Tíminn - 01.08.1982, Blaðsíða 18

Tíminn - 01.08.1982, Blaðsíða 18
18__________________ heimsmeistarar f skák ■ Það var ekki auðvelt verk sem beið Anatólí Évgenevitsj Karpov úr Úral- fjöllum eftir að hann var krýndur heimsmeistari í skák þann 24ða apríl 1975. Allir heimsmeistarar fram að því höfðu unnið titilinn í misjafnlega erfiðum einvígjum (nema Bótvinnik eftir lát Alekhines, en Bótvinnik tefldi líka sjö einvígi upp frá því!) og þeir voru því fjöldamargir sem ekki vildu viður- kenna heimsmeistaratitil Karpovs, sem hafði hlotið hann með býsna „auðveld- um“ hætti (þeir sem héldu þessu fram gleymdu erfiðum einvígjum Pólúgaévs- kíj, Spasskíj og Korchnoi). Aðstaða Karpovs var mjög óþægileg. Fischer hafði afsalað sér titlinum án þess að tefla og yfirburðir hans yfir samtíðarmenn sína höfðu verið slíkir að Ijóst var að Karpov yrði að leggja enn harðar að sér en ella til að sanna að hann væri verðugur heimsmeistari. Og það hefur Karpov svo sannarlega tekist. Frá því Alekhine var og hét hefur enginn heimsmeistari teflt jafn mikið og Karpov (oftast teflir hann fjórum til sex sinnum á ári, jafnvel oftar), og það sem meira er: enginn hefur náð jafn góðum árangri. Það er sjaldgæft að Karpov vinni ekki þau mót sem hann tekur þátt í, og eru flest þeirra þó mjög sterk, hann vinnur reglulega alla hættulegustu keppi- nauta sína (ef keppinautar er rétta orðið), og í sjálfum skákfræðunum hefur hann enn komið að tómum kofunum. Karpov hefur nú þegar tryggt sér heimsmeistaratitilinn til níu ára og nú er nýhafínn enn einn hringur um krúnuna. Það liggur í augum úti að nema hinn ungi Kasparov fari að gera rósir verður Karpov heimsmeistari í tólf ár, hvað svo sem síðar verður. Fyrsta mótið sem Karpov tók þátt í eftir að hafa verið krýndur heimsmeist- ari hófst aðeins rúmum mánuði seinna. Það var þriðja minningarmótið um júgóslavneska skákmeistarann Vidmar og var háð í borgunum Ljubljana og Portoroz. Mót þetta var býsna vel skipað og í fyrstu umferð skyldi Karpov mæta ungverska jötninum Lajos Portisch, en Portisch var einn fárra stórmeistara sem ennþá höfðu plús árangur gegn hinum nýja heimsmeistara. Karpov tefldi af mikilli baráttugleði, vann skákina í 32ur leikjum, og sigldi síðan í gegnum mótið án þess að komast nokkru sinni í verulega hættu: er upp var staðið hafði hann 11 vinninga, hcilan vinning umfram næsta mann sem var Gligoric. Karpov hafði því sæmilega ástæðu til að vera ánægður en eldraunin beið þó enn. Það var mótið í Mílanó á Ítalíu sem hófst síðla sumars og var greinilega eitt sterkasta skákmót sem lengi hafði verið haldið. Keppendur voru tíu, allt heims- frægir stórmeistarar nema ítalinn Mari- otti sem þó hafði nýverið nælt sér í stórmeistaratitil. Mótsskipulagið var óvenjulegt; eftir að keppendur höfðu teflt við alla andstæðinga sína eins og á venjulegu móti héldu fjórir þeir efstu áfram og tefldu einvígi uns aðeins einn stóð eftir. Karpov byrjaði vel en í áttundu umferð tapaði hann fyrstu skák sinni frá því hann varð heimsmeistari: þar var að verki Ulf Andersson frá Svíþjóð. Karpov varð þannig aðeins í 2.