Tíminn - 11.07.1987, Blaðsíða 2

Tíminn - 11.07.1987, Blaðsíða 2
2 Tíminn Laugardagur 11. júlí 1987 „Kærleiksheimilið" hefur alveg staðið undir nafni Guðrún er þessa dagana að byrja að vinna með sjötta forsætisráðherranum síðan hún hóf störf í Stjórnarráðshúsinu. Tímamynd: Brcin Guðrún Sigurðardóttir ritari for- sætisráðherra er eflaust þeim að góðu kunn sem lagt hafa leið sfna inn í Stjórnarráðshúsið við Lækjar- götu síðastliðin tólf ár. Guðrún er um þessar mundir að hefja samstarf með Þorsteini Páls- syni, sjötta forsætisráðherranum síð- an hún gerðist ritari forsætisráð- herra. En hvaðan kemur Guðrún og hver er hún? „Ég er Borgfirðingur, ættuð frá Gilsbakka í Borgarfirði og alin upp þar. Til Reykjavíkur kom ég sem unglingur og fór í Verslunarskól- ann.“ Hver er svo ferillinn frá Verslun- arskólanum og þar til þú kemur í Forsætisráðuneytið? „Það er hjónaband og þrjú börn. Ég vann í tryggingarfyrirtæki, útgáfufyrirtæki, hjá stofnun sem nú heitir Orkustofnun en hét þá Raf- orkumálaskrifstofan, en svo kom ég hingað fyrir tilviljun árið 1975, svo það eru tólf ár síðan, þegar fer að líða á sumarið. Það er því sjötti forsætisráðherrann sem er að byrja nú síðan ég kom. Ég byrjaði hjá Geir Hallgrímssyni, einu ári eftir að hann tók við, síðan kom Ólafur Jóhannesson en hann var forsætis- ráðherra í stjórnarsamstarfi sem var slitið áður en kjörtímabili lauk. Við af honum tók Benedikt Gröndal haustið 1979. Sú stjórn var starfs- stjórn uns lokið var kosningum og stjórnarmyndun. Á eftir Benedikt kom Gunnar Thoroddsen, síðan Steingrímur Hermannsson og nú Þorsteinn Pálsson. Stjórn Steingríms Hermannssonar sat allt kjörtímabil- ið svo með honum hef ég unnið lengst.“ Hefur ekki ýmislegt breyst á 12 árum? „Stundum finnst mér eins og ég sé nýbyrjuð hérna, en samt er nú þróunin í þá átt hér eins og annars- staðar, að það hefur færst frjáls- ræðislegri blær yfir öll samskipti. Það þykir mér tvímælalaust af hinu góða.“ Geturðu sagt í stuttu máli í hverju starf ritara forsætisráðherra er fólgið? „Ja, það má segja að ég stjórni að vissu leyti umferðinni til hans. Ég sé um að leggja fyrir hann viðtöl og fundi og tímasetja þá. Ég vélrita ræðurnar, bréf og annað sem þarf að vélrita svo eitthvað sé nefnt.“ Hefurðu samið ræðu fyrir ein- hvern, einhvern tíma? „Nei, en það hefur komið fyrir að sumir þeirra hafa spurt mig álits á ræðunum og þá segi ég þeim álit mitt hiklaust." Hvað er skcmmtilegast og hvað er erfiðast í starfí þínu? „Að sumu leyti er það skemmti- legast sem er erfiðast og það er t.d. þegar einhverjar sviptingar eru og húsið fyllist af fólki eins og ykkur. Fréttamenn eru fólk sem mér líkar ákaflega vel við. Sumir tala um þá eins og pest sem eigi helst að loka úti en eins og þú veist þá er Steingrímur Hermannsson einhver besti forsætis- ráðherra sem hægt er að hugsa sér fyrir fréttamenn. Það er ekki alltaf gaman fyrir þá að sitja hér og bíða vitandi það, að þeir þurfa að skila af sér fréttum til allrar þjóðarinnar. Nú sé ég að nýi forsætisráðherrann okkar, hann Þorsteinn hefur sama viðhorf gagnvart fréttamönnum og Steingrímur. Kannski var það Steingrímur sem kenndi mér þetta viðhorf þótt ég hafi líka haft það að sumu leyti áður.