Tíminn - 23.12.1982, Blaðsíða 3

Tíminn - 23.12.1982, Blaðsíða 3
FIMMTUDAGUR 23. DESEMBER 1982 ■ Heilög guðsmóðir, eftir Theophanes hinn gríska. Myndin er frá því 1405. Myndin er varðveitt í Kreml í Moskvu. ■ Heilagur Nikulás. Grískur íkon frá 1717. Séra Rðgnvaldur Finnbugason skrifar ■ Kristur kemur i dýrð sinni, eftir Andrei Rublev. Myndin er frá því um 1420 og er varðvcitt í Tretyakov safninu Moskvu. púrítanar í eins konar tvíhyggj uvillu. Efnið var í þeirra augum af hinu illa og því varð trúin að vera ósnortin af öllu efnislegu. f þeirra augum hlaut hið andlega að vera óefnislegt með öllu. En á þennan hátt misskilja menn holtekju Guðs, mennsku Krists, líkama hans, segja guðfræðingar Austur- kirkjunnar. Guð íklæddist efnislegum líkama og sannaði með því að hægt er að endurleysa efnið, þ.e. gera það guðlegt, andlegt. „Það orð er varð hold gjörði holdið guðlegt,“ segir Jóhannes frá Damaskus. Guð hefur gert efnið „guðlegt" með því að gera það að „farvegi fyrir andann“. Og ef holdið varð farvegur fyrir andann, þá gat - þótt á annan hátt væri - viður og litur einnig orðið það. Kenning Austsurkirkjunn- ar um íkónana er samofin þeirri trú kirkjunnar, að öll sköpun Guðs, efnisleg sem andleg, verði endurleyst og gerð guðleg. Nikulás Zernov kemst svo að orði um þessa hluti: „íkónarnir voru í augum hinna trúuðu ekki aðeins málverk. Þeir voru lifandi tákn um andlegan kraft mannsins, og mátt hans til að endurleysa sköpunar- verkið í krafti fegurðar og listar. Litir og línur íkónamyndarinnar áttu ekki að líkja eftir náttúr- unni; listamennirnir leituðust við að sýna, að mönnum, dýrum og plöntum og sköpuninni allri mætti bjarga frá niðurlægingu sinni og endurreisa í sinni réttu mynd. íkónarnir voru fyrirheit um sigur hinnar endurleystu skepnu yfir hinni föllnu... Listræn fullkomnun í helgimyndinni var ekki aðeins endurspeglun á himneskri dýrð, hún var áþreifan- legt dæmi um efni sem á ný hafði endurheimt fyrra samræmi og fegurð og skyldi þjóna sem verkfæri andans. íkóninn var hluti af hinum ummyndaða alheimi." Kristin list og heiðnar hefðir Eins og fyrr segir litu margir kristnir menn á íslam eða múhameðstrú fyrstu aldirnar sem nýja villu- kenningu kristna og vissulega eru þessi trúarbrögð skyld og lík um margt, þar sem þau bæði eru greinar af hinum aldna meiði gyðingadómsins. Mér þykir þó líklegt, að í mynddeilum 8. og 9. aldar hafi skýrst munur þessara trúarbragða og þeirra lífsviðhorfa er að baki þeim liggja. íslömsk mynd- og skreytilist einkennist af hinum óhlutlægu myndum, geometr- iskum mynstrum og formum, þannig að enginn þarf að fara í grafgötur um það, hvort heldur hann stendur í bænahúsi í Fez í Marokkó eða mosku austur á Java, að hann er á menningarsvæði íslams. Engin slík afdráttarlaus einkenni er að finna í kristinni helgilist. Það er ekki aðeins að hún hafi á 9. öld brotist undan viðjum þeirra púrítana er vildu leggja á hana fjötra strangrar forskriftar eða gera hana útlæga með öllu úr helgidómum sínum, heldur hefur hún fóstrað hinar ólíkustu stíltegundir og veitt listamanninum meira svigrúm og frjálsræði en fundið verður í annarri helgilist. Eins og helgimynd- irnar eiga sér forkristilegar samsvaranir og fyrir- myndir, þannig hefur kristin helgilist allt til þessa dags verið óhrædd að tileinka sér hið lífvænlegasta úr list samtíðar og fortíða, án tillits til þess