Tíminn - 02.12.1982, Blaðsíða 20

Tíminn - 02.12.1982, Blaðsíða 20
FIMMTUDAGUR 2. DESEMBER 1982. 20 Byggt og búið í gamla daga Danskar sveita- kirkjur fráSturl- ungaöld ■ Prédikunarstóll í Öster-Jölbykirkju. Séra Lau Jörgensen í stólnum. ■ Fyrrum var Danmörk vaxin miklum skógum eins og nafnið Danmörk (Dana- skógur) bendir til. Timbur víðast nær- tækt til bygginga. En að því rak að farið var að byggja úr steini, aðallega granít, þegar menn komust á lag með að kljúfa og höggva þetta harða, endingargóða efni til bygginga. Fornu timburhúsin eru horfin fyrir löngu en fjölmörg steinhús, einkum kirkjur reistar á Sturlungaöld (og jafnvel fyrr), standa enn. Undirstaða Danmerkur er kalk og sandsteinn, sem einnig er byggt úr, en granít frnnst ekki í föstu bergi í Danmörku. En heilmikið af „lausum" granítsteinum er í jörðu. Ffvaðan eru þeir komnir? Jú, frá fjöllunum í Noregi og Svíþjóð, farartækið ísaldarjöklar! Granít er allbreytilegt og er stundum hægt að ákvarða hvaðan úr Skandinavíu granítið hefur borist á ýmsa staði í Danmörku. Mikið af granítsteinum kemur víða í ljós þegar land er rutt til ræktunar og er notað í byggingar og grjótgarða. Eittthvað af graníti mun einnig hafa verið flutt inn fyrr á öldum til ríkmannlegra bygginga. Eitt af því sem eftirtekt vekur á ferðalagi um Danmörku eru hinar ótalmörgu gömlu steinkirkjur úti um allt landið, líklega flestar frá Sturlunga- öld, eða þar um bil. Einnig þó nokkrar klausturbyggingar. Danmörk varð snemma þéttbýlt land með borgum og fjölda sveitaþorpa. Akrar voru snemma hvað mestir á Jótlandi, og getur orsökin verið sú að þar er víða sendið land sem frumstæðir plógar unnu betur á en þéttum leirnum í austanverðu landinu. Víkjum að gömlu kirkjubyggingunum. Talið er að á tímabilinu 1050-1200 hafi verið reistar um tvö þúsund steinkirkjur í Danmörku og standa furðu margar þeirra, þ.e. aðalkirkjan, en tumi víða bætt við síðar, vopnahúsi og hvelfingum. Hvað olli hinum ótrúlega mörgu og miklu kirkjubyggingum á tiltölulega skömmum tíma? Á 12. öld varð kirkjan miðstöð hins andlega lífs, og lét sig einnig skipta hið veraldlega. Hélst svo á miðöldum að kirkjan var „ríki í ríkinu“ og átti ásamt klaustrunum miklar eignir. Margar voru kirkjurnar hinar vegleg- ustu, t.d. kirkjumar í Rípum, Viborg, Hróarskeldu og Lundi, allar byggðar á 12. öld eða litlu síðar. Skánn o.fl. héruð í Suður-Svíþjóð lutu þá Danmörku. Kóngar o.fl. stórmenni munu hafa látið reisa stærstu kirkjurnar, en efnabændur og sóknarfólk hinar minni, einkum í sveitum og þorpum. Það varð stöðutákn að byggja kirkju og var talið stuðla að sálarheill. Nokkurt jarðnæði fylgdi víða bæði fyrir prest og til viðhalds kirkjun- um. Flestar þessar fornu kirkjur eru hlaðn- ar úr stórum rauðbrúnum, tilhöggnum granítsteinum, en færir steinsmiðir voru snemma uppi í Danmörku. Verkmennt- in barst að sunnan, þar á meðal múrsteinagerðin á síðari hluta 12. aldar. Eftir það var smám saman farið að byggja turna og hvelfingar við kirkjurn- ar. Múrsteinarnir voru oft nefndir munkasteinar, því að klausturbræður munu hafa átt þátt í útbreiðslu þeitra o.fl. framfara. Talið er að flestir kirkjuturnar í Danmörku séu reistir á tímabilinu 1450-1550. Voru sumir hagnýttir sem varðturnar, einnig til geymslu ýmissa muna, og þaðan ómar klukknahringing- in. Víða hattar fyrir í gömlu kirkjubygg- ingunúm, aðalkirkjan (skipið) er hlaðin úr graníti, en turninn úr múrsteini. Drjúgum urðu kirkjurnar tilkomumeiri með tilkomu turnanna. Stærstu, mikilfenlegustu kirkjumar standa í borgum, en fjölmargar þorpa-og sveitakirkjur, álíka gamlar, eru og hinar markverðustu og sannarlega verðar skoðunar. Standa víðast ætíð opnar. Steinveggirnir mjög þykkir, gluggar litlir, sitja hátt uppi og eru nú með fjölmörgum smárúðum. Ber að minnast þess að „Kirkjan foma virid var á vondum timum; góðum og illum griðastaður, geymir lykla helgur maður.