Fréttablaðið - 30.11.2008, Blaðsíða 13

Fréttablaðið - 30.11.2008, Blaðsíða 13
SUNNUDAGUR 30. nóvember 2008 13 mín: „Þú átt eftir að deyja ef þetta heldur svona áfram, þetta er ekki í lagi, í landinu okkar er svona framkoma ekki í lagi, þú verður að gera eitthvað.“ Fékk stuðning frá íslenskri vin- konu Emebet lýsir hvatningu vinkonu sinnar af mikilli innlifun, hvernig hún studdi hana og hjálpaði. Sjálf var hún á þessum tíma búin að átta sig á að hlutur kvenna á Íslandi væri gerólíkur kynsystra þeirra í Eþíópíu. „Hér er hægt að vera einstæð móðir. Fyrst þegar ég tók eftir því að verið var að tala um að þessi eða hinn væri fráskilinn þá fannst mér það ótrú- legt. Og íslenskir karlar hjálpa til við heimilisstörfin! Fyrst þegar ég sá mann elda þá vissi ég ekki hvert ég ætlaði,“ segir Emebet og hlær að minningunni. „Í Eþíópíu mega mennirnir ekki einu sinni koma inn í eldhúsið.“ Uppeldi karla og kvenna í Eþíópíu er svo gerólíkt segir Emebet og það hefur svo varan- leg áhrif á kynin að erfitt er að brjótast undan því oki. „Strákarn- ir fá að fara út að leika en stelp- urnar eru inni að vinna, að læra að elda, þvo og hugsa um heimil- ið, það er mjög mikill munur.“ Þessi munur ristir svo djúpt að þrátt fyrir tal um að rétta hlut kvenna í Eþíópíu hefur ekkert svo mikið breyst að mati Emeb- et. Hún er líka ótrúlega ánægð með þá staðreynd að dætur henn- ar tvær hafa alist upp á Íslandi en ekki í Eþíópíu. „Þær eru íslenskar stelpur, þær eiga sína vini hér og ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af þeim. Stundum þegar við sitjum við matarborðið og erum öll að tala saman þá er ég svo ánægð, það veður á þeim og þær kunna að tjá tilfinningar sínar. Þegar ég var lítil þá mátti ég aldrei tala, það er ekkert hlustað á börn í Eþíópíu.“ Þessi framkoma grefur undan sjálfstrausti barna sem hefur svo áhrif fram á fullorðinsár segir Emebet, meðal annars með þeim afleiðingum að konur eiga erfitt með að brjótast undan því ofbeldi sem svo algengt er að þær séu beittar inni á heimilinu. „Uppeldið og umhverfið sem ég ólst upp í er svo gerólíkt dætra minna að það er með ólíkindum. En auðvitað er margt gott þar, virðing fyrir eldra fólki er til dæmis mikil og samheldni fjöl- skyldunnar er mjög sterk,“ segir Emebet sem bendir á að það reyni á fjölskyldurnar þegar eitthvað ber út af. „Þegar foreldrar mínir dóu voru þrjú systkini mín undir lögaldri, sem betur fer gátum við tekið þau að okkur því annars hefðu þau bara orðið að fara út á götu að betla, það er ekkert félagslegt net í Eþíópíu.“ Yngri systir Emebet, sem hún tók að sér á sínum tíma, hefur fylgt henni til Íslands og sömu- leiðis býr einn bróðir hennar hjá henni, það er því ekki ofsagt með samheldni fjölskyldunnar. Og Emebet tekur fram að þrátt fyrir uppeldið tileinki eþíópísku karl- arnir sem búa á Íslandi sér siði Íslendinga og taki þátt í heimilis- störfum, þó að hennar fyrrver- andi hafi ekki gert það. Einu sinni síðan hún flutti til Íslands hefur hún heimsótt æsku- stöðvarnar og hún getur ekki annað en hlegið þegar hún er að segja frá þeirri heimsókn: „Það var svo heitt, ég gat ekki sofið á nóttunni, dæturnar mínar voru líka alveg óvanar þessum hita.