Fréttablaðið - 02.08.2008, Blaðsíða 33

Fréttablaðið - 02.08.2008, Blaðsíða 33
LAUGARDAGUR 2. ágúst 2008 17 eru svokallaðar opinberar heim- sóknir. Á erlendum málum eru þær kallaðar „state visit“ og það lýsir líklega betur en íslenska orðið um hvað ræðir; það er að ríkin komi saman. Um slíkar heimsóknir hef ég alltaf haft samráð en hvort forseti tekur þátt í þessu málþingi frekar en öðru, hvort hann talar hér eða þar, innanlands eða erlendis, er algjörlega í verkahring forsetans sjálfs að ákveða. Erfiðara að fara ekki á Ólympíuleikana Þú hefur þegið boð ÍSÍ um að sækja Ólympíuleikana í Peking. Tókstu þá ákvörðun að viðhöfðu samráði við ríkisstjórnina? Nei, sú ákvörðun var tekin á vett- vangi forsetaembættisins. Mér var hins vegar kunnugt um að mennta- málaráðherra myndi fara, eins og ég tel að hafi verið hárrétt ákvörð- un. Ég mat þetta boð í ljósi sam- skipta minna við íþróttahreyfing- una, með hliðsjón af því hvað aðrir forystumenn ætluðu að gera og í ljósi eigin reynslu af samskiptum við Kínverja. Í fyrsta lagi eru Ólympíuleikarn- ir mesta íþróttahátíð þjóða heims. Ég hef setið um árabil í stjórn Spec- ial Olympics sem eru heimssamtök um íþróttir fyrir þá sem eru and- lega fatlaðir eða þroskaheftir og þannig kynnst af eigin reynslu hvað íþróttir geta verið öflugt hjálpar- tæki til að styrkja friðsamlega sam- búð þjóða og efla stöðu og réttindi einstaklinga. Ég sótti heimsleika Special Olympics í Sjanghæ í fyrra. Þar sýndu kínversk stjórnvöld andlega fötluðu og þroskaheftu fólki ríku- lega virðingu. Það var lærdómsríkt að sjá hve veglega umgjörð þau reiddu fram um íþróttahátíð fólks sem fyrir fáeinum árum eða ára- tugum hefði verið lokað inni á hælum og alls ekki fengið að taka þátt í daglegu lífi. Í öðru lagi ákvað Íþrótta- og ólympíusambandið í fyrsta sinn að bjóða forseta Íslands að koma á Ólympíuleika. Það hefur ekki verið gert áður. Forsetinn er verndari sambandsins og ég hef kappkostað að eiga góða samvinnu við íþrótta- hreyfinguna. Það eitt út af fyrir sig að ætla að segja nei við boði Íþrótta- og ólympíusambands Íslands hefði verið erfið ákvörðun fyrir forseta Íslands. Þar að auki var mér kunnugt um að þjóðhöfðingjar Norðurlandanna ætluðu að sækja leikana. Það þyrfti að mínum dómi ærnar ástæður til þess að Íslendingar segðu að öll hin Norðurlöndin hefðu rangt fyrir sér. Til viðbótar við allt þetta tel ég mig hafa nokkra reynslu af því að ræða við kínverska ráðamenn um mannréttindi. Án þess að ég sé að mikla minn hlut þá er mér til efs að aðrir Íslendingar hafi jafn mikla reynslu og ég af því að tala við Kín- verja um þau mál. Ég átti til dæmis fund með Li Peng þegar hann kom til Íslands í boði Alþingis. Hann var gagnrýndur mikið fyrir þær aðgerðir sem hann beitti gagnvart stúdentunum á Torgi hins himneska friðar en engu að síður bauð Alþingi Íslendinga honum í heimsókn og hann kom hingað til Bessastaða. Á þeim fundi afhenti ég honum Mannréttinda- sáttmála Sameinuðu þjóðanna ásamt útskýringum á kínversku sem Guðmundur Alfreðsson, dokt- or í lögum og minn góði vinur, hafði haft frumkvæði að. Þegar ég afhenti honum þessa bók að gjöf á síðari hluta hins skipulagða fundar brá svo við að hann flutti 45 mín- útna samfellda málsvarnarræðu og öll dagskrá heimsóknarinnar fór úr skorðum. Þegar Jiang Zemin kom hingað sem forseti Kína áttum við langan og mikinn fund hér á Bessastöðum. Hann vitnaði til þess að hann hefði verið á fundi með Bill Clinton og að þá hefði fólk verið með háreysti og hrópað að hann væri harðstjóri. Hann hefði spurt Clinton: „Er ég harðstjóri?