“ Á sumrin er svalt og þægilegt inni í þessum kirkjum, þær eru með múrsteinagólfi og hvítkalkaðar innan, sumar með kalkmálverkum. Allvíða er múrað upp f upprunalegu dymar og aðrar stærri gerðar síðar á turni eða framhlið. Gömlu dyrnar stundum kall- aðar kvennadyrnar og talið að kvenfólk gengi þar um forðum, en karlar um hinar stærri og veglegri! Verkmennt barst að sunnan, einkum með kristninni, frá Pýskalandi, Bret- landi, Frakklandi og Ítalíu. Fyrsti bygg- ingameistari kirkjunnar miklu í Lundi hét Donatus og var frá N-ltalíu, svo dæmi sé nefnt. Byrjað var á dómkirkju þessari árið 1103, sama ár og settur var erkibiskupsstóll í Lundi fyrir öll Norður- lönd. Kirkjan í Lundi var dönsk dóm- kirkja allt til 1658, er Svíar náðu Skáni á sitt vald. Steinhöggvarar unnu lengi með sleggju, öxi og meitli, en á 11. ö(d skipti allmjög um, er oddhamar og múrskeið tóku við. Nú varð vel fært að byggja stórar hvelfingar og háa turna úr múrsteinum. Hin geysistóra og veglega dómkirkja í Hróarskeldu er úr rauðum múrsteini. í Danmörku hurfu timbur- kirkjur smám saman, en steinkirkjur komu í staðinn. Eftir þetta forspjall verður dálítið vikið að gömlu, dönsku sveitakirkjun- um, einkum á eyjunni Mors í Limafirði, en þar leit undirritaður inn í alimargar kirkjur í sumar (1982). Á Hjerl heiði í Thy hefur verið gerð kirkja eins og menn hyggja að elstu steinkirkjumar hafi yerið. Veggir eru grófir, hvítkalkaðir, gólfið lagt hnull- ungum, engin sæti. Ein klukka hangir úti á stafni, enginn tum. Granítsteinar í veggjum heldur óvandlega tilhöggnir. Á Hjerl heiði er safn gamalla húsa með húsmunum og áhöldum, mjög forvitnilegt. „Margur lagði stein við stein í stóra kirkju, fyrir átta hundrað árum, oftlega vígðan svita og tárum.“ Litið á gamlar danskar sveitakirkjur: Sveitakirkjur eru taldar um 1500 að tölu í Danmörku, flestar byggðar á 12. og 13. öld. Auðvitað hefur oft verið gert við þær, turni o.fl. útbyggingum bætt við sumar, en stofninn hefur haldist furðan- lega, staðið af sér stríð og veður. Sveitakirkjurnar setja svip á landið. Þær standa víða á hæðum og gnæfir turninn yfir umhverfið, þorp, akra og skógar- lundi. Granítveggjaliturinn rauðbrúnn, en múrsteinatumarnir víðast kalkaðir hvítir, eins og veggir kirknanna að innanverðu. Margar kirkjur standa í útjaðri þorpa og skógarlunda, girtar graníthlöðnum kirkjugarðsveggjum; víða hlöðnum úr óhöggnum hnullungum, tíndum saman á ökmnum. Kirkjugarðar eru vel hirtir með miklu af limgerðum og blómum, auk ótalmargra legsteina. Sléttklippt limgerði og allavega klipptir toppar úr lífviði. (Tuja eða Kýpris) setja mjög svip á kirkjugarðana. Fræg em gömul kalkmálverk á veggjum margra danskra kirkna, máluð - listavel. Víða hefur seinna verið málað yfir þau, en hægt er að hreinsa málning- una af og hefur þá margt listaverkið komið í ljós, með efni úr ritningunni. Líklega hefur söfnuðurinn hlýtt messu standandi til forna, eitthvað af bekkjum kannski úti við veggi. En á siðaskipta- tímunum voru mörg sæti sett í kirkjum- ar. Skírnarfontur úr granít, vönduð smíði, er í öllum kirkjum, skírnarskál misdjúp ofan á. Fonturinn stóð á miðju gólfi á upphækkun, meðan kirkjurnar voru sætalausar. Nú stendur hann inni við kórinn. Flestir eru