-4. sæti í sjálfu mótinu með Petrósjan og Ljuboievié en Portisch varð efstur. I einvígjunum hrósaði Karpov hins vegar sigri. Fyrst gerði hann fjögur jafntefli við Petrósjan, scm nægði honum vegna hagstæðari SB-stigatölu og í sex skáka einvígi við Portisch vann Karpov eina skák en fimin urðu jafntefli. Karpov hafði því tekist að sigra og upp frá þessu fóru raddirnar um að hann væri óverðugur heimsmeistari að þagna. Á næsta móti sínu, í Skopje í febrúar-mars ’76 vann Karpov yfirburða- sigur á sterku móti, fékk 12.5 vinning af 15 mögulegum og tapaði ekki skák. Næstur kom Uhlmann með 11 vinninga, þá Timman með 10.5. Næsta alþjóða- mót hans var „Euwe Vierkamp" í Amsterdam þar sem fjórir stórmeistarar tcfldu tvöfalda umferð: Karpov, Timm- an, Browne og Friðrik Ólafsson. Keppnin var hörð en með sigri yfir Friðriki Ólafssyni í síðustu umferð tryggði Karpov sér sigurinn: 4 vinninga af 6, síðan kom Browne með 3, og þá Friðrik og Timman með 2.5. Tveim mánuðum síðar tók Karpov þátt í svipuðu móti á Filipseyjum, aftur var Browne meðal þátttakenda og þar að auki Ljuboievic oj; ungi Filipseyingurinn Eugenio Torre. Úrslitin urðu reiðarslag fyrir Karpov, hann tapaði í fyrri umferðinni fyrir Torre, sem fæstir höfðu búist við miklu af, tókst að vinna Ljuboievié en afgangurinn varð jafn- tefli. Aðeins 50% árangur og öllum á óvart vann Torre frábæran sigur, fékk 4.5. vinning, Karpov 3, Ljuboievic 2.5. og Browne 2. Karpov lét þetta þó ekki á sig fá, vann næst léttan sigur á sæmilega sterku móti á Spáni og sett- ist síðan að tafli á 44ða skákþingi Sovétríkjanna. Keppendur voru 18 og meðal þeirra flestallir sterkustu skák- menn Sovétríkjanna svo Karpov lá mikið á að sigra, ekki síst vegna þess að hann hafði þá aldrei orðið meistari lands síns. Hann byrjaði ekki vel, gerði tvö tíðindalítil jafntefli í fyrstu tveimur umferðunum og tapaði svo í þriðju umferð fyrir gömlu kempunni Géller sem tefldi af miklum þrótti. En þá tók Karpov sig saman í andlitinu, tefldi mjög grimmilega það sem eftir var og sigraði að lokum með vinningsmun, fékk 12 vinninga af 17, Balasjov fékk 11, Petrósjan og Pólúgaévskíj 10.5, Dorf- man 9.5, Smyslov og Talj 9, Géller, Rómanisjin og Svesnikov 8.5 o.s.frv. Sigur sem var Karpov mjög kærkominn. Þá var næsti sigur ekki síður glæsilegur: tveggja vinninga forskot Karpovs á mjög sterku móti í Bad Lauterberg í V-Þýskalandi - 12 vinningar af 15 mögulegum, Timman var annar með 10 vinninga, 3ji þjálfari Karpovs, Semjon Fúrman með 9 vinninga, þá Sosonko með 8.5, og síðan Liberzon, Csom, Húbner og Friðrik Ólafsson með 8 vinninga. Það var í umsögn sinni um þetta mót sem Karpov taldi sérstaka ástæðu til að hrósa Friðriki Ólafssyni „Það er ekki ætlun mín að fjalla hér um einkenni allra keppendanna, en ég get ekki látið hjá líða að nefna kraftmikla og örugga taflmennsku Friðriks Ólafs- sonar. Hann er óvenjulega baráttuglað- ur skákmaður og það, ásamt þrjósku hans (hann bjargaði sér eftir 95 leiki gegn mér), gerir hann stórhættulegan andstæðing í hvaða stöðu sem er.“ Næst leiddi Karpov sovésku skák- sveitina í Sveitakeppni Evrópu sem haldin var í Moskvu 1977 og sjálfur átti hann ekki minnstan þátt í öruggum sigri sveitarinnar, vann alla fimm andstæð- inga sína: Smejkal, Ljuboievic, Ghe- orghiu, Portisch og Keene. Aðeins skömmu síðar var Karpov sestur að tafli á Las Palmas þar sem háð var allsterkt mót. Meðal keppenda voru margir þekktir stórmeistarar: Talj, Larsen, Timman, Browne, Adorjan og Miles, auk metnaðargjarna alþjóðameistara og titilslausra skákmanna. Þarna hafði Karpov slíka yfirburði að með ólíkind- um má telja, hann byrjaði á því að vinna sex skákir í röð, hélt þá jafntefli gegn Timman, vann Adorjan og gerði jafntefli við Larsen og vann svo fimm skákir í röð áður en hann gerði jafntefli við vin sinn Talj í síðustu umferð. Úrslitin: Karpov 13.5/15!! - annar Larsen með 11 vinninga, þá Timman með 10, Browne, Talj og Raúl Hernandez frá Kúbu fengu allir 9 vinninga o.s.frv. Eftir þetta vissu auðvitað allir sem vildu vita að Karpov væri meira en verðugur heimsmeistari og það var farið að líta svo á að hann væri nánast ósigrandi, sem