Tíminn - 21.07.1983, Blaðsíða 9

Tíminn - 21.07.1983, Blaðsíða 9
FIMMTUDAGUR 21. JÚLÍ1983 ■ Tómas Ámason er sextugur í dag. Við Framsóknarmenn sendum Tómasi og fjölskyldu hans hugheilar árnaðarósk- ir. Við þökkum honum ágæt störf í þágu flokksins og þjóðarinnar. Tómas er fæddur að Hánefsstöðum við Seyðisfjörð. Foreldrar hans voru Árni Vilhjálmsson, útvegsbóndi, og Guðrún Þorvarðardóttir. Tómas lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1945 og lögfræðiprófi frá Háskóla íslands árið 1949. Hann stund- aði framhaldsnám í lögfræði við Harvard háskólann í Bandaríkjunum á árunum 1951-52. Að námi loknu stundaði Tómas lög- fræðistörf, fyrst á Akureyri og síðan í Reykjavík. Einnig var hann um tíma við kennslu. Árið 1953 réðist hann til utan- ríkisráðuneytisins og veitti forstöðu varnarmáladeild fram til ársins 1960. Þá varð Tómas framkvæmdastjóri Tímans og gegndi hann því starfi til ársins 1964. Árið 1972 varð Tómas einn af forstjórum Framkvæmdastofnunar ríkisins. Um þessi hin ýmsu störf Tómasar á yngri árum mætti rita alllangt mál. Það er ekki ætiun mín. Hins vegar vil ég fara nokkrum orðum um afskipti Tómasar af stjórnmálum. Á því sviði hefur okkar samstarf fyrst og fremst verið. Það hefur verið gott og lærdómsríkt. Tómas ólst upp við landbúnaðar- og sjávarútvegsstörf. Góð þekking á þess- um gömlu undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar hefur ætíð einkennt viðhorf Tómasar og ákvarðanir. Þótt hann hafi í störfum sínum sem ráðherra og sem forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins ætíð lagt áherslu á að renna fleiri stoðum undir efnahagslíf okkar íslendinga, hef- ur hann jafnan beitt áhrifum sínum til þess að treysta sem best grundvöll hinna gömlu atvinnuvega. Opinber forsjá á' öllum sviðum er þó andstætt hugsjón Tómasar. Hann hefur litla meðaumkun með amlóðanum. Dugmiklir einstakl- ingar eru honum að skapi. Þá vill hann styðja. Eflaust á þetta rætur sínar að rekja til þess, að sjálfur erTómas atorkumaður í anda ungmennafélagshugsjónarinnar, sem hann kynntist ungur og starfaði innan, m.a. sem íþróttamaður góður. Hann vann á því sviði athyglisverð afrek á sínum yngri árum. Tómas er útivist- armaður, gofspilari góður og skíðamað- ur. Tómas hóf þegar á Akureyrar-árum sínum afskipti af stjórnmálum. Hann var varaþingmaður fyrir Eyjafjarðar- sýslu á árunum 1953-56 og síðar fyrir Norður-Múlasýslu og Austfjarðakjör- dæmi. Á þing var Tómas kjörinn 1974. Tómas varð gjaldkeri Framsóknar- flokksins 1969 og ritari flokksins varð hann 1979. Hanngegndi því embætti þar til nú í ár, að hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Tómas fór með hið erfiða starf fjár- málaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Jóhann- essonar 1978-79. Óhætt mun að fullyrða, að hann hafi lagt grundvöll að halla- lausum ríkisbúskap næstu 3 árin á eftir. í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var Tómas viðskiparáðherra og sinnti hann því starfi af sömu ábyrgð og öðrum sínum störfum. Ekki síst eru efnahagsmálin Tómasi hugstæð. Hann veit sem er, að engin þjóð fær til lengdar búið við óðaverð- bólgu og umframeyðslu í þjóðarbú- skapnum. Tómas vildi stemma stigu við slíku áður en í óefni væri komið og notaði hvert tækifæri, bæði í