“ Er ekkert skrýtið að sjá forsætis- ráðherra koma og fara en þú situr og kveður og heilsar? „Þetta er nú það sem tíðkast hérna. Það er langt frá því að ég sé elst í starfi hérna, því eldri eru ráðuney t isstj óri nn, skrifstofust j ór- inn, báðir ritararnir á efri hæðinni og hann Hansi okkar sem við segjum að sé skraut hússins. Hann er nú orðinn 83 ára gamall. Einn vinur okkar nefndi húsið Hansa theater eftir Hansa, en það er þekkt leikhús í Hamborg. Hingað er líka kominn aftur bílstjórinn sem keyrði Geir þegar ég byrjaði, en það er Þorvald- ur Ragnarsson. Hann er búinn að ferðast milli ráðuneyta allan tímann. Það er ákaflega góður andi hér meðal starfsfólks og við syngjum mikið þegar við komum saman og finnst við syngja afskaplega vel. þegar skipt er um ráðherra fer sumt af fólkinu. T.d. vorum við að missa úr húsinu Helgu Jónsdóttur aðstoðarmann Steingríms. Ég var sérstaklega stolt af henni þegar hún kom hingað og það kom í ljós að hún var háólétt. Hún er nú að ganga með barn númer tvö í þessu embætti. Við erum örugglega eina þjóðin í heim- inum sem hefur haft háóléttan að- stoðarmann forsætisráðherra." Er þér einn atburður öðrum frem- ur minnisstæðari úr starfi þínu? „Það hefur náttúrlega skeð hér einn atburður sem var þannig að það var ekki meira en svo að mann- skapurinn lifði hann af og það var leiðtogafundurinn. Hann var mar- tröð á meðan á honum stóð en skemmtilegur á eftir. Þá sátu frétta- menn á öxlunum á mér með heilu sjónvarps og útvarpsstöðvarnar. í lokin vissi maður varla hvað maður hét. Það sást best þá hve mikill dugnaðarmaður Steingrímur Her- mannsson er. Hann missti aldrei nokkurn tíma þolinmæðina. Hann var jafn góður í viðtölum klukkan sjö að kvöldi þótt hann hafi verið búinn að vera í viðtölum síðan átta um morguninn". Eitthvað hlýtur að hafa gengið á í húsinu þegar upp úr samstarfi stjórn- ar Ólafs Jóhannessonar slitnaði, eða hvað? „Það tók vitanlega mikið á menn, þegar úr höndunum á þeim var að detta það sem þeir ætluðu sér að vinna. En á þeim tíma sáum við Ólaf aldrei skipta skapi. Hvað sem kann að hafa sést eða heyrst inni í fundar- sal, þá heyrðum við það ekki og framkoma hans við okkur var alltaf sú sama“. Sumir segja reimt í húsinu, he- furðu fundið fyrir því? „Ég hef nú stundum sagt til þess að gera fólk undrandi, að ég hafi nú svosem oft hitt hana Steinku en hún geri engum neitt. Ég hef auðvitað aldrei orðið vör við neitt. Hér eru vaktmenn á nóttunni og einn sagði við mig eitt sinn, að hann hefði sömu tilfinningu fyrir þessu húsi eins og kirkju og þar var ég honum sam- mála. Það skiptir mig gífurlegu máli að vinna í húsi sem hefur sál. Annað sem ég met mikils er sambýlið við forsetaskrifstofuna. Þar er líka frá- bært fólk. Reyndar hefur Stjórnar- ráðið verið kallað kærleiksheimilið. Auðvitað rífumst við ef við erum ekki á sama máli, en það gerist nú líka á kærleiksheimilum. Mér hefur líkað vel við alla þessa menn sem ég hef unnið með. Ég veit ekki hvort ég á að segja það, en Benedikt Gröndal fékk viðurnefnið Benny Goodman. Það fékk hann reyndar í utanríkis- ráðuneytinu áður en hann kom til okkar. Það getur hver maður skilið hvað það þýddi, ekkert annað en að hann var góður við alla. Ég hugsa líka vel til samstarfs við Þorstein Pálsson og byggi það ekki síst á því að mér skilst að það séu ekki enn þornuð tárin af kvenfólkinu í fjár- málaráðuneytinu. Enda er það al- mannarómur að hann sé með ljúf- ustu mönnum." En hvað gerirðu þegar þú ert ekki í vinnunni? „Þá er ég heima hjá mér og nýt þess, vegna þess að öll árin hef ég þurft að vinna úti sem þýðir það að ég hef ekki getað verið eins mikið heima hjá mér eins og mig langar til. Árum saman hef ég farið í sumarfrí til Mallorka og á þar fullt af vinum sem ég hef kynnst og hittist á sama tíma á hverju ári.