópu þar sem þrifnaður virðist almennt meira í hávegum hafður en hér – til dæmis á Spáni – rekur vegfar- anda í rogastans ef hann rekst á pappírssnifsi á götum úti: þar eru tyggjóklessur fjarri og maður sem yrði uppvís að slíkri losun myndi mæta stórkostlegri undrun og vanþóknun. Þar eru göturnar hreinar. Og þar eru húsin falleg og fólkið stolt af þeim. Fegurð húsa felst ekki endilega í sjálfu formi þeirra í strangasta skilningi eða þeirri stefnu í arkitektúr sem réði. Í leiðara hér í blaðinu benti Jón Kaldal til dæmis á hús Máls og menningar á Laugaveginum sem dæmi um lifandi og fallegt hús í miðbænum sem bæði er á mörgum hæðum og byggt í fúnksjónalískum stíl. Það hús var hins vegar teiknað af arkítekt og með tilteknar þarfir í huga – þarfir fólks. Þar er til dæmis gangstétt fyrir framan þar sem fólk getur tekið hvert annað tali úti undir beru lofti en ekki breiður af bílastæðum til að leggja og hrækja á. Fegurðin, fegurðin, fegurðin... En fegurð húsa getur líka falist í formi þeirra: og þegar maður sér sum ný hús hér á höfuðborg- arsvæðinu virðast þau teiknuð af fólki sem er gjörsneytt form- skyni og kannski hreinlega andvígt fegurð. Þetta eru hús sem eru ljót á allt að því steigurlátan hátt. Til dæmis hefur verið lögð rík áhersla á að reisa drungalega turna við sjávarsíðuna í Reykja- vík samkvæmt einhverjum háhýsabábiljum Hrafns Gunn- laugssonar og reynt af fremsta megni að múra upp í Esjuna, Akrafjall og Skarðsheiði sem er með geðþekkustu fjallasýnum landsins; í staðinn býðst okkur að horfa á Grandhótel og Skúlagötuturna. Á lóðum slíkra húsa hraðar fólk sér úr bílnum og inn því úti er naumast stætt vegna svipti- vindanna sem turnabyggðin hefur skapað – og um leið og það smeygir sér inn í hlýjuna til að fara upp á átjándu hæð og njóta útsýnisins sem það er búið kaupa sér prívataðgang að – þá hrækir það út úr sér tyggjó- slummunni. Engum þykir vænt um almannafærið. Og höfuðborgar- svæðið er yfirfullt af byggingum sem vitna um einhvers konar megnt þunglyndi. Meðal þess sem gerir hús falleg er að einhverjum þyki vænt um þau, sýni þeim alúð, prýði þau og leitist við að lifa þar grandvöru lífi. Þá er ekki stórmál þó að hlutföll kunni að vera skökk milli glugga eða ekki sé ýtrasta stílhreinlætis gætt að hætti hins svarthvíta Innlits/Útlits. Hið fagra er satt, sögðu Fjölnismenn; þá er hið ófagra líka ósatt. Fegurðin, fegurðin, fegurðin: hvað þarf að segja þetta oft? Fegurðin á að vera eina leiðarljós þeim sem reisa ný hús. Og þegar verktakar koma og vilja rífa hús ber að spyrja: er það sem á að koma í staðinn fegurra? Eða ertu að bjóða okkur hús þar sem fólk langar að hrækja? GUÐMUNDUR ANDRI THORSSON Í DAG | Umgengni Hnífasettin hans Björns Inga Það sem hófst með heldur óspennandi ávirðingum Guðjóns Ólafs Jónssonar um að Björn Ingi Hrafnsson hefði klætt sig á kostn- að flokksmanna Framsóknar hefur heldur betur undið upp á sig. Nú hefur Björn Ingi hótað að ganga úr flokknum og Guðjón Ólafur náð nýjum hæðum í smekklausu myndmáli þegar hann sagðist ganga um með mörg hnífasett frá Birni Inga í bakinu. Hatrammur ágreiningurinn virðist