Fréttablaðið - 12.03.2008, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 12.03.2008, Blaðsíða 18
18 12. mars 2008 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA: Páll Baldvin Baldvinsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871 Þessa daga er helvíti opið í París og til sýnis fyrir almenning, einu skilyrðin eru þau að menn hafi náð sextán ára aldri. Einfald- ast er að taka neðanjarðarlest nr. 14 til að komast þangað. Frá næst síðustu stöðinni á austurleið er gengið yfir brú, yfir í nýju þjóðarbókhlöðuna sem kennd er við Mitterrand og þar er haldið niður á við eftir einhvers konar langri og skuggalegri rennu. Biðraðirnar eru jafnan langar, en helvíti er greinilega vítt inngöngu því maður kemst fljótlega í áfangastað. Þetta „helvíti“ sem hér um ræðir er hefðbundið nafn á sérstakri deild í þjóðarbókhlöðunni, deildinni þar sem geymd voru rit og myndir af ýmsu tagi sem voru kennd við „klám“ og ekki talið rétt að almenningur hefði beinan og greiðan aðgang að. Heimildum ber ekki alveg saman um það hvort helvíti var sérstakur staður í gömlu byggingu bókhlöðunnar eða hvort það var einungis einhver ákveðin númeraröð. Um slík mál hafa guðfræðingar löngum verið ósammála. En víst er, að það var sett á stofn snemma á 19. öld, þegar borgaraleg siðavendni var óðum að færast í aukana, og stóð síðan lengi með miklum blóma. Það var reyndar ekki með öllu lokað, menn gátu sótt um að fá að lesa þar eitt eða annað og var mikilvægt að greina skilmerkilega frá aldri sínum á umsókninni. Síðan réðu einhverjir yfirmenn því hvort leyfið var veitt eða ekki. Ljóðskáldið Guillaume Apollinaire fékk slíkt leyfi og notaði tækifærið til að taka saman skrá yfir helvíti sem kom út á prenti 1913; í leiðinni bætti hann nokkrum ritum við deildina frá eigin brjósti. Eftir óeirðirnar miklu í maí 1968 var helvíti síðan lokað sem slíku og bókunum skipt milli annarra deilda, þar sem menn höfðu að þeim frjálsan aðgang, og var það athyglisverður ávöxtur „byltingar- innar“. Nokkrum árum síðar var það þó stofnsett á ný, fræðimönn- um og öðrum lesendum til hægðarauka, svo þeir gætu gengið að þessum bókmenntum á einum stað. En ekkert af þeim mun nú lengur vera bannað, og er helvíti því ekki lengur helvíti heldur n.k. búðir þar sem fræðimenn geta frílistað sig. Þessi sýning sem nú stendur yfir á innviðum í hinu neðra er því ekki í sjálfu sér nein stórbylting. Kannske var það athyglisverðast hve sýningargestir, sem voru á öllum aldri og af báðum kynjum, voru virðulegir og grafalvarlegir og skoðuðu það sem fyrir augu bar í djúpri þögn, líkast því sem þeir væru að skoða sýningu á trúar- legri list. Þarna gat þó að líta allfjölskrúð- ugar sjónhverfingar. Um leið og inn var komið blöstu við sýningar- gestum stórar og listilega vel gerðar koparstungur af hvílu- brögðum sögulegra persóna með vöðva að hætti Michaelangelos, þar voru Akkiles og Brísedóttir (úr 1. bók Ilionskviðu), Dido og Eneas (úr 4. bók Eneasarkviðu), Anton og Kleopatra (væntanlega úr Plútark fremur en Shakespeare) o.s.frv. Svo voru nokkrir glerskápar helgaðir hinni frægu skáldsögu „Teresa gerist heimspekingur“, eftir óþekktan höfund, sem kom út 1748 en sagt er að hafi verið fyrsta bókin sem hlaut þann heiður að vera dæmd til vistar í helvíti þegar það var sett á stofn. Nú þykir hún merk heimild um hugmyndir og umræður á upplýsingaöld og er gefin út í kiljubroti með fræðileg- um skýringum. Þegar lengra kom voru ýmis dæmi um það hvernig hreint klám gat verið notað í pólitískum tilgangi. Tvær persónur í sögu Frakklands urðu einkum fyrir barðinu á slíkum árásum: Mazarin kardínáli á 17. öld og svo Marie- Antoinette á hinni 18. En hefðin varð langlíf. Frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar gat þarna að líta lista sem var væntanlega runninn undan rifjum byltingar- manna og prestahatara og taldi upp þá presta sem gómaðir höfðu verið á amorsþingi með portkon- um, ásamt nákvæmum upplýsing- um um stað og stund, nafn konunnar og sitthvað fleira. Frá 