ríkisstjórn og á opinberum vettvangi, til þess að leggja áherslu á slík vinnubrögð. Því miður skilja sumir ekki þessi sannindi. Betur stæði íslenskt þjóðarbú nú, ef að slíkum ráðum hefði verið horfið. Tómas Ámason tók þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér til ráðherradóms í þeirri ríkisstjórn, sem nú situr. Sú ákvörðun hans, sem og að gefa ekki kost á sér til endurkjörs sem ritari flokksins, lýsir þeirri skoðun Tómasar, að endur- nýjun í stjórnmálastarfinu er nauðsyn- leg. Sýndi Tómas með þessu mikla víðsýni. En þó Tómas hafi þannig dregið sig út úr ákveðnum störfúm, fer því víðsfjarri, að hann sé hættur afskiptum af þjóðmálum. Brennandi áhugi Tómas- ar á málefnum lands og þjóðar er ríkur nú sem fyrr. Því efast ég ekki um, og reyndar veit, að við eigum eftir að njóta starfskrafta Tómasar enn um mörg ár. Samstarf okkar Tómasar er orðið alllangt og varð nánara með hverju ári. Tómas er maður, sem óhætt er að treysta í hverju máli. Hann hefur þann dreng- skap til að bera, sem mest er virði í fari hvers manns. Ekki verða hér rakin þau fjölmörgu mál, sem við höfum unnið að saman, en þetta tækifæri vil ég nota til að þakka Tómasi samstarfið og ágæt kynni. Eiginkona Tómasar er Þóra Kristín Eiríksdóttir. Þau eiga fjögur uppkomin og myndarleg börn. Tómasi og fjölskyldu hans sendi ég heillaóskir í tilefni sextugsafmælisins og endurtek jafnframt þakkir fyrir ágæt störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar. Steingrímur Hermannnsson. Einn af leiðtogum okkar Framsókn- armanna, Tómas Árnason, verður sex- tugur í dag. Ég bið Tímann fyrir afmælis- kveðju og þakkir fyrir áratugakynni og samstarf. Þaó hófst með því að Tómas tók að sér á námsárum sínum að ferðast um landið og safna fé til að gera Tímann að dagblaði, sem komst í framkvæmd 1947. Ungi maðurinn gekk rösklega og hyggilega að þessu verki með góðum árangri. Kom það raunar ekki á óvart því maðurinn var hertur og skólaður á sjó, afreksmaður í íþróttum og þekktur að dugnaði við nám. T ómas Árnason sextugur Allar götur síðan þetta gerðist hafa Tómasi látlaust verið falin trúnaðarstörf á vegum Framsóknarflokksins. Um skeið á Norðurlandi, þá framkvæmdastjórn Tímans en síðan á Austurlandi þar sem hann var til framboðs og þingmennsku kvaddur og gegnir nú því starfi sem kunnugt er. Ekki var þó látið við þetta sitj a því við var bætt sæti í framkvæmdastjórn Fram- sóknarflokksins og ritarastarfi flokksins, en því starfi fylgir í reynd, ásamt öðru, að hafa yfirumsjón með flokksstarfinu. Þegar Framsóknarflokkurinn taldi sig þurfa að koma bættri skipan á fram- kvæmd varnarmála landsins og í því skyni var komið á fót varnamáladeild Stjórnarráðsins, var Tómasi fengin for- staða hennar. Þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var komið upp 1971 til að hafa forustu um stórfellda uppbyggingu atvinnulífs víðsvegar um landið, sem þá hófst og þjóðin öll nýtur nú í ríkum mæli góðs af, var Tómas ráðinn framkvæmdastjóri þar á bæ. Tvívegis hafa Tómasi verið falin ráð- herrastörf. Fjármálaráðherra var hann í annað skiptið og viðskiptaráðherra í hitt. Öllum þessum trúnaðarstörfum hefur Tómas gegnt með ágætum. Tómas var snemma valinn í fremstu röð baráttumanna Framsóknarflokksins og hefur starfað þar áratugum