fyrst og fremst vera persónulegs eðlis og það er lítt smekklegt að heyja stríðið fyrir allra augum. Björn Ingi hlýtur að vita um reykfyllt bakherbergi eða tvö þar sem útkljá má málið. En hvað með fötin? Eftir stendur spurningin um það hvort Björn Ingi keypti föt eða ekki. Hann hefur enn ekki neitað sögusögn- unum og nú þykist Haukur Logi Karlsson, fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar flokksins, geta fullyrt að fótur sé fyrir þeim. Styggðaryrðum Hauks í garð Björns Inga skal þó taka með fyrir- vara, þar sem hann hefur ekki beint legið á skoðunum sínum á borgarfull- trúanum síðustu misseri. Íslamistar og Nýhilistar Deilur eru einnig sprottnar á milli Egils Helgasonar og Nýhil-liða í kjölfar viðtals Egils við Viðar Þorsteinsson fyrir rúmri viku, þar sem þeir ræddu um íslam. Nýhilistar hafa hópast í athugasemdakerfi bloggsíðu Egils þar sem þeir taka upp hanskann fyrir íslam og sverja af sér naívista- stimpil. Egill nýtur þó aðstoðar Ágústs Borg- þórs Sverrissonar við að benda á annmarka íslamstrúar. Sum rifrildi virðast dæmd til að endast að eilífu. stigur@frettabladid.is S vokölluð Sundabraut er stærsta verkefni sem við blasir í samgöngumálum. Ekkert bendir til að efasemdir séu um að verkefnið sé aðkallandi. En pólitískar umræður um verkefnið sýna að frá sjónarhóli góðrar stjórnsýslu er ákvarðanaferlið í skötulíki. Þess er skemmst að minnast að fyrir síðustu borgarstjórnar- kosningar var Sundabrautin stærsta kosningamálið. Ekki vegna þess að um hana væri deilt. Þvert á móti. Hver flokkur um sig lofaði að koma verkinu í framkvæmd á undan hinum. Það sérkennilega við þennan málflutning var fyrst og fremst það að framkvæmdin kemur borgarsjóði ekkert við. Hún er alfarið kostuð af ríkissjóði. Með öðrum orðum: Stærsta sam- eiginlega kosningamálið í borgarstjórnarkosningunum var að lofa peningum úr ríkissjóði. Síðan kom stjórn Faxaflóahafna og bauðst til að framkvæma verkið án útboðs og framhjá bókhaldi ríkissjóðs. Talsmenn tveggja stjórnmálaflokka fóru aukheldur í hnútukast út af eignarrétti á þeirri vitlausu hugmynd. Borgaryfirvöld eru að sönnu ábyrg fyrir þeim þætti málsins sem snýr að borgarskipulaginu. En í þessu tilviki eins og mörg- um öðrum er brotalöm í skipulagi stjórnsýslunnar þegar skipu- lagsvald og fjármálaleg ábyrgð framkvæmda fara ekki saman. Vegagerð ríkisins hefur nú gert opinberlega grein fyrir málinu af sinni hálfu. Um er að ræða tvo kosti. Mismunurinn er hvorki meiri né minni en níu milljarðar króna. Vegagerðin telur þar að auki ódýrari kostinn tæknilega betri lausn á þeim umferðarvanda sem brautin á að leysa. Borgaryfirvöld kjósa dýrari kostinn enda yrði sennilega um hann meiri friður í nærliggjandi hverfum. Þetta er um margt skiljanleg afstaða. Vegagerðin bendir hins vegar á að fyrir mis- muninn megi leggja hluta af Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokk. Það yrði mikil umhverfisbót fyrir nærliggjandi hverfi. Það er líka gilt sjónarmið. Flokkarnir í borgarstjórn vilja hins vegar ekki að málið sé lagt þannig fyrir að borgarbúar í heild taki afstöðu til þess hvernig má fá sem mest