hvort þar koma til „ókristin" heiðin áhrif eða ekki. Jafnvel hin elsta kristna skreytilist beygir sig algjörlega undir listræna hefð samtímans. Því fyrirfinnst engin sérstök kristin stíltegund heldur ber kristin myndlist á öllum tímum merki síns tímabils og umhverfis. Við höfum rætt um það að elstu íkónarnir, sem voru trémálverk, ættu sér fyrirmyndir í egypskum múmíumyndum, en þeir áttu sér einnig fyrirmyndir í keisaramálverkum. Lýsingar í handritum urðu einnig fyrirmyndir að íkónum, svo og ýmsar mannamyndir. Þannig var til mikill fjöldi fyrirmynda, sem voru almenningi að nokkru kunnar og listamenn gátu leitað til. Ýmis atriði voru tekin upp í hina nýju kristnu list, þegar hægt var að samræma þau tilgangi hennar. Á fjórðu öld kemur fram geislabaugur á myndum af Kristi og á 5. og 6. öld er hann einnig á dýrlinga- og englamyndum. Hliðstætt hinu egypska lífstákni - ankh - í egypskri myndlist, sem er T með hring yfir miðjum lárétta leggnum (^), halda kristnir píslar- vottar krossmarki að brjósti sér. Einnig var sú venja tekin upp, að bæta nafni viðkomandi persónu inn á myndina til frekari skýringar, en nafnið veik síðar fyrir einhverri táknmynd. Það var ekki kirkjan sjálf, sem stjórnaði þróun myndlistarinnar er til lengdar lét, heldur listamennirnir. Tæknilegar hliðstæður sýna einnig sambandið milli kirkjulegrar og verald- legrar listar. Það er til dæmis ekki einskær tilviljun, að elstu íkónarnir sem við þekkjum, í St. Katrínarklaustri á Sinaifjalli, eru innbrennd verk eins og múmíumyndimar egypsku, það er að segja, þær voru málaðar með vaxlitum og síðan brenndar í viðinn. íkónar og alþýðulist Austurkirkjan reyndi þó í lengstu lög að neita að viðurkenna þetta samband við veraldlega list- sköpun, bæði hvað snerti hina listrænu hlið og tæknina sem notuð var. En auðvitað væri það einföldun á hlutunum að ætla sér að leiða alla kristna myndlist af fyrirmyndum í egypskum gröfum, því að hin kristna list þróaðist við mjög svo mismunandi skilyrði á ýmsum stöðum og ótrúlegt að listamenn t.d. í Gallíu eða á Spáni hafi haft hugmynd um þessar egypsku myndir. En myndir sem varðveist hafa frá Egyptalandi og nágrannalöndum þess sýna greinilega, að náið samband hefur verið þarna á milli landa. Það er því of djúpt tekið í árinni að álykta, að öll íkónalist eigi rætur að rekja til múmíumyndanna egypsku. Fleiri tegundir mynda af veraldlegum toga voru einnig til og við megum heldur ekki gleyma þeirri staðreynd, að pílagrímar þyrptust til landsins helga og fluttu með sér til Vestur-Evrópu ýmsar austrænar hugmyndir um málaralist og myndbygg- ingu. Ikónar þeir sem varðveitst hafa frá því fyrir tíð helgimyndbrjótanna eru af þessum sökum mjög ólíkir að allri gerð, og þeir örfáu íkónar sem til eru frá 6. og 7. öld bera merki einfaldrar alþýðulistar, þótt einnig megi þar kenna líkingu við samtíma mósaikmyndir frá Saloniki og Ravenna, sem bendir fremur til þess að myndirnar séu unnar á verkstæðum höfðuborgarinnar, Miklagarðs. Það er eiginlega ekki fyrr en frá því eftir lok fyrsta árþúsunds sem verulegur fjöldi íkóna hefur varðveitst. Margar eldri myndir lentu í klóm myndbrjótanna eða urðu eðlilegri hrörnun að bráð, og ef til vill geymast sumar enn undir lagi málningar frá seinni tímabilum. Mikligarður - vagga kristinnar listar Heimsborgin mikla, Konstantinópel - Mikligarð- ur, varð um aldir sú móðir