saman. Hann hefur sem sé alla tíð verið á kafi í pólitíkinni eins og við segjum stundum á „fagmá!inu“, og er enn. Það var ég líka lengst af og á þann hátt hafa leiðir okkar legið saman í baráttu og starfi svo nálega er óvenjulegt og þess vegna sendi ég nú þakkir mínar fyrir afburða traust og heilsteypt samstarf. Ég neita mér ekki um að nefna það að lokum, að lengi vel vorum við Tómas göngu- og skíðafélagar. Er margs að minnast frá þeim tíma og er þó efst í huga að traustari samferðamaður mun vandfundinn og hefi ég af því dýrmæta reynslu. Við Sólveig sendum Tómasi og Þóru og allri fjölskyldunni innilegustu heilla- óskir og óskum þeim alls hins besta. Eysteinn Jónsson Tómas Árnason, alþingismaður er sextugur í dag. Ég vil í örfáum orðum árna Tómasi heilla á þessum degi og þakka honum samvinnuna og störfm fyrir Austfirðinga og Framsóknarflokk- inn á liðnum árum. Tómas er fæddur 21. júlí 1923 á Hánefsstöðum við Seyðis- fjörð. Faðir hans var Árni Vilhjálmsson, útvegsbóndi og móðir Guðrún Þorvarð- ardóttir. Árni var mikill athafna- og dugnaðarmaður og einn af frumherjum í útgerð og sjósókn á Austurlandi. Hann var einn af þeim mönnum, sem þurftu að berjast áfram í gegnum kreppuna, standa hana af sér og koma börnum sínum á Iegg. Tómas og systkini hans byrjuðu því snemma að hjálpa föður sínum við sjósókn og aðra vinnu. Tómas er því alinn upp í einangruðu byggðar- lagi þar sem dugnaður, atorka og reglu- semi sat í fyrirúmi og ekkert kom af sjálfu sér. Þótt fjallahringurinn hafi verið þröngur ríkti víðsýni á þessum stað. Þarna bjó fólk, sem hafði trú á íslensku þjóðfélagi og framtíð sjávarút- vegs. Hugur hans hneigðist snemma til mennta og hann fór ungur á Eiðaskóla og tók þaðan gagnfræðapróf. Á þessum árum var Tómas Árnason orðinn mikill íþróttamaður og allir, sem til hans sjá, og hafa kynnst í gegnum árin vita, að hann er það enn þann dag í dag. Þjálfunin kom að hluta vegna aðstæðna og umhverfis. Það var ekkert auðvelt að fara á milli í þá daga og oftast var eina leiðin að fara gangandi og einnig gang- andi á skíðum. Hann þjálfaði einnig íþróttir með félögum sínum og vann mörg afrek á mótum fyrir austan og einnig keppti hann á landsmótum fyrir Ú.í.A. Það erof langt mál að rekja afrek Tómasar Árnasonar á íþróttasviðinu. Hann var t.d. lengi Austurlandsmethafi í spjótkasti og ég tel að megi fullyrða að afrek han s í þá daga miðað við breyttar aðstæður sé ekki ósvipað og afrek frænda hans Einars Vilhjálmssonar í spjótkasti í dag. Eftir skólagönguna á Eiðum fór Tóm- as í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1945. Á skólaárum sínum vann Tómas fyrir sér með sjósókn og fór á milli Austurlands og Norður- lands vor og haust oft á tíðum gangandi langar leiðir. Menn þurftu að sýna mikla hörku í þá daga til að ganga menntaveg- inn og vinna fyrir sér jafnhliða. Tómas vissi hvað hann vildi og lét ekki erfiðar aðstæður aftra för sinni. Enginn vafi er á því, að á þessum árum mótaðist Tómas. Hann sá, hvað þörfin var mikil til að hefja austfirskar byggðir upp úr einangrun, efla atvinnulífið þannig að nýta mætti betur gjöful fiskimið útifyrir Austurlandi. Þessi hugsjón hans hefur aldrei vikið úr huga. Hann man þá tíð þegar breskir togarar voru uppi í land - steinum og ljósin af skipunum