Tíminn - 01.08.1982, Blaðsíða 2

Tíminn - 01.08.1982, Blaðsíða 2
Bóndakonan sem varð metsöluhöfundur „Dalalíf” Guðrúnar frá Lundi kemur úl að nýju í haust ■ Nú er senn von á nýrri prentun af „Dalalífi“ eftir Guðrúnu frá Lundi hjá Almenna bókafélaginu. Þessi skáld- kona, sem fór að skrifa um sextugs aldur og varð þá landsfræg er síður en svo gleymd lesendum, en hætt er þó við að mörgum sé hinn sérstæði ferill hennar lítt kunnur. Þótt Guðrún sé nú látin fyrir nokkrum árum ætlum við að hún sé vel að því komin að á hana sé minnst hér í „Fólk í listum." Hún var fædd að Lundi í Stíflu í Skagafirði árið 1887 og var bóndakona lengst af ævinni, en bjó á Sauðárkróki frá 1939. Sem fyrr segir varð hún landsfræg í einni svipan sextug að aldri, en það var þegar Dalalíf kom út árið 1946 í mörgum bindum. Hún eignaðist aðdáendur og lesendur um land allt og þegar hún var einu sinni byrjuð urðu afköstin feiknaleg. Bækurnar urðu yfir tuttugu að tölu. Fyrir utan Dalalíf má nefna skáldsög- urnar Römm er sú taug, Á ókunnum slóðum, Dregur ský fyrir sól, Gulnuð blöð, Hvikul er konuást, í heimahöfum, Náttmálaskin, Sólmánaðardagar í Sel- landi, Stýfðar fjaðrir, Svíður sárt brenndum, Utan frá sjó og Ölduföll. Er þá margt ótalið. Erlingur Davíðsson ræddi við Guð- rúnu fyrir jólablað Tímans árið 1967. Hér eru partar úr því viðtali: „Hvenxr byrjaðir þú að skrifa?“ „Strax innan við fermingu fór ég að reyna að skrifa eitt og annað. Auðvitað brenndi ég það allt. Ég öfundaði Torfhildi Hólm og dáði hana fyrir það að geta skrifað svona bækur. Ég las allt sem ég náði í og hafði mikið yndi af sumum bókum. Ég fór svo örlítið að skrifa á ný, þegar ég var bóndakona." „Já, og skrifaðir fyrstu bókina þína, Dalalíf?“ „Já, löngu síðar. Mér datt í hug að reyna að fá þessa sögu gefna út en hafði engin sambönd við útgefendur og ekki heldur við ncina þá fróðu menn um bækur, sem eflaust hefðu getað leiðbeint mér um ritstörfin með góðum ráðum og hæfilegum aðfinnslum. Bróðursonur minn tók svo hjá mér handritið og fór með það suður. Hann sagðist ætla að selja það fyrir mig. Hann gekk með það milli útgefendanna, en áhuga þeirra vantaði alveg. Þannig liðu tvö eða þrjú ár. Ég var eiginlega hætt að vona. En þá bauð Gunnar í ísafold mér 2600 krónur fyrir handritið og ég varð fegin, þótt upphæðin væri ekki mikil. Bókin myndi þó koma út og það var mér mikils. virði, hvað sem öðru leið. Dalalíf kom út 1946.“ Og henni var vel tekið? „Já, hún varð reyndar metsölubók og það varð mér mikil uppörvun, eins og nærri má geta. Svo hélt ég áfram að skrifa og skrifaði eina bók á ári eða um það bil. Síðasta bókin, Náttmálaskin, er nú komin í bókaverslanir." ■ Guðrún frá Lundi. Þú hefur ekki þurft að ganga á milli með handritin síðan? „Nei,“ segir Guðrún frá Lundi og léttist nú á henni brúnin. „Ég gat eiginlega hvorki lokið við handritið að bókinni sem kom út í fyrra og svo síðustu bókinni, sem nú er rétt komin út. í bæði skiptin voru handritin bara sótt til mín hingað norður. í sumar átti ég eftir töluvert, en maðurinn lét hvorki laust né fast. Hann fór með það sem til var og ég sendi sögulokin á eftir.“ Hvaða höfunda lestu mest? „Þeir eru margir, því ég hef gaman af bókum. Ég hélt mikið upp á eyfirsku skáldkonuna Kristínu Sigfúsdóttur og Þórunn Elfa er skemmtileg. Reyndar þoldi ég varla Gerplu, en hugkvæmur er Laxness. Hagalín fannst mér bestur fyrst og smásögurnar sem hann gaf út voru góðar. Svo hef ég alltaf gaman af Kristmanni. Hann hefur nokkrum sinn- um heimsótt mig og er ósköp elskuleg- ur. Hvaða kona ætli sé ekki hrifin af honum Kristmanni?