“ Emebet er ekki á leiðinni að flytja aftur til Eþíópíu, hún hefur komið sér vel fyrir hér á landi, er mjög ánægð í vinnunni sinni á elliheimilinu Seljahlíð. „Ég var kennari áður en ég flutti hingað, fyrst eftir að ég flutti til Íslands vann ég í eldhúsi en svo hef ég verið á elliheimilinu í nokkur ár. Fyrst var það svolítið erfitt, ég talaði ekki íslensku en nú gengur það mjög vel. Núna þekkir gamla fólkið mig og okkur kemur vel saman.“ Vinnan er vaktavinna og aðra hvora helgi, þegar Emebet er að vinna eru dæturnar hjá fyrr- verandi eiginmanni hennar. Fluttur í sama hús Það er ekki langt að fara því nýlega tók eiginmaðurinn fyrr- verandi upp á því að kaupa íbúð- ina á hæðinni fyrir ofan Emebet, henni til lítillar gleði. „Það hefur auðvitað vond áhrif á mig, en ég er að reyna að berj- ast gegn því og hugsa ekki um hann. Ég vil lifa venjulegu lífi og halda áfram í mínu lífi, en það er erfitt þegar hann er fluttur í sama hús,“ segir Emebet sem er ekki sátt við þá þróun mála en hún getur ekkert gert í þessu eins og hún segir sjálf. „Helst vil ég selja íbúðina og flytja en það er ekki hægt eins og staðan er núna. Ég vil ekki hafa hann yfir mér, hann getur ekki umgengist mig eðli- lega og hann vill ráða yfir mér.“ Emebet segir manninn ekki ánægðan með að sjá hversu vel hún kemst af án hans. Hann hefur ekki haft í hótunum við hana síðan þau skildu og Emebet er ekki hrædd kona, en hún segist ekki komast hjá því að velta fyrir sér hvað hann sé að hugsa að flytja inn í sama hús og hún. „Það er líka bara svo erfitt fyrir mig að eiga á hættu að sjá hann á hverjum degi og vera alltaf að vonast til þess að sjá hann ekki. Ég er að reyna að láta þetta ekki hafa áhrif á mig, hitti sálfræðing reglulega og fæ ráð. Þessu verður bara að ljúka.“ Emebet er skýrt dæmi um konu sem eignaðist annað líf eftir að hafa sagt skilið við ofbeldisfullan eiginmann og þegar blaðamaður getur ekki annað en lýst aðdáun sinni á hugrekki hennar þá segist hún einfaldlega hafa áhuga á að berjast gegn heimilisofbeldi. „Það er hægt að segja skilið við ofbeld- ið.“ Eþíópía er elsta sjálfstæða ríki Afríku. Íbúafjöldi eru rúmar 83 milljónir manna. Landið er 1,13 milljónir ferkílómetra að stærð og er landlukt. Höfuðborgin heitir Addis Ababa en borgin sem Embet er frá heitir Arbam- inch. Meðal fjölmargra tungumála sem eru töluð í landinu eru amharic, oromo, tigrinya og sómalska. Fyrir utan skamma hersetu Ítala undir stjórn Mússolíni slapp Eþíópía undan nýlendukapphlaupi stórvelda. Landið er eitt af fátækustu ríkjum Afríku. Staða kvenna er bágborin, sérstaklega á landsbyggðinni, þær vinna mikið auk þess að sinna heimilinu en hafa lítil völd. Heimilisofbeldi er í raun viðurkennt og talið mjög algengt. ➜ EÞÍÓPÍA En stuttu síðar féll allt í sama farið, hann beitti ofbeldi, henti mér á dyr og ég svaf úti heilu næturnar. Þá sagði vinkona mín „Þú átt eftir að deyja ef þessu heldur svona áfram.“

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.