hann er auðvitað ekki eins og kom í Ijós á næsta móti, hinu feykiöfluga Byltingarmóti í Leníngrað. Karpov tapaði í fyrstu umferð fyrir Tæmanov gamla sem tefldi mjög lævíslega og vann eftir Ijótan afleik Karpovs undir lokin. Þá kom jafntefli við Kotsiev, síðan sigur yfir Smejkal og jafntefli við Vaganjan, en í fimmtu umferð dundi annað reiðarslag yfir: Karpov féll á tíma! :Það hafði aldrei gerst áður og hefur heldur ekki gerst síðan enda er Karpov annálaður fyrir það hversu hratt hann teflir. Staðan var nokkuð jöfn er Karpov féll en andstæð- ingurinn var Alexandr Beljavskíj. Eftir þetta átti Karpov í miklum vandræðum á mótinu og hafði til að mynda nær tapaða stöðu gegn Smyslov áður en sá gamli lék af sér. Með tveimur sigrum í síðustu þremur umferðunum tókst honum þó að hífa sig upp í 4.-5. sætið ásamt Vaganjan, en sigurvegarar urðu Óleg Rómanisjin og Mikhaíl Talj með 11.5 vinning af 17, Smyslov var þriðji með 10.5 og Karpov fékk 10. Næstir voru svo Balasjov, Kotsiev, Ribli og Tæmanov með 9. Nokkru síðar tefldi Karjtov á fyrsta Interpolis-mótinu í Hollandi en þar tefla aðeins mjög sterkir stórmeistarar. Karp- ov tók af allan vafa um að honum væri ekkert að fara aftur (!) með því að vinna nokkuð öruggan sigur, fékk 8 vinninga af 11, síðan kom Miles með 8, 3.-6. Hort, Húbner, Kavalek og Timman 6, 7. Gligorié 5.5, 8.-9. Andersson og Balasjov með 6, 10. Smyslov 4.5, 11. Sosonko 4 og neðstur varð Friðrik Ólafsson með aðeins 3 vinninga sem sýnir m.a. hversu öflugt mótið var. Á árinu 1978 tefldi Karpov aðeins á einu skákmóti, í Bugojno í Júgóslavíu. Mótið var geysisterkt og Karpov átti framan af í nokkru vesini, ekki síst eftir tap gegn Timman í fimmtu umferð, en náði að deila efsta sætinu með Bóris Spasskíj sem sýndi þarna hvað í hann var spunnið. Þeir fengu báðir 10 vinninga, Timman var þriðji með 9, Ljuboievic og Talj fengu 8.5. og síðan komu ellefu stórmeistarar í viðbót. Síðla árs settist Karpov svo að tefla um heimsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. Andstæðingurinn: Korchnoi, flótta- maður og sjálfskipaður andófsmaður. Staðurinn: Filipseyjar. Úrslit: Karpov 16.5, Korchnoi 15.5. Þetta einvígi var geysilega langt og erfitt og það verður að segjast eins og er að taflmennska Karpovs var ekki sannfærandi. Engum blandaðist þó hugur um að Karpov var öflugri en Korchnoi en sigurinn í þetta sinn réðist meira af mistökum andstæð- ingsins og „atburðum óskyldum skák- inni“ (eins og Larsen orðar það jafnan þegar hann tapar!). Karpov þurfti því að sanna gildi sitt á nýjan leik og það gerði hann með sigri á sterkasta móti sem haldið hafði verið í manna minnum: Montreal 1979. Tíu mjög sterkir stórmeistarar tefldu tvöfalda umferð og tap gegn Larsen kom ekki í veg fyrir að Karpov næði að sigra, en að vísu ásamt Talj, Portisch var í þriðja sæti, Ljuboievié því fjórða, síðan komu Spasskíj og Timman, þá Húbner, Hort og Kavalek en Larsen varð neðstur! Um mitt ár vann Karpov mjög öruggan sigur á fjögurra manna móti í Hollandi, fékk 5 vinninga af 6 mögulegum en síðan kom Kavalek, þá Hort og loks Sosonko. Seinna á árinu vann Karpov svo nokkuð örugglega á þriðja Tilburg-mótinu án þess að tapa skák. Inn á milli hafði hann teflt á sovésku Spörtukíöðunni og tapað þar fyrir lítt þekktum sovéskum meist- ara, Igor ívanov, sem nú býr í Kanada. Þetta var gott ár fyrir heimsmeistar- ann en það næsta, 1980, var óvenju slæmt og gengi hans skrykkjótt. Hann byrjaði á því að standa sig öldungis hörmulega í Sveitakeppni Evrópu sem haldin var í Skara í Svíþjóð: þar tapaði hann fyrir Tony Miles og gerði fjögur jafntefli en tókst