skírnarfontarnir grunnir, en einstaka með svo djúpri holu að um niðurdýfingarskírn getur hafa verið að ræða. Margar kirkjuklukkur mjög gamlar og eins sumir ljósahjálmar. Víða gefur að líta gömul Kristslíkneski (krossfestingin) á veggjum og í allmörg- um kirkjum hangir skipslíkan með rá og reiða, forkunnar vel gert. Mikið skraut er víða, einkum altaristaflan og prédik- unarstóllinn, oft frá endurreisnar- tímabilinu. Á 15. öld var flutt inn allmikið af máluðum og útskomum altaristöflum frá norður þýskum verk- stæðum. Margar gömlu kirkjumar í rómönskum stíl, munu byggðar eftir vestur- og norður-þýskum fyrirmyndum. Áhrifa gætti þó einnig lengra að sunnan, frá Frakklandi og Ítalíu. Fögur málverk eru á mörgum altaristöflunum, einnig logagyllt skraut og margar ritningar- greinar. Gyllingin er þó meiri á sumum prédikunarstólunum, einnig fagrar súl- ur og listilegur útskurður. Margir lista- menn hafa auðsjáanlega unnið í þjón- ustu kirkjunnar öldum saman, hún hefur gefið þeim verkefni og færi á því að njóta hæfileika sinna. Altarið er víða af einfaldri gerð, sums staðar hlaðið úr fáeinum stórum granít- steinum, líklega svipað því sem verið hefur til forna. Víða munu kirkjurnar gömlu hafa verið reistar þar sem hof stóðu áður. Hofin voru aðallega bústaður goðanna, þar inni stóðu líkneski af þeim. Kirkjan var meira ætluð söfnuðinum og varð því að vera allstór. Messur fyrri tíma voru fjölmennari, þar var þegn.skaparskylda að sækja messu. „Klukkur klingja um eyju alla, ár og síð til messu kalla“ í júlí s.l. gekk ég víða um eyjuna Mors í Limafirði, íbúar um 25 þúsund, iðnaður, verslun og miklir kornakrar. Ég leit inn í allmargar kirkjur en þær eru 34 að tölu, flestar mjög gamlar. Hlýddi messu í stórri, ungri kirkju í Öster-Jölby þorpi, hún er aðeins llö ára gömul. þetta er fríkirkja, byggð úr rauðleitum múrsteini, stór álmgöng varða veg að henni. Prestur Lau Jörgen- sen, fyrrum blaðamaður, studdi málstað okkar í handritamálinu. Mynd sýnir séra Lau í stólnum og hvílíkur prédikunar- stóll! Gerður sem bláklukkublóm, bæði sérkennilegur og fagur. Stór, tæplega 100 ára kirkja í höfuðstað eyjarinnar Nyköbing, er líka úr rauðum múrstein- um. En hinar kirkjumar á Mors eru flestar fremur litlar, hlaðnar úr granít- steinum og að stofni til frá 12. og 13. öld. Fyrir mörgum þeirra eru þykkar eikarhurðir með stórum lykli. Dyr á tumi eða hlið kirkjunnar, víða allstór tumhvelfing niðri. Þú kemur inn á múrsteinagólf, sums staðar með dregli milli sætaraðanna allt inn að kór. Kirkjubekkir víðast brúnmálaðir, sums staðar lokaðir með hurð og hespu. Brúnt timburloft yfir, hvílir á sverum bjálkum. Fer þetta vel við hvítkalkaða veggina. Gluggar hátt uppi með litlum rúðum í járnumgerð; jafnvel 20-30 smárúður í glugga. Á prédikunarstólunum, sem margir hverjir eru mjög skrautlegir með myndum, súlum og tréútskurði, stend- ur kannski Anno 1600, eða Anno 1700, sumir jafnvel enn eldri. (Sums staðar einnig viðgerðarártal). Margar altaris- Ingólfur Davídsson, skrifar ■F 1359 töflur líka gamlar og fagrar, t.d. stórar, litskrúðugar vængjatöflur, mikil djásn. Og þó eru þetta kirkjur í litlum sveitum eða sveitaþorpum. Svipað gefur að líta víða í Danmörku. Lítum inn í Tödsö- kirkju á Mors, sem dæmi . Þetta er fremur stór sveitakirkja, sem stendur á hæð í útjaðri þorps, hálfhulin af stór- vöxnum álmtrjám. Aðalkirkjan (skipið) er hlaðin úr stórum tilhöggnum rauð- brúnum granítsteinum, talin vera frá því um 1200. En hvítkalkaður turninn er yngri, frá því um 1400, hlaðinn úr munkasteinum (múrsteinum). í kirkj- unni