Tíminn - 06.08.1988, Blaðsíða 6

Tíminn - 06.08.1988, Blaðsíða 6
6 Tíminrr Láúgárdááur 6. agúst’ 1988 /- Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða: Stefna mótuð til næstu5-10ára Flugleiðir tóku nýverið þá ákvörðun að fækka ferðum til Bandaríkjanna og fella niður flug til nokkurra staða. í kjölfarið fylgdu uppsagnir starfsfólks og í enn fleiri stöður var ekki endurráðið. Þá var ákveðið að breyta áherslum í rekstri félagsins og einbeita sér meira að Evrópuflugi. Tíminn settist niður með Sigurði Helgasyni, forstjóra Flugleiða, og fékk hann til að ræða málin. Það liggur beint við að spyrja um hver sagan á bak við rekstrarbreytingar fyrirtækisins sé. „Við höfum séð á undanförnum árum að það hefur verið að síga á verri hliðina hjá okkur í Norður-Atlants- hafsfluginu. Eðli samkeppninnar í flug- inu hefur verið að breytast mjög mikið. Þegar þeir hjá Loftleiðum voru einir i þessu í kringum 1955, þá voru þeir með mjög ákveðinn markað og voru með 10-20% lægri fargjöld en hin félögin, voru raunar eina félagið sem var með lág fargjöld. Á þeim tíma var ekki almennt að menn færu í ferðalög og þeir sem ekki hefðu farið undir venju- legum kringumstæðum gátu farið með Loftleiðum. Breytingarnar 1976 Upp úr 1976, með frjálsræðisstefnu Carters Bandaríkjaforseta, þá opnaðist þetta tiltölulega mikið í Bandaríkjun- um og nokkur félög, sem áður voru til dæmis leiguflugfélög, fóru yfir í áætlun- arflug og voru þá með svipuð fargjöld og Flugleiðir. Onnur hefðbundin félög eins og Pan Am, Lufthansa, KLM, TWA og Sabina tóku ekki upp þessi lágu fargjöld. Þarna voru því komin nokkur flugfélög, Flugleiðir, Capitol, Metro og Air Florida, sem voru með svipaðar flugvélar og sambærilegt verð. Við stóðum okkur nú samt vel gagnvart þessum erlendu félögum, enda með gott orð á okkur og buðum góða þjónstu. Pegar kom svo fram á árið 1980 fóru málin að breytast enn frekar. Nýju dreifingarkerfin fóru að koma til Bandaríkjanna og þeir fóru að setja ákveðinn sætafjölda á allra lægsta verð, en gátu um leið stjórnað þessu þannig að þeir tapi ekki á því. Þá duttu hin flugfélögin út og urðu gjaldþrota. Við urðum hins vegar eftir og þurftum að keppa við öll flugfélögin. Samkeppnin snarbreyttist og skyndilega voru allir komnir með sömu fargjöld og við vorum með. Við náðum þá ekki til háfargjaldafarþega, þannig að okkar tekjur voru töluvert lægri en þeirra. Málin björguðust hins vegar í nokkur ár á meðan mest af okkar kostnaði varð til á íslandi og gengið var sæmilega rétt skráð. Alltaf var þó smávegis tap, en talið eðlilegt að halda áfram, enda myndi önnur starfsemi þurfa að bera vaxtakostnað og annan fastan kostnað, sem ekki félli niður ef hætt væri í Norður-Atlantshafsfluginu. Kaflaskipti Árið 1987 verða síðan gífurlegar launahækkanir á íslandi samfara því að krónan styrkist gagnvart dollar. Þá fer fætta að koma mjög illa út fyrir okkur. slenski kostnaðurinn er farinn að vega mjög þungt og við náum ekki að hækka fargjöldin á Bandaríkjamarkaði. Þegar við sáum síðan hvert stefndi síðastliðið sumar, þá fórum við að gera okkur alvarlega grein fyrir því, að ef ekki yrðu breytingar á ytri forsendum, sem sérstaklega voru á íslandi, þá væri komið að kaflaskiptum í Atlantshafs- flugi félagsins. Einnig kom til að gengi dollars var orðið mjög lágt og dregið hafði úr ferðum Bandaríkjamanna til Evrópu. Við fórum því ítarlega yfir málin um sumarið og fengum síðan ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group í lið með okkur um veturinn og sameiginlega komumst við að þeirri niðurstöðu að það yrði að verða tölu- verð breyting á fluginu. Tekjur úr 80% í 30% Breytingarnar felast í því að draga verulega