Tíminn - 15.08.1982, Blaðsíða 9

Tíminn - 15.08.1982, Blaðsíða 9
SUNNUDAGUR 15. ÁGÚST 1982 9 merm og málefni Nýjar bugreinar 1 stað 100.000 fækkunar sauðfjár Samdráttur sauðfjárbú- skapar ■ Aðalfundur Stéttarsambands bænda verður haldinn í Borgarnesi í byrjun næsta mánaðar. Þar verður rætt að vanda um þau höfuðmál, sem efst eru á baugi hjá bændastéttinni. Ofarlega verður á dagskrá vandamál sauðfjárbúskaparins, en glöggir menn telja, að nauðsynlegt verði að fækka sauðfé í landinu um 100 þúsund á tveimur næstu árum. Samkvæmt því yrði ásetningar í haust 50 þúsund fjár minni en síðastliðið haust og aftur næsta haust 50 þús. fjár minni en haustið 1982. Fjöldi sauðfjár yrði þá veturinn 1983-1984 um 690 þús. fjár. Sé miðað við óbreyttan meðalþunga og svipaða frjósemi gæti framleiðslan minnkað um 12 þúsund smálestir af kindakjöti. Talið er að þá þurfi að flytja út 2-3 smálestir af kindakjöti. Til þess að tryggja landsmönnum ávallt nægilegt magn búvara, þrátt fyrir misjafnt árferði, verður að gera ráð fyrir nokkru meiri framleiðslu en innlendi markaðurinn leyfir. Út- flutningsuppbótum sem komið var á í tíð viðreisnarstjórnarinnar, var ætlað að tryggja bændum fullt verð fyrir þetta umframmagn. Miðað var við, að útflutningsuppbætur, sem greiddar væru úr ríkissjóði, mættu nema 10% af heildarverðmæti landbúnaðarvara. Algert samkomulag var um það á Alþingi og einnig meðal stéttarsam- takanna, að útflutningsbætur á land- búnaðarvörur yrðu greiddar innan þessara marka. Síðustu árin hafa útflutnings- bæturnar orðið talsvert meiri, en með framangreindum fyrirætlunum er stefnt að því, að þeim verði haldið innan þessara marka, a.m.k. hvað sauðfjárbúskapinn snertir. Hrun norska markaðarins Tvennt veldur mestu um, að óhjákvæmilegt þykir að draga sauð- fjárbúskapinn saman, eins og að framan er rakið. Annað er það, að sökum verð- bólgunnar hér innanlands hefur bilið stöðugt breikkað milli þess, sem fæst fyrir kjötið erlendis, og þess, sem það kostar að framleiða það. Beztu markaðir erlendis skila nú aðeins 34% af framleiðslukostnaði- num. Það hrekkur rétt fyrir slátur- kostnaði og flutningskostnaði. Ekkert er eftir handa bændunum. Sem dæmi um verðlagsþróunina má nefna það, að 1970 fengum við 89% af innlenda verðinu fyrir það kjöt, sem var selt tii Svíþjóðar. Nú fæst þar aðeins 32-34% af þessu verði. Bezti og stærsti markaðurinn fyrir íslenzka kindakjötiðhefur verið í Noregi. Þar er nú svo komið, að Norðmenn framleiða sjálfir kindakjöt umfram þarfir. Á síðasta ári varð framleiðslan hjá þeim um 1900 smál. umfram þarfir innlenda markaðarins. Samt ætla Norðmenn að kaupa af okkur 600 smálestir á þessu ári, en fyrir miklu lægra verð en áður. í framtíðinni reikna Norðmenn ekki með því að kaupa kjöt af íslendingum. Sauðfjárbændur hafa gert sér grein fyrir hver þróun var í þessum efnum og búið sig undir að mæta henni. Síðustu þrjú árin hefur vetrarfóðruðu fé fækkað um 101.500 eða 11.3%. Verðlagsþróun erlendis hefur hins vegar versnað hraðar en menn bjuggust við, m.a. vegna verðbólgunnar hér, og norski markaður- inn lokaðist fyrr en spáð hafði verið. Litlar eða engar líkur benda til, að hægt sé að finna nýja markaði, þar sem viðunanlegt verð er í boði. Hvernig verður sam- drættinum háttað? Bændasamtökin hafa gert sér þess fulla grein, að verulegur samdráttur sauðfjárstofnsins er óhjákvæmilegur næstu árin af framangreindum ástæðum. Þetta kom fram í viðtali við Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda, sem birtist hér í blaðinu 6. júlí síðastliðinn. Hákoni Sigurgrímssyni fórust m.a. orð á þessa leið: „Ef tekið er mið af því kjötmagni sem útlit er fyrir að verði óselt í haust, þá eru það afurðir eftir u.