voru sem ljósaborg tilsýndar. Hann vissi því fljótt að þarna lágu framtíðarmöguleikar og hann hefur alla tíð haft óbifandi trú á íslenskum sjávarútvegi og ávallt talið að mikill fiskur væri í sjónum. Að loknu stúdentsprófi hóf Tómas nám í lögfræði við Háskóla íslands og lauk þaðan prófi 1949. Síðan fór hann til framhaldsnáms í lögfræði við Harvard háskólann í Bandaríkjunum, þar sem hann lauk prófi í alþjóðaverslunarrétti. Tómas hóf fljótt afskipti af stjómmálum. Hann sá fljótt að Framsóknarflokkurinn barðist fyrir þeim hugðarefnum, sem voru efst í hans huga og að loknu lögfræðiprófi fór hann til Akureyrar. Þar gerðist hann erindreki Framsóknarfélaganna og blaðamaður við Dag en vann að öðru leyti fyrir sér með lögfræðistörfum og stundakennslu við gagnfræðaskólann á Akureyri. Áður en haldið var til Akur- eyrar, hafði hann fest ráð sitt, gifst Þóru Kristínu Eiríksdóttur, Neskaupstað, dóttur hjónanna Eiríks Þormóðssonar skipstjóra og útgerðarmanns þar og Guðnýjar Þórarinsdóttur. Þau eru því alin upp í svipuðu umhverfi og hafa alla tíð verið mjög samrýnd og samhent. Tómas var ungur að árum þegar hann hóf störf fyrir Framsóknarflokkinn á Norðurlandi. Það má segja, að hann hafi starfað óslitið fyrir flokkinn síðan. Eftir dvölina á Akureyri hóf hann starf í utanríkisráðuneytinu 1953 og gegndi störfum forstöðumanns varnamáladeild- ar frá stofnun hennar til ársins 1959. Það kom því í hans hlut að taka á ýmsum erfiðum samskiptamálum gagnvart Bandaríkjamönnum. Það gerði hann af mikilli festu og varð snemma ljóst hve mikilvægt það var að aðskilja starfsemi hersins frá öðru því sem fer fram í þjóðfélaginu. Jafnframt fór hann í fram- boð fyrir Framsóknarflokkinn í Eyja- fjarðarsýslu og var varaþingmaður þar fyrir Bernharð Stefánsson, alþingismann á árunum 1953-1956. En hugurinn var fyrir austan og í stað þess að halda áfram afskiptum af stjómmálum í Eyjafjarðar- sýslu varð hann við áskomn að fara í framboð í Norður-Múlasýslu 1956 og hefur nánast óslitið haft afskipti af stjórnmálastarfi á Austurlandi síðan. Fyrst sem varamaður í Norður-Múla- sýslu, síðan varamaður í Austurlands- kjördæmi og þingmaður kjördæmisins fyrir Framsóknarflokkinn frá 1974. Jafn- framt þessu hefur hann gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokk- irm. Hann var framkvæmdastjóri Tímans frá 1960-1964, gjaldkeri flókksins frá 1969-1978, en þá var hann kjörinn ritari og gegndi því starfi þar til fyrir skömmu síðan. Hann gerðist framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins árið 1972 og gegnir því starfi í dag. 1978 varð Tómas fjármálaráðherra í ríkisstjóm Ólafs Jóhannessonar og viðskiptaráð- herra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980. Þessi upptalning gæti verið lengri en hún sýnir glöggt að Tómas hefur helgað miklum hluta ævistarfsins í þágu Framsóknarflokksins. Okkar kynni hófust fyrir alvöru 1974 þegar við hlutum báðir kosningu til Alþingis fyrir Austurlandskjördæmi. Síðan höfum við kynnst náið og átt mikið og gott samstarf. Austurlands- kjördæmi hefur nokkra sérstöðu. Þing- , menn þurfa að ferðast mikið og við Tómas höfum ávallt haft þann sið að ferðast mikið saman bæði vegna þess að við höfum talið það auðvelda störf okkar og einnig sökum þess að með þeim