Fréttablaðið - 05.11.2008, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 05.11.2008, Blaðsíða 14
14 5. nóvember 2008 MIÐVIKUDAGUR UMRÆÐAN Eyjólfur Pálsson skrifar um íslenska hönnun Íslensk hönnun, gæði henn-ar og velgengni, hefur verið mér hugleikin um langt árabil. Íslenskum hönnuðum fjölgar jafnt og þétt. Tilkoma Listaháskóla Íslands, sem og starf undir- búningsdeilda í hönnun við Iðnskól- ann í Reykjavík og Hafnarfirði, hefur orðið til þess að áhugi á hönn- un hefur vaxið ört. Ef til vill mætti þó áhugi hins opinbera á íslenskri hönnun vera enn meiri og koma betur fram í verki, til dæmis þegar val stendur á milli íslenskrar og erlendrar hönnunar. Varla líður sá dagur að ekki þurfi að velja búnað í opinberar bygging- ar, fyrirtæki, samkomuhús eða á heimili landsmanna. Ég vil því hvetja þá sem að málum koma að hugleiða fyrst af öllu hvort ekki megi finna það sem leitað er að meðal verka okkar ágætu íslensku hönnuða. Ég veit vel að ekki er allt- af hægt að velja það sem íslenskt er, en í guðanna bænum, gefið íslenskri hönnun tækifæri. Kannið hvað íslenskir hönnuðir hafa fram að færa og hver veit nema þar finn- ist einmitt það sem hentar hverju sinni. Ef ekki þá verður að sjálf- sögðu að leita annað og mætti jafn- vel flétta saman íslenska og erlenda hönnun. Þess eru dæmi að efnt hafi verið til samkeppni um hönnun húsgagna fyrir ákveðin verkefni, eins og t.d. í Höfða. Þrír íslenskir aðilar komu með hugmyndir og í lokin var ein tillagan valin og húsgögn smíðuð eftir henni. Mjög vel tókst til og sama má segja um búnaðinn í Hátíðasal Háskóla Íslands sem og bekki og stóla sem hannaðir voru sérstaklega fyrir Hæstarétt. Gott dæmi um val á íslenskri hönnun er búnaður í húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga í Borgar- túni. Þar reyndu menn af fremsta megni að velja íslenska hönnun og í lokin var útbúinn lítill upplýsinga- bæklingur um húsgögnin og lista- verkin og höfunda þeirra. Utanrík- isþjónustan hefur einnig lagt sitt af mörkum til stuðn- ings íslenskri hönnun með því að prýða sendiráð og sendiráðsbústaði víða um heim með íslenskum hús- gögnum og öðrum búnaði og er það vel. Ekki þarf endilega að hengja sig bara í húsgögn þegar hugsað er til íslenskr- ar hönnunar. Það sést best á því að íslensk fatahönnun verður æ meira áberandi og konur, sérstak- lega í opinbera geiranum, klæðast nú gjarnan fötum sem þekktir íslenskir fatahönnuðir hafa hannað. Fleiri mættu nýta sér þennan mögu- leika og gott dæmi þar um er að Steinunn Sigurðardóttir hefur hann- að nýja flugfreyjubúninga fyrir Icelandair og sækir innblástur í íslenska náttúru og sögu félagsins. Þegar fyrirtæki og stofnanir, og auðvitað almenningur líka, kaupa gjafir ætti skilyrðislaust að skoða íslenska hönnun fyrst. Mikið er til af íslensk-hannaðri gjafavöru; hnífapör, bollar, fatahengi, karöfl- ur, hillur, kollar, mottur, vasar og glös, allt íslenskt. Ég er ekki að segja að eingöngu skuli kaupa íslenskt en falli það að smekk og aðstæðum er rétt að skoða fyrst það sem íslenskt er. Þegar rætt er um nýsköpun finnst mér grundvallaratriði að menn hugsi út í að hlutir séu sölu- vænlegir. Ef hönnun er aðeins skúlptúr, minnismerki hönnuðar, verða ekki framleidd nema örfá eintök, hluturinn verður ekki sett- ur í framleiðslu né fjöldasölu. Afraksturinn verður lítill sem eng- inn og hönnuðurinn fær ekki einu sinni sín höfundarlaun. Verk hans vekur athygli í smátíma en selst ekki og býr ekki til neina peninga! Allt snýst þetta í raun um að skapa atvinnu. Skoðun mín er sú að opinberir aðilar þurfi að ganga á undan með góðu fordæmi, velja íslenskt og hvetja þar með hæfileikaríka íslenska hönnuði til dáða. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Höfundur er húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal. Hlúum að íslenskri hönnun EYJÓLFUR PÁLSSON UMRÆÐAN Sölvi Björn Sigurðsson skrifar um stöðu heimilanna Heimilin í landinu hafa legið undir ámælum fyrir skuldasöfnun síðustu árin og sligast nú mörg hver undan byrðinni. Sumir eiga eflaust gagnrýnina skilið. Það setur auðvitað enga þjóð á hausinn þótt fólk endurnýi sjónvörpin sín (eins og heyrst hefur) en það er heldur ekki skynsamlegt að veðsetja íbúðirnar sínar fyrir hlutabréfakaupum, kríta ofvaxinn efnahagsreikning í krafti framtíðarveltu og sanka að sér ógreiddum lúxusvörum frá útlöndum. Ég vorkenni þessu fólki því það er mjög óheppið. Það sá ekki fyrir efnahagshrunið og situr nú uppi með dót sem það á engan veginn fyrir. Meginþorri fólks hefur þó ekki hagað sér með svo áhættusömum hætti. Það er rangt sem svo víða heyrist, að við séum öll jafn ábyrg. Skuldir almennings eru að langstærstum hluta til komnar vegna hátt verðlagðra heimila sem ekki var hægt að komast yfir öðruvísi en með gríðarlegum lántökum. Og það þýðir ekkert að sakast við fólk af að það keypti sér þak yfir höfuðið. Að eiga heimili er frumforsenda lífsgæða í upplýstu og menntuðu landi. Skilaboð ráðamanna til samfé- lagsins voru á þann veg að hér ríkti efnahagsleg hagsæld, góðæri, jafnvel stöðugleiki. Í Reykjavík hefur leigumarkaðurinn verið svo hrottalegur síðustu árin og félagshúsnæði svo takmarkað (þrátt fyrir meinta hagsæld) að fólki stóð fátt annað til boða en að kaupa sér húsnæði, ef það á annað borð gat. Ábyrgðin er hér vitanlega mismikil líka. Þeir sem keyptu steinsteyptar víðáttur án þess að eiga fyrir nema eins og einum vegg geta auðvitað sjálfum sér um kennt ef bankinn vill húsnæðið til baka. Hinir aftur á móti, sem héldu að sér höndum og sættu sig við þröngan kost í dýrtíðinni, sæta nú sömu örlögum. Ég þekki til dæmis fólk sem í stað þess að sökkva sér í skuldaf sló upp þili í stofunni þegar fjölgun varð á heimilinu. Nú á það á hættu að missa verðtryggða íbúðina í hendur lánadrottna, og þar með allar útborganir og endurbótagjöld sem í hana hafa farið. Fasteignir eiga orðinu samkvæmt ekki að vera áhættufjárfesting. Auðvitað getur fólk lent í því hvar sem er í heiminum að fá ónýtt hús eða „kaupa á röngum tíma“. Slíkt er blanda af skammsýni og óheppni sem í undantekningartil- fellum skapar krísu, eins og bandarísku undir- málslánakrísuna (sem stjórnvöld og lánastofnanir bera auðvitað talsverða ábyrgð á). Munur á t.d spænskum og íslenskum fasteignaeiganda sem horfir nú upp á fallandi verð er hins vegar sá að höfuðstóll lánanna lækkar í hverjum mánuði hjá þeim spænska en hækkar bara og hækkar hjá þeim íslenska – þrátt fyrir að drjúgur hluti teknanna fari í að greiða hann niður. Spánverjinn sem keypti of dýrt í fyrra er fúll en hann lifir þetta af vegna þess að hann býr við eðlileg lánaviðskipti og getur staðið af sér stöðnunina þar til eignin vex aftur í verði. Þannig virkar fast- eignakerfið víðast hvar, nema á Íslandi. Verðtrygging fasteignalánanna er slíkur dragbítur á heimilunum að jafnvel sjálft vaxtaokrið bliknar í samanburði. Það þarf ekki nema eina óðaverðbólgu á 40 ára lánstíma til að éta upp áratuga afborganir af höfuðstól íslensks húsnæð- isláns. Hér varð óðaverðbólga í lok sjöunda áratugarins, aftur á þeim áttunda og níunda og nú upplifum við hana eina ferðina enn á 40 ára tímabili – og eru þá ótalin mörg minni verðbólgu- skot sem tekist hefur að hemja. Glæpur- inn virðist enn stærri í ljósi þess að jafnvel þótt verðbólgumarkmið Seðlabankans fengi einhvern tíma staðist, sem það hefur ekki gert lengi, þá dygði sú verðbólga að viðbættum ógnarháum vöxtum til að viðhalda höfuðstól lánanna lengur en flest fólk hefur viðdvöl í sama húsnæðinu. Nú er svo komið að bregðist stjórnvöld ekki strax við verður stór hluti almennings orðinn eignalaus innan fáeinna mánaða. Tugir þúsunda fjölskyldna flosna upp og lenda í höndum nýju ríkisbankanna, sem síðan sitja uppi með húsnæð- ið með tilheyrandi verðfalli, stöðnun, afskriftum og kostnaði. Væri ekki betra að hjálpa heimilun- um í landinu í þeim lífróðri sem fram undan er, og afnema verðtrygginguna? Í allra minnsta lagi frysta hana á meðan versta höggið ríður yfir? Á maður að trúa því að allar þessar eignir eigi að fá að renna aftur inn í bankana áður en þeir verða einkavæddir á ný? Hversu oft eiga launglæpir íslenska bankakerfisins að fá að kjöldraga þessa þjóð? Sú staðreynd að lénsherrarnir eru nú hinir sömu og fólkið sem