Fréttablaðið - 27.08.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 27.08.2008, Blaðsíða 12
12 27. ágúst 2008 MIÐVIKUDAGUR Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands, tilkynnti í gær, þriðjudag, að hann hefði staðfest samþykkt rússneska þingsins um viðurkenningu á sjálfstæðisyfirlýs- ingum georgísku aðskilnaðarhéraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu. Medvedev sagðist hafa með staðfestingunni „tekið tillit til yfirlýsts vilja ossetísku og abkas- ísku þjóðanna“. Viðurkenning Rússa á sjálfstæði héraðanna tveggja vöktu hörð viðbrögð stjórnvalda í Georgíu sem og Vesturlanda og ýmissa alþjóðastofnana. Hver er bakgrunnurinn? Strax og Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 gripu aðskilnaðarhreyfingar Abkasa annars vegar og Suður-Osseta hins vegar til vopna til að berjast fyrir sjálfstjórn innan georgíska ríkisins. Suður-Ossetar, sem eru innan við 70.000 talsins, vilja sameinast frændum sínum norðan hákambs Kákasusfjallgarðsins í Norður-Ossetíu, en það hérað er sjálfstjórnarhérað í Rússlandi. Abkasar vilja heldur ekki lúta stjórnvöldum í Tíblísí. Yfir 200.000 Georgíumenn hröktust á flótta frá Abkasíu í stríði aðskilnaðarsinna við her Georgíu 1991-1992. Bæði Suður-Ossetar og Abkasar hafa stjórnað sínum málum sjálfir síðan samið var um vopnahlé í aðskilnaðarstríði beggja héraða árið 1992, og notið til þess dyggs stuðnings stjórnvalda í Moskvu. Rússneskt „friðargæslulið“ hefur dvalið í báðum héruðum alla tíð síðan. Sá stuðningur gekk svo langt að flest- um Suður-Ossetum og Abkösum var veittur rússneskur ríkisborgararéttur. Hverjir eru Ossetar og Abkasar? Ossetar eru þjóð sem talar sitt eigið indó-evrópska tungumál og bjó framan af miðöldum á suður-rússnesku sléttunum. Á tímum Mongólainnrásanna á 13. öld hröktust þeir upp í Kákasusfjöllin og enduðu með að slá sér niður í fjalladölum við landamæri Georgíu. Abkasar tala líkt og Ossetar mál sem tilheyrir málafjölskyldu Norðvestur- Kákasus, sem er önnur grein mála en kartvelíska málafjölskyldan, sem georg- íska tilheyrir. Sögulegur þjóðernisuppruni Abkasa er að nokkru leyti óljós, en menningarleg sjálfsímynd þeirra er engu síður skýrt aðgreind frá georgísku þjóðerni. Tengsl við Kosovo-málið? Reiði Rússa yfir viðurkenningu Vesturlanda á sjálfstæði Kosovo-héraðs frá Ser- bíu á þátt í að þeir skuli nú hafa ákveðið að viðurkenna sjálfstæði georgísku aðskilnaðarhéraðanna. Viðurkenningin kemur í beinu framhaldi af leifturstríði Rússa gegn Georgíu, sem hófst er Georgíuher reyndi að ná Suður-Ossetíu aftur á sitt vald hinn 7. ágúst síðastliðinn. FBL-GREINING: AÐSKILNAÐARHÉRUÐ GEORGÍU Stríð með fornar rætur FRÉTTAVIÐTAL: Paul Ramses kominn aftur til Íslands Keníski flóttamaðurinn Paul Ramses eyddi gær- deginum í faðmi fjölskyld- unnar en hann hafði ekki séð hana síðan honum var vísað úr landi 3. júlí. Þá var sonur hans fimm vikna gamall og konu hans blæddi enn eftir fæðing- una. Paul blæs á sögusagn- ir um að allt sé í himnalagi í heimalandi hans. „Ég er afar þakklátur íslensku þjóðinni, fjölmiðlum og sérstak- lega dómsmálayfirvöldum að veita okkur þetta tækifæri. Þetta var yndisleg ákvörðun hjá ríkisstjórninni, sem leit þetta móralskt og á okkur sem mann- fólk, fyrst og fremst,“ segir Paul. Í gær varð sonur hans, Fídel Smári, þriggja mánaða gamall og Paul er tíðrætt um þá guðs- gjöf að sjá strákinn að nýju. „Þegar ég fór var hann pínu- lítill og nú er hann orðinn svo stór. Ég þakka guði fyrir að sam- eina okkur,“ segir hann. Erfitt í flóttamannabúðum Dvölin á Ítalíu hafi verið erfið. Þar hafi hann búið með allra þjóða kvikindum, tengdum stríð- inu í Afganistan og Hizbolla-sam- tökunum. „Þarna var fólk sem talaði enga ensku og hafði enga tengingu við vestræna lifnaðarhætti og sumir töluðu ógnandi um að mannslíf skipti þá engu máli. Maður verð- ur hræddur við að sofa með þeim í herbergi. Mestan tímann var Paul í ágætu yfirlæti í Sentrone-búðunum og fékk þar að borða og afnot af tölvu. En síðan var hann færður í Tiburtina-flóttamannabúðirnar í Róm. Þar fékk hann ekki mat að borða og var gert að yfirgefa húsið yfir daginn. „Þetta var ekki góður staður og ég fékk engan pening fyrir mat. Ég svaf í herbergi með