er mjög fögur altaristafla í endur- reisnarstíl og skrautlegur prédikunar- stóll með miklum útskurði, myndum, gyllingu og fjölda ritningargreina. Múr- að er upp í eldri og minni dyr kirkjunnar. Allstórt pípuorgel er í fremri enda kirkjunnar, gegnt kór. Talið er að miklir síldarpeningar á fyrri öldum hafi gert fært að byggja svo veglega kirkju úti í sveitaþorpi. Voldug- ar klukkur eru í turninum, sumar mjög gamlar. Við sumar litlar kirkjur var klukkan aðeins ein, t.d. í Erslev og hangir úti í timburporti. Ljósahjálmar víða stórir og gamlir. Mikið er að sjá og skoða í ýmsum fleiri gömlum kirkjum á Mors, t.d. Fröslev, Kærby, Lödderup og Vejerslev. Sumar gamlar kirkjur virðast að kalla má byggðar sem virki. Sámsey er fræg í fornum sögum, þar koma t.d. Hjálmar hugumstóri, Angantýr berserkur og Örvar-Oddur við sögu. Kirkjan í aðal- þorpinu þar (Tranebjerg) er með 5 hæða turn, byggðan sem virki, meira að segja með skotraufum, sem snúa niður á við, götum til að hella út um sjóðandi vatni! Tuminn var byggður um 1500 og er 28 m hár. Kirkjan er frá 14,öld. Rétt hjá er hlaða þar sem kirkjuskatturinn (korn o.fl.) var geymdur. Hvernig stendur á því að á eyjunni Mors, og raunar úti um alla Danmörku, eru fjölmargar kirkjur o.fl. byggingar sem hafa staðið af sér sjö eða átta aldir, en engin á fslandi? Eyjan Mors er aðeins 363 ferkílómetrar að stærð, íbúar um 25 þúsund nú, en hafa verið nokkru fleiri. Mors er stærsta ey á Limafirði og tengja hana nú tvær miklar brýr við strand- byggðina, þe. Vilsundbro (frá 1938), 400 m löng, og Sallingbro, tveggja ára, 1700 m löng. Mesta hæð yfir sjó um 90 m. Það er ólíku saman að jafna Mors og íslandi! Víkjum að byggingasamanburðinum. Danir eiga heima hjá sér gott, varanlegt byggingarefni, granít og kalkstein, sem hægt er að kljúfa og höggva. Aftur á móti er íslenska blágrýtið víðast illkleyft og lítið um náttúrlegar hellur. Grástein má þó kljúfa og hagnýta til bygginga. Alþingishúsið, fangahúsið o.fl. hús og garðveggir í Reykjavík eru úr honum. og norður í Hólabyrðu í Hjaltadal er rauðleitt sandsteinslag, sem Hóladóm- kirkja er hlaðin úr. Fullgerð 1763. Viðeyjarstofa, fullgerð 1754, er talin fyrsta hús hér á landi, sem hlaðið er úr höggnum, íslenskum steini. Nokkur hlaðin steinhús fylgdu fljótlega á eftir, Nesstofa og Bessastaðastofa 1764-1765. Munu sömu steinsmiðir og múrarar hafa unnið að báðum. Núverandi stjórnarráð (fangahúsið, múrinn) reist 1770-1771 o.s.frv. Sem sé, ekkert steinhús frá miðöldum til á Islandi, en aftur á móti á Grænlandi! Steinkirkjan að Görðum í Eystribyggð hefur verið mikil bygging. Byggingarefni gott á Grænlandi, þar skortir ekki granítberg. Kirkjubygginga er alloft getið í íslendingasögum, þær kirkjur hafa verið úr torfi og timbri, sumar veglegar. Timbur sóttu mektar- menn til Noregs og rekaviður hefur verið mikið hagnýttur til bygginga. Fleira kemur til en byggingarefnið. ísland var lengi einangrað, en siglingar lögðust að verulegu leyti niður. Þjóðin var bláfátæk öldum saman, þó að einstaka menn söfnuðu auði. Timbur- skortur varð tilfinnanlegur. Þá hefst tímabil torfbygginganna. Þjóðarauður Dana var meiri, a.m.k. meira um fésterka menn. Danmörk liggur mjög vel við samgöngum, m.a. við iðntækni- ríkið Þýskaland. Ahrifa gætti einnig frá Frakklandi og Suðurlöndum. Utan- ríkisverslun mikil£n hrjáð var Danmörk oft af styrjöldum. fslendingar geta ekki státað af gömlum byggingum. En þeir eignuðust heimsbókmenntir á 12. og 13. öld. Heimild „Danmarks historie".

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.