við kusum inn á þing fyrir um einu og hálfu ári ætti að vera kvíðnum almenningi huggun, svo fremi sem eitthvert traust er hægt að bera til framkvæmdavaldsins. Það hefur eftir allt saman tækin til að bjarga því sem bjargað verður. Margbaktryggt vaxtaokrið, stutt af stjórnvöldum og Seðlabanka, er ein af stærri ástæðum skipbrotsins sem þjóðin hefur beðið. Og nú hafa stýrivextir verið hækkaðir í 18%, að margra áliti til þess að afstýra innlausn- um krónubréfanna. Enn og aftur lendir íslenskur almenningur aftast í forgangsröðinni þegar greiða á úr flækjunni. Eða hefði kannski ekki mátt fara varlegar í útgáfu þessara bréfa? Á meðan fólkið í landinu mætti sínum hvers- dagsleika af bjartsýni og dugnaði í brothættum uppgangi síðustu ára varð það bröskurum og ónýtri peningamálastefnu að bráð, með þeim afleiðingum að kvíðinn er nú helsta kenndin sem elur brjóst Íslendinga. Eina leiðin út er að breyta algjörlega um stefnu. Hagsmunir almennings hljóta að felast í því að komið verði í veg fyrir slíkt fjöldagjaldþrot sem við blasir, með öllum tiltækum ráðum. Afnám verðtryggingarinnar (bundin stuðningi við lífeyrissjóðina ef hægt er) er eitt þessara ráða og til þess þarf að grípa strax. Það þarf hugrakka stjórnmálamenn til að höggva á rígbundna hnúta. En bregðist stjórn- völd ekki við er það eitt víst að allsherjar upplausn verður í landinu. Höfundur er rithöfundur. Skuldadagar SÖLVI BJÖRN SIGURÐSSON HEYRNARÞJÓNUSTAN eR þs eyr ára 11, Byrjaðu sem fyrst að njóta sameingar! Tímapantanir 534-9600 e á hai ðv rfumæ kra wwR UMRÆÐAN Eiríkur G. Guðmunds- son skrifar um Nor- ræna skjaladaginn Sjaldan hefur verið meiri ástæða til að lyfta sér upp og gera sér glaðan dag með það að markmiði að gleyma um stund þeim hremmingum sem landsmenn glíma nú við. Sjaldan hefur verið jafnrík ástæða til að taka þátt í og njóta þess fjölskrúðuga menningarlífs sem blómstrar um allt land. Nor- ræni skjaladagurinn, sem haldinn er árlega, er einn slíkra menningar- viðburða. Hann verður haldinn hátíðlegur í Þjóðskjalasafni Íslands og í héraðsskjalasöfnum landsins með ýmsu móti, svo sem með opnu húsi og sýningum. Opinber skjala- söfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti og árið 2001 sameinuðust þau um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Í ár er skjala- dagurinn þann 8. nóvember. Hér- lendis er dagurinn tileinkaður gleymdum atburðum. Sérstakur vefur er helgaður þessu viðfangs- efni, www.skjaladagur.is. Í Reykjavík verða Þjóðskjalasafn Íslands og Borgarskjalasafn Reykjavíkur með sameiginlega dagskrá hjá Þjóðskjalasafni við Laugaveg 162 milli kl. 11 og 15. Þar verður safnkosturinn kynntur fyrir gestum og gangandi, m.a. með ferð- um í skjalageymslurnar, sem geyma um 35 hillukílómetra af gögnum, eða sem svarar um það bil vegalengdinni frá Rauða- vatni til Hveragerðis. Einn- ig verða flutt ýmis erindi og þeirra á meðal er erindi Önnu Agnarsdóttur próf- essors, sem mun rifja upp vin- og óvinveitt samskipti Íslendinga og Breta í ald- anna rás. Gunnar Örn Hannesson sagnfræðingur ætlar að segja frá því þegar skólapiltar voru barðir til bókar fyrr á öldum. Björn Jón Bragason sagnfræðingur mun ræða Hafskips- málið í ljósi nýfundinna skjala og Guðfinna Ragnarsdóttir, jarðfræð- ingur og fyrrverandi kennari við MR, segir frá og sýnir hvað jafnvel sum ómerkilegustu bréfsnifsi geta verið mikilvægar heimildir í ætt- fræðirannsóknum. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjala- söfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundar- gerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Og því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn eða Þjóðskjalasafn ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við. Höfuðborgarbúar eru hvattir til að heimsækja Þjóð- skjalasafn Íslands kl. 11 nk. laugar- dag og njóta áhugaverðrar dag- skrár sem þar verður í boði Þjóðskjalasafns og Borgarskjala- safns. Höfundur er sviðsstjóri útgáfu- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns Íslands. Rifjum upp gleymda atburði EIRÍKUR G GUÐMUNDSSON

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.