“ Viltíi segja mér eitthvað um efni bóka þinna? „Sögur mínar flestar eru sveitaróman- tík frá þeim tíma þegar ég var ung. Þær segja frá lífinu eins og það var og eins og ég sá það renna fram. Bílar og flugvélar koma lítið við sögu hjá mér, atburðirnir eru margir hverjir ekki stórir, nema fyrir þá sem lifa þá. En fyrir þeirra sjónum eru þeir mikilvægir og skipta sköpum. Þannig er það í lífinu sjálfu." Steingrímur Sigurðsson sýnir á Hótel ísafirði: „Leist svo vel á salinn” ■ „Mér leist svo vel á þennan sal hérna á nýja hótclinu á ísafirði, að ég ákvað að sýna í honum." Steingrímur Sigurðs- son listmálari með meiru hringdi til okkar, hress að vanda, vestan af ísafirði og sagði þau tíðindi að hann hefði opnað sýningu í hótelinu í gær. „Ég er nýkominn úr mikilli reisu erlendis frá og held hér fjögra daga sýningu, á 26 myndum. Þetta er eins konar afmælissýning, vegna þess að þetta er fimmtugasta sýningin mín. Sumir fara til Spánar að halda upp á afmæli, en ég fer hingað vestur. Ég er með tvær af eldri myndum, en flestar eru málaðar í útlöndum í sumar. Flestar myndirnar eru til sölu, en ekki allar," sagði Steingrímur. Svoskaut hann því að okkur að eftir sýninguna ætlar hann í einangrun á Hornströndum og skrifa bók um útlandareisuna. SV Sýning á teikn- ingum og lágmyndum ■ Örn Þorsteinsson hefur opnað sýn- ingu á teikningum og lágmyndum í Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins í Hamraborg 7, Kópavogi. Sýningin er opin á venjulegum skrifstofutíma og er aðgangur ókeypis. Örn er fæddur í Reykjavík 1948. Hann stundaði nám við MHÍ 1966-71 og framhaldsnám við Listaháskólann í Stokkhólmi. Örn er félagi í FÍM og íslenskri grafík. Samfara störfum í myndlist hefur hann verið kennari í MHÍ síðan 1972. Örn hefur tekið þátt í mörgum samsýningum hér heima og erlendis og er þetta þriðja einkasýning hans. Flest verkanna á sýningunni nú sýndi Örn á þessu ári í Listasafni ASÍ. Þau eru 23 talsins, auk samvinnukvers Arnars og Thors Vilhjálmssonar, sem kom út í sambandi við þá sýningu. ■ Örn Þorsteinsson. Brúður, tröll og trúður ■ Sýningin í Listmunahúsinu, Lækj- argötu 2, „Brúður, tröll og trúður, hefur vakið verðskuldaða athygli og verið mjög vel sótt. Leikbrúðusýningin „á loftinu" verður endurtekin á sunnudag kl. 3, vegna mikillar aðsóknar síðastliðinn sunnu- dag, en þá þurftu margir frá að hverfa. Sýndir eru þættir úr brúðubílnum í umsjá þeirra Helgu Steffensen og Sigríðar Hannesdóttur. Aðgangur að brúðusýninguni er ókeypis. Miðað afhentir í Listmunahúsinu. Sýningin er opin frá kl. 2-6. Síðasta sýningarhelgi er um verslunarmanna- helgina. ■ Indriði G. Þorsteinsson. „Dagbók veginn” Indriði G. Þorsteinsson gefur út fyrstu ljóðabók sína í haust ■ f haust er von á fyrstu ljóðabók Indriða G. Þorsteinssonar hjá Almenna bókafélaginu og því slógum við á þráðinn til hans og báðum hann að segja okkur nokkuð frá þessari nýju bók. „Það er svo með þessa bók að nokkuð af henni var prentað sem handrit fyrir fáeinum árum í nokkrum eintökum og síðan hefur nokkuð bæst við. Þetta eru ljóð sem að miklu leyti hafa orðið til á ferðalögum, svona að frumstofni til. Ég hef verið að ganga frá þessu í sumar og ætlunin er að þetta komi út í haust. Ljóðin eru ort af ýmsu tilefni og um marga hluti sem fyrir augu hefur borið. Sum eru ort í Kína, önnur í Rússlandi og Bandaríkjunum, suður í Evrópu og í Afríku, þar sem maður hefur flækst Ég hef kallsað það við Jónas Guðmundsson, listmálara og Tíma- mann að teikna eitthvað í bókina og hann hefur fallist á það. Hins vegar veit ég ekkert hvort hann efnir það. Nú, bókin heitir það sama og handritsútgáf- an, en hana nefndi ég „Dagbók um veginn.“ Auðvitað notuðum við tækifærið og spurðum Indriða eftir öðru því sem hann er að vinna að: „Ég hef verið að vinna að smásaman- tekt um Finn Jónsson, listmálara, en Almenna bókafélagið mun gefa út myndabók um hann með textum eftir mig og Ponzi, sem er mikill þekkingar- maður á málverk. Ég veit ekki hvenær Almenna ætlar að gefa þá bók út, en maður reynir að standa við að hafa þann texta til sem er óskað eftir í sambandi við þetta. Nú, þá hef ég verið að safna gögnum í Kjarval, sem á að koma út 1985, en ég er líka með í kollinum skáldsögu sem byggir á tíma blaðamennskunnar frá 1955-1965 eða 1968. Þetta er svona skáldsaga um ykkur blaðamenn. Já, hún byggir á þessum blaðamennskuárum sem maður upplifði með mörgum góðum kollegum. Hún mun heita „Pappírsveislan" þessi minn- ingarbók. Já, já, mikil ósköp, þetta eru allt góðar minningar." - AM

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.