“ Og Clinton, sem er nú kurteis, hafði hlegið og sagt: „Nei, nei þú ert ekki harðstjóri.“ Síðar á fundinum, í aðdraganda þess að ég tók mannréttindin ítarlega upp, sagði ég við hann: Þú nefndir Clinton hér áðan og sagðir mér sögu af honum. Nú skal ég segja þér aðra sögu af Clinton. Þegar við vorum stúdentar í Bretlandi þá mótmæltum við báðir Víetnam- stríðinu fyrir utan bandaríska sendiráðið í London. Það voru mikil og fjölmenn mótmæli. Við skulum því ekki gleyma því að mótmæl- endur dagsins í dag geta orðið for- setar framtíðarinnar. Það ber að hafa í huga þegar stjórnvöld umgangast ungt fólk sem krefst réttar og nýrrar skipunar. Á sama hátt ræddi ég ítarlega um mannréttindi við Hu Jintao í opinberri heimsókn til Kína. Þá hvatti hann íslensk verkalýðsfélög og almannasamtök til að eiga sam- ræður við hliðstæða aðila í Kína. Í kjölfar þeirrar heimsóknar komu hér fulltrúar frá kínverskum háskólum sem lýstu því ítarlega að þeir hefðu áhuga á að þróa nám- skeið um mannréttindi innan kín- verskra háskóla og fá íslenska sér- fræðinga til að kenna þar. Þetta stafaði ekki síst af því að þeir höfðu kynnt sér sögu okkar Íslendinga og sögðust sjá að þegar skólinn var hér á Bessastöðum á fyrri hluta nítjándu aldar höfðu Íslendingar engin mannréttindi. Það var ekki prentfrelsi í landinu, það var ekki athafnafrelsi, það var ekki kosn- ingaréttur, við vorum þjóð án allra mannréttinda. Við erum kannski ekki vön að horfa á okkar sögu með þessum hætti en Kínverjarnir sáu að við urðum að berjast fyrir því langri baráttu að ná því mannrétt- indastigi sem við njótum í dag. Þegar ég legg allt þetta saman þá fannst mér það í senn vera eðlileg og rétt ákvörðun að þiggja boð um að sækja Ólympíuleikana. Deili ekki lífsstíl auðmanna Víkjum aftur að gagnrýninni. Marg- ir hafa haft á orði að þú sért of oft í útlöndum og að þú umgangist auð- menn um of. Hverju svararðu slíkri gagnrýni? Í fyrsta lagi eru annir forsetans hér heima æði miklar. Ég er í hjarta mínu landsbyggðarmaður, strákur vestan af fjörðum, þannig að taugin til sjávarþorpanna og sveitanna hefur alla tíð verið mjög sterk. Ég hef lagt áherslu á að taka þátt í við- burðum vítt og breitt um landið, sækja heim flestar byggðir og eiga viðræður við mikinn fjölda ein- staklinga og fulltrúa samtaka, koma á fundi þeirra og þing langt umfram það sem gert hefur verið áður. Á hinn bóginn er vaxandi eftir- spurn eftir þátttöku forseta Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Æ fleiri vilja kynnast reynslu Íslendinga og læra af okkur á sviði orkunýtingar, mannréttinda, efnahagslegrar þróunar, landgræðslu og fjölmörg- um öðrum sviðum þar sem við höfum náð góðum árangri. Mér berast ótalmörg boð um að taka þátt í málþingum og alþjóðlegum ráðstefnum eða koma í heimsóknir