hætti höfum við getað miðlað þekkingu hvor til annars urn fólk og málefni. Það hefur verið mér ómetanlegt að kynnast að- stæðum á Austurlandi í samfylgdTómas- ar Árnasonar. Ég var lítt kunnugur á miðbiki-Austurlands þegar ég hóf af- skipti af stjórnmálum. Tómas þekkti þeim mun betur til og verið þar mikið á ferðalögum ásamt þingmönnum flokks- ins sérstaklega Eysteini Jónssyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni. Við eigum margar góðar minningar frá þessum tímum. Vandamál hafa komið upp í kjördæminu og Tómas haft forystu um að leysa þau. Hann hefur gert það óhikað og lítið látið fá á sig, þótt öllum líkaði ekki niðurstaðan. Hann gekk til verks ákveðinn í að leysa málin eftir því sem best varð á kosið þannig að heildar- hagsmunir voru best tryggðir. Ferðalögin voru stundum erfið, sérstaklega að vetri til. Ekkert stöðvaði Tómas enda maður- inn íþróttamaður og vanur að fara ferða sinna í misjafnri tíð. Oft hefur gefist bestur tími til að ræða stjórnmál og ýmis önnur mál á þessum ferðalögum, mikið hefur verið rökrætt en alltaf höfum við komist að sameiginlegri niðurstöðu í mikilvægum málum. Þótt Tómas hafi haft áhuga á mörgum málum þá hafa byggðamál og efna- hagsmál alltaf verið efst í huga hans a.m.k. eftir að kynni okkar hófust. Honum hefur alltaf verið Ijóst að at- vinnuvegir þjóðfélagsins í heild gætu ekki vaxið og dafnað nema allar byggðir í landinu fengju að njóta sín og nýtt þau gæði sem eru í nánasta umhverfi. Fyrir þessu hefur hann barist og góður vettvangur skapaðist þegar hann hóf störf hjá Framkvæmdastofnun ríkisins. Hann vann af kappi að gerð hraðfrysti- húsaáætlunarinnar, sem lagði grundvöll að uppbyggingu fiskiðnaðarins víðsveg- ar um land og jafnframt var hafin bylting í útgerð með komu skuttogaranna. Þess- ari uppbyggingu hefur Tómas alltaf vilj- að fylgja fast eftir og aldrei látið deigan síga. Hann hefur einnig verið mikill áhugamaður um efnahagsmál. Verð- bólga. er eitur í hans augum og aldrei látið nokkuð tækifæri ónotað til að vara við áhrifum langvarandi verðbólgu. Þetta fór oft á tíðum í taugamar á samstarfsmönnum í ríkisstjórn og gerðu þeir oft á tíðum lítið úr vamarræðum Tómasar. Hann sagði þeim skoðanir sínar umbúðarlaust enda veitti ekki af. Því miður var oft lítið hlustað á viðvaran- ir Tómasar. Hann setti þær fram minnug- ur kreppunnar og þeirra erfiðleika, sem hann aldist upp við. Hann sá hve óskynsamlegt það var að takast ekki á við verðbólguvandamálið af fullri festu. Það var oft erfitt fyrir hann að sitja undir gagnrýni á fyrri ríkisstjórn vegna of lítilla aðgerða og tók oft mjög nærri sér að ekki var meira að gert. Tómas hefur unnið mikið og gott starf, sem ber að þakka og virða. Hann hefur unnið gott starf fyrir austfirðinga, fyrir Framsókn- arflokkinn og fyrir þjóðina í heild. Fast við hlið hans hefur ávallt staðið kona hans, Þóra Kristín. Þau eiga fjóra efni- lega syni og hefur það verið þeim mikið gleðiefni að fylgjast með velgengni þeirra í námi og starfi. Við Sigurjóna sendum Tómasi, Þóm og fjölskyldu þeirra bestu ámaðaróskir í dag. Við emm því miður fjarverandi á þessum degi en viljum nota tækifærið og þakka gott samstarf og vináttu á liðnum árum. Halldór Ásgrímsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.