fyrir peningana. Ástæðan er sú að peningar í þessu tilviki koma borgarsjóði ekki við. Það er ókeypis fyrir borgarstjórn að bjóða upp á dýrustu lausnirnar. Vel má vera að yfirveguð og ábyrg umræða leiði til þeirrar niðurstöðu að dýrari kosturinn sé skynsamlegri. Á þessu stigi skal ekkert um það fullyrt. Á endanum eru það íbúar í Reykjavík sem borga stærstan hluta kostnaðarins. En það eru þingmenn- irnir en ekki borgarfulltrúarnir sem eru ábyrgir fyrir skatt- heimtunni sem þar býr að baki. Í því ljósi er óhjákvæmilegt að fjárveitingavaldið geri grein fyrir afstöðu sinni og verji fyrir kjósendum. Það getur ekki vikið sér undan umræðu um uppgjör milli þessara kosta með því ein- falda ráði að leita skjóls hjá þeim sem bera fram kröfur án þess að bera fjármálalega ábyrgð. Þetta þýðir að velji samgönguráðherra og þingmenn dýr- ari kostinn þurfa þeir að rökstyðja sérstaklega gagnvart þeim Reykvíkingum sem fyrir þá sök verða af eða þurfa að bíða eftir umhverfisumbótum í vegamálum hvers vegna það ráð er betra. Mestu máli skiptir að lyfta umræðu og ákvarðanaferli slíkrar stórframkvæmdar á hærra plan en verið hefur hver sem niður- staðan verður. Ríkisframkvæmdir í borginni: Ábyrgð og vald ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR UMRÆÐAN Áfengisstefna Það hefur oft verið mér umhugsunar-efni hvernig fréttir veljast til flutnings og frásagnar. Oft hefur manni komið í hug að aðeins hið neikvæða, afbakaða, mis- heppnaða, hneykslanlega, fáránlega eða ljóta komist þar að. Auðvitað er þetta ekki svo, en áherslan á minna jákvæðar fréttir er á köflum yfirþyrmandi. Allt þetta kom mér til hugar þegar umræðan um rýmkun á lögum um sölu áfengis og tóbaks var til umræðu í haust í kjölfar frumvarps sem lagt var fram á Alþingi. Nokkrir „frelsisunnandi“ þing- menn lögðu fram frumvarpið, og heilbrigðisráð- herra sá ástæðu til að lýsa yfir stuðningi við það. Hvort tveggja svo sérstakt að fjölmiðlar sáu ástæðu til að fjalla um það. Minni umfjöllun fengu svo ályktanir og ummæli nokkurra einstaklinga og félagasamtaka sem lögðust gegn frumvarpinu. Og hverjar eru þá góðu fréttirnar ? Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti hinn 27. nóvember síðastliðinn tillögu Vinstri grænna um að taka undir það álit forvarnarnefndar bæjarins að leggjast gegn frumvarpinu og þeirri rýmkun sem það felur í sér. Allir bæjarfulltrúar nema einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem raunar er einn flutningsmanna frumvarpsins á Alþingi, greiddu atkvæði með tillögu VG. Flutnings- maðurinn sat hjá. Í greinargerð með tillögunni er m.a. bent á að samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofn un- arinnar er takmarkað aðgengi talið eitthvert besta tæki sem samfélög hafa til að stemma stigu við drykkju, þ.m.t. drykkju ungmenna. Bæjarstjórn Kópavogs hafði kjark til að leggjast gegn frumvarpinu, en líklega voru það of góðar fréttir til að fjölmiðlar gætu sagt frá því. Höfundur er læknir og bæjarfulltrúi VG í Kópavogi. Góðar fréttir úr Kópavogi ÓLAFUR ÞÓR GUNNARSSON Hrákar á almannafæri

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.