20. öld eru líka til dæmi en þau voru ekki á sýningunni. Á tjaldi voru sýnd atriði úr kvikmyndinni „Nunnan“ eftir Jacques Rivette frá 1967, sem dæmi um það hvað skilgreiningin á „klámi“ getur verið erfið og auðvelt að misnota hana ef svo ber undir. Þessi mynd var gerð eftir hinni sígildu skáldsögu Diderots frá 18. öld og mjög dramatísk en gersneydd öllu því sem hægt væri að kalla klám. Eigi að síður var hún bönnuð á sínum tíma, aðallega að því er virtist til að þóknast íhaldssömum kaþólskum mönnum sem litu á efnishyggjumanninn Diderot nánast sem djöfulinn. Þegar gengið var út úr sýning- unni tók við bókaverslun, þar sem m.a. var hægt að kaupa nútímaút- gáfur af ýmsum þeim ritum sem áður áttu vist í helvíti, ásamt öðru. Þar bar fyrir mín augu konu sem var að kaupa eitt af þessum gömlu og bönnuðu ritum, en svo leit hún flóttalega í kringum sig, greip aðra bók, faldi hana vandlega undir klámritinu svo enginn sæi hana, og fór með hvort tveggja að kassan- um. Það kom upp í mér rannsókn- arblaðamaðurinn svo ég gáði að því hvaða bók konan væri að fela svona vendilega. Það var rit sem nefndist „Hvernig á að sigrast á feimni“. „Tempora mutantur, nos et mutamur in illis“, hugsaði ég. Tímarnir breytast og mennirnir með. Helvíti EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Bönnuð rit UMRÆÐAN Evrópumál Svo virðist sem einhverjir hafi misskilið tillögur Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi í síðustu viku og telji að þau vilji aðild að ESB án frekari málaleng- inga. Það er rangt. Vinna þarf á mörgum vígstöðvum samtímis: 1. Taka verður á núverandi vanda í efnahags- og atvinnumálum. Vöxtum verður að ná niður, tryggja stöðugt verðlag og takast á við versnandi stöðu og kjör þjóðarinnar. Við eigum að setja okkur að uppfylla á næstu misserum svokölluð Maastricht-skilyrði ESB um efnahagslegan stöðugleika. 2. Til þess að geta gengið í ESB verður að breyta stjórnarskránni. 3. Skilgreina verður samningsmarkmið með hliðsjón af heildarhagsmunum. Við sækjumst að sjálfsögðu ekki eftir aðild nema við séum sannfærð um að hún hafi ávinning í för með sér og verði atvinnu- og þjóðlífi til framdráttar. Menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra sögðu fyrir helgi að hagsmunamat væri fyrsta skref til upplýstrar ákvörðun- ar. Við erum algjörlega sammála. 4. Þegar hagsmunamat og samningsmark- mið liggja fyrir er fyrst tímabært að sækja um aðild og ganga til samninga við ESB. Margt bendir til þess að umsókn Íslendinga yrði vel tekið vegna þess mikla samstarfs sem við eigum þegar við ESB með EES-samningnum og því ættu samningar að nást á skömmum tíma. 5. Að gerðum samningi þarf að kynna hann og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 6. Eftir tveggja ára aðild að ESB kemur fyrst til greina að við getum tekið upp evru að því gefnu að fyrrgreind Maastricht-skilyrði séu uppfyllt. Þetta er margra ára ferli vandaðrar vinnu. Það er óviðunandi að málinu sé sífellt frestað vegna þess að það taki svo langan tíma að leiða það til lykta og aldrei sé rétti tíminn til að fjalla um það. Við komumst aldrei á leiðarenda ef við leggjum ekki af stað. Sóum því ekki frekari tíma. Felum Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar hagsmunamat og skilgreiningu samningsmarkmiða. Höfundur er formaður Samtaka iðnaðarins. Hagsmunamat vegna ESB HELGI MAGNÚSSON Guðfinna gagnrýnir Guðfinna Bjarnadóttir alþingismað- ur sendir félögum sínum í Sjálf- stæðisflokknum tóninn undir rós í viðhorfspistli í 24 stundum í gær. Pistillinn fjallar um stofnanavæðingu; þingmenn séu ýmist að samþykkja lög eða ræða frumvörp (lang- flest stjórnar- frumvörp) sem feli í sér að koma á fót stofn- unum, breyta þeim og efla. Guðfinnu reiknast til að á meðan heildarvinnuafl á Íslandi hafi aukist um 25 prósent á liðnum áratug hafi opinberum starfsmönn- um fjölgað um 35 prósent. Þetta svíður auðvitað alvöru sjálfstæðis- mönnum sem vilja minnka umsvif ríkisins, og þótt grein Guðfinnu sé kurteislega orðuð er inntakið