þ.b. 100 þús. fjár. Ég álít að sauðfénu þurfi að fækka eitthvað nálægt því. Eins og nú er komið er ekki annað að gera. Það er beint fjárhagslegt tjón fyrir bændur að halda áfram óbreyttri framleiðslu. En það er vandi að taka á þessu máli. Skerðingin þarf að verða hjá þeim, sem helzt hafa bolmagn til að mæta henni og í þeim landshlutum, sem þola slíkan samdrátt án þess að hætta skapist á eyðingu byggðar. Hins vegar þarf í þessu sambandi líka að taka mið af því, að sums staðar getur verið æskilegt eða nauðsynlegt að fækka fé tímabundið vegna of mikils beitarálags. Þessi mál hafa verið mikið til umræðu hjá bændasamtökunum síðustu mánuði- na, og eru nú að mótast ákveðnar tillögur um aðgerðir. Þær miða að því að fækka fénu um 50 þúsund nú í haust. Gert er ráð fyrir að leita eftir samkomulagi við bændur um fækkun og þeim tryggt fullt verð fyrir kjötið sem til fellur vegna fækkunarinnar. Þeim sem boðið yrði upp á þetta eru, framleiðend- ur utan lögbýla, sem hafa aðrar atvinnutekjur, bændur sem hafa aðal- tekjur sínar af annarri búvörufram- leiðslu s.s. mjólk eða garðyrkju og aldraðir bændur, sem komnir eru á eftirlaun. Þá er gert ráð fyrir, að bændur, sem fengið hafa riðu í fé sitt, eigi kost á sam; konar bótum, enda taki þeir jafnframt upp aðra framleiðslu. Mér finnst líklegt að þessi meðferð muni skila árangri, og það er ekki ætlunin að þvinga neinn til að gera þetta, a.m.k. ekki í þessari fyrstu tilraun." Kostnaður ríkissjóðs Hákon Sigurgrímsson ræðir í við- talinu um kostnaðinn, sem fylgja muni umræddri fækkun sauðfjarins í haust. Hann sagði. „Það er gert ráð fyrir að það muni kosta um 30 milljónir króna að tryggja fullt verð fyrir afurðir, sem falla til vegna fækkunar fjár um 50 þúsund. Ríkisstjórnin verður beðin að útvega þetta fé. Ég vil undirstrika það, að hér er beðið um fjármuni, sem ætlunin er að verja á allt annan hátt en fyrri aðstoð frá ríkinu. Á síðustu 4 árum hefur ríkissjóður lagt fram samtals 67 milljónir króna til viðbótar lögboðnum útflutningsbótum þ.e.a.s. þetta hefur í raun gengið til að greiða bændum hluta af því sem vantaði upp á að þeir næðu launum sínum. Þessi aðstoð hefur verið mjög mikilvæg og hana ber að þakka. Þetta hefur hins vegar ekki stuðlað að því, að samræmi skapaðist milli framleiðslunnar og markaðsmögu- leika. Nú er í raun ætlunin að borga mönnum fyrir að hætta, eða a.m.k. draga úr framleiðslunni. Það á að draga úr þörfinni fyrir aðstoð ríkis- sjóðs strax á næsta ári.“ Nýjar búgreinar Það mun láta nærri, að sá sam- dráttur, sem er fyrirhugaður hjá sauðfjárbúskapnum, nemi 10-14%, en sé litið til búvöruframleiðslunnar í heild nemur hann 3-4%. Ef þessi samdráttur lendir fyrst og fremst á vissum héruðum, getur hann leitt til byggðaröskunar og í heild til fækkunar fólks í sveitum. Því er nauðsynlegt að hafizt sé jafnhliða handa um eflingu nýrra búgreina til að afstýra slíkri öfug- þróun. Þetta hefur líka verið til mikillar umræðu hjá bændasamtökunum. Há- koni Sigurgrímssyni fórust þannig orð um þetía efni: „Talsvert skortir á að við framleið- um nóg af grænmeti og kartöflum. Þarna er því ærið verkefni að vinna og ég kvíði ekki framtíð þeirra bænda, sem haft geta atvinnu af því. Ég held Iíka að við höfum alla möguleika á að fylla það skarð, sem myndast við samdrátt í suðafjárframleiðslunni. Mér virðist að þeim megi í stórum dráttum skipta í tvo flokka. Annars vegar búgreinar, sem hafa möguleika á að ná verulegu umfangi og skipa sér við hlið hinna hefðbundnu greina landbúnaðarins og hins vegar greinar sem tiltölulega takmarkaður hópur bænda hefur möguleika á að stunda. í fyrri flokknum tel ég verða Ioðdýraræktina, fiskeldi, ylrækt og skógrækt en í hinum síðari m.a. nýtingu hlunninda, heysölu, ferða- þjónustu og ýmiss konar aðra þjónustu við þéttbýlisbúa. Að mínu mati er loðdýraræktin langlíklegust til að geta á skömmum tíma orðið umfangsmikill þáttur í landbúnaði. Ef