úr Norður-Atlantshafsfluginu næsta sumar, eða um 50%, og á þetta við um farþega milli Bandaríkjanna og Luxemburgar. Á sama tíma ætlum við að reyna að auka faAegafjölda milli Bandaríkjanna og Islands og frá Bandaríkjunum í gegnum ísland áfram til Norðurlandanna. Jafnframt leggjum við enn meiri áherslu á Evrópuflug félagsins og fljúgum í vetur tvisvar í viku til Frankfurt og aukum tíðni flugs til London. Síðustu fjögur til fimm ár hefur stefna fyrirtækisins verið að auka sem mest hlutdeild Evrópuflugs í heildar- rekstrinum. Fyrirtækið hafði til dæmis áður um 70-80% af tekjum sínum úr Atlantshafsfluginu, nú er það um 50- 60% og eftir þessar aðgerðir þá verðum við kannski komnir niður í 30-40%.“ Allir þættir endurskoðaðir Hvað með aðrar breytingar í rekstri félagsins? „Við gerðum breytingar í hótel- rekstrinum. Samkeppnin hefur aukist gífurlega á síðustu tveimur árum með tilkomu viðbyggingar á Hótel Sögu, byggingar Holiday Inn og annars sem er á leiðinni. Nýting á hótelum í Reykjavík var því mjög léleg síðastlið- inn vetur og því gerðum við ráðstafanir til að minnka þá starfsemi. Síðan er líka í gangi að endurskoða greinar sem á ákveðnum tímapunkti er hagstætt að vera með innan fyrirtækisins, en með breyttum forsendum verður ódýrara að kaupa þjónustuna. Þannig lokum við bakaríi á Hótel Loftleiðum. í framtíð- inni munum við síðan líta á ýmsa svona þætti sem voru hagkvæmir fyrir nokkr- um árum, en hagkvæmara verður að kaupa þá utan að. Við höfum einnig dregið okkur töluvert úr veitingastarf- semi, bæði á Esju og Loftleiðum. Það er hagkvæmara að leigja aðstöðuna og fá eitthvað fyrir það en að reka það með tapi.“ Nýjar vélar á allar leiðir Hvað með breytingar á flugvélakosti félagsins? „Þegar við sáum upp úr 1986 að við vorum að komast út úr þeim erfiðleik- um sem við höfum verið í síðan 1979, þá sáum við fram á að við gætum farið að endurnýja flugvélakostinn. Við mörkuðum þá stefnu að byrja á Evr- ópufluginu, enda var þar mesti vöxtur- inn og þar sáum við björtustu framtíð- ina. Vélarnar voru sumar orðnar nokk- uð gamlar og svo komu til reglur um hávaðamörk sem taka gildi á árunum 1990-1992. Við sáum fram á að eldri flugvélar myndu falla í verði og einnig vildum við veita mjög góða og ábyggi- lega þjónustu. Á 50 ára afmæli félagsins á síðasta ári var skrifað undir kaupsamning við Boeing á tveimur 737-400 vélum, sem kosta samtals um 60 milljónir dollara, eða tæpa 3 milljarða króna. Þetta eru vélar með 156 sæti. Þær koma i apríl og maí á næsta ári. Síðan höfum við kaupréttarheimild á tveimur vélum til viðbótar af sömu gerð, sem kæmu þá vorið 1990-1991. Þetta á að fullnægja okkar þörfum í Evrópufluginu fram að aldamótum að minnsta kosti. Vélarnar eru mjög fullkomnar og fullnægja öll- um kröfum. Þær eru einnig sparneytnar á eldsneyti, þannig að eldsneytiskostn- aður kemur til með að lækka um 40-50% á hvert sæti. Þetta eru reyndar dýrar vélar, þannig að við breytum kostnaðinum og í stað þess að borga eldsneytiskostnað, þá borgum við álíka mikið í fjármagnskostnað og eignumst ný og góð tæki. 50 milljón dollara vélar Næsta skrefið var síðan að íhuga hvaða vél hentaði best á Norður-At- lantshafinu. Við höfum ekki ákveðið endanlega hvaða vél verður fyrir val- inu, en höfum látið taka frá fyrir okkur framleiðslunúmer hjá Boeing á tveimur 757-200 vélum og kæmu þær fyrstu til afhendingar vorið 1990 og höfum síðan kauprétt á þriðju vélinni ári seinna. Við vonumst til að geta tekið endanlega ákvörðun um þessi flugvélakaup í haust. Þessar vélar eru einnig mjög dýrar og kosta um 50 milljón dollara stykkið, og eru með 210 sæti. Við höfum fengið heimild stjórnar til að selja allar DC 