kristinnar myndlistar er frjóvgaði menningu Evrópu. Og þaðan komu þeir listamenn einnig er byggðu ýmsar frægustu og fegurstu moskur múhameðsmanna eins og Stór- moskuna í Damaskus og Klettamoskuna í Jerúsal- em. En etv. hafa áhrif hinnar byzönsku myndlistar hvergi orðið stórfenglegri né varanlegri en í Rússlandi. Eftir að Rússar gerðust kristnir skömmu fyrir árið 1000 varð Kiev miðstöð kristinnar myndlistar og byggingarkúnstar. Þangað streymdu byzanskir listamenn er kenndu hinum nýkristnuðu Slövum list sína, sem þeir síðan frjóvguðu og gæddu ferskum nýjum krafti og lífi. Fátt eða ekkert lifir nú af helgimyndum hinna elstu rússnesku meistara. Þeir lifðu og störfuðu þar sem herir mongólsku herkonunganna fóru báli og brandi um héruð og eirðu engu, dauðu né lifandi. Borgin.Novgord slapp þó við herhlaup þeirra og í söfnum hennar er að finna flest dýrlegustu listaverk liðinna alda. Hin rússneska íkónalist stóð rótum í byzanskri hefð fram eftir öldum og sú myndlist leit vestræna málaralist endurreisnartímans og seinni alda horn- auga. Fræg er sagan af biskupnum sem falað hafði málverk af meistaranum Titian. Er hann sá myndina vakti hún með honum viðbjóð og hneykslun og hann neitaði að taka við henni. „Hinar hneykslanlegu myndir yðar rísa upp úr myndfletinum. Þær eru engu betri en líkneskjur,11 er sagt að hann hafi haft við orð. Svo mikið er víst að rússneski patríarkinn Jóakim bætti eftirfarandi klausu aftan við erfðaskrá sína árið 1690: „Ég bið og sárbæni yðar háverðugu keisaralegu tign að 3 skipa svo fyrir, að hinar helgu myndir af Drottni holdteknum í Jesúm Kristi, af heilagri Guðsmóður og öllum dýrlingunum séu málaðar samkvæmt fornri grískri hefð, eins og allir okkar kraftaverka- íkónar eru gerðir, og þær verði ekki málaðar í þeim smánarlega nýmóðins og ósiðlega stíl í líkingu latneskra og germanskra mynda, en sá still á rætur að rekja til losta þessara villutrúarmanna og er andstæður venjum kirkju vorrar. Skyldu myndir sem þessar fyrirfinnast í einni einustu kirkju í keisaradæmi voru verður að varpa þeim út. Því að' trúvillingamir sýna hina helgu guðsmóður... sem ól Krist með bert höfuð og skraut í hári. Þeir mála einnig aðrar helgar meyjar berhöfðaðar og helga menn samkvæmt siðum sinna eigin landa. Myndir sem þessar hafa aldrei verið notaðar í grískum eða rússneskum kirkjum og þær á ekki að leyfa heldur nú. Við trúum því, að hin allra helgasta móðir Guðs hafi enn verið mey eftir fæðingu Krists. Kirkjan hvorki vill né getur viðurkennt slíkar myndir." Andrej Rúbljoff Frægastur allra rússneskra íkónamálara sem myndir hafa geymst eftir er Andrej Rúbljoff og mynd hans af heilagri þrenningu, sem hann málaði um 1411, er talin taka flestu fram er þessi listgrein geymir. Um þá mynd fórust enskum listgagnrýn- anda, Robert Byron, orð á þessa leið, er hann sá myndina skömmu eftir að hún hafði verið hreinsuð og skírð upp: „Þessi sýn var sem opinberun, ég hafði fyrir augum mesta snilldarverk sem nokkur slavneskur málari hefur unnið, listsköpun sem ekki á sér nokkra fyrirmynd, hvergi í heimi listarinnar get ég fundið hliðstæðu við þetta verk. Ég sá að vísu ekki snilldarlegasta málverk sem ég hafði augum litið, en þetta var í stórfengleik sínum svo frábrugðið öllum öðrum og vék svo mjög frá viðurkenndum listaverkum, að ég hefði ekki trúað að slíkt væri mögulegt." Og sannarlega er