til landa, borga eða héraða. Það er á engan hátt unnt að verða við þeim öllum. Ég er sannfærður um það að það sé skárri kostur fyrir Íslend- inga að það sé eftirspurn eftir þátt- töku forsetans heldur en ef það væri enginn áhugi á því að eiga við orðastað við þjóðhöfðingja Íslands eða samskipti við Íslendinga. Þess- ar ferðir eru allar stífar vinnuferð- ir þar sem verið er að frá morgni til kvölds og reynt að ná sem mest- um árangri. Að mínum dómi hafa þær skilað mikilvægum ávinningi fyrir háskóla- og fræðasamfélagið í landinu, listir og menningu, atvinnulíf og einstaklinga. Við verðum að sinna þeim tæki- færum sem bjóðast og smáar og miðlungsstórar þjóðir þurfa að hafa mjög fyrir því að tryggja hagsmuni sína og koma sínum sjón- armiðum að eða leita eftir sam- starfi við aðra. Það gerist ekki nema þú sért á vettvangi. Ungmenni fái haldið rótum sínum Varðandi samskiptin við auðmenn sem ég heyri stundum af þá finnst mér það nú oft vera frekar ýkjutal en raunsönn lýsing á veruleika. Stundum er sagt að forsetinn sé sífellt á ferðinni í einkaþotum en sannleikurinn er sá að þau eru telj- andi á fingrum annarar handar skiptin sem ég hef flogið með einkaþotum á undanförnum árum. Það hefur þá verið í brýnum erind- um þar sem ekki hefur verið hægt að leysa málin með öðrum hætti. Um þessi samskipti er annars það að segja að ég hef tekið þátt í að efla og styrkja framrás íslenskra fyrirtækja og íslensks atvinnulífs, sama á hvaða sviði þau starfa og óháð stærð fyrirtækjanna og umfangi. Ég hef litið svo á að þannig fjölgi tækifærum almenn- ings í landinu til að bæta kjör sín og um leið geti unga kynslóðin haldið sínum íslensku rótum þó hún athafni sig á heimsvísu. Og það vill nú einfaldlega svo til að að minnsta kosti sumir þeirra sem stjórna þessum íslensku fyrir- tækjum sem starfa á alþjóðavett- vangi eru það sem kallað er auð- menn þannig að það er erfitt að styrkja framþróun atvinnulífsins án þess að eiga samskipti við það fólk. Ef sá sem gegnir embættinu vill taka þátt í því að treysta stoðir íslensks atvinnulífs, efla lífskjör almennings og skapa ungu fólki tækifæri til að eiga kost á fjölþætt- um störfum þá er einfaldlega óhjá- kvæmilegt að hann eigi samstarf við forystumenn íslensks atvinnu- lífs, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, ungir eða eldri. Að ég eða við hjónin séum að deila lífsstíl sem í hugum fólks er tengdur auðmönnum tel ég hins vegar víðs fjarri. Satt að segja er það nú þannig að allur þorri ársins er bara helgaður vinnu frá morgni til kvölds hér á Bessastöðum og frídagar fáir. Þú og þið hjónin vörðuð tíma með bandarísku athafnakonunni Mörtu Stewart á dögunum. Hún var dæmd til fangelsisvistar í heimalandi sínu fyrir að hindra framgang réttvís- innar, eins og það heitir. Efasemdir eru uppi um að rétt sé að forsetinn hitti fólk sem hlotið hefur refsi- dóma en telur þú það sjálfsagt? Ég hef ávallt verið þeirrar skoð- unar að íslenskt og vestrænt rétt- arfar byggist á þeirri grundvallar- reglu að þegar fólk hefur tekið út sína refsingu þá sé það aftur komið á upphafsreit og eigi að njóta allra almennra réttinda. Því hef ég fylgt í samskiptum mínum við innlenda og erlenda einstaklinga og tel að það væri mjög hæpið ef forsetinn færi að neita því að eiga samskipti við fólk vegna þess að það hefði einhvern tíma tekið út refsidóm. Þvert á móti er kjarninn í okkar réttlætishugsjón að með því að taka út sína refsingu hafi menn unnið sér á ný inn eðlilegan sess í samfélaginu. Það á jafnt við um Mörthu Stewart sem þekkta Íslend- inga. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en það er öllum ljóst að ef það ætti að fara að draga einhverja slíka markalínu þá yrði það sér- kennilegt í framkvæmd. Martha Stewart öflugur liðsmaður við að kynna land og þjóð Varðandi Mörthu Stewart þá er það einfaldlega þannig að hún er með áhrifaríkustu fjölmiðlamann- eskjum, ekki bara í Bandaríkjun- um heldur veröldinni, og hún og Dorrit hafa í nær aldarfjórðung verið nánar vinkonur. Sjónvarps- þættir hennar, heimasíða, tímarit og bækur njóta meiri útbreiðslu en flest annað af sama tagi. Það að hún hafði tækifæri til að kynnast íslenskum mat, hönnun, vatni, orkunýtingu og hestum, sem og samfélaginu öllu getur orðið öfl- ugri og jákvæðari landkynning heldur en margt annað. Þess vegna tel ég að það hafi verið í senn eðli- legt og rétt að stuðla að því að íslenskur efniviður gæti ratað með árangursríkum hætti í hennar sjónvarpsþætti og aðra miðla á komandi árum. Að lokum Ólafur Ragnar, verður nýhafið kjörtímabil þitt síðasta í embætti? Ég tók þá ákvörðun við upphaf fyrsta kjörtímabilsins að það væri hvorki rétt að ég svaraði slíkum spurningum né væri ég sjálfur að leiða mikið hugann að því. Reynsl- an kenndi mér að enginn veit sín örlög fyrr en æfin er öll. Hvenær sem er geta borist fréttir sem breyta öllum ákvörðunum. Þess vegna tel ég hvorki eðlilegt né rétt að gefa út yfirlýsingu nú um það hvað ég ætla að gera eftir fjögur ár. Það má ekki misskilja þessi orð mín. Í þeim er ekki fólgin nein ákvörðun um hvort ég ætla að gefa kost á mér áfram eða ekki. Þetta er bara afstaða sem ég hef talið skynsamlegast að hafa óháð því númer hvað kjörtímabilið er. Svo er það nú einfaldlega þannig að enginn einstaklingur ræður því sjálfur hvort hann er forseti Íslands eða hve lengi. Það er þjóð- in sem ákveður það á einn eða annan hátt. Það getur enginn setið í þessu embætti til langframa án þess að hafa góðan stuðning frá þjóðinni. ■ jóðarinnar 1996 Ólafur Ragnar Grímsson fyrst kos- inn forseti. 165.233 gild atkvæði. FRAMBJÓÐANDI HLUTFALL ATKVÆÐA Ólafur Ragnar Grímsson 41,4% Pétur Kr. Hafstein 29,5% Guðrún Agnarsdóttir 26,4% Ástþór Magnússon Wium 2,7% 2000 Ólafur Ragnar Grímsson verður forseti án mótframbjóðenda. 2004 Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn forseti. 105.913 gild atkvæði FRAMBJÓÐANDI HLUTFALL ATKVÆÐA Ólafur Ragnar Grímsson 85,6% Baldur Ágústsson 12,5% Ástþór Magnússon Wium 1,9% 2008 Ólafur Ragnar Grímsson verður forseti án mótframbjóðenda. Hér er stjórnskipun þar sem forsetinn ákveður sjálfur hvað hann segir og gerir. Hann hefur sjálfstæðan mál- flutningsrétt og það er ekki í verkahring hans að túlka afstöðu ríkisstjórnarinnar. Það er verkefni ráðherranna. FJÖGUR KJÖRTÍMABIL ÓLAFS RAGNARS

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.