ekki að vinna skák! Þar næst tefldi hann á móti í Bugojno og byrjaði með langri runu af jafnteflum meðan Bent Larsen sópaði að sér vinningum. Með frábærum endaspretti tókst Karpov þó að mjaka sér upp fyrir Danann, sem varð í öðru sæti. í Sveitakeppni Sovétríkjanna nokkru síð- ar mátti Karpov endurupplifa mar- tröðina frá Skara, hann tapaði fyrir Balasjov og gerði fimm jafntefli og tókst ekki að vinna skák. Hann tók sig á á fjögurra manna móti í Vestur-Þýska- landi þar sem hann fékk 4.5. vinning af 6 mögulegum og vann mjög örugglega, Spasskíj varð annar með 3 vinninga (sex jafntefli!), Húbner þriðji og Unzicker neðstur. Þá vann Karpov sigur á mjög öflugu IBM-móti í Hollandi þar sem átta keppendur tefldu tvöfalda umferð, hann tapaði að vísu fyrir Ungverjanum Ribli í fyrri umferðinni en nældi sér alls í tíu vinninga, einum fleiri en Timman sem varð í öðru sæti með 9 vinninga. Sosonko varð þriðji með 8 vinninga, þá Hort, síðan Ribli og Dolmatov, sjöundi Van der Wiel frá Hollandi og neðstur: Larsen! sem vann Karpov en það megnaði ekki að koma í veg fyrir að heimsmeistarinn ynni sigur, eins og venjulega. Svo kom Clarin-skákmótið í Argentínu. Þarna stóð Karpov sig mjög illa. Hann tapaði fyrir Friðriki Ólafssyni og síðan Timman og varð aðeins í 4.-5. sæti. Larsen vann frægan sigur. Á ólympíu- mótinu á Möltu nokkru síðar stóð Karpov sig hins vegar ágætlega og átti, ásamt Kasparov, mestan þátt í að sovésku sveitinni tókst að verða jöfn þeirri ungversku og vinna á stigum. í Linares á Spáni rétt eftir áramót var taflmennska Karpovs aftur á móti ekki ýkja sannfærandi og honum tókst aðeins að tryggja sér deilt efsta sæti með unga Bandaríkjamanninum Larry Christian- sen sem virðist ganga jafn vel á Spáni og honum gengur illa víðast annars staðar. Larsen varð í þriðja sæti, síðan komum.a. Portisch, Spasskíj, Riblio.fl. Á geysiöflugu móti í Mosvku í apríl í fyrra stóð Karpov sig svo mjög vel. Keppendur voru 14, flestir sterkustu stórmeistarar Sovétríkjanna og vænn slatti af mjög sterkum útlendingum, en Karpov náði 9.5. vinning af 13 mögulegum sem er mjög góður árangur á svo sterku móti. í 2.-4. sæti voru nýja stjaman Kasparov, Pólugaévskíj og Smyslov karlinn með 8 vinninga. Heimsmeistaranum gekk ekki jafnvel á síðasta IBM-mótinu sem haldið var um vorið, þar tapaði hann fyrir Hort og varð í 2.-3. sæti ásamt Portisch en Timman sigraði. Eftir það tefldi Karpov ekki fyrr en hann lék sér að Korchnoi eins og köttur að mús í heimsmeistaraeinvíginu í Merano, vann sex skákir en tapaði aðeins tveimur. Úrslitin sýna þó fremur lélega taflmennsku áskorandans en snilld Karpovs sem lét öryggið sitja í fyrirrúmi. Með þessum sigri var ljóst að Karpov yrði heimsmeistari í níu ár, eða lengur en nokkur annar síðan Bótvinnik datt upp fyrir. Á þessu ári hefur Karpov þegar teflt þrisvar og frammistaðan hefur verið upp og ofan. Á Clarin-mótinu í Mar del Plata í Argentínu snemma árs var árangur heimsmeistarans næsta lélegur, hann tapaði fyrir argentínska alþjóðameistar- anum Garcia Palermo og fyrir Timman sem vann yfirburðasigur. Portisch varð í öðru sæti en Karpov mátti sætta sig við það þriðja ásamt Pólúgaévskíj og Seirawan. Það var einmitt fyrir Seirawan sem Karpov tapaði á Phillippsand Drew mótinu í London en þar þótti Karpov mjög heppinn að ná efsta sætinu og deildi því reyndar með UIí Andersson. Þeir félagar urðu einnig efstir og jafnir á mótinu í Tórínó á Ítalíu sem lauk fyrir ekki löngu, en þar hafði Karpov tapað fyrir Ljuboievié sem menn muna. Hann sýndi mikið baráttuþrek er honum tókst

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.