þetta: Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi setið samfleytt í ríkisstjórn síðan 1991 hefur ekki dregið úr ríkisumsvif- um og báknið heldur áfram að blása út. Þetta er nokkuð beitt gagnrýni komandi úr röðum sjálfstæðismanna. Sigríður sendiherra Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi ráðherra, segist fagna því að tveir af þremur nýskipuðum sendiherrum Íslands séu konur. Eflaust dregur það ekki úr gleði hennar að önnur af þessum tveimur konum er hún. „Af tillitssemi við móttökuríkið“ vill Sigríður Anna ekki gefa upp að svo stöddu hvert hún fer og kunna þarlendir ráðamenn henni sjálfsagt bestu þakkir fyrir. En hvar sem í veröldinni Sigríður Anna nú endar ætti hún ekki að vera á flæði- skeri stödd. Hún var einn þeirra þingmanna sem samþykktu hið umdeilda eftirlaunafrumvarp um árið og getur því notið lífeyris ofan í kaupið – ef hún kýs. bergsteinn@frettabladid.isS kapar þögnin traust og virðingu eða vantraust og fjar- lægð? Að þessu hlýtur fólk að spyrja sig eftir áhuga- vert viðtal Fréttablaðsins við Jón Steinar Gunnlaugs- son hæstaréttardómara. Það er ekki á hverjum degi sem hæstaréttardómarar gefa kost á sér til viðtals, að minnsta kosti ekki fyrr en þeir hafa látið af störfum. Dómarar hafa ekki haft það til siðs að tjá sig um störf sín, né heldur hefur verið mikið um að þeir rjúfi þögnina til að ræða almennt um dómaþróun. Dómskerfið er ein þriggja grundvallarstoða lýð- ræðisins og hinar tvær þekkir almenningur mun betur; Alþingi og ríkisstjórn. Sem dæmi um hve dómarar eru fjarlægir má nefna að þrátt fyrir að hæstaréttardómarar séu aðeins níu er ekki hægt að segja að þau Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Bene- diktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson, Markús Sigurbjörns- son, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson séu allt þjóð- þekktir einstaklingar. Ráðherrarnir í núverandi ríkisstjórn eru tólf og er næsta víst að almenningur á auðveldara með að telja þá upp, já eða að minnsta kosti níu þingmenn. Þegar dómararnir eru lítt þekktir er ekki hægt að gera ráð fyrir að almenningur þekki meginsjónarmið þeirra. Það er ekki fullkomin sátt um hvernig túlka beri dómafordæmi eða lög, eins og sjá má til dæmis á því þegar dómarar gefa sérálit. Því má gera ráð fyrir að almenningur eigi rétt á að vita fyrir hvað einstakir dómarar standa. Reglan er að ekki tjáir að deila við dómarann. Þegar úrskurð- ur hefur borist er hægt að lesa sér til um forsendur dómsins og það yrði ekki góð þróun ef dómarar færu að svara fyrir sig á almennum vettvangi fyrir einstök mál. Hættan er að þegar dómarar kæmu fram opinberlega til að tjá sig almennt um dómsmál væri það í kringum umdeilda dóma. Allt sem dóm- ararnir segðu yrði svo sett í samhengi við þessar einstöku umdeildu niðurstöður. Kosturinn við þagnir dómaranna er að þær gera niðurstöðuna endanlegri. Fólk getur verið ósátt við niðurstöðuna en það er til lítils að deila við þann sem svarar aldrei fyrir sig. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að færa dómara og meginsjónarmið þeirra nær almenningi. Annars vegar lýtur það að lögspekingum og hins vegar að fjölmiðlum. Fjölmiðlar geta verið mun duglegri við að nafngreina dómara þegar sagt er frá úrskurði þeirra. Þá eru niðurstöður Hæstaréttar tiltæk- ar á vef dómstólsins og út frá úrskurðum dómara og sérálitum væri hægt að draga saman skoðanir hæstaréttardómaranna og þau meginsjónarmið sem þeir notast við til að dæma út frá. Þessar niðurstöður væri svo hægt að kynna fyrir almenningi. Með því væri hægt að tryggja að fólkið í landinu þekkti betur sína hæstaréttardómara og myndi jafnvel treysta dómstólun- um betur en nú er. Þá er einnig spurning hvort ekki ætti að taka saman og kynna meginsjónarmið þeirra sem sækja um að verða hæstaréttardómarar þannig að almenningur viti fyrir hvað nýir hæstaréttardómarar standa. Þagnir dómara og traust: Að kynnast dómurum SVANBORG SIGMARSDÓTTIR SKRIFAR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.