vel og skipulega er að þessum málum unnið er engin fjarstæða að hugsa sér að 5-8 hundruð bændur geti haft tekjur af loðdýrarækt hér á landi að 5-8 árum liðnum. Loðdýrarækt hefur þann kost að henta vel sem hliðarbúgrein t.d. með sauðfjárrækt. Ég tel því afar mikilvægt að henni verði eftir því sem kostur er beint til þeirra landshluta, þar sem mest er þörf að auka tekjur bænda og búskapur stendur höllum fæti og til bænda, sem draga vilja úr framleiðslu nautgripa og sauðfjárafurða. Ég legg áherzlu á það, að í nýbúgreinunum eru fólgnir möguleik- ar, sem eiga að geta tryggt framtíðar- stöðu landbúnaðarins og blómlegt atvinnulíf í sveitum þrátt fyrir sam- drátt í hefðbundinni framleiðslu." Loðdýraræktin Það kom fram í viðtalinu við Hákon Sigurgrímsson, að hann telur loðdýra ræktina vera álitlegasta. Fyrir rúmu ári, eða í marz 1981 skipaði landbúnaðarráðherra sérstaka nefnd, sem fékk það verkefni að marka framtíðarstefnu í loðdýrarækt- inni og færa hana í þann farveg, að hún yrði fyrst og fremst aukabúgrein til styrktar byggðajafnvægi. Formaður nefndarinnar var Haukur Jörundsson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðu - neytinu. í grein eftir Hauk, sem birtist hér í blaðinu 27. f.m., gerir hann nokkra grein fyrir störfum nefndarinnar. Hann sagði m.a.: „Fyrsta verkefni nefndarinnar var að endurskoða lögin um loðdýrarækt. Voru gerðar allmiklar breytingar á þeim, sem m.a. stuðla að minni stofnkostnaði í húsum og að gera það mögulegt að nýta gamlar byggingar, með breytingu, án þess þó að slaka á vörslu dýranna. Þannig nýtast hús, sem bóndi hefur þegar byggt og hann sparar stórlega byggingarkostnað. Lögin voru samþykkt í maí 1981. Næst var reglugerðin tekin til endurskoðunar. Það verður að játast, að hún hefur reynzt erfið í smíðum af ýmsum ástæðum. Lausn er þó fengin á þessum vanda, a.m.k. í bili, svo nú er hún tilbúin til prentunar. Jafnframt þessu hefur verið unnið að því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefði það fé til ráðstöfunar, sem þörf krefur vegna stofnunar loðdýrabúa. Þar hafa einnig fleiri hlaupið undir baggann. Þótt lög segi ekki annað en að ráðuneytið skuli, að fenginni umsögn Búnaðarfélags íslands, veita leyfi til stofnunar loðdýrabúa, hafa í fram- kvæmd verið með í ráðum þeir aðilar, sem nefndina skipuðu“. I grein Hauks Jörundarsonar sagði ennfremur: „Veigamikill þáttur í því að vel takist til með loðdýraræktina er sá, að þeir sem atvinnu þessa stunda séu starfi sínu vaxnir, hafi þá þekkingu sem til þarf, svo störfin séu rétt af hendi leyst. Þess vegna hefur landbúnaðarráðuneytið áhuga á því að koma á fót kennslubúum í loðdýrarækt við bændaskóla. Ríkið hafði ágætan mann á sínum vegum i eitt ár til að leiðbeina fyrstu refabændum landsins í byrjun og hétu þeir bændur því að miðla þeim leiðbeiningum til annarra er byrja vildu. Auk þess hafa verið haldin námskeið á búi þessara leiðbeinenda fyrir byrjendur. Ríkið hefur stutt náms - og kynnisferðir til útlanda í þeirri grein. í hverju loðdýrabúsleyfi eru menn hvattir til að kynna sér allt er ræktunina varðar. Annars er hinn faglegi fræðsluþáttur á vegum Búnaðarfélags fslands. Veit ég að menn þar á bæ hafa lagt sig fram við fræðsluna með námskeiðum, fundum, útgáfu bókar um refarækt o.fl. Tryggt hefur verið aukið fé á vegum ríkisins til sérfræðiþjónustu.“ Á aðalfundi Stéttarsambands bænda mun það áreiðanlega ekki aðeins rætt, hvernig háttað skuli aðgerðum til að fækka sauðfé og draga úr sauðfjárbúskapnum, heldur engu síður eða öllu heldur um eflingu nýrra búgreina og hvernig þeim megi hraða sem mest. Það mun sýna sig hér eins og oftar, að bændur eiga árvakan , og traustan forustukraft þar sem samtök þeirra eru. Þórarinn Þórarinsson, Hl ritstjóri, skrifar

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.