þetta meistaraverk rússneskrar íkónalistar. Rúbljoff tileinkaði íkón þennan minn- ingu heilags Sergiusar frá Radonezh, stofnanda klausturs heilagrar þrenningar og kennara hans sjálfs. Myndin er gjöf mesta listsnillings rússneskra miðalda til kirkju hans og höfuðdýrlings. Listin umskapar mann og m old Rómversk-kaþólska kirkjan og Austurkirkjan eða Orþodoxakirkjan öðru nafni hafa stundum verið bornar þungum sökum af þeim mönnum er hafa skapferli íkónaklastanna, hinna púrítönsku myndbrjóta 8. og 9. aldar, fyrir að hafa hleypt inn í kirkjuna heiðnum siðum og hugmyndum. Ekki hafa þessar ásakanir alltaf verið sanngjamar né á rökum reistar. Sá heiðindómur, ef nota má það hljómljóta orð, sem ekki varð útrýmt, hann var kristnaður og fékk um leið nýtt gildi, nýjan hljóm. Enski trúarbragðafræðingurinn Frazer segir t.d. frá því, að allt fram undir síðustu aldamót hafi það verið viðtekinn siður víða í Úkraínu, að prestar veltu sér upp úr akurmold er hún hafði verið plægð á vorin til að auka frjómátt jarðar. Þarna var á ferðinni eldforn siður, tengdur gamalli frjósemis- dýrkun. En líf bænda í suðaustur Evrópu stóð föstum rótum í móður jörð. Þeim var jörðin enginn táradalur. Kristið fólk á þessum slóðum leit ekki þeim augum á náttúruna að hún „lægi í hinu illa“, væri synd og böli ofurseld, hún væri þvert á móti Guðs handaverk. Eftir að Guð hafði stigið niður til vor manna, gjörst maður og búið meðal vor, var veröldin orðin önnur á eftir, endurleyst undan valdi hins illa. Efnisheimurinn var ekki í viðjum hins illa, efnið ekki illt eða bölvað í sjálfu sér. Hin ósnortna fyrri dýrð lífsins var endurheimt. Allir helgisiðir kirkjunnar og list endurspegluðu þessa björtu lífstrú. í helgisögnum þessa fólks helga sakramenti kirkjunnar náttúruna líka, ekki síður en mannlegt líf. I þessari „alþýðuguðfræði" hinna slavnesku þjóða speglast þrá mannsins eftir þeirri veröld sem helguð er af návist Krists, þrá eftir þeirri paradís, sem herhlaup og styrjaldir, kúgun og áþján fá ekki frá mönnum tekið. Þessi kristindómur hefur stundum verið nefndur kosmiskur kristindómur. Bændur Austur-Evrópu litu á kristindóminn sem kosmiska líturgíu, lofsöng til allífsins. „Öll náttúran stynur og bíður upprisunnar," svo hljómar grunn- stef páskaboðskaparins, en þetta sama stef er líka grunntónninn í öllum helgisögnum og þjóðtrú þessara bændaþjóðfélaga. í augum þessa fólks er helgimyndin, íkóninn, ímynd hinnar endurleystu náttúru, hins nýja manns, þess lífs sem enginn dauði fær deytt. Og því skyldi slíkum myndum ekki kastað fyrir fugla himinsins eða þær fótum troðnar af mönnum, þegar þær höfðu máðst af sóti kerta og kossum hinna trúuðu. Þeim var búinn samastað- ur í kapellum, tshasovnja á rússnesku, og ljós látin loga þar yfir þeim svo lengi sem vottaði fyrir lit á hinum myrku fjölum. Sholokoff segir frá kósakka er gengur á vit íkóna í einu slíku tshasovnja í bók sinni Lygn streymir Don. Algengt var líka að bera gamla íkóna út á fljót eða vatn og fela þá öldum vatnsins þar sem Guð réð fyrir för þeirra Og ýmsir aðrir siðir voru um hönd hafðir þegar „dánir“ íkónar voru kvaddir. 1 Rússlandi, þar sem kirkjubrunar voru tíðir á fyrri öldum, var aldrei sagt að íkón hefði brunnið heldur að hann væri „kominn til himna“. Og lýkur hér þessum þætti af helgimyndum og myndbrjótum.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.