“ Ætlar þú ekki að halda áfram starfi hér þar til þú sest í helgan stein? „Ja það er nú eins og maðurinn sagði að það er erfitt að spá og sérstaklega um framtíðina. En ef heilsan leyfir og ekkert sérstakt kemur fyrir þá býst ég við að vera hér þar til ég kemst á eftirlaun. Ég hlakka hins vegar ekki mikið til í alvörunni þó það komi þær stundir að maður hefur það á orði að best væri að fara á eftirlaun. En það er helst þegar lítið er um að vera, þegar ráðherra fer í sumarfrí eða eitthvað í þeim dúrnum. AUGLÝSING um skatt af erlendum lanum, leigusamningum o.fl. Á grundvelli IV. kafla bráöabirgðalaga ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í fjármálum, dags. 10. júlí 1987, hefst innheimta skatts af erlendum lánum, leigusamningum o.fl. frá og með opnun banka og sparisjóða mánudaginn 13. júlí 1987. Til glöggvunar fyrir aðila eru hér dregin fram helstu efnisatriði skattsins og framkvæmdar við innhemtu hans. 1. Innlendir lántakar og leigutakar skulu greiða skattinn af höfuðstól erlendra lána, fjármagpsleigu, kaupleigu og hliðstæðum samningum, sem gerðir eru frá og með gildistöku laganna og að því marki sem umsamdar heimildir eru notaðar. 2. Innlendir aðilar skv. 1. lið eru einstaklingar, búsettir hér á landi, án tillits til ríkisfangs, fyrirtæki sem eru skrásett hérálandi, og erlendireinstaklingarogfyrir, 7ki, búsettireðaskrásetterlendis, að því leyti sem þau reka starfsemi hér á landi. 3. Skattskyldan nemur 1% af höfuðstól hvers konar erlendra láns- og leigusamninga með gildistíma til allt að 6 mánaða, 2% af samningum með gildistíma 6 til 12 mánaða og 3% af samningum umfram 12 mánuði. Samanlagður samningstími segir til um gjaldflokk. Undantekning er gerð um endurlán beinlínis tekin vegna útflutningsframleiðslu skv. nánari reglum, sem fjármálaráðherra kveður á um í reglugerö. 4. Skattskyldan nær til samningsandvirðis lána og leigu hvort sem það er reitt af höndum í peningum, vörum, þjónustu eða framkvæmdum. Greiðsla skattsins í banka, sparisjóð eða við Seðlabankann skal eiga sér stað eigi síðar en við fyrstu afhendingu samningsandvirðisins eins og nánar greinir í lögunum. Fjármálaráðherra getur með reglugerö kveðið á um að skattgreiðslum megi skipta í fleiri en eina greiðslu til samræmis við afhendingartíma samningsandvirðis sé það reitt af höndum í áföngum, t.d. smíði eða viðgerð skips eða hliðstæð afhending er tekur langan tíma. 5. Bankar og sparisjóöir sjá um innheimtu skattsins af öllum viðskiptum, sem fara um þeirra hendur. Heimflutningur andvirðis í reiðufé fari um hérlendan banka eða sparisjóð. Er reiknað með, að skjalameðferð annarra lána og leigu fari einnig um banka eða sparisjóð nema um annað sé samið og skulu þá skil skattsins og framsetning skjala fara fram í Seðlabanka, gjaldeyriseftirliti, innan 5 virkra daga frá því að samningur var gerður. 6. Yfirfærsla gjaldeyris til landsins eftir gerð samnings og gjaldeyriskaup við endurgreiðslu er óheimil nema skattur hafi áður verið greiddur. 7. Skattskyldir aðilar skulu leggja fram í banka, sparisjóð eða Seðlabanka frumrit láns og leigusamninga, þ.m.t. tilboð og samþykki, fari samningsgerð fram t.d. með telexi, lántökuleyfi, sé það fyrir hendi, og aðrar upplýsingar, sem innheimtuaðili krefur og venja hefur myndast um að leggja fram í banka. 8. Undanþegnar skatti eru skuldbreytingar milli sömu aðila á samsvarandi samningsfjárhæö útistandandi viðskipta, er stofnað var til fyrir gildistöku laganna hinn 10. júlí 1987, enda fari hún fram fyrir 1. júlí 1988. 9. Athygli er vakin á því, að allar erlendar lántökur skattskyldra aðila framhjá banka, þ.m.t. einstaklinga, þjónustufyrirtækja, t.d. skipafélaga, flugfélaga, umboðsskrifstofa og hliðstæðra aðila, er starfa hérlendis og að hluta erlendis, eru skattskyldar. 10. Framkvæmd f.h. fjármálaráðuneytis verður á vegum gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. 11. Að öðru leyti vísast til laganna, þ.á m. til ákvæða um viðurlög við misbresti á skattskilum, um skil banka og sparisjóða á innheimtum skatti og fleiri atriði. Reykjavík, 10. júlí 1987. SEÐLABANKI ÍSLANDS. ABS

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.