sjö öðrum,“ segir hann. Einnig hafi verið erfitt að vita af barni sínu og konu einum á Íslandi. Kona hans hafi verið langt niðri á tíma- bili. Þakklátur Birni Bjarnasyni Spurður um framtíðaráætlanir sínar segist Paul ekki hafa hugs- að mjög langt fram í tímann, í ljósi aðstæðna. „Ég er frekar ringlaður enn þá. Ég ætla að byrja á því að hvíla mig með fjölskyldunni og reyna að þakka öllum á Íslandi sem hafa hjálpað okkur á ögurstundu. Dómsmálaráðherra tók frá- bæra ákvörðun, sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut. Hann hefur gefið okkur tíma til að vera saman í friði og ró. Það er nokkuð sem ég get ekki gengið að vísu í heimalandi mínu. Þar vildu land- ar mínir drepa mig og mína félaga en nú hefur einhver langt í burtu veitt mér tækifæri til að vera með fjölskyldu minni. Það er yndislegt að eiga fjölskyldu. Ég þakka honum kærlega.“ Dvalarleyfi Rosemary Dómsmálaráðuneytið segist byggja ákvörðun sína um að kalla Paul til landsins og fjalla form- lega um umsókn hans á nýjum upplýsingum. Meðal annars þeim að Rosemary, eiginkona Pauls, sé ekki með gilt dvalarleyfi í Sví- þjóð, en því héldu þau hjónin fram við Útlendingastofnun. „Já, ég var að heyra það. Þetta eru mér fréttir. Ég held að þetta hafi verið einhver misskilningur, kannski milli mín og hennar. Það sem við héldum að væri leyfi til að vera í Svíþjóð, var það ekki. Þau hafa sagt okkur að þetta hafi verið kennitala. Það sem sett er í passann og það sem þeir láta mann hafa sem skilríki er víst tvennt ólíkt, en ég skil þetta ekki alveg,“ segir Paul. Kenía enn ótryggt land Í umræðunni um hælisleit Ram- ses-fjölskyldunnar hefur reglu- lega verið látið í það skína að ástandið í Kenía sé ekki svo slæmt. Bent er á að pólitískar ofsóknir gegn stuðningsmönnum Railas Odinga séu ólíklegar, því hann er nú forsætisráðherra landsins. Hvernig svarar Paul þessu? „Ástandið er enn þá mjög slæmt og sérstaklega fyrir þá sem störfuðu fyrir Odinga. Þótt þeir kalli þetta Sáttastjórnina og séu hættir að myrða á götum úti, hverfur fólk fyrirvaralaust og sést ekki aftur. Þessi ríkisstjórn er ekki sér- lega burðug og eina fólkið sem er í raun öruggt eru ráðherrar og fylgismenn forsetans. Odinga forsætisráðherra hefur farið fram á það að rannsakað verði hvers vegna svo margir úr ODM [flokkur Pauls] og stjórnar- andstöðunni hafi horfið og að þeir sem eru í fangelsum verði annað- hvort frelsaðir eða réttað yfir þeim. En það er ekki hlustað á Odinga. Hann stýrir hvorki her- num né lögreglu.“ Úrskurður Útlendingastofnunar Það gæti tekið Útlendingastofn- un allt að eitt ár að komast að nið- urstöðu í máli Ramses-fjölskyld- unnar. En Paul kvíðir ekki óvissunni. „Ég vil gefa þeim allan þann tíma sem þau þurfa. Ég veit að stofnunin er búin að fá sönnunar- gögn frá mér og að hún er að leita upplýsinga frá Kenía. Þau hljóta að líta til þess að fólk hverfur þar fyrirvaralaust. Við biðjum þess, að réttlætið nái fram að ganga,“ segir Paul Ramses og kveður blaðamann með guðsblessun. Paul Ramses þakkar guði og Íslendingum SAMAN AÐ NÝJU Paul og Rosemary, ásamt Fídel Smára, á þriggja mánaða afmæli Fídels í gær. Strákurinn er skírður eftir tveimur sterkum leiðtogum og hetjum fjölskyldunnar; byltingarforingjanum Fídel Kastró og knattspyrnumanninum Eiði Smára Guðjohnsen. FRÉTTABLAÐIÐ/RÓSA FRÉTTAVIÐTAL KLEMENS ÓLAFUR ÞRASTARSON klemens@frettabladid.is SEÚL Lee Myung-bak, for- seti Suður-Kóreu, hefur beðið ráðamenn landsins um að hætta að spila golf því það sendi röng skila- boð til umheimsins um efnahagsástandið, sem hefur ekki verið gott und- anfarið. Annað væri til- finningaleysi í garð sam- landa sinna að sögn forsetans. Ríkisstjórn Lee, sem mælist með lítið fylgi í skoðanakönnun- um, hefur þurft að hætta við metnaðarfull verkefni sökum erfiðs efnahags- ástands. Verkalýður Suður-Kóreu krefst hærri launa á sama tíma og fjár- magnsflæði erlendis frá er í lágmarki. Golf er mjög vinsæl íþrótt í Suður-Kóreu en iðkun hennar er ekki ódýr. Klúbbaðild kostar sem svarar á bilinu 20-40 milljónir króna á ári. - vsp Forseti Suður-Kóreu leggur línurnar fyrir ráðamenn: Ráðamenn hætti golfiðkun Lee Myung-Bak LEE MYUNG-BAK

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.