8 vélar félagsins, þrjár talsins, en þær voru keyptar fyrir þrem- ur til fjórum árum síðan. Við höfum góðar vonir um að geta selt þær á næstu vikum. Við munum síðan leigja tvær þeirra til baka, fram að þeim tíma sem nýjar vélar gætu komið afhendingar, vorið 1990. Nýjar vélar innanlands eftir 5 ár Síðan þegar þetta verður komið munum við athuga innanlandsflugið betur og höfum þar einkum í huga þrjár flugvélategundir. Við höfum ekki treyst okkur til fá nýjar vélar í innan- landsflugið miðað við ástand flugvalla eins og það hefur verið. Nú er komin áætlun um endurbyggingu flestra flug- valla á landinu, þannig að þeir fara að verða boðlegir nýjum vélum. Við höf- um lent í miklum viðhaldskostnaði á Fokker vélunum út af lélegu ástandi flugvallanna. Við munum því einbeita okkur að því í vetur að velja hvaða flugvél eða flugvélar verða arftakar Fokkervélanna. Þar koma helst þrjár tegundir til greina og við fylgjumst náið með þeim. Það er fyrst Fokker 50, síðan frönsk-ít- ölsk vél sem heitir ATR 42 og loks De Havilland Dash 8-300. Þær munum við vega og meta og sjá hvað hentar okkur best. Við eigum von á fulltrúa frá Fokker seinna í mánuðinum og jafnvel von á sýningarvél frá Fokker í septem- ber og þá verða aðstæður kannaðar og flogið tilraunaflug. Þetta eru allt 40-55 farþega vélar. Þessi endurnýjun gæti átt sér stað 1992-1993 og við stefnum að því. Þá ættu flugvellirnir að vera orðnir viðunandi fyrir þessar nýju vélar.“ Þurfum nýja flugstöð Hvað með Reykjavíkurflugvöll? Ert þú þeirrar skoðunar að hann eigi að vera þar sem hann er nú? „Ég held að við verðum eins og flestar aðrar stórborgir að hafa flugvöll tiltölulega nálægt helsta byggðarkjarna landsins. Við getum ekki útilokað fólk sem býr úti á landi, en það vill koma beint inn í höfuðborgina. Mín skoðun er sú að það sé tiltölulega hættulaust að hafa flugið hér og þetta er þjónusta fyrir okkar farþega og til þæginda fyrir þá, en þeir eru flestir utan af landi. Svo leikur veðrið líka stóran þátt, því oft er erfitt með flug og þá væri það mjög til óhagræðis fyrir okkar viðskiptavini að þurfa að fara til Keflavíkur upp á von og óvon hvort að það verður flogið. Við sjáum því ekki annað og stefnum raunar á að flugið verði hér áfram. Það sem þarf að gera, er að byggja nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli, hvort sem við gerum það eða í sam- vinnu við aðra. Það er verkefni sem við sjáum fram á að taka á einhvern hátt þátt í á næstu árum. Það er orðið bráðnauðsynlegt að flytja úr þessum skúrum sem við erum í núna. Þetta er allt löngu sprungið og við erum alltaf að bæta smávegis við þá. Það er búið að skipuleggja hvar ný flugstöð ætti að vera, en það er fyrir sunnan slökkvi- stöðina. Við flytjum um 280.000 far- þega um völlin á ári og önnur félög flytja líka einhvern fjölda, þannig að ný flugstöð á fyllilega rétt á sér.“ Bjartsýnn á framtíðina Hvernig líst Sigurði á framtíð Flug- leiða? „Við erum bjartsýnir á framtíðina og með þessu átaki sem nú er í gangi, að hreinsa út það sem rekið er með halla, þá lítum við björtum augum fram á við og vonumst til að geta rekið fyrirtækið með hagnaði á þessu ári. Við verðum að vera ákveðnir í því að aðlaga fyrirtækið að breyttum forsendum á hverjum tíma, þær breytast stöðugt, þannig að við munum fylgjast stöðugt með. Við erum að fara út í mikið átak í haust og vetur, að koma með stefnu- mótun fyrir fyrirtækið til næstu fimm eða tíu ára. Það verður lögð gífurleg vinna í það í öllum rekstrarþáttum félagsins að sjá hvernig innri og ytri aðstæður breytast og hvaða áhrif það hefur á framtíðarstefnumótun félags- ins.“ -SÓL

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.